226. - Brandarar, vísur og myndir

Færslan sem Pálmi Gunnarsson setti á sitt blogg þann 5. janúar s.l. (og var nýjasta færslan á því bloggi síðast þegar ég vissi) var lítt merkileg endursögn á gömlum brandara. Ég man einn brandara sem mér þótti meinfyndinn þegar ég heyrði hann fyrst. Þetta er algjör karlrembu- og rasista-brandari og ég held að ég hafi heyrt hann í fyrsta skipti áður en ég fór á Bifröst. Hann er semsagt ævagamall.

Ég man eftir að hafa, í skólaferðalagi með félögunum frá Bifröst, verið að segja þennan brandara blindfullur á hóteli einhversstaðar þegar ferðafélagi sem kom inn sagði: "Nú, það er bara svona hérna," og labbaði út.

Brandarinn er svona: Einu sinni var Texasbúi sem fór til Alaska. Þar var honum sagt að til þess að teljast maður með mönnum á þessum stað yrði hann að gera þrennt. Skjóta bjarndýr, ríða indíánakerlingu og drekka úr fullri brennivínsflösku í einum teig.

Texasbúinn vildi reyna þetta og byrjaði á brennivínsflöskunni. Síðan fékk hann byssu og labbaði út í skóg. Alllöngu seinna kom hann aftur, allur rifinn og tættur, fötin í henglum og hann alblóðugur og krambúleraður. Sagði þó með drafandi röddu: "Hvar... hérna.. hikk. hvar er, hikk, eiginlega, hikk... þessi índíánakerling sem ég átti að skjóta?"

Mér finnst umræðurnar um legstað Fischers vera með ólíkindum. Ég get ekki séð að hann eigi nokkurt erindi á Þingvelli. Skrípaleikurinn í kringum hinn svokallaða þjóðargrafreit þar er slíkur að ekki er á hann bætandi. Hins vegar fæ ég með engu móti séð hvað mælir á móti því að Fischer verði jarðsettur hér á Íslandi. Hér fékk hann griðastað á ævikvöldinu og ég get ekki skilið á hvaða forsendum menn ættu að hafa á móti því að hann verði grafinn hér. Ef ættingjar hans og aðstandendur aftur á móti setja sig upp á móti því, þá er ekki mikið við því að segja. Þeir hljóta að ráða.

Varðandi fatapóker framsóknar vil ég bara vekja athygli á því sem hagyrðingar hér á Moggablogginu og annarsstaðar hafa um þetta að segja:

 

Ómar Ragnarsson segir hér á Moggablogginu:

 

Rædd er þörf til rannsóknar.

Ræðuþörfin brennandi.

Fatapóker framsóknar

fer að verða spennandi.

 

Hallmundur Kristinsson segir eftirfarandi á sama stað:

 

Allir borða á sig göt

eins og helst þeir torga.

Eftir þetta fá sér föt

sem framsókn þarf að borga.

 

Og páfagaukurinn Papparass segir á 123.is/asben:

 

Framagosinn fágaði,

fagurlega dressaði,

glæsilegi og gáfaði,

Guðjón Ólaf stressaði.

 

Ekki er hægt annað en að gera grín að þessu. Framsóknarmönnum finnst þetta kannski sorglegt, en aðrir fyllast líklega Þórðargleði.

Reiknivélar af þessu tagi þóttu úrvalstæki áður fyrr. Nú er þessi vél ósköp fornfáleg.

 

 

 

 

 

 

 

 

Svona uppstillingar þykja mér alltaf skemmtilegar. Ekki veit ég hvað er hægt að skrúfa með þessu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 Þetta er snjófjall sem búið er að ýta af bílaplani einu. Líklega verður það við lýði fram á vor.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband