352. - Sérstakur vinnuhópur skoðar málið. Kláus er týndur eftir skjálftann

Sérstakur vinnuhópur skoðar málið. Þetta er náttúrulega bara annað orðalag yfir það sem áður var kallað að svæfa mál og setja í nefnd. Þetta verður gert bæði við kvótamálið og lífeyrissjóðsmálið og menn virðast sætta sig bærilega við það. Enda ekki margt annað hægt að gera. Gott ef trukkamálin eru ekki öll komin í nefnd líka.

Frikki Gumm hefur gaman af að stríða trukkurunum. Ég er að mestu sammála honum, en nenni ekki að lesa bloggið Sturlu, læt endursögn Friðriks nægja. Kannski er rétti tíminn til að mótmæla einhverju hressilega núna. Gott er blessað veðrið. Bara spurning hverju á að mótmæla.

Nú er kominn tími á að reyna að gleyma þessum jarðskjálftamálum. Köttur systur minnar hefur ekki fundist eftir skjálftann. Eflaust tryllst af hræðslu og hugsanlega slasast. Kláus er að vísu enginn venjulegur köttur, eða það finnst okkur ekki, en katt-tjón er þó ekki sama og manntjón og vissulega er þakkarvert  hve fólk hefur sloppið vel líkamlega frá þessu.

Ekki veit ég hvar ég væri staddur ef ég hefði ekki bókasöfnin hér í Reykjavík og í Kópavogi. Samt á ég talsvert af bókum og hef alltaf átt.

Verst hvað maður þarf að passa vel að komast hjá því að fá sektir. Það er þó hægt. Ég fer yfirleitt mánaðarlega á bæði söfnin, Bókasafn Kópavogs og Bókasafnið í Gerðubergi. Venjulega næ ég ekki að lesa allar bækurnar, þó ég hafi reynt að fækka þeim undanfarið. Það gerir ekkert til, ég tek þær bara aftur seinna, ef ég vil.

Ef ég færi aldrei á bókasafn, grunar mig að ég mundi annað hvort ekki lesa bækur eða eyða of miklu í þær. Tímarit les ég næstum aldrei og dagblöð afar sjaldan nú orðið. Bloggið og vefmiðlarnir hafa alveg tekið við af dagblöðunum og gera það ágætlega. Það er hvort sem er ekki nægur tími fyrir hvorttveggja.

Oft sé ég áhugaverð blogg hér á Moggablogginu og dettur jafnvel í hug að sumir ætti betur skilið en ég að vera forsíðubloggarar. Svona má maður þó ekki hugsa, heldur skal áfram haldið við að blogga fjandann ráðalausan. Minnstur vandinn er að láta sér detta eitthvað í hug. Vandamálið er frekar að setja það fram á þann hátt að einhverjir nenni að lesa. Ekki má það vera of langt og ekki of stutt heldur, því þá kemur maður ekki sínum frumlegu hugsunum að. Mér finnst blogglengdin vera aðalmálið. Ég gæti haft þau lengri, en þá er hætt við að þau yrðu lakari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

"Oft sé ég áhugaverð blogg..." 100% sammála þessu.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 31.5.2008 kl. 13:17

2 identicon

Bókasöfnin bjóða nú upp á að geta farið inn á www.gegnir.is og þar framlengt bókalánin, minnir að þú getir framlengt bók 3-5 sinnum ef enginn er á biðlista eftir henni.

Þarft bara að fá lykilorð frá bókasafninu og notar svo kennitöluna til að skrá þig inn á Gegni, sérð þar líka útlánasöguna, sektir og fleira.

JBJ 2.6.2008 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband