2003 - Allskonar öpp

Allskyns öpp eru sífellt að senda mér tilkynningar um hitt og þetta. Aðallega til þess að bjóða mér eitt eða annað. Ég er svo „fúll á móti“ að ég samþykki yfirleitt aldrei svoleiðis lagað. Öppin senda mér þetta yfirleitt í nafni einhvers bloggvinar míns og sennilega gæti ég losnað við þetta með því að samþykkja allan fjandann. Sennilega er það einmitt það sem Sykurbergur ætlast til. Þeir sem ekki haga sér eins og honum finnst við hæfi, eru útsettir fyrir allskyns truflanir. Á endanum hætti ég sennilega á fésbókinni þó hún sé á margan hátt ómissandi.

Oft er vandi að verjast grandi. En nólóið er frekar létt. Ég fann upp seinni hlutann af þessu spakmæli. Ef mig skyldi kalla. Forhandargrandið var verst af öllu. (Eða best.) Lærði nefnilega að spila vist þannig að alltaf átti að gefa „stórugjöf“ og stokka sem minnst. Ekki mátti spila á aðfangadagskvöld, en að öðru leyti voru jól og áramót spilahátíð hin mesta. Jólagjafirnar mátti treina sér fram eftir öllu. Aðallega voru það bækur. Bláu bækurnar. Árni í Hraunkoti, Victor Appleton, Gunnar og leynifélagið og Sigmundur og kappar Karls konugs eru þau nöfn sem fyrst koma upp í hugann. Mörg fleiri eru sjálfsagt þarna einhvers staðar ennþá. Og ekki má gleyma bókinni um Ívar hlújárn sem var með mynd á hverri síðu. Gusi grísakóngur, Alfinnur álfakóngur  og Dísa ljósálfur eru þær bækur sem ég man fyrst eftir. Það er sennilega síðan áður en ég fór í skóla.

Enn er morgunn. Og klukkan ekki nema rúmlega sex. Eiríkur (eirikurjonsson.is) fréttir svosem ýmislegt og það er þess virði að kíkja á bloggið hans á morgnana ef maður hefur ekkert annað að gera. Ósköp er samt sumt ómerkilegt hjá honum. Munur en hjá mér. Samt frétti ég ekki nokkurn skapaðan hlut. Fésbókin er nokkuð góð við okkur sem förum snemma á fætur (vöknum snemma). Kaffið er þó betra.

Hvað sem ÓRG velur í sambandi við undirskriftirnar, mun hugsunin um mögulegt endurkjör varla trufla hann. Samt er hann í nokkurri klemmu. Að sumu leyti má líta á þetta sem uppgjör milli Sigmundar og hans. Held að Ólafur kunni því illa að vera þvingaður til einhvers. Kannski vona ég bara að hann skrifi ekki undir því það er svo gaman og spennandi að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Annars er það rammpólitísk ákvörðum sem hann þarf að taka. Kannski finnur hann samt einhvern frestunarleik.

Það er fyrst og fremst ófullkomleiki fólks sem veldur því að ekki eru allir sósíalistar (eða jafnvel kommúnistar). Það er þýðingarlaust að gera ráð fyrir því að allir stjórnendur hugsi meira um hagsmuni heildarinnar en sína eigin. Það kerfi sem gerir ráð fyrir því að menn skari sem mest þeir mega eld að sinni eigin köku er vissulega betra. Auðvitað þarf að hafa eitthvert eftirlit með hinni mannlegu græðgi, en ekki þýðir að gera ráð fyrir að allir séu að farast úr sjálfsafneitun. Að hve miklu leyti opinberar reglur og lög eigi síðan að stjórna hegðun manna er undirstaða allra stjórnmálaafla. Þetta er bara mín skoðun og hefur heilmikil áhrif á það hvernig ég hugsa.

Allt sem ekki er bannað er leyfilegt. Allt sem ekki er leyft er bannað. Á þessu tveimur setningum er mikill munur. Segja má að á þeim mun grundvallist allar stjórnmálaskoðanir og svo auðvitað því hvort menn séu í eðli sínu vondir eða góðir. Mín skoðun er þeir sé mjög misjafnir en þeir góðu séu samt fleiri.

IMG 3425Örkin hans Nóa?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband