Bloggfærslur mánaðarins, október 2020
25.10.2020 | 05:51
3021 - Kosningarnar í Bandaríkjunum
Gleymdi víst að setja mynd með síðasta bloggi. Ansi er maður orðinn gleyminn. Held samt að ég eigi nóg af myndum eftir. Það verður bara sífellt erfiðara og seinlegra að ná í þær. Endurnýtingin lifi. Annars er það mestmegnis þannig að frétt er ekki frétt og blogg er ekki blogg nema mynd fylgi. Við forngripirnir getum samt alveg sætt okkur við annað.
Held ákveðið að Biden muni sigra í forsetakosningunum í Bandaríkunum í byrjun nóvember næstkomandi. Þessa skoðun mína byggi ég aðallega á því að Trump hefur ekki sama aðgang að óánægjufylginu eins og síðast. Á svipaðan hátt og þegar Trump sigraði Clinton árið 2016 er Biden álitinn tilheyra elítunni einsog Hillary Clinton gerði þá. Trump tilheyrir þessari sömu elítu ekki á sama hátt að minnsta kosti. Aftur á móti hafa gallar hans komið greinilega í ljós á ferli hans á forsetastóli undanfarin fjögur ár.
Auk þess eru Bandaríkjamenn upp til hópa ekki eins hliðhollir kynjajafnrétti og Evrópubúar, sem við Íslendingar tilheyrum augljóslega. Kannski skiptir Covid-19 verulegu máli í þessum kosningum, en þó er það ekki víst.
Útaf öllu þessu álít ég að Biden muni sigra. Í heildina held ég samt að ekki komi til með að muna miklu. Að minnsta kosti muni ekki muna miklu meira á heildaratkvæðamagninu en þegar Trump atti kappi við Clinton árið 2016. Kjörmannaskiptingin er óljósari, en skiptir samt öllu máli eins og berlega kom í ljós þá.
Sennilega skiptir það okkur Íslendinga litlu máli hvor verður fyrir valinu. Báðir eru líklegir til að valda okkur Íslendingum talsverðum kárínum og þeir hugsa eflaust báðir um hag Bandaríkjanna fyrst og fremst.
Minnir að ég hafi skrifað um það áður að ég held að þegar líða tekur meir á tuttugustu og fyrstu öldina muni völdin í heiminum einkum fylgja Bandaríkjunum og Kína. Rússland og Evrópusambandið munu svo koma þar á eftir. Önnur lönd og ríkjasambönd held ég að muni skipta minna máli.
Eiginlega ættu forsetakosningar í Bandaríkjunum ekki að skipta svona miklu máli í heiminum. Að mörgu leyti eru Bandaríkin eins og risaolíuskip. Það tekur langan tíma að skipta um stefnu. Trump hefur sveigt Bandaríkin svolítið til hægri en þó er stórveldasýki þeirra og afskiptasemi söm við sig og breytist ekki mikið, þrátt fyrir allt. Áherslan á sambandið við Evrópu hefur minnkað lítilsháttar og aukist í svipuðu hlutfalli á Asíu, en við því mátti búast og vel getur það haldið áfram þó Demókratar og Biden fái völdin.
Engin saga að þessu sinni, enda virðist andinn hafa tekið sér frí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.10.2020 | 21:31
3020 - Fóturinn
Sé að ég hef í síðasta bloggi ruglað saman Kirgistan og Kasakstan. Það er engin furða. Í mínum huga hafa þessi tvö lönd ásamt Úsbekistan og Túrkmenistan sameiginlega hingað til borið heitið Langíburtistan og var ég þó sæmilegur í landafræði í dentíð, sérstaklega í höfuðborgum. Þegar ég var í skóla voru þessi lönd, ásamt mörgum fleiri bara héruð í Svovétríkjunum sálugu. Nútildax koma þessi ríki Rússlandi lítið við. Löndin sem urðu til við fall Júgóslavíu á ég miklu betra með að muna eftir, enda komu þau flest við sögu þegar ég fékkst við frímerkjasöfnun.
Satt að segja var ég tilbúinn að setja sögu í endann á síðasta bloggi. Var meira að segja búinn að gefa henni nafn. Fóturinn átti hún að heita. Gleymdi að bæta henni við. Kannski ég geri það bara seinna. Annars eru þessar örsögur, sem ég kalla svo, heldur ómerkilegar. Sérstaklega þessar históríur um andann sem á að koma yfir mig. Það er tómur uppspuni. Ég lýg því samt ekkert að þegar ég byrja á sögunum er ég oftast nær ekki með neina sérstaka hugmynd í huga, bara læt það ráðast í hvaða átt sagan fer. Það er ósköp þægilegt að skrifa þannig. Þegar ég blogga reyni ég að vanda mig sem mest og er oft búinn að ákveða fyrirfram hvað ég ætla að skrifa um. Sem betur fer skrifa ég og hugsa fremur hægt. Samt er ég sískrifandi eða sílesandi. Allur hávaði fer í taugarnar á mér. Ef ég hef engan áhuga á því sem verið er að tala um truflar það mig að þurfa að hlusta á það. Einkennilegt er samt að þetta á síður við um önnur tungumál en íslensku þó ég kannski skilji þau nokkuð vel. Eiginlega skil ég bara Norðurlandamál og ensku. Í frönsku og ítölsku skil ég ekki baun, en í þýsku er ég skárri. Einu sinni kunni ég að telja upp að 10 á finnsku en lítið meir.
Varðandi Tromparann er það að segja að greinilegt er að hann mun tapa í þetta sinn og er það hálfgerður aumingjaskapur því yfirleitt tapa sitjandi forsetar ekki. Árið 2016 vildi svo vel til fyrir hann að óánægjufylgið fór eiginlega allt til hans og Republikanar sættu sig sæmilega við hann þó gallaður væri. Þann flokk hefur hann greinilega eyðilagt að miklu leyti. Leiðtogar Demókrata sáu sitt óvænna þegar allt leit út fyrir sigur Sanders í prófkjörinu því Bandaríkjamenn eru ekki nærri eins vinstrisinnaðir og hann, en Harris gæti þó sveigt þá svolítið til vinstri ef Biden verður bara eitt kjörtímabil. Það á ég að vísu eftir að sjá.
Hér kemur sagan sem ég ætlaði að birta með síðasta bloggi. Hér má semsagt hætta.
Fóturinn.
Eftir því sem árin liðu varð Már smátt og smátt lélegri í fætinum. Einu sinni spilaði hann fótbolta. Þá var fóturinn alveg í lagi, en nú þegar hann var að nálgast sjötugt þá var fóturinn allur úr lagi genginn og sífellt að angra hann. Þetta var hægri fóturinn. Ekki nóg með að hann væri aðeins styttri en sá vinstri, heldur var hann sífellt að fá allskonar slæmsku, verki, sár, bjúg og allan fjandann í hann. Ekki kom Má til hugar að leita læknis útaf þessu. Frekar reyndi hann að harka af sér og láta sem ekkert væri. Konan hans, hún Sesselja, vissi ekki einu sinni af þessu. Aldrei kvartaði hann. Börnin hans sem fyrir löngu voru flogin úr hreiðrinu höfðu áreiðanlega enga hugmynd um þetta. Sennilega hefði þeim verið alveg sama þó þau hefðu vitað af þessu. Í mesta lagi ráðlagt honum að fara til læknis. Eða þá bara að fá sér staf.
Áður en langt um liði yrði hann víst að hætta að vinna. Hvað þá tæki við vissi hann ekki. Ekki þýddi víst að reikna með löngum gönguferðum. Fóturinn sá fyrir því. Ætti hann kannski að dusta rykið af frímerkjasafninu og fara aftur að sinna því. Frímerkjasöfnun naut ekki nærri eins mikillar virðingar og áður fyrr. Fyrir það fyrsta voru menn svotil hættir að nota frímerki og farnir að nota tölvupóst meira og meira. Hann gæti svosem farið að stunda bókasafnið, eða flækst um á Internetinu og reynt að finna eitthvað interessant þar. Það þyrmi bókstaflega yfir Má þegar honum varð hugsað til allra þeirra vonbrigða sem tölvur og allt þetta nýmóðins drasl hafði valdið honum í gegnum tíðina.
Vinnan, já. Skyldi nokkurn þurfa til að taka við af honum. Væri ekki upplagt að endurhugsa svolítið verkferlana í fyrirtækinu eins og skipulagsfræðingurinn hafði sagt um daginn. Sennilega yrði það tölvuskratti sem kæmi í staðinn fyrir hans framlag til fyrirtækisins, þegar hann hætti. Eflaust yrði honum skipað að hætta þegar hann yrði sjötugur eins og er í tísku núna. Gott ef það var ekki ákvæði um þetta í nýjustu samningunum. Már hryllti sig allan og versnaði til muna í fætinum við það. Ekki vissi tölvan allt sem hann vissi. Kannski þurfti þess heldur ekki. Tölvan gæti sem best skrifað reikninga fyrir öllu mögulegu. Með tímanum mætti svo útskýra fyrir henni hvar allt væri og svo framvegis.
Már tók af sér vinstri fótinn og henti honum. Eiginlega var honum alveg sama þó hann yrði mun haltari fyrir vikið. Sagði svo við Jónas:
Mér er fjandans sama um þessa löpp, ég vil bara halda áfram að skrifa nótur og vil enga helvítis tölvu til að hjálpa mér við að skrifa reikningana!!.
Aumingja Jónas fór alveg í kleinu og stundi upp eftir vandræðalega þögn.
Ég var ekkert að tala um neina tölvu, ætlaði bara að vita hvort þú vissir hvað þessi karburator á að kosta. Hum, hvernig fórstu eiginlega að því að taka af þér löppina? Þetta var sko enginn gervifótur. Ég er svo aldeilis hissa.
Þá var það sem Már gerði sér grein fyrir því að hann hafði fundið upp alveg nýja læknisaðferð. Kannski gæti enginn gert þetta nema hann. Að taka af sér heilan útlim án þess að svo mikið sem blóðdropi sæist. Eða nokkur sérstakur sársauki fyndist. Nú var hann ekki lengur í vafa um hvað hann ætti að gera eftir að hann yrði sjötugur.
Auðvitað hefði verið betra fyrir hann að henda hægri fætinum, en hann mátti ekkert vera að því að hugsa um slíka smámuni. Nú lá honum á að komast í tölvuna sína.
Einhver mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.10.2020 | 06:31
3019 - Borat
Á sínum tíma leit ég ekki á Borat sem gagnrýni á Bandaríkin fyrst og fremst, heldur aðallega sem feikilega vel heppnaða gamanmynd. Minnisstæðust er fáránleg sundskýlan sem hann var sem oftast í og áherslan á nektina. Er alls ekki viss um að ég hafi séð kvikmyndina alla. Borat brandarar tröllriðu öllum fjölmiðlum á þessum tíma. Sennilega hefur þessi Borat-vitleysa öllsömul mótað að einhverju leyti hugmyndir mínar um Kirgistan. Allir fjölmiðlar voru ofurseldir þessu og á vissan hátt má segja að þetta allt saman hafi náð hámarki sínu í raunveruleika sjónvarpinu og þar með í Trump og öllu sem þróast hefur í kringum hann. Í einhverjum skilningi er hann einskonar afsprengi Borat fíflagangsins sem kenna má pressunni um að sumu leyti.
Nú er verið að boða Borat2 og kannski verður það jafnmikið flopp og Segway var á sínum tíma. Fjölmiðlar þreyttust ekki á því að skrifa um þetta tækniundur, en svo gleymdist það eiginlega alveg. Segja má að rafknúnu hlaupahjólin séu afsprengi þeirrar tæknivitleysu.
Að þessi nýja Boratmynd skuli vera frumsýnd einmitt núna er að mörgu leyti skiljanlegt. Gagnrýni heimsins á Trump og þá últra hægristefnu í stjórnmálum sem hann stendur fyrir er á margan hátt eðlileg. Vel er samt hægt að hugsa sér að öll þessi gagnrýni á bandarískt þjóðlíf komi Trump til góða á einhvern hátt. Áhuginn á komandi forsetakosninum í Bandaríkjunum (3. nóvember) er að minnsta kosti geysimikill um allan heim.
Man vel eftir því, þó það komi ekki þessu beinlínis við, að á sínum tíma (1959) var ég að hefja nám í Samvinnuskólanum að Bifröst og var í einhverri nefnd sem ákvað að sýna á skemmtíkvöldi (laugardagskvöldi) kvikmynd um kappræður þeirra Nixons og Kennedys. Þá kvikmynd man ég að við fengum hjá einhverri upplýsinga og áróðursskrifstofu sem bandaríkjamenn ráku þá í Reykjavík. Nú eru þessar kappræður álitnar sögulegar í meira lagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.10.2020 | 11:43
3018 - Blái himininn
Í baksýnisspeglinum fræga sýnist mér að við Íslendingar höfum verið óvenju heppnir í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Þá var eftirspurn eftir matvælum mikil og við græddum á því. Sömuleiðis voru íþróttir lítið stundaðar í útlandinu á stríðsárunum. Þessvegna meðal annars gekk okkur vel þar á fyrstu árunum eftir stríð. Á hrunárunum fyrir 2008 höguðum við okkur óskynsamlega. Fer samt ekki nánar útí það. Ef bóluefni gegn Covid-19 veirunni finnst og kemst í dreifingu nokkuð fljólega kann að koma í ljós að við Íslendingar höfum undanfarið hagað okkur nokkuð skynsamlega. Vonum það að minnsta kosti meðan enn er sæmileg von um að það rætist. Annars má búast við að þessi faraldur hafi mikil og djúpstæð áhrif á pólitík alla og efnahagslíf í heiminum ef vel tekst til.
Enn er mörgum spurningum ósvarað varðandi Covid-19 faraldurinn.
AHver er raunveruleg dánartíðni í Covid-19 faraldrinum?
Er e.t.v. gert fullmikið úr eftirköstum veirusýkingarinnar? Hve algeng eru þau? Og hve alvarleg eru þau?
Hvað með eftirköst annarra veirusýkinga t.d. venjulegrar og algengrar flensu?
Hve líkleg er almenn dreifing viðurkennds bóluefnis við Covid-19 á næstunni?
Af einhverjum ástæðum steinhætti ég fyrir nokkru að birta hér á blogginu mínu örsögur eða eitthvað í þá áttina. Ekki veit ég af hverju það var. Sennilega hefur andinn steinhætt að koma yfir mig. Auk þess bað ég hann ekkert um það.
Man ekki fyrir víst hvort ég var búinn að birta þessa sögu. Held ekki. Og nenni eiginlega ekki að gá. Sennilega hef ég ætlað að hafa þessa sögu svolítið lengri. Hér kemur semsagt sagan og ég held að hún hafi átt að heita Blái himininn:
Tjaldhimininn var blár. Af hverju hann var blár hafði Lárus ekki hugmynd um. Helst datt honum í hug að það væri vegna þess að hinn raunverulegi himinn væri stundum blár. Oftast var hann samt grár og blautur. Túristar voru alveg hættir að koma. Þessvegna var það sem hann fékk tjaldvagninn fyrir lítið. Þetta var sérlega vel heppnaður tjaldvagn og vel mátti hengja hann aftan í jepplinginn. Sem betur fer var dráttarkrókur á honum.
Lárus ætlaði sér að fara í hringferð um landið. Þórólfur og Víðir mæltu með því að hann færi í hringferð um sína eigin stofu, en honum leist ekki á það. Vonandi mundu Þóra og krakkarnir sætta sig við þennan tjaldvagn. Að tjaldhimininn væri blár skipti í rauninni engu máli. Tjaldveggirnir voru gulir og það var hann ánægður með. Þegar allt væri komið í kring ætlaði hann í fyrsta áfanga að fara austur að Seljalandsfossi. Næsta dag ætlaði hann svo alla leið til Hornafjarðar, svo til Egilsstaða og þaðan sem leið liggur til Akureyrar. Þar með sleppti hann Húsavík, Dettifossi og Mývatni. Ef til vill mundi hann endurskoða þessa áætlun. Sérstakleg ef Þóra mundi setja sig upp á móti þessu.
Við Seljalandsfoss var allt á fullu. Túristarnir voru greinilega komnir aftur. Kannski höfðu þeir aldrei farið neitt. Bílar og jafnvel stórar og stæðilegar rútur voru á víð og dreif í ánni. Lárusi kom þetta töluvert á óvart því hann hafði búist við því að engir eða að minnsta kosti fáir ferðamenn væru þarna. Lét samt eins og þetta væri alveg eðlilegt. Sagði krökkunum að svona væri þetta alltaf. Brunaði svo út á sjó og tjaldaði þar.
Vitanlega er ekki hægt að tjalda úti á sjó. Þessvegna sukku þau til botns fyrr en varði. Þar var allt fullt af fiski. Einstak túristar voru þar á rangli. Vissu greinlega ekkert hvert ætti að halda. Risavaxnar kórónuveirur voru margar á botninum og Lárus og fjölskylda urðu að passa að verða ekki fyrir þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.10.2020 | 15:25
3017 - Bæling vs Barrington
Nú er ég alvarlega dottinn í að skoða lemúrinn á netinu. Aðdáun mín á þeim feðginum Veru og Illuga fer sívaxandi. Þó hef ég um sumt illan bifur á Illuga. Á lemúrnum er margt athyglisvert að finna. Einkum og sér í lagi fyrir þá sem áhuga hafa á sögulegu efni. Tala nú ekki um gamlar ljósmyndir. Vel getur verið að þetta verði til þess að ég skrifi minna á bloggið mitt á næstunni. Auk þess sem ég hef áhuga á sögulegu efni er meistari Kjarval í sérstöku uppáhaldi hjá mér um þessar mundir. Man eftir honum úr listamannaskálanum. Hef lesið næstum allt sem Ingimundur Kjarval hefur skrifað um afa sinn á Moggabloggið.
Þórbergur Þórðarson var í miklu uppáhaldi hjá mér og síðustu árin sem ég var í Reykjavík. Rétt fyrir 1970, var ég verslunarstjóri í Silla og Valda búðinni sem var á Hringbraut 45 að mig minnir og sá hann oft. Sérkennilegur um margt og eftirminnilegur. Sömuleiðis gamla konan sem slapp stundum út hjá þeim á Grund, til að kaupa sér neftóbak. Pálína minnir mig hún héti.
Sigurliði og Valdimar eru líka eftirminnilegir. Eftir því sem aldurinn færist yfir mig verða löngu liðnir atburðir sífellt meira ljóslifandi fyrir manni, en skammtímaminnið lætur á sjá. Þessvegna er það meðal annars sem ég er orðinn svona illa að mér í tölvumálum sem einu sinni voru mitt forte.
Meira virðist núna vera deilt um þær sóttvarnaraðgerðir sem gripið er til en var í vetur í fyrstu bylgunni. Meðal annars held ég að það sé vegna þess að nú er pólitíkin hlaupin í þetta. Slæm er sú tík eftir því sem Nebelsskáldið okkar sagði. Þá er nú rjómatíkin skárri. Hvað sóttvarnirnar snertir eru það einkum bælingarstefnan og Barrington-stefnan sem takast á. Þórólfur hefur hingað til fylgt bælingarstefnunni en því er ekki að neita að einhverjir læknar og jafnvel sóttvarnasérfræðingar fylgja Barrington-stefnunni sem tekur nafn sitt af smábæ þar sem ráðstefna um þetta var nýlega haldin. Sú stefna snýst í sem allra stystu máli um það að vernda viðkvæmu hópana en láta veiruna að öðru leyti afskiptalausa og ná þannig hjarðónæmi á stuttum tíma. Með því megi ná viðunandi árangri án þess að hjól atvinnulífsins þurfi nokkuð að ráði að hægja á sér. Hin stefnan sé næstum óframkvæmanleg nema til komi bóluefni nokkuð fljótlega aðgengilegt fyrir alla. Satt að segja virðist það allsekki fjarlægur möguleiki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.10.2020 | 06:52
3016 - Covid og stjórnmál
Margir þeirra sem við opinber skrif fást, hvort sem um er að ræða bloggskrif eða skrif á fésbókina eða aðra miðla, virðast halda að innihaldslaus stóryrði séu það sem aðrir hljóti að taka mest mark á. Svo er ekki. Einkum er þetta áberandi ef fjallað er um stjórnmál. Ef mikið er tekið upp í sig verður að gæta þess að innistæða sé fyrir því sem sagt er. Hægt er að vitna í aðra, en gæta verður þess þá að þeir sem vitnað er í séu ekki því marki brenndir að fullyrða meira en þeir geta staðið við. Margs þarf að gæta ef nöfn eru nefnd og vandalaust er að vara sig á þessu öllusaman. Reginmunur er á því sem skrifað er og því sem talað er um í góðra vina hópi. Í vaxandi mæli þarf fólk þó að gæta sín á hvað það segir. Þó virðast margir ekki gera það. Um þetta allt saman væri hægt að fjölyrða mikið, en ég læt þetta nægja að sinni enda minnir mig að ég hafi minnst á þetta áður.
Veirufjárinn er svo sannarlega í vexti hér á hinu litla Íslandi. Sóttvarnalæknirinn og reyndar sóttvarnateymið allt saman er gagnrýnt fremur harkalega núorðið. Bæði eru þau gagnrýnd fyrir of mikla og of litla hörku. Ég hneygist heldur til að gagnrýna þau fyrir of litla hörku á röngum tíma. Hefðu þau farið fram með meiri hörku og meiri lokanir þegar þriðja bylgjan byrjaði að gera vart við sig, værum við hugsanlega að mestu laus við veiruskrattann núna. Í staðinn er eins og hann fari sífellt vaxandi. Það er fremur auðvelt að sjá í baksýnisspeglinum hvernig hefði átt að haga sér. Ekki er hægt að hætta núna og fella niður allar hömlur þó sumir vilji það. Engin líkindi eru til þess að það verði gert. Ef kúrfan fer ekki að falla fljótlega er samt aldrei að vita hvað muni taka við. Mér finnst Þórólfur hafa verið of hallur undir ríkisstjórnina. Henni hefur tekist að láta líta svo út að allt sé frá teyminu komið. Bjarni þarf að berjast við eigin flokksmenn sem sumir hverjir láta ófriðlega. Ekki er víst að bíða þurfi lengi á næsta ári eftir bóluefni og þá er hægt að fara að draga andann.
Margt bendir til þess að stjórnmálin verði í skrautlegra lagi í vetur. Ekki er nóg með að Covid-veiran hafi mikil áhrif á þingið heldur verður deilt harft um stjórnarskrármál þar og eins og venjulega á kosningaári verður tekist harkalega á um ýmis mál. Ekki er gott að sjá um hvað verður talað mest en kosningalöggjöfin gefur sennilega tilefni til ýmislegs. Ríkisstjórnin gæti sprungið, því eins og eðlilegt er munu komandi kosningar verð ofarlega í hugum flestra.
Veit ekki betur en Cher, Kim Kardasian, André Agassi og sjálfur Kasparov séu af armenskum ættum. Sömuleiðis minnir mig að það hafi verið greifinn af Karabak sem átti stígvélaða köttinn í frægu barnaævintýri. Af hverju er ég að segja þetta? Nú, bara til þess að láta á mér bera. Eru ekki flestöll skrif til þess gerð? Veit ekki um aðra, en þetta er mín ástæða. Armenía og allt sem armenskt er virðist og mikið fréttum núna. Útaf stríðinu við Azera.
Þykist vita að þetta land sé í fjallahéröðum Kákasus og eigi landamæri að Tyrklandi. Sagt er að Tyrkir hafi framið þar þjóðarmorð. Man ekki einu sinni hvað höfuðborgin heitir í Armeníu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.10.2020 | 17:39
3015 - Um nafnlausa frænku mína
Frænku átti ég sem eflaust er dáin núna. Man ekki með vissu hvað hún hét. Einhverju sinni kom hún í heimsókn til okkar í Hveragerði. Stoppaði í nokkra daga og gisti. Á þeim tíma voru allar leiðir lengri en núna. Kannski var hún úr Vestmannaeyjum. Það gæti skýrt gistinguna. Einn daginn tilkynnti hún að hún ætlaði þennan daginn í langferð upp að Reykjum í Ölfusi gangandi. Okkur heimilisfólkinu á Bláfelli blöskraði þessi gönguferð ekki tiltakanlega. Fannst líklega ekki um sérlega langan veg að fara. Þar ætlaði þessi frænka mín að hitta fólk, sem hún sagðist þekkja.
Hún lagði síðan af stað, en kom afskaplega andstutt til baka að nokkrum tíma liðnum og sagði sínar farir ekki sléttar. Hún hefði neyðst til þess að snúa við því hún hefði á leiðinni rekist á hóp sauðnauta sem væru stórhættuleg dýr. Þetta varð tilefni mikilla heilabrota, því þó við Ingibjörg segðum henni að engin sauðnaut væru finnanleg á Íslandi lét hún sér ekki segjast. Mamma var einnig mjög skeptísk á þetta með sauðnautin, en hún hefur eflaust verið sú sem fyrst frétti af þessu. Fleiri tóku og undir þetta með okkur. Gott ef skólabækur um dýrafræði voru ekki dregnar fram. En það var sama hvað sagt var það hafði bókstaflega engin áhrif. Hún hélt fast við það að hún hefði séð sauðnaut á leiðinni upp að Reykjum og neyðst til að snúa við.
Ekkert varð úr þessari Reykjaferð og þar kom að þessi frænka mín hvarf til síns heima, sem ég veit ekki gjörla hvar var. En lengi á eftir varð þessi sauðnautasaga tilefni mikilla heilabrota hjá fjölskyldunni. Helst vorum við á því að hún hefði eitthvað villst af leið og ef til vill rekist á kúa- eða nautahóp á leið sinni.
Þessi saga er frábrugðin þeim sögum sem ég hef sett hér á bloggið mitt að undanförnu, að því leyti að hún er alveg sönn. Að minnsta kosti í aðalatriðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.10.2020 | 10:28
3014 - Covid, Trump o.fl.
