225. - Myndir, íslenska, auglýsingar og fleira

Canon myndavélin sem ég fékk í jólagjöf er hið mesta þing. Hún skilar alveg þokkalegum myndum, þar sem gamla voigtlander vélin mín og jafnvel Ashai Pentax reflex vélin sem ég var með í láni frá Vigni í mörg ár, hefðu fúlsað við og alls ekki talið næga birtu til að taka mynd. Svo er líka alveg ómetanlegt að geta strax séð hvernig til hefur tekist. Skil ekki hvernig maður gat beðið vikum eða jafnvel mánuðum saman til að sjá hvernig myndatökur hefðu tekist.

Þessi mynd er af hringstiga og erfitt er að sjá hve langur hann er eða hvert hann liggur. Það er ekkert merkilegt við þessa mynd en hún gæti verið af einhverju allt öðru.

 

 

 

Þetta er mynd sem sýnir hvernig farið getur fyrir farartækjum í veðurfarinu eins og það hefur verið að undanförnu.

 

 

 

 

 

 

 

Þarna er nýi Ford fusioninn skíthræddur í myrkrinu og bíður eftir eiganda sínum.

 

 

 

 

 

 

"Ef þú ert tryggður, þá færðu það bætt", glymur nú við í öllum miðlum og með ýmisskonar myndskreytingum. Þetta er á góðri leið með að ná sömu hæðum og "öruggur staður til að vera á." sem tröllreið öllu fyrir einhverju síðan og gerir kannski enn. Mér finnst þetta nýja slagorð vera álíka fáránlegt og vitlaust og það og jafnléleg íslenska. Er einhver ástæða til að bæta mönnum þann asnaskap að tryggja hjá tryggingafélagi sem eyðir peningum í svona heimskulegar auglýsingar? Og hver á svosem að bæta það?

Spurningaþátturinn Útsvar er mjög vel heppnaður. Einkum vegna þess hve létt er yfir honum. Án ef eiga stjórnendur hans mestan þátt í því. Einnig eru spurningarnar yfirleitt góðar, en þátttakendurnir dálítið misjafnir.

Ég minntist á fráfall Bobby Fischers í gær. Strax eru menn farnir að rífast um hvar á að jarða hann. Ja, fussumfei. Hann var ekki bara mesti skáksnillingur sem uppi hefur verið. Glæstir sigrar hans og ódauðlegar skákir munu halda nafni hans á lofti um alla eilífð. Hann bauð líka stórveldinu byrginn og sigraði það. Að minnsta kosti álitu margir hann hafa sigrað stórveldið Bandaríkin þegar hann gerðist íslenskur ríkisborgari og fluttist til Reykjavíkur.

Annar mikill íþróttamaður og nánast jafnaldri Fischers var Muhammed Ali. Hann bauð einnig stórveldinu byrginn og neitaði með öllu að gegna herþjónustu og sat í fangelsi fyrir þær sakir. Hann sigraði stórveldið sömuleiðis með því að bogna ekki undan ofurþunga ríkisvaldsins. Að bandarísk stjórnvöld skuli á þennan hátt ofsækja suma af sínum bestu sonum er þeim til ævarandi skammar.

Ég skrifaði líka eitthvað um framsóknarföt í gær. Ég get eiginlega ekki fundið neina aðra skýringu á þessari furðulegu uppákomu en þá að reynslan sýnir bara að litlir flokkar eiga miklu oftar við innbyrðis átök að stríða en þeir stóru, hvernig sem á því stendur. Þetta er margsannað og sýnir líklega helst að þegar þrengist um frammámenn flokksins þá snúast þeir hver gegn öðrum. Þetta er það sem við mér blasir en alls ekki það, að ég vorkenni framsóknarflokknum frekar en öðrum flokkum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fúsi hefur mátt bíða þarna árangurslaust eftir mér alla nóttina greyið

asben 20.1.2008 kl. 01:08

2 identicon

Það er naumast að þú hlakkar til jólanna, bara strax farinn að telja niður?

Hafdís Rósa 20.1.2008 kl. 01:22

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jæja, þá er ég búinn að taka jólaniðurtalninguna í burtu. Ég ætlaði nú aldrei að finna þetta,  en það tókst að lokum.

Sæmundur Bjarnason, 20.1.2008 kl. 02:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband