88. blogg

Barist í bloggheimum.

 

Það er að æra óstöðugan að reyna að fylgjast með því hvar fólk bloggar núorðið og finna bloggin þess. Allir þeir sem vinsældum ná virðast vera umsetnir og barist um að fá þá til að blogga nú frekar hér en þar.

Eitt sinn fylgdist ég vandlega með því sem Steingrímur Sævarr bloggaði en nú held ég að hann sé að mestu hættur því og farinn að bola Sigmundi Erni úr fréttastjórastólnum hjá Stöð 2. Annars minnir mig að Simma hafi verið sparkað uppá við og hann kallaður Forstöðumaður fréttasviðs eða eitthvað þess háttar.

Þetta minnir mig á þegar Sigurði Kolbeins var komið úr stól markaðstjóra hjá Stöð 2 og hann látinn taka að sér forstöðu þróunardeildar í staðinn. Fróunardeild sögðu sumir.

En þetta var útúrdúr. Ég var að tala um bloggara. Pétur Gunnarsson aka hux var einu sinni í uppáhaldi hjá mér, þó framsóknarmaður sé. Svo fór hann á eyjan.is held ég og bloggið hans hef ég ekki séð síðan. Einhverjir held ég að hafi líka farið að blogga á visir.is Kannski maður athugi þessi mál við tækifæri. Stebbi Páls er í sumarfríi núna og bölbænir í garð Moggabloggsins þess vegna heldur færri en vant er.

Hlynur Þór Magnússon, sem eitt sinn var blaðamaður á BB hefur nú snarhætt að láta í sér heyra hér á Moggablogginu, en einhversstaðar sá ég samt athugasemd frá honum nýlega.

Sigurður Þór Guðjónsson bloggar lítið þessa dagana. Það er eins og Grikkirnir hafi dregið úr honum allan mátt.

Svo eru einhverjir farnir að keppa í því sýnist mér hér á Moggablogginu að hafa fyrirsagnirnar sem allra lengstar. Sjálfur sleppi ég þeim, en er núna byrjaður á einskonar undirfyrirsögnum.

Blog.mbl.is er búið að taka yfir skak.is og á skákhorninu kvarta menn yfir því að á nýju bloggsíðuna vanti tengil yfir á hornið. Ég hef lítið orðið var við Egil Helga að undanförnu og veit eiginlega ekki hvar hann bloggar akkúrat núna. Þó hann viðurkenni það helst ekki sjálfur, þá var hann einmitt vanur að blogga á við tíu manns.

Ég hef ekki farið mikið á ossur.hexia.net að undanförnu en held að það sé alltaf sami kjafturinn á Össuri, svo eflaust væri rétt (og líklega skemmtilegt) að lesa það blogg, þó maðurinn sé orðinn ráðherra.

Ég uppgötvaði í gær að ég er náskyldur Gunnari Helga Eysteinssyni sem bloggar hér á moggablogginu af talsverðum móð og lætur fylgja með mynd af sér, sem sennilega er tekin um það leyti sem hann lærðí að ganga. Ég man ekki betur en að Gunnar Helgi sé einn af þeim fáu sem kommentað hafa á bloggið mitt svo einhvern tíma hefur hann lesið það.

Þessa klausu fann ég  á bloggi einu í gærkvöldi:

 

     Bloggvinir óskast

 

     Ég virðist agalega afskiptalaus og einmanna, hef aðeins tvo bloggvini

     og sára-fáir nenna að kvitta eða kommenta. Vilt þú ekki vera

     bloggvinur minn?

 

     Einn góðan veður dag, verð ég obboð fræg.

 

Þetta er býsna áhugavert og uppúr þessu fór hún (Sirrý Sig.) að setja inn skáldsögu í mörgum hlutum. Ég fór að lesa þessa sögu sem heitir Jens og Co. eða eitthvað þessháttar. Nú eru komnir 17 hlutar og ég bíð eftir fleirum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hæ! Gaman að heyra í þér. Sagan er fín finnst mér. Hvernig er með smásögurnar þínar? Ég kaupi aldrei glanstímaritin og les þau sjaldan. Nú bíð ég bara eftir kommenti frá stráknum hans Eysteins í Nóatúninu (áður á Víðimelnum). Var að enda við að setja inn sögur frá Vegamótum og ætlast eiginlega til að Anna í Holti (annaeinars.blog.is) kommenti á þær og mótmæli jafnvel því sem þar er sagt um hana.

Sæmundur Bjarnason, 7.8.2007 kl. 01:28

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Að sjálfsögðu var ég að kommenta á Vegamótasögurnar.    Það var ekkert venjulegt að alast þar upp.  Manstu þegar þú manaðir Bjarna í að skríða að Langholtsrétt og aftur til baka, fyrir 500 kall ?  Það gerði hann auðvitað og margir bílar stoppuðu til að athuga "hvað væri að".  Eitt af fjölmörgum uppátækjum okkar/þín í den.

Anna Einarsdóttir, 11.8.2007 kl. 18:14

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég man vel eftir því. Eiginlega plataði hann mig dálítið þar því ég hélt að þetta væri varla hægt en hann batt gúmmíhlífar á hnén á sér áður en hann fór af stað. Aftur á móti var mamma hans áreiðanlega ekkert hrifin af útganginum á honum eftir þetta ævintýri.

Ég held að hann hafi verið hálfpirraður á bílunum sem stoppuðu en það var nú eitt aðalkryddið.

Sæmundur Bjarnason, 12.8.2007 kl. 01:47

4 identicon

Eg man lika vel eftir thessu og ef eg man rett tha var thad bara einn bill sem stoppadi og mer hafdi tha verid upalagt ad jarma sem eg gerdi. En thetta var nu toluvert meira mal en eg hafdi reiknad med.

bjarni 13.8.2007 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband