Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
19.12.2006 | 03:46
Fimmta blogg
Ástæðan fyrir því að slóðin á þetta blogg er saemi7.blog.is er sú að fyrst var ég búinn að tryggja mér saemi.blog.is en klúðraði því svo og þurfti að byrja aftur. Kannski hefði ég getað skrifað bloggstjóranum og fengið hann til að losa um saemi.blog.is en saemi7 er svosem ágætt.
Ég nenni ekki að vera að skrifa um fréttir og pólitík eins og flestir virðast hafa mest gaman af að gera. Mér dettur í hug að eitt geti ég skrifað um sem ekki margir gera. Það er að segja frá því hvernig þau blogg sem ég les oftast koma mér fyrir sjónir.
Eitt er það blogg sem ég læt sjaldan framhjá mér fara en það er bloggið hennar Hörpu Hreinsdóttur. (Nenni ómögulega að setja inn slóðir - á líka eftir að læra það) Bæði er það nú að hún er gift frænda mínum og svo setur hún aldrei neitt útá það þó ég sé stöku sinnum að sníkjublogga þar. Hún er líka prýðilega pennafær og hefur skemmtilegan stíl. Auðvitað er sumt sem hún skrifar óttalegt blaður og raus en bloggskrif hennar hafa að mínum dómi tvo meginkosti. Hún skrifar alveg ótrúlega reglulega og bloggin eru yfirleitt hæfilega löng. Það er að segja frekar löng. Auðvitað eru löng blogg leiðinleg ef þau eru ekki skemmtilega skrifuð. En fátt getur bjargað stuttum bloggum, þau minna bara á símskeyti.
Svo er það náttúrlega aðalgúrúinn, Salvör Gissurardóttir. Hún er nú reyndar svolítið slæm með að það verður stundum ansi langt bloggfall hjá henni og svo á hún það til að týnast. Ég var t.d. lengi að leita að henni á Metamorphosis og fann hana svo fyrir einskæra tilviljun á Moggablogginu. Hún fær hluti svolítið á heilann og bloggar kannski í nokkrar vikur næstum eingöngu um feminisma og síðan um eitthvað annað en það er alltaf gaman að lesa bloggin hennar þó stundum verði þau helst til tæknileg fyrir minn smekk.
Svo les ég náttúrlega palestínubloggið hans Egils og eitthvað var hann nú með á Netinu áður en sú ferð var farin en það var dálítið stopult og tilviljanakennt hjá honum. Mánabloggið les ég líka alltaf öðru hvoru og það er oft gaman að fylgjast með hvernig samskiptum þeirrar fjölskyldu er háttað í Netheimum. Ekkert blogg hef ég þó fundið ennþá eftir Vífil. Það fréttist lítið af honum í bloggheimum nema það sem mamma hans lætur flakka. Atli er t.d. alltaf með sitt gáfumannablogg eða greinaskrif og alveg umdeilanlegt hvort hægt er að kalla það blogg.
Það eru svosem mörg fleiri blogg sem ég les reglulega en ég ætla að láta það bíða betri tíma að fjölyrða um þau. Læt nægja að segja að blogglistinn í "favorities" hjá mér er óheyrilega langur og stundum er ég í því að flytja blogg þar ofar en samt kemst ég aldrei yfir hann allan.
15.12.2006 | 21:31
Fjórða blogg
Þá er komið að fjórða bloggi.
Ótæpt nú ýmsir blogga
álnarlangt þvers og kruss.
Meðvitað styrktir af Mogga.
Margir því gera fuss.
Mér finnst ekki neitt pólitískt við að blogga og sé ekkert athugavert við að Mogginn stuðli að því að sem flestir geri það. Hinsvegar má gera ráð fyrir að öll þau frétta og dægurmálablogg sem nú tröllríða öllu í bloggheimum verði til þess að aðrir miðlar og einkum þó prentmiðlar fari halloka. Það er svo kannski bara eðlilegt, þó sumir mundu kannski kalla það fjörbrot, að óvenjuleg gróska virðist vera að hlaupa í prentmiðla í landinu einmitt núna.
Mér finnst merkilegt að hægt skuli vera að fá fólk til að borga fyrir það sem hægt er að fá nóg af ókeypis á Netinu. Auðvitað eiga sumir meira af peningum en þeir hafa gott af og það að kaupa sér það sem maður vill lesa er auðvitað val. Það sem merkilegast er að frétta úr sölumiðlum ratar þó alltaf fyrr eða síðar á Netið, en auðvitað stundum svolítið afbakað.
Það sem mér finnst merkilegast að ræða um á bloggi er bloggið sjálft. Ég er sannfærður um að það er eitthvað það merkilegasta sem Netið hefur skilað. Athugasemdir eða komment við það sem aðrir hafa skrifað tryggja þegar vel tekst til áhugaverðar samræður. Auðvitað er mjög margt af því sem bloggað er um nauðaómerkilegt eða þá dægurþras sem alls ekki allir hafa áhuga á, en það má þá leiða hjá sér. Flestir hljóta að finna sér þar eitthvað við hæfi ef þeir hafa næga þolinmæði til að leita.
Varðandi fríblöðin sem mjög er í tísku að fjölyrða um núna vil ég bara taka fram að Fréttablaðið berst mjög oft til mín en Blaðið aldrei. Meðan Blaðinu var dreift með póstinum kom það þónokkuð oft til okkar á þeim hjara veraldar sem heitir Kópavogur. Eftir að því var hætt barst það af og til framanaf en núna síðustu mánuðina alls ekki. Morgunblaðið hættum við að kaupa fyrir nokkrum árum.
sb
15.12.2006 | 03:46
Þriðja blogg
Ekki var ég fyrr búinn að setja "annað blogg" inn en ég sá ýmsa galla á þeirri færslu. Fonturinn var of lítill, greinaskil undarleg og svo var ég svo viss um að enginn mundi lesa þetta að ég gáði ekki einu sinni fyrr en á eftir hvort hugsanlega hefði verið sett inn athugasemd.
Þá sá ég að Salvör Gissurardóttir hafði einmitt gert það og það er alveg rétt hjá henni að ég er sá Sæmundur sem hún nefnir. Það væri nú svosem gaman að ræða um Netútgáfuna hér og mál henni tengd en líklega fáir sem hafa áhuga á því.
Ekki veit ég hvernig Salvör hefur fundið bloggið mitt og teljarinn segir að 17 hafi skoðað það en því trúi ég nú varlega.
Rétt áðan (já klukkan að verða fjögur að nóttu) var komið með stærðar jólapakka til mín frá fyrirtækinu sem ég vinn hjá og svo hef ég heyrt að ég fái e.t.v. líka pakka frá MS.
Mér finnst sjálfum mest gaman að lesa blogg sem eru ekki alltof löng og ekki heldur of stutt svo ég held að ég láti þetta nægja að sinni þó stutt sé. Blogga eflaust meira og lengra ef einhverjir lesa þetta og svo ég tali nú ekki um ef athugasemdir verða settar inn.
15.12.2006 | 03:04
Annað blogg
Nokkrir dagar eru síðan ég bloggaði síðast og að sjálfsögðu hafa ekki margir litið hér inn. Meðan engir lesa þetta þá er ástæðulaust að skrifa mikið. Á ýmsu hef ég þó skoðanir og sjálfum finnst mér þær oft merkilegar. Áslaug fékk bréf í gær frá sýslumanninum á Selfossi um að hún ætti smáspildu í Ásgautsstaðalandi við Stokkseyri. Pabbi hennar hafði eihvern tíma fest kaup á einum níunda hluta úr jörðinni og það hefði átt að skiptast á milli þeirra allra systkinanna. Eitthvað fer samt á milli mála hvort bræður hennar hafi e.t.v. verið búnir að láta þennan part fyrir alllöngu á lítið eða ekki neitt. Kemur í ljós.
Þessa dagana erum við aldrei slíku vant með 2 bíla og notum þá til skiptis. Keyptum um daginn Subaru Outback og látum sennilega áður en langt um líður Vovoinn. Ég er búinn að kaupa það sem ég þarf fyrir jólin og byrjaður á vaktasyrpu sem stendur allt fram á Þorláksmessu. Læt þetta duga í bili.
sb
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 03:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2006 | 23:08
Fyrsta blogg
Þetta er nú bara svona til að prófa.
Mér hefur sýnst að Morgunblaðið sé að leggja mikla áherslu á það núna undanfarið að fá sem flesta bloggara. Ég hef nú afar líkið gert af því að blogga, en þó prófaði ég það eitthvað smávegis fyrir allmörgum árum þegar þetta var alveg nýr siður. Þá fór ég eftir því sem Salvör Gissurardóttir sagði mönnum til á sínu bloggi og ég man að ég skrifaði eitthvað smávegis á lén sem hét og heitir e.t.v. ennþá "pitas.com", en það stóð ekki lengi og datt mjög flótlega uppfyrir eins og þetta mun líklega gera líka. Ég er aftur á móti nokkuð duglegur að lesa annarra manna blogg sem er auðvitað allt annar handleggur.
Nú eru hinsvegar allir farnir að blogga og ég geri alveg ráð fyrir að þetta blogg týnist í öllum fjöldanum og þetta á svo sem alls ekki að verða neitt vinsældablog og mér er alveg sama hvort nokkrir lesa þetta. Kannski gera það fáeinir ef þetta gengur sæmilega og ég segi frá því. Sjáum til.
sb
10.12.2006 | 22:56