Sjöunda blogg

 Eftir ítarlegt bloggfall frá því fyrir jól, ætla ég nú að fara af stað aftur. Moggabloggið er að mínu mati ágætis hugmynd, einkum vegna þess að með þvi er gert afskaplega einfalt og auðvelt að blogga. Einnig myndast hér einskonar bloggsamfélag, sem ég gef nú reyndar ekkert sérlega mikið fyrir. Ég hef talsvert lengi fylgst með ýmsum bloggum (lesið þau og stöku sinnum kommentað á þau) og það hefur svosem ekki háð mér mikið að bloggin séu á ýmsum stöðum. Sumir virðast afar uppteknir af allskonar fídusum sem boðið er uppá hér og hugsa mest um allskyns talningar og vinsældir, en mér finnst þessháttar allt litlu máli skipta. Bjarni lenti í árekstri á miðvikudaginn. Bílarnir báðir sem í árekstrinum lentu voru óökufærir á eftir en enginn slasaðist. Mér finnst líklegt að Bjarni verði dæmdur í rétti. Það er þó ekki alveg öruggt, en kemur í ljós. Hafdís benti mér í gær á “timarit.is” síðuna. Ég vissi nú svosem af henni en hafði ekki skoðað hana lengi. Ég benti henni svo á að athuga Morgunblaðið frá 26. júní 1980 bls. 32 og hún mér á sama blað frá 14. febrúar 1993 (B-blað) bls. B10-B11. Áslaug fékk í dag bréf frá lögmönnum á Selfossi útaf Ásgautsstaðamálinu. Það skýrist hægt og ég er ekki svo mikið inni í því að það sé ástæða fyrir mig að skrifa um það. Þetta mál hefur bara sinn gang. Eitt af því sem blogg geta eflaust gert nokkuð vel er að þjóna sem tímamælir. Þá á ég við að það sem skrifað er á blogg getur hugsanlega þjónað sem vegvísir til að staðsetja  atburði sem fá aukið vægi seinna meir af einhverjum ástæðum. Þarna á ég einkum við blogg eins og mitt sem ekki er lesið nema af mjög fáum og er að sjálfsögðu undir því komið hvernig það verður varðveitt. Sumir virðast greinilega halda að fjöldi fólks bíði málþola eftir að þeir útdeili speki sinni. Ég nefni engin nöfn.  Fréttablogg eru sérstakur kapítuli. Stundum geta þau ágætlega þjónað því hlutverki sínu að gefa lesendum smánasasjón af þeim kjaftasögum sem hæst ber í það og það sinnið. Verst er þegar fréttabloggararnir fara að líta svo stórt á sig að mestöll skrif þeirra fara í að skammast út í aðra fréttabloggara og fjölmiðla af ýmsu tagi. Ekki meira í dag. Látum þetta gott heita. Og auk þess legg ég til að Stefán kaninkubloggari láti af heimskulegum ónotum sínum útí moggabloggið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband