96. blogg

Menningarnótt um miðjan dag.

Allt er í hers höndum útaf þessari menningarnótt. Gengur á með hljómleikum og alls kyns óáran. Ég er nú bara í vinnunni og get horft framhjá þessum ósköpum. Fór samt upp á efstu hæð áðan til að virða fyrir mér raketturnar og mikið skelfilega var þessi flugeldasýning ómerkileg svona úr fjarlægð séð. Í Bretlandi sá ég einu sinni flugeldasýningu úr flugvél og það var ólíkt merkilegra en þetta.

Benni kom við í dag eftir hádegið. Hafði farið í bókaskip og keypt sér fáeinar bækur. Ég endurtek: B-ó-k-a-s-k-i-p. Aðrir bókamarkaðir verða nú hálfhversdagslegir við hliðina á þessum ósköpum. Við Áslaug fórum og versluðum í Kringlunni og fengum okkur að borða. Þegar við vorum að fara var frumsýningarfólk af ýmsu tagi með borgarstjórann sjálfan í broddi fylkingar að hópast þangað og sennilega hefur einhver menningartengdur aðburður verið í aðsigi.

Fyrirsögn í Morgunblaðinu í dag var svona: Pálmi í Hagkaup. Að mínu viti hefði átt að standa þarna annaðhvort Pálmi í Hagkaupi eða Pálmi í Hagkaupum. Nefnifallsáráttan hélt ég að hefði ekki enn lagt undir sig Morgunblaðið. Reyndar les ég það ekki svo oft núorðið og vel getur verið að svonalagað sé orðin viðtekin venja þar. Það er reyndar fróðlegt að velta fyrir sér hvort orðið Hagkaup sé eintala eða fleirtala. Ég man ekki betur en Pálmi og aðrir fyrirrennarar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hafi talið orðið vera fleirtölu. Núorðið virðist mér að auglýsingastofur séu látnar sjálfráðar um hvort orðið sé haft í eintölu eða fleirtölu. Eintalan minnir mig að sé mun vinsælli. Framtíðin er svo að sjálfsögðu að beygja það alls ekki neitt.

Minna má á eilífðardeiluefnið um hvort rita skuli Bolungavík eða Bolungarvík. Þar koma eintala og fleirtala við sögu og reyndar fjölmörg atriði önnur. Sömuleiðis er stundum sérkennilegt á hvern hátt staðarnöfn taka með sér forsetningarnar á eða í og þar virðist engin regla ráða. Þegar svo er finnst mér einboðið að fara eftir málvenju íbúanna á staðnum.

Þegar ég fer í vinnuna keyri ég jafnan um Stekkjarbakkann og Höfðabakkann. Ég man vel eftir þeim hávaða og látum sem urðu þegar til stóð að byggja Höfðabakkabrúna. Þá á ég við brúna yfir Elliðaárnar en ekki það umferðarmannvirki sem gert var löngu seinna og liggur yfir veginn út úr borginni. Sumir kalla það reyndar Höfðabakkabrú líka.

Náttúruverndarsamtök af ýmsu tagi, íbúasamtök og alls kyns samtök lýstu sig algjörlega mótfallin því vistfræðilega stórslysi sem í uppsiglingu væri með byggingu þessarar brúar. Brúin var nú engu að síður byggð og núna þónokkrum áratugum seinna sýnist mér að illspárnar um hana hafi ekki gengið eftir.

Um 1960 gaf svokallaður Rómarhópur út rit þar sem spáð var mjög illa fyrir heiminum. Allt var á leið til andskotans, augljóst var að olía í heiminum mundi ganga til þurrðar löngu fyrir árið 2000 og annað eftir því. Fátt af þessu rættist, sem betur fer.

Það er af þessum sökum og ýmsum fleirum sem ég á svolítið erfitt með að trúa öllu því sem náttúruverndarsinnar segja um virkjanir og þess háttar. Jafnvel mætti kalla mig Kárahnjúkasinna. Sumt af því sem sagt er t.d. um hlýnun andrúmslofts er þó án efa rétt, en ef aldrei mætti gera neitt þá værum við enn á því stigi sem við vissulega vorum fram á nítjándu öld. Evrópubúum af hærri stigum þótti þá merkilegt að koma hingað og sjá óvitlaust fólk, en frumstætt mjög, sem bjó í moldarholum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband