3056 - Marsblogg

Ef ég ætla mér að verða einhvertíma góður í blogginu þá veitir mér ekkert af að halda áfram við það. Eiginlega get ég skrifað alveg þindarlaust hugleiðingar svipaðar þessari. Kannski yrði það heldur þunnur þrettándi þegar yfir lyki. Mér finnst samt skárra að lesa hugleiðingar sem þessar en að endursegja einhverja endalausa vellu úr sjónvarpinu. Nær væri að eyða tímanum í að horfa á vitleysuna. Alltaf gæti skeð að ég skrifaði eitthvað sem vert væri að lesa. Nú er ég reyndar bara að skrifa til þess að skrifa. Það er ömurlegt. Satt að segja óttaleg hringavitleysa. Mér leiðist að skrifa um stjórnmál þó þar sé í sjálfu sér alltaf eitthvað til að skrifa um. Stjórnmálafólk er oft svo vitlaust að auðvelt væri að skrifa um það sem það lætur sér um munn fara. Þó ekki sé nema til að leiðrétta mestu vitleysurnar. Verst ef leiðréttingarnar eru vitlausari en upphaflega vitleysan. Svo gæti alveg farið því ég treysti aldrei sjálfum mér fyllilega.

Þetta eftirfarandi vísukorn er áreiðanlega tilkomið til mín frá mömmu minni eða ömmu. Mér finnst örninn vera kvenkenndur þarna og hefur alltaf fundist það. Sennilega er þetta með öllu meiningarlaust. Bara gamall húsgangur. Bágt á ég með að trúa því að þessar tvær gæðakonur sem ég minntist á hafi farið að finna uppá þessu sjálfar. Er þetta vísa eða ekki? Ég er alls ekki viss. Vel getur verið að þetta sé á einhvern hátt afbakað en svona man ég þetta og finnst það ekki hafa verið hluti að einhverju stærra.

Kalt er mér á klónum
kúri ég einn í sæng
heitara var mér forðum
undir arnar minnar væng.

Febrúar!!! Er virkilega orðið svona langt síðan ég bloggaði síðast? Ekki get ég látið heilan mánuð líða án þess að blogga pínulítið. Einhverntíma var ég svolítið byrjaður, en ekkert varð úr neinu.

IMG 5024Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hvað um Trump?

Þorsteinn Siglaugsson, 2.4.2021 kl. 00:16

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hann er farinn að sofa. 

A.m.k. heyrir maður ekki eins mikið frá honum í fréttum eins og einu sinni.

Bólusetningarfréttir og kosningafréttir er mál málanna núna.

Kannski skrifa ég eitthvað um stórveldin á næstunni. USA, Kína, Rússland og ESB. Verður maður ekki að halla sér að einhverju þeirra? Er um annað að ræða?

Sæmundur Bjarnason, 2.4.2021 kl. 17:04

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég lét nánast tíu ár líða milli blogga. Það er gaman að vera byrjaður aftur. :)

Hrannar Baldursson, 8.4.2021 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband