Sjötta blogg

Ég er að hugsa um að blogga pínu nú, nógur er tíminn. Geri þetta í Word og peista svo í bloggið á eftir. Kannski ekki fyrr en eftir miðnætti svo einhverjir glepjist til að kíkja á þetta ef það verður dálitla stund í nýjustu bloggunum.

Kannski ég tíundi hér eitthvað um nánustu ættingja sem eru á Netinu og ég veit um. Nú, Atla og Hörpu ásamt fjölskyldu er ég búinn að minnast á. Bjarni Harðar var núna nýlega að opna kosningavef "bjarnihardar.is". Kristín Þóra og Jón eru með vefsíðu fyrir sitt fyrirtæki sem ég held að heiti Garðmenn. Elín er með heimasíðu sem ég hef nú ekki oft skoðað og svo er það náttúrlega Egill með sitt palestínublogg. (Hann er nú reyndar væntanlegur heim núna á Þorláksmessu og ég er viss um að Bjarna og Elínu léttir töluvert). Bjössi er með mikið af myndum á "123.is/blafell" en ekki mikið annað að ég held og Bjarni Sæm. er með myndasíðu á "123.is/lampshadow". Meira er það nú ekki sem ég man eftir en kannski gleymi ég einhverju. T.d. hefur Bjarni S oft verið með eitthvað á einhverjum dularfullum svæðum bæði upplýsingar um skákmót og myndir af listaverkum eftir Áslaugu. Oft hefur staðið til að setja upp myndir af verkum hennar og búa til almennilega heimasíðu undir það en ekki hefur orðið af því. Ég var svo að komast að því mér til skelfingar að ef nafnið mitt er gúglað þá kemur þetta blogg upp. Að vísu er fyrsti linkurinn í eitthvað kryptísku formati, en ekki er erfitt að ráða fram úr því.

Bjarni Harðarson segir á kosningasíðu sinni að hann sé svona skrítinn eins og hann er vegna þess að hann hafi sem 9 ára snáði verið með pabba í viku og lesið með honum íslenska fyndni. Skemmtileg kenning eins og margt sem frá Bjarna hefur komið. Á sínum tíma las ég mörg hefti af íslenskri fyndni. Ágætar bækur og ljómandi skemmtilegar, þó líklega séu þær orðnar skelfing úreltar.

Af einhverjum einkennilegum ástæðum er ein saga úr íslenskri fyndni mér minnisstæðari en margar aðrar. Hún er einhvern vegin á þessa leið: Vörubílstjóri var á leið eitthvert upp í sveit með líkkistu á pallinum. Puttalingur nokkur stoppar hann og biður um far. Farþegi var í framsætinu hjá bílstjóranum svo hann segir honum að hann verði að vera á pallinum. Svo fer að rigna og puttalingurinn skríður ofan í líkkistuna sér til skjóls. Síðan tekur bílstjórinn upp annan puttaling og vísar honum sömuleiðis á pallinn. Þegar bíllinn er síðan að fara af stað aftur rekur fyrri puttalingurinn hausinn upp úr líkkistunnni og spyr hvort hætt sé að rigna. Þeim síðari verður svo mikið um þetta að hann hendist af bílnum og út í skurð. Líklega er mér þessi saga minnisstæðari en ella vegna þess að ég man eftir mynd sem fylgdi henni í bókinni og líklega var hún eftir Halldór Pétursson. Sá sem tók saman íslenska fyndni, Gunnar frá Selalæk, var um margt merkilegur maður, sat m.a. á þingi um hríð, ef ég man rétt. Einu sinni þekkti ég dóttur hans og svo á ég einhvers staðar í dóti bók sem hann gaf út einhvern tíma um miðja síðustu öld (leynilega að líkindum) sem heitir "Apókrýfar vísur", en það er allt önnur saga.

Til skýringar á útliti bloggsins og login nafninu er rétt að taka fram að rautt er minn uppáhaldslitur (Ferrari-rautt segja sumir). Í barnæsku og allar götur síðan var ég oftast kallaður Sæmi af vinum og vandamönnum (stöku sinnum kannski Sæmi næmi eða Sæmi slæmi) og þessvegna man ég að ég varð svolítið foj inni í mér þó ég segði ekki neitt þegar Pétur á Kópaskeri úthlutaði mér mínu fyrsta netfangi fyrir margt löngu og það var saemund@ismennt.is. Sjö er eiginlega uppáhaldstalan mín (Guð fyrirgefur ekki sjö sinnum og ekki sjötíu sinnum heldur sjö sinnum sjötíu sinnum og þess vegna er 491. syndin sú krítíska og veitir ekki af að hafa eitthvað uppá að hlaupa. Einhvern tima var líka gerð kvikmynd sem heitir einfaldlega 491 - en þetta var útúrdúr.) Tómatar fara líka ansi nærri því að vera uppáhaldsfæðan mín og varðandi önnur atriði sem  snerta útlitið á blogginu þá er ég bara ekki búinn að læra á það og ekki víst að ég nenni því nokkurntíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband