2002 - Ýmislegt

Sé ekki betur en ESB og USA séu komin í hár saman útaf upplýsingum frá þessum Snowden. Ef slíkir risar eru farnir að deila er best fyrir dverga eins og okkur Íslendinga að skríða útí horn og hafa hægt um okkur. Snowden gerði sín stykki vitandi vits svo vorkunn mín er takmörkuð. Ég endurtek enn einu sinni: Þetta mál er alls ekki sambærilegt við mál Fischers.

Nú er ég alveg hættur að hlaupa í tölvuna ef mér dettur eitthvað gáfulegt í hug. (Sem er reyndar mjög sjaldan.) Ætli ég sé ekki í rauninni kominn í bloggfrí án þess að vita það?

Ásthildur Cesil er komin í stríð við Ísafjarðarbæ. Það á að reyna að hrekja hana í burtu. Satt að segja finnst mér hún vera með bestu bloggurum hér og dugnaður hennar við myndatökur og að setja myndirnar á Moggabloggið er verulega mikill. Myndirnar eru líka mjög góðar. Held þó ekki að ég geti neitt hjálpað og meira en vafasamt er að undirskriftasöfnun geri það.

Meira að segja Geir Haarde segir að breytingin á lánum íbúðalánasjóðs hafi verið stórfelld mistök. Segir reyndar að ríkisstjórnin sem verið var að búa til hefði ekki verið mynduð nema þessi breyting hefði komið til. Var öllu til fórnandi vegna þessarar andskotans ríkisstjórnar? Var öryggisventillinn sofandi eða hvað? Voru einhverjar skammstafanir að skipta sér af þessu?

Sjálfsblekkingin sem fólgin er í því að fólk hér á Íslandi telur sig „eiga“ húsnæði sem það á kannski í raun aðeins 10 – 30 % í og allir keppast við að ljúga uppávið um raunverulegar tekjur sínar, veldur því meðal annars, að stærri hluti en reyndin er, telur sig til ríka fólksins og beitir atkvæði sínu í samræmi við það. Bjartsýni er auðvitað í eðli sínu af því góða en ef sjálfsblekking talsverðs hluta þjóðarinnar verður einn af megin orsakavöldum Hrunsins mikla þá er of langt gengið. Auðvitað væri æskilegra að leigumarkaður hér varðandi húsnæði væri ekki eins vitlaus og hann er. Líka væri til bóta meira raunsæi fólks varðandi eyðslu í steinsteypu og dýra hluti, en samt sem áður erum við svo vön því að vera Íslendingar að þetta er bara skemmtilegt.

Hrunhugleiðingar mínar eru kannski of almennar til að vera teknar alvarlega. Samt meina ég þetta alveg og er hissa á því hvað flestallir sem skrifa um Hrunið og mál sem því tengjast virðast vera góðir hagfræðingar og hafa milljarðahundruðin og vextina algjörlega á valdi sínu. Eiginlega rugla svona skrif mig oftast meira í ríminu en að þau upplýsi mig. Tilfinningin sem ég fæ er sú að ég hljóti að vera svona afskaplega vitlaus fyrst ég skil þetta ekki almennilega. Ég þrjóskast samt við að skrifa á minn hátt. Jafnvel þó ég skilji æðri fjármál ekki nærri nógu vel.

Vafalaust sit ég límdur við skjáinn á morgun þegar Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnir um ákvörðun sína varðandi undirskriftasöfnunina. Hann kann nefnilega að láta bíða eftir sér og er þessvegna orðinn númer eitt. Simmi og Bjarni eru bara í þjónustu hans og mega alveg ráða svolitlu en samt ekki of miklu. Til dæmis er frost það sem allar stjórnarskrárbreytingar eru í og þjóðaratkvæðagreiðslur algjörlega hans verk og alþingi er stofnun sem hann stjórnar að mestu leyti.

Eru þá öll þau mistök sem fyrrverandi stjórn gerði í rauninni honum að kenna? Ég kannast bara ekki við nein mistök. Allt stuðlaði það að auknum völdum ÓRG og þannig að betra mannlífi. Hrunið sjálft var í rauninni til góðs, því það opnaði augu manna fyrir mannkostum ÓRG.

Ylströnd.IMG 3418


mbl.is Snowden hafnað um hæli á Ítalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert gamansamur, skólabróðir.
Nú er væntanlega komin sú tíð að ÓRG þarf að greiða fyrir stuðninginn í kosningunum. Fróðlegt verður að fylgjast með á morgun, satt er það. 

Ellismellur 8.7.2013 kl. 16:31

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, það verður vissulega fróðlegt að sjá hvernig ÓRG bregst við þessu. Mér finnst að hann eigi ekki að undirskrifa lögin því vel er hægt að líta á þetta sem einskonar uppgjör á milli Sigmundar og hans. Held að ÓRG finnist hann ekki skulda neinum neitt. Mitt nafn ætti að vera þarna einhversstaðar í bunkanum sem búið er að sýna svo oft í sjónvarpinu.

Sæmundur Bjarnason, 8.7.2013 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband