224. - Fischer, framsóknarföt og Svíagrýla

Þá er Bobby allur. Ég bloggaði eitthvað um daginn um veikindi hans en þau fóru samt ekki sérlega hátt. Auðvitað vissu flestir skákáhugamenn að hann var mjög alvarlega veikur. Í mínum huga var hann mesti skáksnillingur sem uppi hefur verið og ekkert meira um það að segja. Gallar hans voru líka talsverðir, en algjör óþarfi er að tíunda þá hér.

Ég hef verið að velta fyrir mér að setja hér á bloggið myndir sem ég tek. Kannski myndir sem ég tek eftir gömlum myndum. Gallinn er bara sá að þær eru nokkuð stórar og ég hef verið að gera smátilraunir með að minnka þær. Ef það hefur tekist bærilega þá er hérna mynd af skákmeistara Bahamaeyja þar sem hann mætir í fyrsta skipti til vinnu sinnar við Doctors Hospital í Nassau. Nú er svo komið að líklegt er að Bjarni flytji fljótlega til Íslands aftur og hefji störf á verkstæði Opinna Kerfa.

Austurlandaegill er orðinn bloggvinur minn. Hann er nú staddur á Indlandi og ætlar að flækjast um Asíu næsta hálfa árið eða svo. Líklega hefur hann flökkueðlið frá pabba sínum. Það verður gaman að fylgjast með honum. Ég fylgdist líka með Mána Atlasyni þegar hann var í Kenya um árið og las bloggið hans reglulega. Heimurinn er svo sannarlega orðinn miklu minni en hann var í mínu ungdæmi og samskipti manna orðin svo einföld að með ólíkindum er.

Guðjón Ólafur Jónsson sem er með þekktari framsóknarmönnum og hefur meðal annars setið á þingi fyrir þá hefur nú gengið framfyrir skjöldu og sakað félaga sína um að ganga í framsóknarfötum. Björn Ingi Hrafnsson vill ekki mikið um málið segja en spyr þó hvað flokkur sem eigi slíka vini sem Guðjón Ólaf hafi við andstæðinga að gera.

Svíagrýlan lifir góðu lífi ennþá. Mér finnst eftirtektarvert að aldrei hafa Íslendingar átt markvörð í heimsklassa, en Svíar eiga þá á lager. Sænska liðið var fremur lélegt þótti mér, en markvörðurinn aftur á móti mjög góður. Svo er bara að gleyma þessum leik sem fyrst.

Bjarni Harðarson kommentaði á það sem ég skrifaði um daginn, en af því ég veit að komment vilja týnast og þar að auki kommenta þingmenn ekki á mín skrif dagsdaglega, þá er ég að hugsa um að birta kommentið hér.

Ekki vissi ég það að þú hétir eftir Steinunni - en eins og mér hefur verið sögð sagan þá fór sú heiðurskona suður í ljósmæðranám og á meðan varð afi minn og faðir þinn til. Reyndar held ég að Rannveig hafi lengi verið vinnukona hjá þeim hjónum og ekki bara þennan vetrarpart sem Steinunn stundaði ljósmæðranám og eru til af þessum ástarþríhyrningi í Langagerði margskonar sögur. Einhverntíma á Steina að hafa laumast í fleti systur sinnar þegar sú var frá og lá sem dauð en nokkru seinna kom karl hennar og fór að ýta við mágkonu sinni en sagði þegar hún engu ansaði, - þú mátt ekki vera eins og Steina!

Ég er viss um að frásögn Bjarna af þessu máli er miklu réttari en mín. Fyrstu setninguna er þó hægt að misskilja. Hvort vissi Bjarni ekki að ég heiti Sæmundur Steinar eða hélt að ég héti Steinar eftir einhverjum öðrum? Ég veit ekki hver það ætti að vera, en man ekki betur en mamma hafi einhvertíma sagt mér að ég bæri nöfn þeirra Garðsaukahjóna.

Önnur saga er líka til um nafn mitt. Fyrst eftir að ég fæddist var ekkert búið að ákveða um nafnið. Einhver í fjölskyldunni spurði pabba hvað ég ætti að heita. Hann sagði að ég ætti að heita nafni þess fyrsta karlmanns sem að garði bæri. Sá reyndist vera Óli Bjarna málari. Ekki er að orðlengja að ég var eftir þetta kallaður Óli. Sagt er að áður áminnst Steinunn hafi spurt einhvern kunnugan hvað ég væri kallaður því hún vissi að ég var fæddur. Henni var sagt að ég væri kallaður Óli og hefur mér verið sagt að það hefði valdið henni vonbrigðum. Þegar að skírn kom var hinsvegar Óla nafninu ekki haldið til streitu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband