3058 - Um Villa Vill einu sinni enn

Svolítið er það nú aum útivera að fara bara út á lokaðar svalir, miðað við að fara í klukkutíma morgungöngu eins og ég er vanur. Annars er frábært „gluggaveður“ núna og morgunganga hafin hjá hundaeigendum og fleirum.

Uppgötvaði í gær að Vilhjálmur Örn í Köben hefur gert mér þann heiður að vitna í mín bloggskrif og meira að segja seilst um hurð til að styðja mál sitt:

Í Hveragerði vann Wolf von Seefeld hjá Gunnari Björnssyni í Álfafelli, efst í bænum. Hjá Gunnari unnu margir útlendingar og reyndar fleiri gyðingar en nasistar. Sæmundur Bjarnason, sem er með áhugaverðari bloggarum landsins, vegna stíls og innihalds, minntist lettneska barónsins á bloggi sínu 14.11.2012:

 

Þetta skrifar Vilhjámur og vitnar í mig:

 

Þann 1. september 1958 vann ég í Álfafelli hjá Gunnari Björnssyni og hef verið 15 ára gamall þá. Ástæðan fyrir því að ég man þetta svona vel er að þennan dag var íslenska fiskveiðilögsagan færð út í 12 mílur, ef ég man rétt. Þann dag var starf mitt m.a. að þvo skyggingu af rúðunum í blokkinni sem var áföst vinnuskúrnum. Í Álfafelli vann konan hans Eyjólfs hennar Svanborgar. Hún var þýsk og oftast kölluð Eyfa mín. Af öðrum sem unnu hjá Gunnari um þetta leyti man ég best eftir Hansi Gústafssyni og Lettneska baróninum. Hann var nú víst bara af barónsættum og talaði svolitla íslensku. Einhverntíma var ég að tala um barónstitilinn við hann og hann gerði heldur lítið úr honum og sagði að íslendingar væru allir af barónsættum. Þetta datt mér í hug þegar ég las um ættrakningu „the King of SÍS“.

 

Já, svo gekk þessi SS-doktor í Félag Íslenskra fornleifafræðinga, sem enn hefur ekki veitt honum neinn heiður sem öðrum íslenska ríkisborgaranum með doktorspróf í einhvers konar fornleifafræði. Líklega engin þörf á því.

 

Ekki veit ég hvað ég hef átt við með þessu „the King of SÍS“ en þetta hlýtur að vera rétt hjá Villa. Sjálfur hef ég forðast að vitna í sjálfan mig. Álít mig ekki ennþá vera kominn á forleifastigið þó ég sé farinn að eldast.

Annars finnst mér margt athyglisvert í skrifum Vilhjálms, en samt álít ég hann óhóflega sjálfmiðaðan og gyðingasýki hans jaðra við áráttu.

Um fréttir dagsins og fleiri smámuni ræði ég ekki. Hvað þá um stjórnmál eins og tíðkast mjög hér um slóðir. Jafnvel að menn fái línuna sína hérna. Villi í Köben hefur ekki alltaf skrifað lofsamlega um mig svo þetta er líklega tilraun hans til að viðurkenna að fleira sé til í lífinu en fornleifafræði.

IMG 5021Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband