Færsluflokkur: Bloggar
17.12.2020 | 11:50
3039 - Stutt blogg um veiruna og Trump
Repúblikanaflokkurinn í bandaríkjum Norður-Ameríku þarf sem fyrst að losa sig við áhrifin af Trumpismanum. Að sumu leyti má segja að það hafi lengi verið til siðs hjá Repúblikönum þar að vera á móti vísindum og jafnvel að neita staðreyndum. Sumir segja að rekja megi þetta allt aftur til Reagans. Hann var dálítið hallur undir stjörnuspádóma eins og margir muna eflaust. Guðsdýrkunin í bandaríkjunum er á margan hátt undarleg. Allt sem stendur í Biblíunni er af sumum álitið standa framar vísindum. Þróunarkenningin er að minnsta kosti ekki talin standa framar því sem sagt er frá í Biblíunni um sköpun heimsins. Ekki er víst að allt þetta megi heimfæra á repúblikanaflokkinn frekar en demókrataflokkinn. Að minnsta kosti létu þeir Bush-feðgar ekki eins og Trump.
Annars er hægt að segja að ég láti stjórnmál í USA trufla mig of mikið. Vitleysan í Trump og hans fylgisveinum er samt að verða svo mikil að ekki er hægt að láta þetta allt framhjá sér fara. Ekki er annað að sjá en hann vilji egna fylgismenn sína til óhæfuverka. Vitanlega er Biden ekki svar við öllu en samt má gera ráð fyrir að stjórnmál fari um margt batnandi við að losna við Trump. Auðvitað náðaði Ford Nixon á sínum tíma fyrirfram annars hefði hann kannski ekki sagt af sér. Trump mun eflaust reyna eitthvað svipað. Hvað hann gerir 20. janúar á eftir að koma í ljós. Ekki á ég samt von á að hann snúi við blaðinu úr þessu. Þeim fer fækkandi sem trúa honum. Hann rak Barr, en getur ekki rekið McCormack.
Veirufjandinn vefst fyrir mönnum og vel er hægt að ímynda sér að Jólin í ár verði ekki svipur hjá sjón að þessu sinni. Fjölskyldujól í stað kaupmannajóla er eða ætti að vera hugsjón hjá sem flestum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2020 | 09:41
3038 - Þegar veiran stal Jólunum
Get ekki að því gert að mér finnst einhver besta setningin sem orðið hefur til í kófinu sé sú sem er fyrirsögn þessarar blogg-greinar. Aha þarna voru þrír samhljóðar saman hjá mér og þá er hugsanlega betra að aðskilja þá með bandstriki til að ekki geti valdið misskilingi. En ég var semsagt að skrifa um veiruna og þetta var útúrdúr. Henni má bölva og kalla öllum illum nöfnum, en ef svipaðri aðferð er beitt við nafnkenndar persónur, er eins gott að vara sig. Jafvel má ekki segja allt um dýr sem allsekki geta svarað fyrir sig svo mannlegar verur skilji almennilega að minnsta kosti, þvi einhver gæti móðgast fyrir þeirra hönd. T.d. má allsekki segja að einhver tiltekin persóna sé feit. Það verður að vera almenns eðlis, og alls ekki persónugreinanlegt, eins og vinsælt er að segja um það sem neikvætt er. En hvað er neikvætt og hvað er jákvætt? Stundum getur verið erfitt að skera úr um það. En nú er ég kominn lang út fyrir efnið. Ætlaði að tala svolítið um veiruskömmina.
Á flestan hátt má gera ráð fyrir að þessi veirufjandi breyti varanlega hugsunarhætti fólks. Hreinlæti allt og sóttvarnir munu aukast og margt mun breytast sem alls ekki er hægt að sjá fyrir. Þó gera megi ráð fyrir að hér á Íslandi verði áhrif þessa faraldurs meiri fyrir tekjulægri hópa samfélagsins, er ekki hægt að ganga útfrá því að allstaðar annarsstaðar verði útkoman að þessu leyti svipuð. Hugsanlegt er að menningartengd atriði og venjubundin samskipti ráði miklu um það hve alvarleg þessi áhrif verða. Efnahagsleg áhrif þessara sóttvarna og nýju hugsunar verða þó áreiðanlega mikil.
Jafnvel þó bóluefni sé komið til sögunnar verða áhrif þessa faraldurs mikil. Jafnvel er líklegt að áhrifin verði ekki aðeins bundin við árið 2020. Heldur má gera ráð fyrir að víða um heim verði veiran landlæg og hverfi ekki nærri strax. Vel er þó hægt að vona að hér á Vesturlöndum verði faraldurinn ekki sérlega langvinnur úr þessu.
Svo virðist vera að völdum Trumps í USA sé að mestu lokið. Þó efnahagslíf í USA hafi á hans tíð verið með nokkrum blóma þar í landi eru áhrif hans til lengri tíma alls ekki ljós. Alls ekki er heldur hægt að sjá hvað hann muni taka til bragðs í framtíðinni. Hann er ólíkindatól hið mesta. Aðferðir líkar hans til að deila og drottna í stjórnmálum munu þó í framtíðinni væntanlega fara minnkandi. Svo virðist sem eftirmaður hans hafi tekið nokkuð vel á þeim málum sem risið hafa að loknum kosningum þar í byrjun nóvember. Kannski eru það samt einkum áhrifamiklir fjölmiðlar sem það hafa gert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.12.2020 | 07:30
3037 - Trump og kófið
Heimsmálin flækjast enn fyrir mér. Þó er það svo að ég get með engu móti fallist á þá hægri sinnuðu skoðun að lýðræðið sé ómögulegt. Ég er sérstaklega að ræða um þá skoðun hér á Moggablogginu að nauðsynlegt sé að styðja Trump og Co. í viðleitni sinni til að snúa kosningasigri Bidens við. Að mínum dómi er þrískipting valdsins hornsteinn lýðræðisins og ekki til bóta að dómsvaldið taki yfir hlutverk þess. Lýðræðinu í USA hefur hingað til verið treyst. Kosningar fara að vísu fram með ýmsum hætti eftir ríkjum. Það hefur leitt til of mikillar lagalegrar afskiptasemi og mikillar misskiptingar auðs, að því er okkur Evrópubúum og mörgum öðrum hefur fundist. Þeir sem tapa í kosningum sem fara fram með lýðræðislegum hætti verða að sætta sig við það. Þannig er það og þannig verður það að vera. Lýðræðislegar kosningar leiða oft til niðurstöðu sem erfitt getur verið að sætta sig við fyrir suma þeirra sem tapa. Ekki er annað að sjá en með núverandi ástandi í bandaríkum Norður-Ameríku stefni í alvarlega stjórnarfarslega kreppu þar. Hún getur orðið lýðræðinu sjálfu mun hættulegri en drepsótt sú sem herjað hefur á heimsbyggðina allt þetta ár.
Ég er að verða 80 ára gamall. Löngu hættur að vinna. Farinn að sjá heiminn í nýju ljósi. Þykist vera afskaplega gáfaður, en er það hugsanlega ekki. Viðurkenni að sumt í Sjónvarpi allra landsmanna hugnast mér sæmilega. Finnst til dæmis föstudagskvöldin hjá RUV ómissanandi. Bæði er það þátturinn Kappsmál og Gísli Marteinn sem leika sér oft skemmtilega að tungumálinu. Bókmenntaþátturinn sem Egill Helgason stjórnar er oft áhugaverður en formið á honum er orðið ansi gamaldags og þreytulegt. Svo horfi ég stundum á Landann, sem mér finnst oft njóta fjölbreytninnar og stuttaralegrar umfjöllunar. Innslög úr þessum tveimur síðastnefndu þáttum er Ríkissjónvarpið í auknum mæli farið að nota til uppfyllingar og er það vel.
Kannski er okkur jarðarbúum nú loksins að takast að ná tökum á Covid-19 veirunni en samt óttast ég að hún verði lengi viðloðandi mannkynið. Fram hefur komið að við Íslendingar getum varla búist við að fá bóluefni fyrr en eftir Jól. Við því er ekkert að segja. Við erum óttalega smá og lítt áberandi í þjóðahafinu og njótum engra yfirburða þar. Reynum umfram allt að fylgja þeim sóttvarnarreglum sem okkur hefur verið uppálagt að gera, þó okkur sýnist þær stundum einkennilegar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.12.2020 | 15:28
3036 - Bóluefni
Að sjálfsögðu hugsa allir mest um bóluefni og Covid-19 um þessar mundir. Sagt er að Canada hafi tryggt sér nægilega mikið af bóluefni til þess að bólusetja alla að minnsta kosti 5 sinnum. Þeir sem mest græða á þessu bóluefni eru lyfjarisarnir. Ríku þjóðirnar munu sjá til þess að þeir sem vilja munu verða bólusettir. Sem betur fer erum við Íslendingar í hópi ríku þjóðanna og munum sigrast á þessum veirufjára. Þriðji heimurinn svokallaði mun áfram berjast við hana og ekki eykur þetta á jafnrétti milli hinna ríku og þeirra snauðu. Að öllum líkindum verða einhver ár þar til þriðji heimurinn mun ná tökum á þessari veiru.
Jólahald verður með breyttu sniði að þessu sinni ef að líkum lætur. Vel getur samt verið að við Íslendingar slökum það mikið á klónni að ein bylgja ennþá af þessum faraldri skelli á okkur. Miðað við marga aðra má samt gera ráð fyrir að við sleppum tiltölulega vel frá þessu öllusaman. Ef vil tekst til mun ríkisstjórnin reyna að eigna sér þann árangur í kosningunum sem væntanlega fara fram í september næstkomandi. Ef ekki þá verður Þórólfi og Co. kennt um. Þeir sem allra mest vilja slaka á í baráttunni eru sennilega mikill minnihlutahópur, samt er vel hugsanlegt að hann fari stækkandi.
Að mínu viti eru það einkum tvær stefnur sem takast á í stjórnmálum. Bæði hér á landi og víða annarsstaðar. Vel má kalla þessar stefnur einangrunarstefnu og opingáttarstefnu. Allra stærstu þjóðirnar hugsa þó fyrst og fremst um eigin hag og völd. Önnur atriði eru aftar í röðinni þar. Á undanförnum árum hefur opingáttar- og samvinnustefnan verið ríkjandi víða um lönd. Einangrunar og föðurlandsástarstefnan hefur þó verið að vinna á. Enginn vafi er á því að þau ríki sem áður og fyrr voru undir oki Sovétríkjanna hneygjast mjög til einangrunarstefnu í þessum skilningi. Engin ástæða er til að líta á andstæðinga að þessu leyti sem einhverja óvini. Allir vilja gera sitt allra besta. Jafnvel stjórnmálaflokkar. Á margan hátt er því ráði beitt að sundra fólki frekar en sameina í stjónmálaerjum af öllu tagi. Samvinna og jafnrétti vinnur þó í heildina á í heiminum með tímanum.
Skrítið er að fylgjast með stjórnmálum í USA. Enginn vafi er á því að Trump hefur leitast við að auka viðsjár milli fólks og flokka, frekar en að sameina. Að þurfa að setja traust sitt á Biden í staðinn er hugsanlega ekki til nokkurra bóta. Fyrirsjáanleiki mun samt eitthvað aukast, en í heildina mun stefna Bandaríkjanna ekki breytast hót.
Kófþreyta er nú mjög farin að gera vart við sig. Ekki mun hún minnka um Jólin og hugsanlega mun hún valda ýmsum vandræðum.
Nú er búið að fresta augna-aðgerðinni á mér og er nú útlit fyrir að ég fái nýjan eða nýja augasteina þann 21. desember og ætti það að vera allt í lagi því mér skilst að fólk sé afar fljótt að jafna sig á þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.12.2020 | 11:44
3035 - Borgarlínan
Borgarlínan er víst talsvert að bögga Reykvíkinga um þessar mundir. Þegar ég og mitt fólk flutti úr Kópavoginum og á Akranes, var það ekki til þess að fá tvöfaldan atkvæðisrétt til Alþingis þó það fylgdi reyndar með í kaupunum. Ég sé núna að það hefur líklega verið til þess að forðast Borgarlínuna. Hún verður ansi dýr á endanum og kemur ekki á neinn hátt í staðinn fyrir Sundabrautina sem við Vestlendingar höfum beðið eftir nokkuð lengi. Guðlaun fyrir göngin samt. Í framtíðinni gæti hringvegurinn þó legið fyrir vestan eða sunnan við Akrafjall og ástæðulaust finnst mér að fara innmeð Hvalfirðinum til þess eins að komast nógu nálægt Grundartanga.
Mörg rifrildisefnin eiga eftir að koma í ljós í sambandi við Covid. Bretar hafa nú viðurkennt bóluefnið frá Pfizer og eru sennilega fyrstir til þess. Ekki er almennilega vitað hvernig það rímar við Brexit, en líklega veldur það engum vandræðum. Verið getur að við Íslendingar fáum þetta bóluefni strax í janúar. Vonum að Kófið hverfi sem fyrst. Mín vegna mega blessaðir túrhestarnir svosem taka sér frí áfram, en ekki er víst að allir séu mér sammála um það.
Kínverjar létu víst ómannað geimfar lenda á tunglinu í gær, 1. desember. Tilgangurinn er að fá sýni af tunglgrjóti. Árið 2013 urðu þeir víst fyrstir til að láta geimfar lenda á bakhlið tunglsins. Hef svolítið velt því fyrir mér hvernig þeir hafa samband við það geimfar. Kannski Stjörnu-Sævar geti svarað því. Eflaust er hann mun betur að sér um slík mál en ég. Svo er Brímarinn alltaf möguleiki í þessu eins og öðru.
Alltaf styttast bloggin hjá mér, en við því er ekkert að gera. Ég er bara svona.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.12.2020 | 04:30
3034 - Af nýyrðum o.fl.
3034 Af nýyrðum o.fl.
Nú hefur William Barr, sjálfur dómsmálaráðherra Trumps snúist gegn honum í svindlmálinu og lýst því yfir að engar vísbendingar hafi komið fram um skipulagt svindl. Einn maður auk Trumps sjálfs, Rudy Giuliani fyrrum borgarstjóri og einkalögfræðingur Trumps forseta heldur því þó ennþá fram að um slíkt hafi verið að ræða. Ekki er víst að öllu fleiri séu sömu skoðunar í raun. Sá sem einu sinni var einkalögfræðingur Trumps situr víst í fangelsi núna. Hringurinn þrengist. Bandarísk stjórnmál halda þó áfram að vera spennandi. T.d. verður ekki ljóst fyrr en í janúar hvort repúblikanar halda meirihluta sínum í öldungadeildinni. Einnig gæti ýmislegt gerst í sambandi við staðfestingar þeirrar deildar á sumum embættum í ríkisstjórn Bidens.
Talsvert margir hafa lesið mitt síðasta blogg. Held jafnvel að þetta sé í fyrsta sinn sem fyrirsögnin hjá mér er bara tölustafir. Sennilega hafa samt engir gáð að því nema ég hvernig blogg hjá mér númer 2020 lítur út:
Það ber ekki á öðru. Strax er fólk byrjað að lesa. Best að ég byrji líka strax á að skrifa. Verst ef mér dettur ekkert í hug til að skrifa um. Var að enda við að skoða myndir hjá Atla úr Grikklandsferðinni. Hann hefur vandað sig talsvert við þetta og það er allt annað að skoða þetta en sumar myndaseríur þar sem öllu er hent á fésbókina, ónýtu sem nýtu. Hefði sjálfur getað sett þónokkuð margar myndir frá Kanaríeyjum á sínum tíma en þær eru orðnar fullgamlar núna. Sá líka í gærkvöldi nokkrar myndir af Tinnu og Dre hjá Guðrúnu Völu. Fésbókin er að verða myndasýningarstaður nr. 1 og mér líst vel á það.
Ég er eiginlega alveg búinn að taka sagnirnar að lana og larpa í sátt. Ætla samt að gera skilning á þeim að umtalsefni hér því ef ég misskil þær eitthvað er hugsanlegt að fleiri geri það. Báðar eru þær dregnar af amerískri skammstöfun. Lana er dregið af Local Area Nework. Og larpa af Live action role playing. Þannig skil ég málið a.m.k.
Að lana er þá að fást við eða starfa á litlu tölvuneti, sem takmarkað er við eitthvert ákveðið svæði. Að larpa er öllu flóknara. Live action role playing má segja að sé hlutverkaleikur af hvaða tagi sem er. Live Action skil ég einfaldlega þannig að ekki sé um sýndarveruleika að ræða. Kann ekki að skýra það betur.
Rætt var um þetta á Orðhenglinum um daginn og þá sló ég um mig með því að kasta því fram að laser væri amerísk skammstöfun. Ekki er víst að allir þekki þá styttingu en mér skildist einhverntíma að það stæði fyrir: Light Amplification by Simulated Emission of Radiation.
Það var nú þá. Þetta var skrifað í júlí 2013 held ég. Þessar sagnir virðast ekki hafa náð mikilli fótfestu í málinu. Þó getur vel verið að þær séu eitthvað notaðar í vissum kreðsum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.11.2020 | 06:26
3033 - 2020
Annus horribilis sagði Englandsdrottning eitt sinn þegar hún þurfti að slá um sig með latínu. Enskumælandi gera það oft að slá um sig með latínu eða frönsku. Hún átti nú við eitthvað annað ár og er alveg hundgömul, bráðum 100 ára, svo lítið er að marka hana. Samanborið við hana er ég hreinasta unglamb, ekki orðinn áttræður.
Samt er það svo að ársins í ár 2020, verður áreiðanlega lengi minnst sem eins hins hryllilegasta sem við flest höfum lifað. Hvurslags er þetta? Árið er ekki búið, þarftu endilega að láta svona? Gæti einhver sagt. Satt er það árið er ekki búið, en síðustu mánaðmót þess eru á næsta leyti. Dag skal að kveldi lofa, en mey að morgni, segir máltækið. Ekki er þvi að neita að landið er aðeins að rísa. Hvað mega þeir segja sem upplifðu árið 1918?
Væntingastjórnun sagði Kári. Og rataðist enn einu sinni satt orð á munn. Þríeyið hefur sennilega ekki staðið sig nógu vel einmitt þar. Kannski er Kári Samviska þjóðarinnar eins og tímaritið Spegillinn þóttist einu sinni vera.
Kannski er ég alltof fljótur á mér að útnefna árið í ár annus horribilis, en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Ég er nefnilega því marki brenndur að vilja alltaf vera að slá um mig með málsháttum eða spakmælum. Þegar árið er líðið í aldanna skaut verða nefnilega margir mér merkari til þessarar útnefningar. Þetta segi ég ekki einungis til að slá um mig, en sleppum því. Kófið kemur vonandi ekki aftur. Kannski náum við okkur á strik þegar því lýkur. Hver veit? Ætti kannski að tala um eitthvað annað.
Þórður er dauður og það fór vel segir einhvers staðar. Ekki er víst nóg með að ég slái um mig með spakmælum, heldur fá alkunn ljóð ekki að vera í friði fyrir mér. Svo er að sjá að tekist hafi á þessu mikla ári að kveða sjálfan Trump í kútinn. Ekki er víst að Biden verði neitt betri, en þó er hægt að vona. Að minnsta kosti er vel hægt að vona að hann og stjórn hans verði venjulegri og fyrirsjáanlegri. Kannski hefur Trump breytt bandarískum stjórnmálum varanlega. Ekki á ég von á að borgarastyrjöld brjótist út í bandaríkjunum, þó Trump vilji helst ekki fara. Væntingastjórnunin hefur sennilega mistekist hjá honum.
Þeir sem halda vilja áfram með annus horribilis þemað og sjá fótboltann sem upphaf og endi alls geta svosem minnst á Diego Armando mín vegna, en ég er að hugsa um að slá botninn í þetta blogg núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.11.2020 | 09:26
3032 - Pólitík og aðrar fíknir
Mig minnir að það sé 14. desember sem svonefndir kjörmenn í forsetakosningunum í bandaríkjunum koma saman og greiða formlega atkvæði um það hver skuli vera forseti næstu fjögur árin. Líklega er miðað við að marktækar kærur um kosningsvindl og þessháttar verði að vera komnar fram fyrir 8. desember. Trump núverandi forseti hefur lýst því yfir að hann muni á réttum tíma yfirgefa Hvíta húsið ef kjörmennirnir koma sér saman um að fleiri en 270 styðji Joe Biden. Ekki er mér kunnugt um að efast hafi verið um það. Svo mun líka áreiðanlega fara. Trump mun samt ekki viðurkenna ósigur heldur reyna að halda baráttu sinni áfram. Að mörgu leyti hefur hann með því dregið úr trausti því sem menn hafa hingað til haft á bandarískum kosningum.
Strax frá fyrsta degi blasa tröllaukin vandamál við Joe Biden. Samt má búast við aukinni ró yfir þessu valdamikla embætti. Ekki er hægt að búast við að embættið verði okkur Íslendingum hagstæðara en verið hefur. Samt sem áður má búast við talsverðum breytingum og vissulega verður fróðlegt að fylgjast með þeim.
Á margan hátt er það til marks um undarlega pólitík á Íslandi að hægt skuli vera að setja lög á verkföll. Að Píratar skuli hafa verið þeir einu sem atkvæði greiddu á alþingi á móti þessu er jafnvel enn skrýtnara. Samfylkingin sat að vísu hjá, en það er ekkert sérlega skrítið. Ekki geta allir uppgjafa sjálfstæðismenn farið í Viðreisn.
Ætli skrýtið og skrítinn sé eina orðið á íslensku sem ekki breytir um merkingu eða verður vitlaust eftir því hvort skrifað er einfalt-í eða ypsilon-í?
Ég er sammála Helga í Góu með það að Hótel Saga er tilvalið elliheimili. Á sínum tíma var ég svolítið ósáttur við þessa stóru byggingu sem skyggði mjög á Háskóla Íslands, þegar komið var í bæinn úr austri eins og flestir gerðu og gera enn. En svo má illu venjast að gott þykji. Ungt fólk sótti eitt sinn skemmtanir á Hótel Sögu, en er sennilega hætt því. Margir aldraðir eiga vafalaust ágætar minningar þaðan. Illa hefur gengið að reka þetta hótel að undanförnu hefur mér skilist og e.t.v. mætti sem best gera það að elliheimili. Auðvitað yrði það ekki ókeypis, en á það er að líta að breytileg afkoma á ekki síður við um aldraða en aðra.
Eiturlyfjafíkn er hættuleg. Að minnsta kosti er það svo í hinum vestræna heimi sem við lifum í. Spilafíkn er að því leyti slæm að hún skilur ekkert eftir. Ýmsir hafa komist uppá lag með að græða vel á þessari fíkn. Líka er hægt, eins og hér á landi er gert, að spara ríkinu útgjöld með þessum gróða. Söfnunarfíkn er að því leyti betri að hún skilur eitthvað eftir. Flestir safna allskonar hlutum en auðvitað er hægt að safna ýmsu öðru. Fíknsortir geta verið margskonar. Allir eru haldnir einhverskonar fíkn. Held ég að sé. Sjálfur er ég sennilega, núorðið a.m.k., haldinn einhvers konar bloggfíkn. Ekkert af þessu er samt hægt að taka með sér þegar haldið er í handanheimana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2020 | 13:46
3031 - Trump-tilraunin
Að sumu leyti er ég sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum. Á sínum tíma (ætli það hafi ekki verið svona á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.) las ég tímritið Time alveg í tætlur. Einkum hafði ég þá áhuga á stjórnmálum í bandaríkjunum og las næstum allt sem ég náði í og fjallaði um þau. Þau stjórnmál hafa mikil áhrif á heimsmálin og sennilega er það þessvegna sem ég hef næstum ótakmarkaðan áhuga á þeim. Að sumu leyti má segja að þar sé um að ræða lýðræði í sinni tærustu mynd. Í bandaríkjunum er sá suðupottur ólíkra menningarheima sem víða vantar. Í Evrópu má til dæmis segja að ólíkir menningarhópar hjá ólíkum þjóðum hafi mikil áhrif á stjórnmálin. Að mörgu leyti er Evrópusambandið tilraun til að sameina pólitíska hugsun álfunnar og koma fram sem mótvægi við heimslögregludraumum bandaríkjanna.
Að einu leyti virðast stuðningsmenn Trumps hafa rétt fyrir sér varðandi framboð Bidens. Áhrifamenn innan demókrataflokksins vildu miklu heldur fá Biden í framboð en Sanders eins og leit út fyrir um tíma. Sanders hefði sennilega ekki unnið Trump. Bandaríkjamenn eru einfaldlega ekki nógu vinstrisinnaðir til þess. Að mörgu leyti má auðvitað líta á Biden sem fulltrúa stjórnvaldaklíkunnar. Trump-tilraunin mistókst þó herfilega.
Man sérstaklega eftir því að þetta var á tímum gíslatökunnar í Teheran og Carter-stjórnarinnar, sem ég las Time mikið. Að þessu bý ég enn, þó hinn ótæmandi áhugi minn á bandarískum stjórnmálum hafi ekki vaknað aftur fyrr en nú á síðustu árum. Sennilega er óhætt að segja að Donald Trump hafi vakið þennan áhuga minn úr dvala.
Einnig fylgdist ég með vexti EU á þessum árum. Einkum inngöngu Bretlands og Danmerkur enda var það einmitt um þetta leyti, sem ég fór fyrst út fyrir landsteinana. Man vel eftir að Krag sagði af sér í kjölfar inngöngunnar. Var einmitt staddur í Danmörku þá.
Það er fleira sem ég hef áhuga á en stjórnmál í bandaríkjunum. T.d. íslensku máli. Þar er einkum tvennt sem truflar mig þessa dagana. Hvort er hvassara stormur eða rok? Og er nokkur munur á merkingu orðanna Fjallasýn og Dagsbrún? Ég á ekki við stéttarfélög og þessháttar, heldur það að austurhimininn byrjar að lýsast. Sjálfur nota ég þau í svipaðri merkingu og álít storm vera hvassari en rok. Varðandi fjöllin miða ég einkum við Akrafjall og Esjuna sem bæði eru í austurátt frá mér séð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.11.2020 | 05:19
3030 - Trump bakkar svolítið
Jæja, nú er Trump búinn að gefa það mikið eftir að líklegt er að stjórnarskiptin í bandaríkjunum gangi því sem næst eðlilega fyrir sig. Ekki er með öllu hægt að líkja þessum stjórnarskiptum saman við það sem gerðist árið 2000. Hlutur forsetans er allt annar. Samt sem áður er hægt að vonast til að skiptingin gangi sæmilega. Þrýstingur á Trump forseta innan repúblikanaflokksins var mjög að aukast, en hann er samt ekki búinn að gefast upp. Ég spáði því fyrir löngu að Biden yrði næsti forseta bandaríkjanna, en bjóst við að sigur hans yrði jafnvel stærri en raun varð á og að Trump mundi strax viðurkenna ósigur sinn. Sem ekki varð.
Auðvitað mætti margt segja um bandarísk stjórnmál. Brexit andstæðingur virðist Biden vera og samskipti hans og utanríkisráðherrans í stjórn hans við forsætisráðherra Bretlands verða án efa forvitnileg. Í heildina tekið má búast við að meiri ró færist yfir stjórnmálin í þessu stóra landi. Trump hefur þó í forsetatíð sinni alið á margan hátt á sundrungu innan þeirra og heldur því e.t.v. áfram. Ríkisstjórn er Biden strax byrjaður að mynda og reynslu og fjölbreytilegan bakgrunn virðist hann einkum leggja áherslu á.
Svo vildi til að ég var andvaka í nótt og þessvegna er ég svona fljótur með fréttirnar. Nenni samt ekki að skrifa meira núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)