173. blogg

„Hann er spilltur, frekur og hreinlega minniháttar á andlega sviðinu" heitir pistill sem Elliði Vignisson skrifar á Moggabloggið sitt.

Elliði er bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og var auðvitað ekki par hrifinn þegar börnin hans sáu miður falleg skrif um hann sjálfan.

Ég hef tekið eftir því að margir virðast halda að því orðljótari sem þeir eru því kraftmeiri séu skrifin. Þetta er hin mesta vitleysa. Ef menn taka stærra upp í sig en ástæða er til þá verða skrifin eingöngu hlægileg og ekkert annað. Önnur hlið á þessari orðræðu er svo það sem Elliði setur greinilega fyrir sig. Hvað gerist þegar þeir sem ekki eru vanir svonalöguðu sjá þetta?

Margir blogga mikið um börnin sín. Stundum verður mér hugsað til þess að ef börnin sjálf sæu það sem um þau er skrifað þætti þeim það mjög leiðinlegt. Það sem einu sinni er skrifað á Netið getur hvenær sem er dúkkað upp aftur og orðið mönnum til leiðinda. Þegar börnin stálpast gætu þau séð þetta, því við vitum ekkert hvar skrifin lenda á endanum.

Var að enda við að lesa bók sem heitir Játningar Láru miðils eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson. Bókin kom út í fyrra eða hitteðfyrra. Þetta er um margt athyglisverð bók þó augljóst sé að höfundurinn er vantrúaður á líf eftir dauðann. Ég hef líka alltaf verið mjög vantrúaður á allt miðilsstúss og annað kukl. Ég las í æsku ævisögu Houdinis og þar er mikið rætt um miðla. Ég er ekki frá því að sú bók hafi valdið miklu um vantrú mína á þeim.

Lára hefur greinilega átt erfiða ævi á margan hátt. Ég tel mig vera miklu fróðari um hana eftir en áður. Flestir vita eflaust að hún var dæmd fyrir svindl í miðilsstarfsemi sinni. Samt sem áður hélt hún áfram á svipaðri braut. Auðvitað geri ég mér ljóst að svindlið sem slíkt segir lítið um það hvort hæfileikar hennar voru raunverulegir eða ekki, en svikamiðlarnir eru bara svo margir að þessi mál eru hreinlega komin úr tísku. Margir hafa samt áhuga á þessu, en spíritistar hafa bara aldrei sannað neitt að mínum dómi.

Páll Ásgeir gerir fremur lítið úr séra Sveini Víkingi. Það er ómaklegt því þó hann hafi verið spíritisti var hann hinn mætasti maður. Hann var skólastjóri á Bifröst fyrri veturinn minn þar og mér fannst honum farast það vel úr hendi. Þó hann hafi eflaust verið óttalega blindur á galla Láru, var hann ekki einn um það. Annars hefði hún ekki getað haldið miðilsstarfseminni áfram.

Páll reynir að koma því inn hjá lesendum sínum að Lára sjálf hafi ekki haft neina trú á andlegum hæfileikum sínum. Mér finnst afar ólíklegt að svo geti verið. Líta má á þessa bók á vissan hátt sem árás á íslenska spíritista sem voru talsvert áberandi í þjóðlífinu áður fyrr. Mig minnir að ég hafi einhvers staðar lesið að afkomendur Láru hafi verið lítt hrifnir af bókinni.

Því miður minnist ég þess ekki að hafa lesið dóm um þessa bók svo ég verð bara að reyna að búa sjálfur til minn eigin. En mál er að hætta þessu rugli.

Hér eru svo nokkrar myndir.

Þessi mynd er af Bjössa bróðir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á þessari mynd eru krakkarnir hennar Ingibjargar. Lengst til vinstri er Atli Vilhelm , þá Krístín Þóra og svo Bjarni sem nú er orðinn þingmaður.

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er svo mikil aktion-mynd frá Vegamótum. Arsenal maðurinn Benedikt tekur þarna vítaspyrnu með tilþrifum og Bjarni bróðir hans gerir tilraun til að verja. Júlíana og Helga í Holti sitja rétt hjá. Í horninu til vinstri sést í enda sláturhússins og síðan sést Lynghagi í hinu horninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Góður punktur þetta með börnin. Dóttir mín 15 ára er mér mikill áhrifavaldur. Ég nefni hana stundum til sögunnar en ávallt með hennar leyfi og vitund (reyndar ekki í þessari athugasemd!). Að segja miklar sögur af börnunum, jafnvel þeirra persónulegustu málum finnst mér ekki vænlegt.

Kristjana Bjarnadóttir, 15.11.2007 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband