Tíunda blogg

Breskir eftirlaunaþegar eru í auknum mæli farnir að taka netið fram yfir hefðbundnari tómstundir eins og garðrækt, ferðalög og smíðar.

Tryggingafélagið AXA gerði könnun meðal eldri borgara í Bretlandi og kváðust þátttakendur í könnuninni verja að meðal tali sex klukkustundum á viku á netinu. Þeir versla þar, leita sér upplýsinga og senda vinum og ættingjum póst.

41 af hundraði þátttakenda sagði vefvafrið eitt helsta tómstundagaman sitt, en í öðru sæti var garðrækt og endurbætur á heimilinu, sem 39% nefndu. Ferðalög og gönguferðir voru í þriðja sæti (28%).

Eftirlaunaþegarnir nota netið mest til að senda póst og afla sér upplýsinga. Hátt í helmingur þátttakenda hafði keypt farmiða á netinu, þriðjungur hafði prófað netbanka og 28% fylgdust með fréttum á netinu.

Tveir af hverjum þrem hafa reglulega samband við börnin sín í gegnum netið, og fjórir af hverjum 10 halda þannig sambandi við barnabörnin sín.

Talsmaður AXA sagði það ákaflega ánægjulegt að sjá hversu duglegir breskir eftirlaunaþegar væru við að nýta sér tæknina til að komast hjá streituvöldum.

Þessi frétt á mbl.is vakti athygli mína. Þetta  kemur mér  ekki á óvart  og ég  gæti vel trúað að þessi tilhneiging væri jafnvel  ennþá  sterkari hér á landi. Ég ætla samt ekki að linka í þessa frétt, því mér finnst að margir sem það stunda hér séu með því að gera eitthvað sem samsvarar því að standa á öðrum fæti uppi á fjóshaug og gala: "Sjáið hvað ég er frábær og gáfaður."

Það eru ekki mjög mörg ár þangað til ég kemst á þann aldur sem gerir mig að löglegu gamalmenni eins og stundum er kallað og ég er ekki í neinum vafa um að gott netsamband kemur til með að skipta mig mun meira máli en sjónvarp, útvarp, dagblöð, tímarit og  bækur allt í einum pakka.

Kíkti á teljarann hér á síðunni áðan og er búinn að reikna það út að ég hef að líkindum tvo lesendur. Ekki er það nú mjög mikið, en ég er hvort eð er ekki í neinni vinsældakeppni svo það er í lagi. Ég held að ég viti hverjir þessir lesendur eru, en vil ekki vera að skemma fyrir þeim með því að kjafta frá því.

Atlas-gaurarnir heimta núna VAT-númer á reikningana, en ég er ekki með neitt svoleiðis. Gerði uppkast að bréfi sem hljóðaði upp á það að ef þeir vildu VAT-númer þá mundu reikningarnir hækka.

Hvers vegna blogga menn? Ekki veit ég það og eflaust eru margar ástæður fyrir þvi.

Mér finnst að mörgu leyti sniðugt svona bloggsamfélag eins og Mogginn er búinn að búa til þó ég vilji nú ekki leggja neina pólitíska merkingu í það. Ég er búinn að sjá að sniðugast er að leggja á minnið nöfn þeirra sem maður vill lesa bloggin hjá og fara svo í bloggleitina á forsíðunni. Bookmarklistarnir vilja annars verða svo óralangir hjá manni. Fréttabloggin eru að mörgu leyti ágæt en það er nú svolítill pólitískur fnykur af sumum þeirra.

Nú er rætt um að tvöfalda veginn austur fyrir fjall og menn bíða málþola eftir að vita hvort gert er ráð fyrir 2+2 eða 2+1 vegi í vegaáætlun sem von er á. Á sínum tíma var ég á móti byggingu Óseyrarbrúar en hinsvegar hlynntur Borgarfjarðarbrúnni. Hvalfjarðargöngin fannst mér líka vera góð framkvæmd og mér finnst líklegt að tvöfaldur vegur austur fyrir fjall verði eftir ekki mjög mörg ár talinn góð framkvæmd.

Skelfing er þetta sundurlaust og lélegt hjá mér, en ætli ég láti það ekki samt flakka m.a. vegna þess hve lesendurnir eru fáir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband