175. blogg

Ég sé að það endar með því að ég þarf að kaupa mér viðbótarpláss fyrir myndir ef ég á að halda áfram á sömu braut.

Hugsanlega fer myndbirtingum hjá mér að fækka eitthvað, en við sjáum til.

Nanna Rögnvaldardóttir, sá þekkti matargúrú, sem heldur úti bloggsíðunni „Konan sem kyndir ofninn sinn" er að mínum dómi einhver besti bloggari landsins. Þó einkennilegt sé þá hef ég oft gaman af að lesa frásagnir um mat og matargerð. Las t.d. á sínum tíma í gamla DV flestalla veitingahúspistla Jónasar Kristjánssonar þó ég skildi ósköp lítið af því sem þar var ritað um mat.

Því fer víðsfjarri að Nanna bloggi bara um mat. Hún bloggar satt að segja um allt milli himins og jarðar. Best nær Nanna sér samt á strik þegar hún segir frá Sauðargærunni en þar er húmorinn oft svo hárfínn og beittur að unun er að lesa. Nanna hefur líka gefið út fullt af bókum, bæði matreiðslubókum og ýmsu öðru. Ég las t.d. einhverju sinni bókina með endurminningum Björns Sv. Björnssonar sem hún ritaði og gefin var út árið 1989.

Bók þessi heitir „Ævi mín og sagan sem ekki mátti segja" og fjallar um son Sveins Björnssonar forseta sem gerðist foringi í SS sveitum Hitlers á stríðsárunum. Ég hitti Björn eitt sinn þegar hann var að selja Encyclopaediu Britannicu og hann var einstaklega snjall sölumaður. Þetta vann hann við hér á Íslandi einhvern tíma um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar.

Nú eru liðin rúmlega 50 ár síðan ég byrjaði að safna frímerkjum. Þetta veit ég vegna þess að meðal fyrstu nýju frímerkjanna sem gefin voru út hér á Íslandi eftir að ég byrjaði mína söfnun var frímerki til minningar um 150 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar. Nú segja menn að liðin séu 200 ár frá fæðingu hans. Annars blöskrar mér alveg mærðin og slepjan í sambandi við þetta afmæli. Jónas var þó gott skáld, en gamli tíminn er bara liðinn og kemur ekki aftur. Gunnarshólmi er fínt kvæði, en þegar ég var í skóla voru menn mjög að hasast upp á að láta krakka læra svona löng kvæði. Mamma kunni það þó reiprennandi utanað. Óhræsið er líka kvæði sem ég man mjög vel eftir úr skóla og satt að segja eru bestu kvæði Jónasar alveg ótrúlega myndræn. Frásögnin er svo sterk og eftirminnileg að það er með ólíkindum.

Einhverntíma fyrir langalöngu man ég að ég samdi einhverja afbökun af kvæði Hannesar Hafstein um Jónas Hallgrímsson. Það er annars merkilegt hve mörg skáld hafa samið ljóð um Jónas Hallgrímsson. Ég man að afbökunin byrjaði svona hjá mér: Þar sem sterkir stólar ./. sofukrílið fylla./. ljóðaleysu gólar./. litli Jónas illa. Þetta var svosem ekki hugsað sem nein sérstök gagnrýni á Jónas, en mér finnst hann hafa verið full fyrirferðarmikill meðal íslenskra ljóðskálda á sama hátt og Kiljan hefur verið alltof fyrirferðarmikill meðal skáldsagnahöfunda.

Loks er það vefurinn jonas.ms.is sem er mjög athyglisverður. Stórt og mikið ljóðasafn sem er sett upp á sérkennilegan og eftirminnilegan hátt. Hvet alla til að skoða hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Þetta er stórskemmtilegur vefur sem þú bendir á. Takk fyrir það.

Hallmundur Kristinsson, 16.11.2007 kl. 08:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband