Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
16.2.2007 | 21:06
Fimmtánda blogg
Ekki veit ég hvernig á þessu stendur en auðvitað getur verið að fjölskyldan sé búin að uppgötva þetta og líti hingað inn til að fylgjast með. Hvað um það, áfram skal haldið og að mestu án tillits til þess hvort einhverjir lesa bloggið eða ekki.
Í gær fékk ég meira að segja komment eins og sjá má og svaraði því snimmendis.
Vatnsflóð varð hér í MS í nótt sem leið, en þó ekki mjög alvarlegt. Eitthvað mun þó hafa skemmst af dóti á vélaverkstæðislagernum vegna leka sem varð á loftræstilofti þar fyrir ofan. Ég varð fyrst var við þetta þegar brunaviðvörunarkerfið fór í gang með miklum látum og tilkynnti um eld, sem að sjálfsögðu var rangt.
Í dag sá ég hér á Moggablogginu að einhver kona var að byrja skrif sín hérna. Enginn var búinn að kommenta á bloggið hennar og ég var að hugsa um að gera það, því ég veit hvað það er hjartastyrkjandi, en svo fór ég eitthvað annað að gera og gleymdi nafninu. Já og ég sá bloggið hennar einmitt meðal nýlegra blogga.
Áslaug er að skúra í Aðföngum þessa dagana og Bjarni er að hjálpa henni. Veit ekki hvernig þetta verður í næstu viku. Kannski eins.
Datt í hug í sambandi við hjartastyrkjandi kommentin að í gamla daga stóð á miðunum á Maltflöskunum - Maltextrakt, nærandi, styrkjandi, gefur hraustlegt og gott útlit. Þegar ég las þetta fyrir fólk hafði ég fyrir sið að bæta við - og kemur í veg fyrir skalla. Þessu trúðu fáir, en sannfærðust þegar þeim var sýnd flaskan - trúðu jafnvel þessu með skallann. Einhvern tíma orti ég smáljóð sem ég nefndi "Orðsending frá ölgerðinni" og var svona: Ef úti er kalt - og veður svalt - þá umfram allt - þú drekka skalt - malt. Þetta er nú eiginlega ort undir svokölluðum orðhengilshætti, og ekki meira um það.
Varð fyrir því óhappi að tapa nokkrum skákum á playchess.de um daginn á tíma. Gleymdi bara alveg að leika. Þetta þýðir að ég get ekki tekið þátt í mótum þar fyrr en í marslok eða svo. Annars þykir mér orðið skemmtilegra að tefla á Gameknot.com núorðið. Þar er Bjarni búinn að starta 7 manna móti.
14.2.2007 | 21:18
Fjórtánda blogg
Já, hér er mikið bloggað og ekki allt gáfulegt sem sagt er. Þegar ég byrjaði að fylgjast með bloggi, fyrir þónokkrum árum síðan, gat maður lesið svotil allt slíkt sem maður fann (á íslensku vel að merkja). Nú er svo komið að ekki getur nokkur maður komist yfir að fylgjast með öllu því sem skrifað er. Bara Moggabloggið eitt er eitthvað sem engin leið er að komst yfir að lesa allt saman. Það er ekki einu sinni hægt að komast yfir að lesa það sem maður þó gjarnan vildi. Ég er eiginlega alveg hættum að lesa dagblöðin. Bæði berast þau ekki nema með höppum og glöppum og svo er óttalegt puð að fletta í gegnum allt þetta auglýingaskrum. Sjónvarpið horfi ég heldur ekki á nema stöku sinnum og þá helst fréttir. Streaming video eins og t.d. á alluc.org er miklu skemmtilegra. Þar getur maður þó ráðið hvort og hvernig maður horfir á eitthvað, öfugt við það ofbeldi sem sjónvarpsdagskráin beitir mann.
Ég held að vel megi nota blogg til að hafa samband við ættingja og fjölskyldu og þá skiptir ósköp litlu máli hve margir lesa. Svo er ekki hægt að horfa alveg framhjá því að þetta er afar þægileg leið til að hafa efnið aðgengilegt fyrir sjálfan sig hvar sem er. Þetta er líka ágætis æfing í því að tjá sig í rituðu máli og með nokkuð skipulegum hætti. Með öðrum orðum; mér er slétt sama hve margir eða fáir lesa þessa bull í mér.
Öðru hvoru fæ ég einstök orð eða orðasambönd á heilann og orðin hljóma viðstöðulaust í hausnum á mér. Orðið sem er að gera mig vitlausan núna er orðið "Fjölmúlavíl". Ég er alveg viss um að þetta orð er til, en ég veit eiginlega ekki hvað það þýðir og nenni ekki að fletta því upp. Það minnir mig á orðið "fjölmiðlavæl" sem ég man svosem ekki eftir að hafa heyrt. Ekki er því að leyna að sumt fjölmiðlaefni (ég nefni t.d. fuglaflensuna) verður með tímanum óttalegt fjölmúlavíl.
Það er svolítið erfitt að vita hvenær komið er nóg í dagsskammtinn. Ég held þó að ég láti þetta nægja í dag.
10.2.2007 | 09:57
Þrettánda blogg (en þó ekki þrettándablogg)
Jæja, þá er tölvukvikindið komið í lag aftur. Nei annars, ég er kominn með nýja og fína tölvu en sama skjá reyndar. Tölvan er frá Benna en Jói setti nýtt stýrikerfi á hana og þ.h. Times New Roman 14 punktar er það sem ég ætla að reyna að nota og sjá hvernig það reynist. Undanfarna daga hef ég þurft að notast við Laptop tölvu með skrats mús (þ.e.a.s plötu sem maður klórar í til að fá músarbendilinn til að hreyfast) og satt að segja hefur mér ekki gengið mjög vel að eiga við hana. Ég hef þó komist á Netið og getað ferðast um það og lesið það sem ég vil. Ég hef átt í dálitlum erfiðleikum með að skrifa þar því ekkert word var á þeirri tölvu en aftur á móti Window Vista.
Benni kom hingað í gærkvöldi með stóra og flotta hátalara sem hann hefur smíðað. Það er fínt sánd í þeim en við eigum samt eftir að tengja þá því það vantar lengri snúrur. Hann týndi lyklunum að voffanum sem hann var á og fékk Volvoinn hjá Bjarna og við leitum kannski betur í dag.
Mér bauðst að taka aukavakt í gær en það hentaði mér ekki m.a. vegna tölvumála og svo reiknaði ég með að þurfa að sækja Áslaugu á Vesturgötuna, en þegar til kom þurfti þess ekki.
Lauk í gær við að lesa Runaway jury eftir Grisham sem ég keypti um daginn í góða hirðinum á 100 kall. Sæmileg bók og dálítið spennandi í lokin svo maður eyddi meiri tíma í hana en eðlilegt var.
Jæja, ekki meira núna, en kannski fljótlega aftur. Lesendum mínum er kannski ögn að fjölga en þó minnast nú engir á þetta. Moggabloggið nýtur alls ekki mikillar virðingar en mér er sama um það.
5.2.2007 | 01:28
Tólfta blogg
Bókasafnið eða reyndar bæði á Bókasafnið í Kópavogi og Borgarbókasafnið í Gerðubergi. Venjulega tek ég svona 15- 20 bækur að láni í báðum bókasöfnunum og reyni síðan að gæta þess að skila þeim áður en mánuðuinn er liðinn. Það tekst nú ekki alltaf og þá er ekki um neitt að ræða annað en það að borga þá sekt sem upp er sett. Yfirleitt tekst mér allsekki að lesa allar bækurnar sem ég tek í hvert skipti en þá verður bara að hafa það. Stundum tek ég meira að segja sömu bækurnar að láni oftar en einu sinni. Fyrir nokkru las ég seinna bindið af ævisögu Steingríms Hermannssonar eða það bindi sem fjallar um ævi hans sem forsætisráðherra. Margt var mjög athyglisvert í þeirri bók þó ég nenni nú ekki að fara að tíunda það hér. Um þessar mundir les ég oft blogg Guðmundar Steingrímssonar sonar Steingríms og þó hann sé prýðilega ritfær sé ég ekki fyrir mér að hann eigi eftir að feta í pólitísk sport föður síns.
Það er best að halda þessum tveimur lesendum mínum við efnið og skrifa eitthvað fyrir þá þó það verði kannski óttalegt bull. Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvort þeir sem blogga daglega fari ekki smátt og smátt að líta á bloggið sem kross. Líka hvort sé mikilvægara að blogga hæfilega löng blogg eða gæta þess sérstaklega að skrifa þau reglulega. Mig grunar að reglufestan sé merkilegri. Jafnvel mikilvægari en hvað bloggað er um. Ég nenni t.d. ómögulega að vera að blogga um fréttir dagsins, frekar eitthvað bull á borð við þetta. Speglasjónir (spekúlasjónir) um allt og ekki neitt. Hvað lengdina snertir finnst mér nægilegt að láta blaðsíðuna nægja.
Tókst að smella hefðbundnu fjósabragði á 32 ára Bandaríkjamann í bréfskák sem ég er að tefla við hann á playchess.de. Ég er ekki viss um að mér hafi tekist áður að ná því bragði í bréfskák. Annars er mér farið að líka betur að tefla bréfskákir á gameknot.com en playchess.de. Bjarni er þar líka og er nýbúinn að starta 7 manna móti með hinum og þessum sem hann þekkir, aðallega sýnist mér það vera gamlir Snæfellingar.
Áhugi minn á Hattrick leiknum er í óttalegu lágmarki um þessar mundir en liðið mitt Úlfarnir stendur sig samt alveg þokkalega og ég gleymi sjaldan að stilla upp liði fyrir sunnudagsleikina. Annað mál er með vináttuleikina, þeim gleymi ég iðulega.
4.2.2007 | 01:50
Ellefta blogg
Ég minntist á bloggbylgjuna hér rétt áðan. Ekki veit ég hvort henni er að linna en mér finnst hún að mörgu leyti hafa risið hærra nú að undanförnu en verið hefur. Hún er samt alls ekki nýtilkomin og ég hef fylgst með bloggskrifum a.m.k. síðan laust fyrir síðustu aldamót. Skribentar á því sviði koma og fara og þó margir byrji og það jafnvel með miklum hvelli þá hafa þeir lengst af verið næstum jafnmargir sem hætta. Ég hef hingað til ekki skrifað blogg sjálfur þó ég hafi að sjálfsögðu ýmislegt að segja eins og flestir.
Ég hef mikinn áhuga á réttritun og þykist skrifa nokkuð í samræmi við viðurkennda staðla í því efni, þó ég sé vitanlega ekki óskeikull í þeim efnum. Ég er líka eflaust fordómafullur gagnvart þeim málum og má mjög gæta mín að líta ekki niður á þá sem eru í vandræðum með slíkt. Með netvæðingunni jókst mjög sá fjöldi manna sem skrifaði opinberlega. Mjög margir þeirra eru illa skrifandi og er það auðvitað að vonum. Mér finnst þó áberandi hve málkennd og réttritun hefur hrakað í opinberum fjölmiðlum. Kannski er það einkum vegna þess að miklu fleiri skrifa í þá en áður var, en samt er þetta óttalega pirrandi á stundum. Einn er sá maður sem stendur ágætlega vaktina varðandi réttritun og skýra hugsun í fjölmiðlum og lætur fjölmiðlamenn gjarnan heyra það þegar vitleysan í þeim gengur úr hófi. Þetta er Sverrir Páll Erlendsson menntaskólakennari á Akureyri. (gúgla það, því ég held að hann sé ekki á Moggablogginu þó margir séu þar - kann ekki að linka sjálfur)
2.2.2007 | 19:42
Tíunda blogg
Tryggingafélagið AXA gerði könnun meðal eldri borgara í Bretlandi og kváðust þátttakendur í könnuninni verja að meðal tali sex klukkustundum á viku á netinu. Þeir versla þar, leita sér upplýsinga og senda vinum og ættingjum póst.
41 af hundraði þátttakenda sagði vefvafrið eitt helsta tómstundagaman sitt, en í öðru sæti var garðrækt og endurbætur á heimilinu, sem 39% nefndu. Ferðalög og gönguferðir voru í þriðja sæti (28%).
Eftirlaunaþegarnir nota netið mest til að senda póst og afla sér upplýsinga. Hátt í helmingur þátttakenda hafði keypt farmiða á netinu, þriðjungur hafði prófað netbanka og 28% fylgdust með fréttum á netinu.
Tveir af hverjum þrem hafa reglulega samband við börnin sín í gegnum netið, og fjórir af hverjum 10 halda þannig sambandi við barnabörnin sín.
Talsmaður AXA sagði það ákaflega ánægjulegt að sjá hversu duglegir breskir eftirlaunaþegar væru við að nýta sér tæknina til að komast hjá streituvöldum.
Þessi frétt á mbl.is vakti athygli mína. Þetta kemur mér ekki á óvart og ég gæti vel trúað að þessi tilhneiging væri jafnvel ennþá sterkari hér á landi. Ég ætla samt ekki að linka í þessa frétt, því mér finnst að margir sem það stunda hér séu með því að gera eitthvað sem samsvarar því að standa á öðrum fæti uppi á fjóshaug og gala: "Sjáið hvað ég er frábær og gáfaður."
Það eru ekki mjög mörg ár þangað til ég kemst á þann aldur sem gerir mig að löglegu gamalmenni eins og stundum er kallað og ég er ekki í neinum vafa um að gott netsamband kemur til með að skipta mig mun meira máli en sjónvarp, útvarp, dagblöð, tímarit og bækur allt í einum pakka.
Kíkti á teljarann hér á síðunni áðan og er búinn að reikna það út að ég hef að líkindum tvo lesendur. Ekki er það nú mjög mikið, en ég er hvort eð er ekki í neinni vinsældakeppni svo það er í lagi. Ég held að ég viti hverjir þessir lesendur eru, en vil ekki vera að skemma fyrir þeim með því að kjafta frá því.
Atlas-gaurarnir heimta núna VAT-númer á reikningana, en ég er ekki með neitt svoleiðis. Gerði uppkast að bréfi sem hljóðaði upp á það að ef þeir vildu VAT-númer þá mundu reikningarnir hækka.
Hvers vegna blogga menn? Ekki veit ég það og eflaust eru margar ástæður fyrir þvi.
Mér finnst að mörgu leyti sniðugt svona bloggsamfélag eins og Mogginn er búinn að búa til þó ég vilji nú ekki leggja neina pólitíska merkingu í það. Ég er búinn að sjá að sniðugast er að leggja á minnið nöfn þeirra sem maður vill lesa bloggin hjá og fara svo í bloggleitina á forsíðunni. Bookmarklistarnir vilja annars verða svo óralangir hjá manni. Fréttabloggin eru að mörgu leyti ágæt en það er nú svolítill pólitískur fnykur af sumum þeirra.
Nú er rætt um að tvöfalda veginn austur fyrir fjall og menn bíða málþola eftir að vita hvort gert er ráð fyrir 2+2 eða 2+1 vegi í vegaáætlun sem von er á. Á sínum tíma var ég á móti byggingu Óseyrarbrúar en hinsvegar hlynntur Borgarfjarðarbrúnni. Hvalfjarðargöngin fannst mér líka vera góð framkvæmd og mér finnst líklegt að tvöfaldur vegur austur fyrir fjall verði eftir ekki mjög mörg ár talinn góð framkvæmd.
Skelfing er þetta sundurlaust og lélegt hjá mér, en ætli ég láti það ekki samt flakka m.a. vegna þess hve lesendurnir eru fáir.
20.1.2007 | 23:30
Níunda blogg
Þetta er bölvað vesen. Ég á líka erfitt með að ákveða hvort ég vil heldur skrifa þetta í Word eða á blogginu sjálfu. Er búinn að prófa hvorttveggja. Greinaskil vilja týnast og fontastærð og þessháttar er í einhverju rugli. Eflaust er þetta mest sjálfum mér að kenna. Best að hafa þetta blogg ekki alltof langt svo ég geti haldið áfram með frekari tilraunir.
Já og ég gleymdi alveg að lýsa því þegar við ég, Áslaug, Bjarni og Hafdís fórum að hjálpa Bjarna Harðar í prófkjörinu. Á fimmtudaginn var semsagt síðasti sjens að kjósa utankjörfundar og skrifstofunni á Hverfisgötunni átti að loka klukkan fimm. Klukkan 4 var Áslaug búin að vinna og kom heim klukkan eitthvað að ganga 5. Svo var farið til Hafdísar og þá hringt í Bjarna og allir sóttir sem sækja átti. Á leiðinni niður á Hverfisgötu var klukkan svo alveg að verða fimm, en við sluppum inn á síðustu stundu og væntanlega hefur Bjarni þar fengið ein fjögur atkvæði og veitir víst ekki af. Afleiðingar þess frumhlaups að skrá sig í Framsóknarflokkinn eru strax farnar að koma í ljós því í pósthólfinu mínu hjá Snerpu var núna rétt áðan komin tilkynning um þorrablót Framsóknarfélags Kópavogs.
Búinn að ganga frá Atlas reikningunum og á morgun förum við Hafdís e.t.v. á sýningu hjá þeim í Perlunni. Bjarni er að keppa á Skákþingi Reykjavíkur. Kominn með 3 vinninga eftir sex umferðir og keppir í þeirri sjöundu á morgun. Horfði á Íslendinga bursta Ástrali á himstrakeppninni í Þýskalandi.
19.1.2007 | 21:26
Áttunda blogg
Þetta gengur nú hálfilla hjá mér, en eflaust læri ég á þetta með tímanum eins og aðrir. Í blogginu í gær hurfu öll greinaskil og fonturinn er fjandi stór. Annars er það svosem allt í lagi.
Kannski það sé betri hugmynd að skrifa þetta bara hér á blogginu og vera ekkert að blanda Word í þetta. Sjáum til.
Nú er ég semsagt að hugsa um að byrja skrifin fyrir morgundaginn og láta þau vera hér sem uppkast.
19.1.2007 | 21:13
Sjöunda blogg
Eftir ítarlegt bloggfall frá því fyrir jól, ætla ég nú að fara af stað aftur. Moggabloggið er að mínu mati ágætis hugmynd, einkum vegna þess að með þvi er gert afskaplega einfalt og auðvelt að blogga. Einnig myndast hér einskonar bloggsamfélag, sem ég gef nú reyndar ekkert sérlega mikið fyrir. Ég hef talsvert lengi fylgst með ýmsum bloggum (lesið þau og stöku sinnum kommentað á þau) og það hefur svosem ekki háð mér mikið að bloggin séu á ýmsum stöðum. Sumir virðast afar uppteknir af allskonar fídusum sem boðið er uppá hér og hugsa mest um allskyns talningar og vinsældir, en mér finnst þessháttar allt litlu máli skipta. Bjarni lenti í árekstri á miðvikudaginn. Bílarnir báðir sem í árekstrinum lentu voru óökufærir á eftir en enginn slasaðist. Mér finnst líklegt að Bjarni verði dæmdur í rétti. Það er þó ekki alveg öruggt, en kemur í ljós. Hafdís benti mér í gær á timarit.is síðuna. Ég vissi nú svosem af henni en hafði ekki skoðað hana lengi. Ég benti henni svo á að athuga Morgunblaðið frá 26. júní 1980 bls. 32 og hún mér á sama blað frá 14. febrúar 1993 (B-blað) bls. B10-B11. Áslaug fékk í dag bréf frá lögmönnum á Selfossi útaf Ásgautsstaðamálinu. Það skýrist hægt og ég er ekki svo mikið inni í því að það sé ástæða fyrir mig að skrifa um það. Þetta mál hefur bara sinn gang. Eitt af því sem blogg geta eflaust gert nokkuð vel er að þjóna sem tímamælir. Þá á ég við að það sem skrifað er á blogg getur hugsanlega þjónað sem vegvísir til að staðsetja atburði sem fá aukið vægi seinna meir af einhverjum ástæðum. Þarna á ég einkum við blogg eins og mitt sem ekki er lesið nema af mjög fáum og er að sjálfsögðu undir því komið hvernig það verður varðveitt. Sumir virðast greinilega halda að fjöldi fólks bíði málþola eftir að þeir útdeili speki sinni. Ég nefni engin nöfn. Fréttablogg eru sérstakur kapítuli. Stundum geta þau ágætlega þjónað því hlutverki sínu að gefa lesendum smánasasjón af þeim kjaftasögum sem hæst ber í það og það sinnið. Verst er þegar fréttabloggararnir fara að líta svo stórt á sig að mestöll skrif þeirra fara í að skammast út í aðra fréttabloggara og fjölmiðla af ýmsu tagi. Ekki meira í dag. Látum þetta gott heita. Og auk þess legg ég til að Stefán kaninkubloggari láti af heimskulegum ónotum sínum útí moggabloggið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2006 | 02:51
Sjötta blogg
Kannski ég tíundi hér eitthvað um nánustu ættingja sem eru á Netinu og ég veit um. Nú, Atla og Hörpu ásamt fjölskyldu er ég búinn að minnast á. Bjarni Harðar var núna nýlega að opna kosningavef "bjarnihardar.is". Kristín Þóra og Jón eru með vefsíðu fyrir sitt fyrirtæki sem ég held að heiti Garðmenn. Elín er með heimasíðu sem ég hef nú ekki oft skoðað og svo er það náttúrlega Egill með sitt palestínublogg. (Hann er nú reyndar væntanlegur heim núna á Þorláksmessu og ég er viss um að Bjarna og Elínu léttir töluvert). Bjössi er með mikið af myndum á "123.is/blafell" en ekki mikið annað að ég held og Bjarni Sæm. er með myndasíðu á "123.is/lampshadow". Meira er það nú ekki sem ég man eftir en kannski gleymi ég einhverju. T.d. hefur Bjarni S oft verið með eitthvað á einhverjum dularfullum svæðum bæði upplýsingar um skákmót og myndir af listaverkum eftir Áslaugu. Oft hefur staðið til að setja upp myndir af verkum hennar og búa til almennilega heimasíðu undir það en ekki hefur orðið af því. Ég var svo að komast að því mér til skelfingar að ef nafnið mitt er gúglað þá kemur þetta blogg upp. Að vísu er fyrsti linkurinn í eitthvað kryptísku formati, en ekki er erfitt að ráða fram úr því.
