174. blogg

Nálægt Hvítasunnunni árið 1978 komu þeir í heimsókn til mín á Vegamótum Bjössi bróðir minn og Brynjar Ragnarsson, kallaður Diddi. Hann er sonur Unnar elstu systur minnar (eða uppeldissystur ef algjörrar nákvæmni er gætt)

Ætlun okkar var að ganga á Snæfellsjökul og höfðu þeir nokkurn búnað með sér frændurnir. Ég bjó nú ekki svo vel á þessum árum að ég ætti almennilega gönguskó svo ég fór bara í ferðina á stígvélum. Úlpu og íshaka fékk ég að láni hjá þeim félögum.

Bjössi sendi mér um daginn nokkrar myndir sem teknar voru í þessari ferð og ég er að hugsa um að setja þær hér inn í þessa frásögn.

 

Við fórum sem leið liggur vestur Staðarsveit og áleiðis að jöklinum í þokkalegu veðri. Þegar á jökulinn kom var veðrið hinsvegar orðið snarvitlaust, mikill skafrenningur og hávaðarok svo við urðum að snúa frá eftir nokkur hundruð metra og halda heim á leið.

Ekki gáfumst við þó upp, heldur reyndum aftur næsta dag. Þá var veður miklu skaplegra. Satt að segja bara ágætisveður og gengum við beina leið á topp jökulsins. Vélsleðar tíðkuðust ekki á þessum tíma. Slík farartæki voru sjaldgæf. Á nokkrum stöðum lá leið okkar upp brattar fannbrekkur og mér er minnisstætt að mér hefði áreiðanlega ekki tekist að komast þarna upp á mínum stígvélum ef þeir Bjössi og Diddi hefðu ekki jafnan höggvið spor í harðfennið.

Með því að halda mig við sporin sem þeir höfðu höggvið í snjóinn tókst mér bærilega að klöngrast upp brekkurnar. Einnig kenndu þeir mér að halda á íshakanum á þann hátt að ef ég dytti stingist hann strax niður í snjóinn svo ég rynni ekki niður brekkuna. Þetta kom sér ágætlega nokkrum sinnum.

 

 

 

Satt að segja er ólíkt betra að klöngrast upp langar harðfennisbrekkur, þar sem alltaf eru notaðar samskonar hreyfingar, vitandi að ekki er stórhætta á ferðum þó maður detti. Langar snjóbrekkur geta satt að segja verið ansi þreytandi. Þannig var það þegar ég kleif Heklu í seinna skiptið, en nú er ég kominn út fyrir efnið.

 

 

 

 

 

 Þegar upp var komið sáum við að efst á toppnum var nokkurra mannhæða hár snarbrattur íshraukur. Ég lét mér nægja að ganga nokkrum sinnum í kringum hann, en þeir Diddi og Bjössi álitu ferðina alls ekki fullkomna nema klifrað væri þar uppá topp. Allt þetta má sjá nokkuð vel á myndunum.

 

 

 

 

 

 

Niðurleiðin var mun fljótlegri því þá gátum við rennt okkur niður brekkurnar í stað þess að fara þær uppávið. Ætli öll ferðin hafi ekki tekið svona fjóra til fimm klukkutíma, ég man það ekki. Þessi ferð var á margan hátt eftirminnileg. Þetta var í fyrsta sinn sem gekk á jökul og Snæfellsjökull er nú ekki hvaða jökull sem er.

 

 

 

Egill Jórsalafari og sonur Bjarna þingmanns Harðarsonar skrifar grein sem birtist á útsíðu í Sunnlenska fréttablaðinu í dag. Af því að þetta er nú montblogg öðrum þræði þá er ég að hugsa um að birta hér mynd af þeirri grein í lokin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott húfan sem þú hefur verið með á Snæfellsjöklinum og anorakkurinn líka :)

Hafdís Rósa 15.11.2007 kl. 21:58

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, en samt hefur þessi húfa komist upp á íshraukinn. Dularfullt. Ekki fór ég þangað.

Sæmundur Bjarnason, 15.11.2007 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband