Færsluflokkur: Bloggar
23.4.2021 | 14:14
3059 - Það er best að halda áfram
Það hefur svo sannarlega verið ætlum mín að blogga oftar en ég hef gert að undanförnu. Mér finnst afar fátt gerast nú um stundir. Það er þá helst að eitthvað gerist sem mig snertir en það má mikið vera ef sjálfmiðun mín hefur ekki farið minnkandi að undanförnu. Samt er það ekkert sérlega vitlaust að segja einkum frá sjálfum sér í blogginu sínu.
Búið er að bólusetja mig í bak og fyrir og það með fizer í bæði skiptin. Rafveningu átti ég að fara í síðastliðinn þriðjudag en þegar ég var búinn að leggjast í aðgerðarrúmið og búið að tengja mig við allskonar vélar og tæki þá var því lýst yfir að ég væri í takti og þarflaust væri að venda mér. Með það fór ég og beið svo eftir Áslaugu fyrir utan Lansann.
Eiginlega er ekkert í fréttum nema bóluefni og eldgos. Ég var eiginlega bólusettur við eldgosum í Skjólkvíargosinu í Hekluhlíðum árið 1970. Já ég var þar og það var að mörgu leyti fyrsta túristagosið á landinu. Ógleymanlegur atburður. Surtseyjargosinu man ég líka eftir og öllu af þessu taginu sem gerst hefur síðan. Ég ætla ekkert að fjalla um mína upplifun núna, en skil þessar vinsældir vel og skora á alla sem treysta sér til að fara og sjá Reykjanesgosið sem nú stendur yfir.
Einu sinni hafði ég svo mikinn áhuga á Formúlu eitt að mér fannst að allir ættu að þekkja á munstrinu á hjálmunum hvaða ökumenn um væri að ræða. Ökumenn liggja (eða lágu þá) á því lúalagi að fá stundum lánaðan hjálm hjá öðrum ökumönnum. Það gat ruglað mann og auglýsendur voru væntanlega ekki alltaf hrifnir. Að þekkja á litnum hvaða lið ætti hvern bíl, fannst mér vera líkt og að þekkja muninn á hægri og vinstri.
Stjórnmálin eru ekkert spennandi núna og verða það sennilega ekki fyrr en nær dregur kosningum. Framboðslistarnir vekja þó stundum athygli og umræður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2021 | 08:10
3058 - Um Villa Vill einu sinni enn
Svolítið er það nú aum útivera að fara bara út á lokaðar svalir, miðað við að fara í klukkutíma morgungöngu eins og ég er vanur. Annars er frábært gluggaveður núna og morgunganga hafin hjá hundaeigendum og fleirum.
Uppgötvaði í gær að Vilhjálmur Örn í Köben hefur gert mér þann heiður að vitna í mín bloggskrif og meira að segja seilst um hurð til að styðja mál sitt:
Í Hveragerði vann Wolf von Seefeld hjá Gunnari Björnssyni í Álfafelli, efst í bænum. Hjá Gunnari unnu margir útlendingar og reyndar fleiri gyðingar en nasistar. Sæmundur Bjarnason, sem er með áhugaverðari bloggarum landsins, vegna stíls og innihalds, minntist lettneska barónsins á bloggi sínu 14.11.2012:
Þetta skrifar Vilhjámur og vitnar í mig:
Þann 1. september 1958 vann ég í Álfafelli hjá Gunnari Björnssyni og hef verið 15 ára gamall þá. Ástæðan fyrir því að ég man þetta svona vel er að þennan dag var íslenska fiskveiðilögsagan færð út í 12 mílur, ef ég man rétt. Þann dag var starf mitt m.a. að þvo skyggingu af rúðunum í blokkinni sem var áföst vinnuskúrnum. Í Álfafelli vann konan hans Eyjólfs hennar Svanborgar. Hún var þýsk og oftast kölluð Eyfa mín. Af öðrum sem unnu hjá Gunnari um þetta leyti man ég best eftir Hansi Gústafssyni og Lettneska baróninum. Hann var nú víst bara af barónsættum og talaði svolitla íslensku. Einhverntíma var ég að tala um barónstitilinn við hann og hann gerði heldur lítið úr honum og sagði að íslendingar væru allir af barónsættum. Þetta datt mér í hug þegar ég las um ættrakningu the King of SÍS.
Já, svo gekk þessi SS-doktor í Félag Íslenskra fornleifafræðinga, sem enn hefur ekki veitt honum neinn heiður sem öðrum íslenska ríkisborgaranum með doktorspróf í einhvers konar fornleifafræði. Líklega engin þörf á því.
Ekki veit ég hvað ég hef átt við með þessu the King of SÍS en þetta hlýtur að vera rétt hjá Villa. Sjálfur hef ég forðast að vitna í sjálfan mig. Álít mig ekki ennþá vera kominn á forleifastigið þó ég sé farinn að eldast.
Annars finnst mér margt athyglisvert í skrifum Vilhjálms, en samt álít ég hann óhóflega sjálfmiðaðan og gyðingasýki hans jaðra við áráttu.
Um fréttir dagsins og fleiri smámuni ræði ég ekki. Hvað þá um stjórnmál eins og tíðkast mjög hér um slóðir. Jafnvel að menn fái línuna sína hérna. Villi í Köben hefur ekki alltaf skrifað lofsamlega um mig svo þetta er líklega tilraun hans til að viðurkenna að fleira sé til í lífinu en fornleifafræði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2021 | 06:53
3057 - Bara að láta vita af mér
Það er svosem heilmikið að gerast þessa dagana. Nenni ekki að skrifa um það sem allir skrifa um: Eldgos, bóluefni og þess háttar. Þó hef ég skoðanir á því öllu. Verst hvað þær breytast ört. Þegar ég lít út um gluggann er all hvítt. Þetta er alvöru páskahret. Metra að segja hér á Akranesi er svolítill snjór. Vorandi fer hann fljótlega. Snjór og hálka eru mínir verstu óvinir. Ég er orðinn svo gamall.
Horfði í gærkvöldi á þáttinn í sjónvarpinu um Skúla Helgason. Á bókina Saga Kolviðarhóls. Mamma vann nefnilega einu sinni þar, að ég held. Annars veit ég fremur lítið um foreldra mína. Eiginlega alveg skammarlega lítið.
Vilhjálmur Örn í Köben skrifaði mér um daginn um lettneska baróninn í Álfafelli. Einhver tók viðtal við mig um Concordiu Jónatansdóttur fyrir nokkru. Veit ekki hver það var, en held að hann hafi tekið það upp.
Ég ætti kannski að halda áfram að blogga. Fer sennilega í rafvendingu í næstu viku. Veit svosem ekki hvað það þýðir. Ætti kannski að fræðast svolítið um það á Netinu.
Sem betur fer eru það ekki margir sem lesa þettta bull í mér. Einhverjir virðast samt gera það.
Best að hafa þetta sem allra styst, þá talar maður síður af sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.3.2021 | 21:58
3056 - Marsblogg
Ef ég ætla mér að verða einhvertíma góður í blogginu þá veitir mér ekkert af að halda áfram við það. Eiginlega get ég skrifað alveg þindarlaust hugleiðingar svipaðar þessari. Kannski yrði það heldur þunnur þrettándi þegar yfir lyki. Mér finnst samt skárra að lesa hugleiðingar sem þessar en að endursegja einhverja endalausa vellu úr sjónvarpinu. Nær væri að eyða tímanum í að horfa á vitleysuna. Alltaf gæti skeð að ég skrifaði eitthvað sem vert væri að lesa. Nú er ég reyndar bara að skrifa til þess að skrifa. Það er ömurlegt. Satt að segja óttaleg hringavitleysa. Mér leiðist að skrifa um stjórnmál þó þar sé í sjálfu sér alltaf eitthvað til að skrifa um. Stjórnmálafólk er oft svo vitlaust að auðvelt væri að skrifa um það sem það lætur sér um munn fara. Þó ekki sé nema til að leiðrétta mestu vitleysurnar. Verst ef leiðréttingarnar eru vitlausari en upphaflega vitleysan. Svo gæti alveg farið því ég treysti aldrei sjálfum mér fyllilega.
Þetta eftirfarandi vísukorn er áreiðanlega tilkomið til mín frá mömmu minni eða ömmu. Mér finnst örninn vera kvenkenndur þarna og hefur alltaf fundist það. Sennilega er þetta með öllu meiningarlaust. Bara gamall húsgangur. Bágt á ég með að trúa því að þessar tvær gæðakonur sem ég minntist á hafi farið að finna uppá þessu sjálfar. Er þetta vísa eða ekki? Ég er alls ekki viss. Vel getur verið að þetta sé á einhvern hátt afbakað en svona man ég þetta og finnst það ekki hafa verið hluti að einhverju stærra.
Kalt er mér á klónum
kúri ég einn í sæng
heitara var mér forðum
undir arnar minnar væng.
Febrúar!!! Er virkilega orðið svona langt síðan ég bloggaði síðast? Ekki get ég látið heilan mánuð líða án þess að blogga pínulítið. Einhverntíma var ég svolítið byrjaður, en ekkert varð úr neinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.2.2021 | 11:16
3055 - Bakteríuveiðar
Það þýðir ekki annað en blogga eitthvað ef maður ætlast til að einhverjir lesi bloggið manns. Einu sinni ætlaði ég að verða aðal-ellibloggari landsins en það gengur víst ekki. Þó eru ekki margir, að minnsta kosti hér á Moggablogginu, sem hafa í gegnum tíðina bloggað meira en ég. Áður en Gúgli kom til sögunnar besservissaðist ég heilmikið en þeir sem þannig eru virðast vera svo margir að það er ekki neitt merkilegt. Þar að auki er ég nokkuð góður í réttritun, og þessvegna var það sem ég byrjaði að blogga. Samt er ég áberandi illa að mér í greinarmerkjafræði. Kommusetningar eru mér til dæmis að mestu leyti lokuð bók. Nú er ég að hugsa um að skrifa eitthvað um þær bækur sem ég er að lesa hverju sinni.
Bókin sem ég er að lesa núna heitir bakteríuveiðar og er eftir Paul de Kruif (1890 1971) og gefin út árið 1935. (á frummálinu 1926). Þýðandi er Bogi Ólafsson og hún er gefið út af hinu Íslenska Þjóðvinafélagi. Ég held að þessi bók heiti Microbe Hunters á frummálinu. Þetta er ákaflega spennandi og vel skrifuð bók og ég er svona hálfnaður með hana og búinn að lesa um Leeuwenhoek, Spallanzani, Pasteur, Koch, Roix og Behring og óhætt er að segja að hún hefur allsekki valdið mér vonbrigðum þó gömul sé. Einu sinni var ég með fordóma fyrir gömlum bókum en það er alveg óþarfi ef um er að ræða bækur af þessu tagi. Þessi bók hlýtur að hafa verið vinsæl á sinni tíð.
Hef verið að velta því fyrir mér undanfarið hvort einhverfa, asperger, introvert og jafnvel ADHD séu ekki náskyldir sjúkdómar. Veit að asperger og einhverfa eru það en er í meiri vafa um hitt. Jafnvel mætti bæta lesblindu í þennan hóp, en þá fer að verða dálítið þröngt þar. Á sennilega eftir að minnast á þetta seinna. Er núna að lesa bók á ensku um Asperger heilkennið (höfundurinn var og er haldinn því.) Þar að auki hefur Þorsteinn Antonsson skilgreint sjálfan sig þannig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2021 | 17:24
3054 - Trump að hverfa
Veit ekki af hverju það er sem ég blogga svona sjaldan núorðið. Einhver hlýtur ástæðan að vera. Ekki er það útaf kófinu. Ég þrífst beinlínis af því að þurfa ekki að eiga mikið saman við aðra að sælda. Löngu hættur öllu kossaflensi, handaböndum og þessháttar. Hef ekki einu sinni fengið kvef síðan Covid-19 skall á. Sú áskelling hefur á margan hátt orðið mér til mikillar blessunar. Auðvitað eiga sumir um sárt að binda vegna kófsins. Svo er mér sagt og allir fjölmiðlar eru uppfullir af þessu. Þegar fyrsta bylgjan skall á var maður jafnvel hálfhræddur við hurðarhúna og lyftuhnappa. En ekki lengur. Gott ef þetta eru ekki orðnir vinir mínir. Þegar ég fer út í mína morgungöngu snerti ég þá berhentur eins og ekkert sé. Annars ætlaði ég ekkert að blogga um þetta. Bara vera með í þessum leik, sem bloggið óneitanlega er. Sem betur fer er hann ekki erfiður.
Nú er kominn tími til að þykjast vera voða gáfaður. Þúsundáraríkið er ekkert nær núna en það var á dögum Hitlers. Kannski var/er Trump bara Hitler endurfæddur og gat/getur ekkert gert að því þó hann væri/sé svona. Já, ég held áfram að tala um Trump hvað sem herra Siglaugsson segir. Kannski hætti ég því samt einhverntíma.
Ég á eiginlega alveg eins von á því að McConnell verði settur af sem leiðtogi Repúblikana í öldungadeild bandaríkjaþings og einhver Trump-sauðurinn kosinn í staðinn. Áhrifa Trumps mun gæta eitthvað áfram. Ákærendur hans úr fulltrúadeildinni sögðu upphaflega að þeir þyrftu ekki að kalla til vitni núna því eitthundrað þeirra að minnsta kosti væru í salnum sem réttarhöldin fóru fram í.
Eina ástæðan fyrir þvi að ekki var staðið við að kalla til vitni í málinu gegn Trump var að tefja ekki um of fyrir Biden forseta með því og einnig var ekki við því að búast að öldungadeildarþingmenn breyttu atkvæði sínu við það. Með þvi að tefja málið nægilega mikið til að gera hann að fyrrverandi forseta var búið að gefa þeim repúblikönum sem það vildu afsökun til að hengja sig í formsatriði. Mjög fáir efuðust um sekt hans.
Einhverntíma ætla ég að skrifa langt blogg um öfga-hægrið og óða-vinstrið, en satt að segja leiðist mér pólitík og mér finnst alþingismenn svotil aldrei vera nægilega hreinskilnir. Sumir þeirra eru beinlínis óttalega vitlausir. En förum ekki nánar útí það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.2.2021 | 15:16
3053 - Andskynsemi
Það er orðið ansi langt síðan ég hef bloggað. Þó er ég allsekki hættur. Það er samt ótttaleg vitleysa að vera að þessu ef maður hefur ekkert að segja.
Jón Atli er rektor Háskóla Íslands og talaði um daginn eitthvað um andskynsemi. Er þetta kannski bara skrauthvörf fyrir andskotans vitleysa. Einhver Rósa á Alþingi vill láta banna fólki með lögum að efast um að Helförin hafi átt sér stað nákvæmlega eins og haldið hefur verið fram. Hún hefur að ég held flutt um það frumvarp á Alþingi. Mér finnst afsakanlegt fyrir Þjóðverja að láta svona. Þeim er málið skylt. Veit ekki hvernig þessu er háttað í nágrannalöndum okkar, en bann af þessu tagi getur hæglega torveldað málfrelsi. Auðvelt er að segja að hatursorðræða eigi aldrei rétt á sér. Skilgreiningu gæti þó vantað á því hvað er hatursorðræða. Þó stundum sé erfitt með andmæli ættu allir að mega segja það sem þeim sýnist. Sé það gert á kurteislegan hátt og staðið við það ef því er mótmælt. Það eru jafnvel þónokkuð margir sem efast um að allt sem sagt er um loftslagsvá sé sannleikanum samkvæmt. Helförin og loftslagið eru orðin eins of hver önnur trúarbrögð. Auðvelt er að styðja þá sem maður er sammála, en ef fáránlegum skoðunum er haldið fram ætti fremur að mótmæla þeim með rökum en að banna þær. Einhverri konu á bandríkjaþingi var vikið úr nefndum nýlega sakir fáránlegra skoðana. Ekki var henni sparkað af þingi né sérstök lög sett til að banna henni þetta. Bandaríkjamenn eru líka orðlagðir fyrir frelsi og mannréttindi. Þessvegna var Trump .....bla, bla, bla. Sennilega hefur Þorsteinn Siglaugsson rétt fyrir sér þegar hann segir að ég eigi erfitt með að losna við Trump úr hausnum á mér.
Yfirleitt er auðvelt að hafa allt á hornum sér og vera fúll á móti. Ekki hvetur það þó til breytinga. Fáar hugmyndir komast nokkru sinni til framkvæmda. Þó er ekki ástæða til að amast við þeim. Dystópíu bækur eru miklu algengari en útópíu bækur. Markverðri þjóðfélagsgagnrýni má oft koma til skila í ævintýralegri dystópíu. Það gerði til dæmis Jónatan Swift á sinum tíma með sögunum af Gulliver. Enginn þarf að efast um að til dæmis 1984 og Veröld ný og góð séu ganrýnar bækur. Dystópískar jafnvel. Ekki er rétt að amast við allri gagnrýni þó hún fari stundum út yfir allan þjófabálk.
Nú er snjórinn loksins kominn hérna á Akranesi. Vonandi verður hann fljótur að fara. Gamalmennum eins og mér er nefilega meinilla við slabb og hálku. Einhverjir voru að mig minnir að óskapast um daginn vegna rigningarleysis. Ekki hann ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.2.2021 | 16:04
3052 - Langt er víst síðan ég bloggaði síðast
Hættur samt að tala um Trump. Nóg annað er til að tala um. Ég er nú svo sjálfmiðaður, auk þess að vera gamall, að í stað þess að fjargviðrast útaf Trump, er ég að hugsa um að tala einkum um sjálfan mig. Mér telst til að ég sé kominn með tvo nýja augasteina. Kannski eru þeir úr plasti, en ógrátandi má víst helst ekki minnast á plast. Ekki vildi ég nú samt plastlaus vera (ég meina augasteinalaus) því þá sæi ég ekki neitt. Um þetta má fjölyrða á ýmsan hátt. Sumt er ég farinn að sjá í nýju ljósi. Meðal annars er ekki betur að sjá en ég sé dottinn af 50-listanum. Kannski þetta blogg komi mér á hann aftur. Ekki er að sjá annað en einhverjir vilji gjarnan lesa þetta þrugl úr mér. Steina Briem ætti a.m.k. að líða betur.
Talsverð breyting er það óneitanlega að þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af því hvað Donald Trump tekur sér fyrir hendur. Nóg er nú samt af vandamálum. Að mörgu leyti og jafnvel flestu er ástæða til að hafa meiri áhyggjur af aðdáendum hans en andstæðingum. Stuðningsmenn hans þurfa nú að finna sér nýtt átrúnaðargoð í stað hans eftir að hann hverfur með skít og skömm úr þessu háa embætti sem hann var í. Ef til vill var ástæða til að lögsækja hann ekki. Nauðsynlegt er samt að koma í veg fyrir að hann láti mikið fyrir sér fara í framtíðinni í repúblikanaflokknum. Ekki er við því að búast að hann hverfi af sjónarsviðinu með hægð. Óvinir (eða vinir) hans meðal fjölmiðlafólks munu eflaust sjá um það.
Ekki er auðvelt að sjá hann fyrir sér í þeim virðingarmikla klúbbi sem fyrrverandi bandríkjaforsetar eru í. Ekki er einu sinni víst að hann hefði neitt kært sig um það. Vonandi verður honum seint hleypt þangað inn.
Félagslegu miðlarnir eru að verða alltof sterkir. Það virtist vera aðalariðið í fréttum núna um daginn að Twitter hafði lokað á Donald Trump. Eiginlega hefði það átt að skipta litlu máli. Svipað eða það sama var um Facebook að segja. Nú eru það Youtube og Tik Tok sem Rússar kvarta undan. Segja að með þeim og áskrifendum þeirra sé verið að styðja Navalny í deilu sinni við Putín. Á meðan glotta Kínverjar og Huawei eykur hlutdeild sína í ýmsu. Líklega eru alþjóðlegu stórfyrirtækin sífellt að auka völd sín. Eru þau samt mikil fyrir og þessi fyrirtæki flytja sig á milli landa eftir þörfum.
Moggabloggið gerir það ekki og er afskaplega lítið í raun og veru. Að blogga þar er eiginlega að styðja litla manninn. Lenti áðan beint af Moggabloggssíðunni á einhverri kínverksri síðu, sem auðvitað var auðvelt að þýða yfir á ensku. Geri yfirleitt lítinn greinarmun á því hvort netsíður eru á ensku eða íslensku. Kínverskan er samt eins og hver önnur franska fyrir mér. Íslenskan ætti að vera heilagri fyrir mér en enskan og kannski er hún það í reynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.1.2021 | 03:46
3051 - Engisprettur
Kannski ég ætti að fara aftur að reyna að blogga daglega. Einu sinni gerði ég það. Veit samt ekki hvað mér tókst að halda það út lengi. Það er sennilega alltaf hægt að finna eitthvað til að blogga um. Nú þegar Trump er horfinn að sjónarsviðinu ætti að vera óhætt að blogga um eitthvað annað. Ekki sýnist mér Biden vera af því sauðahúsi að hægt sé að blogga um hann daglega. Trump var meira þannig.
Halldór Jónsson sagði að um væri að gera að blogga nógu oft og lítið í einu til að ná verulegum vinsældum. Ómar Ragnarsson bloggar jafnvel oft á dag, en er samt ekki nærri eins vinsæll og PalliVill. Hver er eiginlega galdurinn hjá honum? Jú, Davíð Oddsson hrósaði honum einhverntíma (í Staksteinum held ég) og svo skrifar hann næstum údelúkkende um stjórnmál og svo er hann hægrisinnaður mjög. Það hjálpar (altsvo að vera hægrisinnaður) Ef ég á að blogga daglega, eða því sem næst, áskil ég mér rétt til þess að blogga um hitt og þetta.
Ekki er nóg með að Afríkuþjóðir hafi þurft að berjast við kórónuveirufaraldurinn heldur hafa engisprettufaraldrar grasserað þar í óvenjumiklum mæli árið 2020. Að vísu hafa engispretturnar ekki valdið tjóni um alla álfuna enda er hún stór. En þar sem sá faraldur hefur náð sér sem mest á strik er veirufaraldurinn ekki sérlega afdrifaríkur. Vonandi kemur aldrei til þess að við íslendingar þurfum að hafa áhyggjur af engisprettum.
Jæja, kannski ég fari eftir því að hafa bloggin nógu stutt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.1.2021 | 08:08
3050 - Íslenskur handbolti
Vitanlega finnst mér mest gaman að skrifa um heimsmálin. Jafnvel að mér finnist svolítið ómerkilegt að tala um íslenska landsliðið í handbolta. Samt hef ég alveg skoðanir á því. Deila þeirra handboltaspekinga RUV og Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara yfirskyggir nú flest annað í íslenskum fjölmiðlum. Ekki fer á milli mála að Arnar Pétursson og Logi Geirsson eru handboltaspekingar RUV Kannski ætti Kristjana Arnarsdóttir að teljast með í þeim hópi, en þó ekki. Hún er ekki hið minnsta spekingsleg en ber samt vissa ábyrgð á þeim.
Þó þeir þykist stundum vita mun betur en Guðmundur Guðmundsson og leikmenn liðsins skemma þeir ekki hið minnsta upplifun mína af leiknum. Sífelldar aðfinnslur lýsanda leiksins í garð dómaranna gera það hinsvegar ósjaldan. Ég efast ekkert um að þeir geri yfirleitt sitt besta og aðfinnslur hans eru stundum útúr kú. Auðvitað gera þeir mistök eins og aðrir, þeir eru bara mannlegir.
Arnar og Logi taka oft ansi mikið uppí sig, einkum Logi. Það er eiginlega bara gaman að þeim. Allt þykjast þeir vita og vita ansi margt. Óþarfi hinn mesti finnst mér af Guðmundi að láta svona. Samt hefur hann rétt fyrir sér að miklu leyti. Landsliðið hefur staðið sig nokkuð vel þrátt fyrir töpin. Danir fóru að vísu illa með Guðmund á sínum tíma, en það er óþarfi að láta það bitna á Arnari og Loga. Bless í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)