Bjarni Harðarson segir á kosningasíðu sinni að hann sé svona skrítinn eins og hann er vegna þess að hann hafi sem 9 ára snáði verið með pabba í viku og lesið með honum íslenska fyndni. Skemmtileg kenning eins og margt sem frá Bjarna hefur komið. Á sínum tíma las ég mörg hefti af íslenskri fyndni. Ágætar bækur og ljómandi skemmtilegar, þó líklega séu þær orðnar skelfing úreltar.
Af einhverjum einkennilegum ástæðum er ein saga úr íslenskri fyndni mér minnisstæðari en margar aðrar. Hún er einhvern vegin á þessa leið: Vörubílstjóri var á leið eitthvert upp í sveit með líkkistu á pallinum. Puttalingur nokkur stoppar hann og biður um far. Farþegi var í framsætinu hjá bílstjóranum svo hann segir honum að hann verði að vera á pallinum. Svo fer að rigna og puttalingurinn skríður ofan í líkkistuna sér til skjóls. Síðan tekur bílstjórinn upp annan puttaling og vísar honum sömuleiðis á pallinn. Þegar bíllinn er síðan að fara af stað aftur rekur fyrri puttalingurinn hausinn upp úr líkkistunnni og spyr hvort hætt sé að rigna. Þeim síðari verður svo mikið um þetta að hann hendist af bílnum og út í skurð. Líklega er mér þessi saga minnisstæðari en ella vegna þess að ég man eftir mynd sem fylgdi henni í bókinni og líklega var hún eftir Halldór Pétursson. Sá sem tók saman íslenska fyndni, Gunnar frá Selalæk, var um margt merkilegur maður, sat m.a. á þingi um hríð, ef ég man rétt. Einu sinni þekkti ég dóttur hans og svo á ég einhvers staðar í dóti bók sem hann gaf út einhvern tíma um miðja síðustu öld (leynilega að líkindum) sem heitir "Apókrýfar vísur", en það er allt önnur saga.
Til skýringar á útliti bloggsins og login nafninu er rétt að taka fram að rautt er minn uppáhaldslitur (Ferrari-rautt segja sumir). Í barnæsku og allar götur síðan var ég oftast kallaður Sæmi af vinum og vandamönnum (stöku sinnum kannski Sæmi næmi eða Sæmi slæmi) og þessvegna man ég að ég varð svolítið foj inni í mér þó ég segði ekki neitt þegar Pétur á Kópaskeri úthlutaði mér mínu fyrsta netfangi fyrir margt löngu og það var saemund@ismennt.is. Sjö er eiginlega uppáhaldstalan mín (Guð fyrirgefur ekki sjö sinnum og ekki sjötíu sinnum heldur sjö sinnum sjötíu sinnum og þess vegna er 491. syndin sú krítíska og veitir ekki af að hafa eitthvað uppá að hlaupa. Einhvern tima var líka gerð kvikmynd sem heitir einfaldlega 491 - en þetta var útúrdúr.) Tómatar fara líka ansi nærri því að vera uppáhaldsfæðan mín og varðandi önnur atriði sem snerta útlitið á blogginu þá er ég bara ekki búinn að læra á það og ekki víst að ég nenni því nokkurntíma.