Dálkinn á baksíðu fréttablaðsins les ég yfirleitt því stundum er hann eins og blogg af bestu gerð. Um daginn var þar talað um Dewey-skömmina. Ég kannast við þessa bókasafns-skömm sem mér finnst vera af alveg sérstakri tegund. Mín reynsla í gegnum árin er sú að það sé vel hægt að semja við starfsfólk bókasafna. Sennilega finnst þeim þetta jafnleiðinlegt og afbrotafólkinu. Best hefur mér reynst að bjóðast til að láta aðra bók í staðinn fyrir sektina. Sú bók má vera hundleiðinleg bara ef hún er álíka þykk og stór um sig og sektarbókin eða sú týnda. Það kemur nefnilega líka fyrir að bækur týnast eða gufa hreinlega upp. Engin hemja er að krefjast sektar sem er hærri en sanngjarnt bókaverð af einstakri bók. Eiginlega er þetta ágætt ráð til að losna við leiðindabækur. Ennþá eru nefnilega þónokkuð margir sem hika við að henda bókum. Þær eru samt víða að verða alltof margar. Fyrirlitning unga fólksins á þeim fer vaxandi. Sem geymsla heimilda eru þær óviðjafnanlegar þó margt hafi verið talið koma í staðinn fyrir þær. Gúgli er samt ómetanlegur og timarit.is sömuleiðis.
Eins og pestina (pun intended) hef ég að undanförnu forðast í flestum bloggum mínum að minnast mikið á Covid-veiruna. Nú eru viðbrögðin aftur á móti að verða pólitískari og hatrammari en áður. Ég vil þó segja, að vel sé hægt að deila á ráðstafanir þríeykisins án þess að gera þau persónuleg og óþarflega hatursfull. Þórólfur verður þó að sætta sig við að vera talinn að minnsta kosti jafnoki ráðherra að þessu leyti. Allur hringlandaháttur í þessu efni er stórhættulegur. Mér finnst að þó ýmsar ráðstafanir sem runnar eru undan rifjum sóttvarnarteymisins megi gagnrýna, ef horft er í baksýnisspegilinn, sé allsekki hægt að snúa við. Aðferð þeirri, sem kosin hefur verið af færusu sérfræðingum megi ekki hætta við. Hingað til hefur ríkisstjórnin sett mesta ábyrgð á þessum ráðstöfunum á hendur teymisins.
Kannski eru þau Bjarni Benediksson og Katrín Jakobsdóttir að skapa sér stöðu fyrir væntanlegar kosningar með því að hallmæla sem minnst skoðunum pólitískra andstæðinga. Brynjar Nielsen gerir það aftur á móti ekki. Hann gengur beint í gin ljónsins og eyðileggur með því hugsanlega allar framtíðarvonir sínar innan flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn kann að klofna einu sinn enn vegna afstöðunnar til Covid.
Ef talað er um stjórnmál er oftast nær stutt yfir í Trump-umræður. Ef haldið er áfram að ræða um hann gæti útkoma hans í komandi forsetakosningum orðið nokkuð góð. Ég sé nefnilega ekki betur en að hann vilji umfram allt að talað sé um sig. Sama hvort það er jákvætt eða neikvætt. Allar líkur held ég samt að séu á því að hann tapi stórt í kosningunum sem verða núna í byrjun nóvember. Gagnstætt því sem sumir halda fram held ég að hann viðurkenni strax ósigur sinn. Bandaríkin eru ekki á þeirri einangrunarbraut sem hann vill vera láta. Biden er kannski ekki sá frambjóðandi sem vinstri menn vildu helst, en hann er samt mun skárri en Trump.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.10.2020 | 08:13
3013 - Moggabloggið
Verð víst að skrifa eitthvað til að halda mér á 50-listanum. Heldur er það nú slappt markmið að hanga á honum. Hef aldrei komist á toppinn þar, enda er hann víst frátekinn fyrir fasista. Auk þess að skrifa þar eingöngu um pólitík þarf að skrifa þar daglega til þess að komast þangað. Ég reyndi einu sinni að skrifa daglega, en gafst svo upp á því. Jónas Kristjánsson bloggaði daglega eða jafnvel oft á dag, var feikilega vinsæll og áberandi vinstri sinnaður. Svo tók hann uppá því að deyja. Ómar Ragnarsson og jafnvel fleiri virðist mér að séu alltaf að reyna að komast á Moggabloggstoppinn. Ég er löngu hættur þeirri vitleysu. Þessi vinsældalisti á Moggablogginu er skrýtið fyrirbrigði. Þeir sem skrifa á það reglulega eru það líka. Eins og ég til dæmis. Eiginlega held ég að það sé betra að vera vinstri sinnaður og skrýtinn en að vera alveg við toppinn. Ég er samt ekkert að líkja mér við Ómar Ragnarsson. Þekki samt að minnsta kosti tvo með því nafni.
Ágætt er að Moggabloggast öðru hvoru finnst mér. Eintal sálarinnar á ekki við á fésbókinni. Tvennt er það sem ég finn henni einkum til foráttu. Þar er alltaf verið að breyta. Breytinganna vegna finnst mér. Í öðru lagi finnst mér ganga fullmikið á þar. Næstum eins og í amerískum kvikmyndum. Þar og í sjónvarpsseríum þaðan er eins og það sé markmið í sjálfu sér að vera með sem mestan djöfulgang. Einu sinni sá ég kvikmyndina Animal House. Held að ég hafi aldrei beðið þess bætur. Þar tók einn djöfulgangurinn við af öðrum. Íhaldssemin og óbreytanleikinn á Moggablogginu á nokkuð vel við mig. Ég er nefnilega auk þess að vera hundgamall introvert hinn mesti. Kannski er ég á næsta bæ við að vera einhverfur. Eða á leiðinni með að verða Alsheimersjúklingur. Kannski er ég alltof opinskár hérna. Það má kalla þetta einslags dagbók mín vegna. Hugsanlega er það Covid-ið sem gerir mann svona. Veiruskömmin breytir öllu. Betra er að reyna að sálgreina sjálfan sig en aðra. Til lengdar er það ekki gáfulegt að þykjast alltaf vera voða gáfaður og vita alla skapaða hluti.
Held að það sé grenjandi rigning úti núna, svo ég er að hugsa um að fara ekkert út að ganga. Það voru áberandi fáir sem höfðu skoðað bloggið mitt núna áðan, svo það er kannski best að senda þetta út í eterinn áður en ég sé eftir því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.10.2020 | 11:39
3012 - Ansi er þetta skrýtið
Svo virðist vera sem einhverjir hafi haft fyrir því að lesa langlokuna sem ég setti á bloggið mitt um daginn. Allt er þetta satt og rétt. Athugasemdir hef ég samt fengið. Fyllstu nákvæmni er ekki allsstaðar gætt.
Þannig er nú mín minning af þessum atburðum. Aðrir hefðu eflaust skrifað þetta öðruvísi. Við því er ekkert að gera. Engir hafa mér vitanlega gert það.
Moggabloggið er minn staður. Undanfarið hef ég talsvert fylgst með vinsældum bloggara þar. Hægt er að sjá þær með því að fara í vinsældagluggann. Páll Vilhjálmsson er í sérflokki þar. Sennilega er það vegna þess að hann skrifar eitthvað lítilsháttar á hverjum degi. Svo er það náttúrulega pólitíkin. Hann skrifar helst ekki um annað, en er þó mjög stuttorður. Þar að auki minnir mig að Davíð Oddsson hafi einhverntíma hrósað honum og stundum held ég að Staksteinarnir frægu séu endurtekning á einhverju sem hann hefur haldið fram. Annars er ég ekki áskrifandi að Morgunblaðinu og les það afar sjaldan. Sennilega fá margir sína pólitísku línu frá Páli.
Halldór Jónsson og Ómar Ragnarsson koma svo í humáttina á eftir Páli. Halldór er hægrisinnaður mjög, en Ómar Ragnarsson vinstri sinnaður. Halldór skrifar oftast stutt ef hann skrifar þá sjálfur. Endurbirtir oft langar greinar, sem honum finnst athyglisverðar og það er að mörgu leyti vel þess virði að fylgjast með honum.
Ómar Ragnarsson linkar oftast í fréttagreinar sem birtast á mbl.is og setur á blað ýmislegt sem honum dettur í hug í því sambandi. Hann hefur ansi fjölþætta reynslu á mörgum sviðum en lætur stundum vaða á súðum og bloggar stundum oft á dag.
Þessir þrír eru greinilega mjög vinsælir og fá oft fjölmargar athugasemdir. Sjálfum hefur mér tekist að halda mér innan við 50 nokkuð lengi. Hægt er að fá vinsældalista frá 50 til 400. Satt að segja er ekki mjög vinsælt að skrifa á Moggabloggið nú um stundir. Fésbókin er miklu vinsælli. Þó eru margir, og þar á meðal ég, sem hafa ekki sérstakt álit á henni. Sem samskiptamiðill er hún þó óviðjafnanleg. Bloggið er meira til að láta ljós sitt skína. Á Moggablogginu eru flestir þeirra sem ofarlega eru á vinsældalistanum annaðhvort mjög hægri sinnaðir í pólitík eða pínulítið skrýtnir.
Frá íslenskulegu sjónarmiði er orðið skrýtinn svolítið skrítið. Mér er ekki kunnugt um að mörg orð á íslensku megi (samkvæmt ströngustu reglum) skrifa með eða án upsilons án þess að merkingin breytist nokkuð.
Eflaust gæti ég skrifað miklu meira um Pál, Halldór og Ómar en ég gerði hér að ofan. Ætla samt ekki að þreyta lesendur mína með því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)