353. - Málfarsblogg

Oft er rætt um málfar og réttritun hér á Moggablogginu og eru menn ekki alltaf á eitt sáttir um það. Réttritun er vandasamt mál. Stundum getur ritháttur skorið úr um merkingu. Réttritun er samt oftast lítilsvert mál samanborið við málfar, auk þess sem engin sérstök réttritun er réttari en önnur. Sumir gúgla gjarnan þau orð sem um er að ræða með þeim afbrigðum sem sem helst koma til greina og láta meirihlutann ráða. Það getur af ýmsum ástæðum verið varasamt.

Vafi getur einnig leikið á um mörg málfarsleg atriði eins og í hvaða falli orð skuli standa í ákveðnum dæmum og einnig um kyn orða. Allt getur þetta breyst í tímans rás og auk þess verið mállýskumunur á. Oft er erfitt að skýra málfræðiatriði með öðru en dæmum. Um flest málfræðihugtök eru þó til orð, en þau eru fæstum töm.

Margir gagnrýna ótæpilega það sem þeir telja rangt málfar. Mikið er um vafasamt og beinlínis rangt mál á blogginu. Röng málnotkun á öllum sviðum eykst áberandi mikið nú á þessum síðustu og verstu tímum og áhrif annarra tungumála, einkum ensku, fara sívaxandi. Sumum finnst nóg ef þeir sjálfir skilja hvað við er átt. Ekki er ég þeirrar skoðunar. Ég vil að sem allra flestir, og helst allir, skilji auðveldlega það sem skrifað eða sagt er.

Það væri að æra óstöðugan að ætla sér að leiðrétta öll þau blogg og vefmiðla sem maður les. Það sem þar er skrifað er oft illskiljanlegt, en stundum má með góðum vilja lesa í málið. Það sem einum finnst þokkalegt málfar finnst öðrum afleitt eða óþolandi. Enginn getur nokkru sinni orðið fullnuma í íslensku.

Um þetta má endalaust rökræða. Dæmin eru þó best og Sigurður Hreiðar er til dæmis duglegur við að koma með þau. Umræður spinnast síðan gjarnan um dæmin í athugsemdum við bloggið hans.

Nú er hægt er að fá tilkynningu á stjórnborð sitt ef athugasemdir birtast við blogg, sem maður hefur áður gert athugasemd við og beðið um vöktun á. Þetta getur verið gott fyrir þá sem ekki gera mikið af athugasemdum og lenda sjaldan í löngum og leiðinlegum svarhölum og svo er auðvitað hægt að sleppa þessari vöktum.

Ég man ekki hvort ég hef oft komið með dæmi á mínu bloggi um málfar sem ég tel rangt, en vel getur það verið. Sennilega hef ég þó ekki minnst á eitt atriði sem oft fer í taugarnar á mér. Það er þegar talað er um að veita peningaupphæðir eða fé til allskyns mála eins og verið sé veita vatni á engjar. Í setningunni hér á undan hefðu einhverjir sagt „veita peningaupphæðum", en það finnst mér vera röng fallnotkun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ástæðan fyrir því að ég byrjaði að blogga var sú að mér fannst/finnst íslenskan vera orðin ansi slæm hjá mér - Ég er ekki viss um það hvort ég skrifi 100% en ég veit að eftir að ég skráði mig á blog.is hefur íslenskan batnað.

Mig langaði bara að koma þessu á framfæri og samtímis þakka þér fyrir skemmtilegar færslur.  

Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.6.2008 kl. 20:33

2 identicon

Það var gaman að lesa þessar vangaveltur þínar en mig langar til að spyrja þig á móti hvað þú myndir skrifa í staðinn fyrir að veita peningaupphæðir, veita styrk?

Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir 2.6.2008 kl. 08:54

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég álít styrk geta verið bæði efnislegan og andlegan og mundi því líklega ekki nota það orðalag nema áður hefði komið fram um hvernig styrk var að ræða. Annars var ég frekar að tala um fallið sem "veita" stýrir. Að veita peningaupphæðum tel ég oftast vera rangt. Auðvitað er hægt að veita fé líka og stundum kemur fallstýringin í ljós þó það sé notað.

Sæmundur Bjarnason, 2.6.2008 kl. 12:03

4 Smámynd: Beturvitringur

Pistill sem þessi laðaði mig að.

Beturvitringur, 2.6.2008 kl. 15:46

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir þetta, Beggi. Þetta er fróðleg grein.

Sæmundur Bjarnason, 3.6.2008 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband