Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015

2354 - Ragnheiður Elín komst á klósettið

Það er víst svo merkilegur atburður að Fréttablaðið hefur þetta fyrir aðalfyrirsögn á forsíðu. Nei annars, ég er bara að plata. Auðvitað eru þeir bara að vekja athygli á viðtali sem er inni í blaðinu. Gera samt smáfrétt um þennan einskisverða atburð. Það má ekki minnast á ferðamenn núorðið án þess að fá yfir sig helling af kúk og piss bröndurum. Hélt að flestir yxu uppúr þessu. Ber samt vott um mikla fréttaþurrð (gúrku) að nota svona ódýrt trix sem aðalfyrirsögn.

Nú er sumri tekið að halla. Það hefur mér alltaf fundist vera einn aðalboðskapur verslunarmannahelgarinnar. Einu sinni stundaði maður fylleríin ótæpilega um þessa helgi en það er liðin tíð. Ef það vill til að maður smakki vín núorðið þá er það eitthvað bragðbetra en „séníverinn og svarti dauðinn“ sem drukkinn var í gamla daga. „Meira matmeira,“ sagði Jeppi á Fjalli svo eftirminnilega í leikritinu eftir Holberg forðum daga.

Merkilegt (eða ekki) hvað sólin tekur sig alltaf vel út þegar hún stiklar á fjallstoppum Snæfellsnessins áður en hún sest endanlega. Þannig hefur það verið undanfarin kvöld og vonandi verður ekkert lát á því.

Leikmannsþankar um loftslagsmál. Tilfinningar eru svo sannarlega með í umræðum um loftslagsmál ekki síður en um pólitík. Aðallega virðist vera deilt um loftslag og hnatthlýnun í framtíðinni. Annarsvegar eru þeir sem ekki vilja viðurkenna nein sérstök vandræði (sennilega fer þeim þó fækkandi) þó hitinn á jörðinni hækki um nokkrar gráður. Þar sem hann er mestur getur þetta samt verið til vandræða, en flestir held ég að óski sér aukins hita og meiri gróðurs. Mestur styrrinn virðist standa um hvort Grænlandsjökull og ísinn á Suðurheimskautinu hverfi með öllu og valdi mikilli hækkun úthafanna og byggðir með ströndum fram verði við það í mikilli hættu. Einnig má búast við miklum öfgum í veðrinu og óstöðugleika og þannig getur mannkyninu á ýmsan hátt verið hætt. Mengun hverskonar og eitrun eykst einnig stöðugt og er sívaxandi vandamál.

Vissulega eru þeir margir sem virðast halda í alvöru að allt sé á hraðri leið til andskotans ef ekki verður samstundis brugðist við af hörku og mannkynið muni beita sér af alefli í eina átt. Svo hefur aldrei verið (þetta með einu áttina, sko) og mun ekki verða fyrr en í óefni er komið. Mannfjöldi á jörðinni mun aukast hratt og ekki er sjáanlegt að lífskjör batni að neitt verulega í framtíðinni. Alheimsstjórn verður tæpast komið á, en völd alþjóðlegra stofnana er hugsanlegt að aukist.

Vel er hægt að hugsa sér að vandræði vegna veðurs og ýmissa náttúruhamfara aukist talsvert. Þó held ég að ekki sé rétt að gera ráð fyrir miklum hörmungum þess vegna.

Hver er munurinn á stýrikerfi og forriti (appi)? Er hann einhver? Hefur hann hugsanlega einhver áhrif? Er hann (mismunurinn) mismunandi eftir tölvugerðum eða tegundum? Er hægt að leggja spurningar af þessu tagi fyrir Gúgla?

WP 20150718 19 44 40 ProGrillað kjöt.


2353 - Miðaldra karlmenn

Mér finnst hafa verið sólskin og blíða uppá hvern dag síðan við fluttum hingað uppá Akranes alveg í byrjun júní. Auðvitað hefur samt ekki verið svo. Þó er ég mjög ánægður með að vera hér og ekki get ég neitt kvartað yfir veðrinu. Annars er í tísku að gera það.

Það er engin furða þó miðaldra karlmönnum finnist á sig hallað í íslensku þjóðfélagi nútildags. Sjálfur er ég ekki lengur miðaldra karlmaður, heldur aldraður karlmaður og þessvegna með öllu áhrifalaus. Miðaldra karlmönnum er hinsvegar kennt um allt sem miður fer í þjóðfélaginu. Ekki er nóg með að þeir hafi staðið fyrir hruninu allir sem einn heldur er mjög í tísku að hampa konum umfram þá í öllum fjölmiðlum landsins. Enda veitir ekki af, þar sem augljóst er að hlutur þeirra hefur mjög verið fyrir borð borinn á undanförnum áratugum og öldum.

Þróunin hefur samt verið í rétta átt að flestu leyti. (Finnst mér sem karlmanni.) Þó hefur hún ekki verið svo hröð að ég get hæglega tekið undir að óviðunandi sé með öllu að hún stefni í öfuga átt. Í sumu gerir hún það þó óvéfengjanlega. Oft er það hraði breytinganna sem mestur ágreiningurinn er um. Sumum finnst ganga býsna hratt, en öðrum grátlega hægt á þessari þyrnum stáðu braut sem jafnrétt karla og kvenna hefur löngum verið.

Sumir segja (t.d. Balti) að reglur ríkisins haldi konum beinlínis frá einstökum áhrifaríkum miðlum svo sem kvikmyndum. Vel er hægt að fallast á þessa skoðun hans en ekki get ég leynt því að mér virðast tillögur hans í þessa átt snúa að mestu leyti um það að auka framlög ríkisins til kvikmyndagerðar, en það held ég að gerist ekki. Kvikmyndagerð er heldur ekki neinn kóngur eða drottning listarinnar eins og sumir vilja meina. Samt sem áður er nauðsynlegt ef vel á að vera að listgreinarnar sameinist sem flestar í kvikmyndagerðinni. Og vinsældirnar eru ómótmælanlegar.

Mér líst þeim mun betur á fótboltamenn sem þeir eru hjólbeinóttari, sagði Sigurlína Lyftiduft sem hingað kom nýlega í heimsókn í rósótta kjólnum sínum.

WP 20150714 21 31 34 ProEinmana ýta.


2352 - Fitnessfríkið segir frá

Eitthvað var nú Akraneshöllin minni en til stóð í síðasta bloggi. (Sú mátti nú minnka. Skyggir á hafið af svölunum á nýju íbúðinni okkar) En samt var þetta nú útaf einhverri gleymslu að mér láðist að miðja og stækka hana.

Enn er ég við gönguferðaleistann minn. Það er eiginlega engin leið að spá fyrir um hvernig gangan muni þróast fyrr en eftir fyrstu 5 mínúturnar. 5 km hraði virðist vera minn hraði ef ég flýti mér svolítið og er á sæmilega góðum (útjöskuðum) skóm. Það er svolítið að brjótast í mér hvort ég eigi að lengja morgungönguna svolítið meðan veðrið er svona gott. Kannski fer ég alla leið niður í skógrækt á morgun ef ég verð í stuði til þess.

Mér leiðist staglið í mál-vöndunar-ræktunar-aðfinnslu-þáttunum á fésbókinni. Skyldu menn ekki hafa neitt annað að skrifa um en skilning sinn á einstökum orðum. Eflaust þykir sumum það fróðlegt að vita hvernig algeng (eða sjaldgæf) orð dreifast um landið. Býst við að ég geti hæglega hætt í þeim hópum sem ég hef (samkvæmt reyslunni) skráð mig óvart í. Fésbókin er annars að verða svo aðgangshörð að það  „hálfa væri nóg“ eins og krakkarnir segja. Mikið er þetta samt þægilegur og auðveldur miðill. Bloggið er óttalegur fyrirlestrar-miðill í samanburðinum. Þó kann ég betur við bloggið. Aldrei getur maður verið viss um að fylgjast með allri vitleysunni sem þrífst á fésbókarbleðlinum. Kannski heldur ekki á blogginu.

Einhvern tíma hef ég skrifað um Pál Vilhjálmsson, ef ég man rétt. Minnir að hann sé Moggabloggari einsog ég og að hann skilgreini sig þannig að hann sé ekki Baugsmiðill. Kannski þarf hann líka að taka fram núna að hann sé ekki Bingó (eða Binga) miðill heldur. Hef annars enga sérstaka skoðun á þessum sviptingum í fjölmiðlaheiminum. Fjármagnið er bara að leika sér. Kannski var Björn Þorláksson eitt sinn skólastjóri á Grenivík og þá getur vel verið að ég hafi einhverntíma haft einhver samskipti við hann.

Hér áður þurfti bara að vera klár á símhringingum. (Stutt-löng-stutt o.s.frv.) Nú heyrist mér að allskyns heimilistæki, símar og annað þessháttar sé sípípandi og engin leið að átta sig á hvaðan pípið kemur eða tíðninni eða neinu þessháttar. Svo koma kannski gestir í heimsókn og þá bætist enn í píp-flóruna.

Minnir að ég hafi síðast bloggað á föstudaginn var. Held áfram að fara í u.þ.b. klukkutíma morgungöngu en er hættur að setja met í hverri ferð, enda væri það fullmikið af svo góðu. Í gær minnir mig að hafi verðið rigning og ég hafi farið frekar stutt. Í morgun var ég svo 59,26 mínútur með 5 kílómetrana.

WP 20150712 23 09 56 ProBlokkir í kvöldskini.


2351 - Leitað að gulli við Hveragerði

Þetta með 700 milljónirnar sem eiga að sparast á hverju ári við það að byggja Landsbankahöllina við hliðina á Hörpu gæti átt eftir að koma í hausinn á bankastjóranum sem leyfði sér að halda þessari vitleysu fram. Auðvitað er hægt að reikna hlutina á ýmsa vegu. Jafnvel væri hægt að halda því fram að bankinn hljóti að lækka þjónustugjöld og þessháttar um þessar 700 milljónir. Dálítið er ég samt hræddur um að svo verði ekki.

Í morgun (þriðjudag) setti ég enn eitt gönguferðametið. Nú var ég bara 55:30 mínútur að fara fimm kílómetrana og meðalhraðinn var 11,09. Veit ekki hvar þetta endar.

Þetta er aftur á móti skrifað á fimmtudagsmorgni. Bæði í gærmorgun og núna áðan tókst mér að komast í hús áður en klukkutíminn var liðinn. Í gær fór ég 5 kílómetrana á 57.13 og í morgun á 57:36. Meðalhraðinn í ferðinni var 11,25 og 11,34.

Athyglisverðasta fréttin í Fréttablaðinu í morgun (fimmtudag) fannst mér vera um gull-leit hjá Hveragerði. Man að ég hef komið í Þormóðsdal (sem hingað til hefur verið talinn aðal-gullgrafarastaður landsins) en nú er þeim víst eitthvað að fjölga. Landið norðan og vestan við Hveragerði þekki ég vel frá fornu fari og mér kæmi ekkert á óvart þó gull fyndist þar. Annars voru einhverjir fleiri staðir nefndir í Fréttablaðsfréttinni. Man bara ekki hverjir það voru.

Það gerist blessunarlega fátt þessa dagana. Veðrið er samt ágætt. A.m.k. hér, hvað sem um aðra landshluta má segja. Mér finnst þessi sífelldi barlómur útaf veðrinu heldur leiðinlegur.

Sennilega er ég ágætis einkaþjálfari. A.m.k. fyrir sjálfan mig. Í morgun (föstudag) var tíminn 53:27 og meðalhraðinn 10,44. Hugsa að ég fari að hætta þessu metakjaftæði. Í morgun var samt allt tiltölulega hagstætt. Ekkert sólskin. Engin úrkoma. Logn. Hitastigið u.þ.b. 10 gráður. Fæturnir plöguðu mig ekkert og sviti og mæði var mjög í hófi. Sennilega verður þetta allt saman meira og minna úrelt ef ég dríf mig ekki í að setja þetta upp.

WP 20150711 08 03 26 ProAkraneshöllin.


2350 - Að skíta eða skíta ekki - það er spurningin

Allar þær kúk og piss sögur sem á saklausum dynja um þessar mundir sýna vel skipulagsleysið í þessum málum öllum. Flestir vilja græða á túrhestunum miklu fremur en hjápa þeim eða segja þeim til um skitirí og þess háttar. Man vel eftir Selfysskum lort sem var daglegt fréttaefni á skjám allra landsmanna lengi vel fyrir nokkrum árum. Fara ekki fréttamenn bráðum að komast af þessu stigi?

Björgunarsveitir elta trampólín. Er það þessvegna sem svona miklu af púðri er eytt á gamárskvöld, eða hvað? Þeir sem ekki geta lært að binda trampólín niður eða flytja þau í skjól þegar von er á roki ættu ekki að fá að eiga slík tryllitæki. Trampólínleyfi verði semsagt fyrir þá ríku. Hinir geta bara hoppað á dívönunum sínum.

Mest er ég hræddur um að líkt og með loðdýraræktina og laxeldið um árið þá hverfi túristarnir úr íslenskri landhelgi einn góðan veðurdag og jafnvel makríllinn líka. Hvað gera Danir þá? Byggja fleiri álver geri ég ráð fyrir. Fyrir allmörgum árum var búið að fastákveða (af einhverjum a.m.k.) að reisa álver á Keilisnesi. Búið var að ákveða línustæði fyrir raforkuna og hvað eina. Svo var það flutt í Helguvík og ekki gekk það betur. Nú er það komið í Skagafjörðinn og kannski verður það þar lengi. Vaðlaheiðarvileysan heldur sínu striki. Einu sinni gerðu Íslendingar óspart grín að Færeyingum fyrir að mega helst ekki sjá fjall án þess að gera göng undir það. Nú má eiginlega snúa þessum brandara uppá Íslendinga. Möllerinn sér um það.

Að Steingrímur Sigfússon skuli hafa látið það verða eitt af sínum síðustu verkum að slá Íslandsmetið í kjördæmapoti kemur mér svosem ekkert á óvart, en veldur mér samt vissum vonbrigðum. Vinstri sinnar ættu að vera yfir þetta hafnir. Þannig láta þeir a.m.k. Auðvitað ætti ég ekki að láta pólitíska skítkastið hafa þessi áhrif á mig. Ég get bara ekki að mér gert.

Eiginlega er dálítið vandasamt að blogga sí og æ en forðast samt fréttatengdar og pólitískar hugleiðingar. Þetta reyni ég þó að gera. Tekst það auðvitað misjafnlega en eftir því sem ég læt lengra líða á milli blogganna þeim mun auðveldara verður þetta.

Mávarnir (e.skyrfuglarnir) hringsóla hér allt í kring. Óþrifnaður úr þeim lenti eitt sinn á stofuglugganum, en þó þetta sé á fjórðu hæð tókst okkur að losna við hann. Held að það hafi verið Sigurður Hreiðar sem ég varð var við að talaði um að skyrfuglarnir virtust hafa sérstakt dálæti á bílnum hans. Ég er nú reyndar ekkert hissa á því vegna þess að hann er orðlagður bílakall.

Er það frétt að forsvarsmaður ferðaþjónustunnar vilji helst ekki að virðisaukaskattur á þá þjónustu verði hækkaður? Hugsa. Kæru fréttamenn. Bara pínulítið.

Tókst að komast í hús áður en  klukkutími var liðinn í morgungöngunni í morgun (mánudag). Hraðinn var samt sá sami og fyrr eða 58 mínútur. Vigtin stóð sig líka vel að því leyti að hún sýndi bara 104,9 kg.

WP 20150702 08 34 28 ProTjald í útleigu.


2349 - Pétur á Kópaskeri

Pétur á Kópaskeri er greinilega góður ljósmyndari og á góðar græjur. Hef undanfarið verið að skoða fáeinar myndir frá honum á Flicr. Kannski man hann eftir mér. Þegar hann var með Imbu var ég líklega einhver fyrsti utanskólamaðurinn sem gerðist áskrifandi að Menntanetinu. Man að ég stóð lengi í þeirri meiningu að Tryggvi Rúnar hlyti að vera kennari. Sennilega var þetta skrýtin nördasamsetning á hópnum sem samanstóð af Pétri, mér, Bjössa á Ísafirði, Tryggva, Láru og kannski einhverjum fleiri.

Já, hann Pétur er greinilega ljósmyndari af Guðs náð, þó ég nái kannski stundum hérumbil eins víða með mínar myndir. Þær eru þó ekki góðar, nema hvað mótívin eru stundum allfrumleg, aftur á móti leggur Pétur greinilega áherslu á dýptina og skýrleikann.

Ég sé það útfrá stöplariti um daglegar heimsóknir á bloggið mitt að ég hef ekki verið sérlega aktívur þar eftir að við fluttum á Akranes. Nú er flutningum og upp-pökkun að mestu lokið svo ég hef enga afsökun fyrir því að blogga minna. Eiginlega þykir mér betra að blogga meira. Aðallega kemur það fram í því að ég blogga oftar. Reyni að hafa bloggin fremur stutt því þau eru svo leiðinleg að sennilega mundi enginn lesa þau ef þau væru löng.

Samt hef ég lengi gælt við þá hugmynd að skrifa bók. Það hentar mér bara alls ekki. Get ómögulega teygt lopann í það óendanlega um eitthvert ákveðið efni. Á miklu betur við mig að vaða úr einu í annað. Samt er meirihluti þeirra bóka sem ég les (og þær eru fjölmargar) því marki brenndur að vera um ákveðið efni. Þessvegna verð ég svo oft leiður á þeim. Ætli ég hafi ekki byrjað á svona helmingi eða tíu sinnum fleiri bókum en ég hef lokið við.

Verða menn oft svolítið skrítnir með aldrinum? Ekki er ég frá því. Sjálfur hefði ég til dæmis aldrei viðurkennt það um tvítugt að ég gengi með rithöfundarbakteríu. Nú er svo komið að tilgangslaust er að þegja yfir því lengur. Enda hef ég bloggað um það áður. Og sennilegt er að ég væri alls ekki svona duglegur að blogga ef svo væri ekki.

Nú er Áslaug búin að fá inni hjá Samsteypunni og við fórum á vinnustofuna hennar í Auðbrekku í kvöld og náðum í ýmislegt dót svosem málaratrönur og þess háttar. Reyndar var það ferð nr. 2 til Reykjavíkur í dag (föstudag) því í morgun átti ég tíma hjá Þorbirni Guðjónssyni hjartalækni. Hann bað auðvitað að heilsa Bjarna og lét mig hamast á reiðhjólseftirlíkingu og ýmislegt fleira.

Átti svosem ekki von á neinum gönguafrekum í morgun (laugardag) enda svolítið rok úti og ég ekki á neinum sjömílnaskóm, en þegar klukkutíminn var liðinn sagði appið að ég hefði farið „five point zero seven kilometers“ og ég er bara nokkuð ánægður með það.Vigtin brást mér hinsvegar.

Í gærkvöldi (laugardag) vorum við fínni grillveislu hjá Hafdísi og Jóa. Kann eiginlega ekki nógu mikið í matreiðslu til lýsa því nákvæmlega sem fyrir okkur kom þar, en grillað lambalæri fengum við með allskyns meðlæti.

Í morgun (sunnudag) tókst mér í morgungöngunni að komast í hús áður en klukkutíminn var liðinn. Þessvegna þurfti ég áðan að skoða símann dálítið. Ég var 58 mínútur með 5 kílómetrana og meðalhraðinn var 11,33 (þar held ég að átt sé við mínúturnar og sekúndurnar sem maður er að meðaltali með hvern kílómeter) Meðaltöl geta verið allskonar. Þetta er allgóður hraði og sennilega kemur hann til vegna þess að nú er ég farinn að fá mér kornflex í morgunumat áður en ég fer út að labba. Vigtina ræði ég ekkert um að þessu sinni. Sú tala var aðeins of há.

WP 20150627 09 15 14 ProAkurnesingar deyja víst eins og aðrir.


2348 - Skáld eða ekki skáld

Getur verið að kleinuhringir geti að einhverju leyti komið í staðinn fyrir kísilflögur. Varla getur verið að menn séu að fjölyrða um kleinuhringjaverksmiðjur bara að gamni sínu. Dettur þetta í hug því það var svolítið skrítið hvernig kísilflögurnar komust á koppinn hjá fjölmiðlum landsins. Um kleinuhringina veit ég ekkert og hef engan áhuga á þeim. Hélt satt að segja að kleinuhringjaverksmiðjur væru til í öllum bæjarfélögum á landinu. Að vísu var Gunni víst aldrei með marga menn í vinnu í gamla daga en átti að ég held einhverja vél sem setti súkkulaðihúð á kleinuhringi og steikti þá jafnvel líka.

Sko, ég er búinn að komast að því að það er engin von til þess að ég komist nokkurntíma yfir að gera allt sem ég ætti að gera og þyrfti að gera. Þessvegna er það einna skást að gera ekki neitt. Tvennt er það þó sem ég geri alveg óbeðinn. Það eru morgungöngurnar og lesturinn í Kyndlinum. Af hverju ætli ég lesi svona mikið í Kyndlinum mínum? Ekki eru þær svo merkilegar þessar ókeypis bækur sem ég fæ þar. Auðvitað eru þær mismunandi enda næstum 65 þúsund talsins. Það er eiginlega mest gaman að skoða bókaúrvalið hjá Amazon eftir ýmsum skilyrðum. Svo get ég líka fengið að blaða svolítið í öllum þeim milljónum bóka sem þar eru til sölu. Kannski ég fari annars við tækifæri og skoði aðeins bókasafnið hérna á Akranesi.

Ég er alveg hissa á því hvað fólk endist til að skoða mikið þessa blessaða fésbók. Annars hef ég ekki úr háum söðli að detta því vafalaust eiga einhverjir erfitt með að skilja hvernig ég endist til að blogga þetta sí og æ.Sennilega hef ég bara svona mikla þörf fyrir að láta ljós mitt skína. Fyrir einhverja tilviljun er ég nokkuð góður í stafsetningu og þessvegna er það líklega sem ég hef svona mikla skrifþörf. Þess utan lærði ég hjá þeim Gunnari Grímssyni og Hildigunni vélritunarkennara fingrasetningu á ritvélar í fyrndinni. Það var semsagt á Bifrastarárum mínum.

Alvöruskáld skrifa lítið. Þeir sem þykjast og vilja vera skáld skrifa aftur á móti mikið. Ekki veit ég af hverju þetta er svona. Ég er haldinn svolitlum skáldagrillum og skrifa þessvegna frekar mikið. Hef a.m.k. gert það hingað til. Kannski ég hætti því og þykist vera alvöruskáld. En því miður eru ekki allir sem skrifa lítið alvöruskáld. Enda væri þá ekki þverfótað fyrir þeim. Kannski er bara best að halda áfram að skrifa frekar mikið.

Í morgun náði ég 5 kílómetra hraða. Þ.e.a.s. ég náði að fara nákvæmlega 5,02 km (eftir því sem appið sagði) á einni klukkustund. Svo var ég ekki nema 104,9 kg að þyngd (eftir því sem vigtin sagði.) Skelfing er eitthvað vandlifað án þess að hafa öll þessi tæki í kringum sig!!

WP 20150624 20 21 48 ProJá, það er hægt að ganga á þessu.


2347 - Grikklandsmálið o.fl.

Heimsóknirnar á bloggið mitt urðu 330 í gær. Það er nokkuð mikið. Sennilega met. Á þessu vori og sumri a.m.k. Ekki átti ég von á að Bjarni Valtýr mundi trekkja að þessu leyti. Þetta hlýtur samt að vera honum að þakka einkum og sér í lagi.

Nú fer sumarið að ná hámarki. Myrkrið þrengir að og er að aukast. Í dag á einn af bræðrum mínum sjötugsafmæli enda er svokallaður Bastilludagur og þjóðhátíðardagur Frakka í dag. Öll erum við þar með farin að eldast nokkuð systkinin. En þó Elli kerling sé farin að baga okkur sum hver a.m.k. erum við ekki að láta undan síga að neinu leyti.

Mér þykir oft áhugaverðara að leggja útaf eihverju úr fésbókinni en fréttasyrpu dagsins. Hvort tveggja er að finna á netinu eins og svo margt annað.

Margt er skrýtið í íslensku þjóðlífi. Einkennilegast er þó það hatur sem landsmenn allir sem ógamlir eru virðast leggja á elstu þegna þessa lands. Samt er það svo að stríðsárakynslóðin hefur fært Ísland meira fram á veginn en flestar aðrar. Aldamótkyslóðin er þar ekki undan skilin. Eftir því sem fjáransráðherrann sjálfur sagði stendur ekki til að leiðrétta neitt sem snertir okkur gamlingjana.

Verð að viðurkenna að eftir að ég fluttist hingað á Akranes er ég orðinn nokkuð fastur lesandi Fréttablaðsins. Eftir morgungönguna finnst mér gott að setjast með kaffibolla og Fréttablað dagsins útá svalir og slappa af. Á hverjum degi kemur hingað plastpoki með 10 Fréttablöðum. (því íbúðirnar í blokkinni eru 10) Mest af þeim fer beint í ruslið en þó virðist vera einhver eftirspurn eftir helgarblaðinu og það klárast jafnvel. Þannig má ná upp áskrifendatölunni, eða hvað?

Alveg er ég hissa á hvernig fjölmiðlarnir láta varðandi Grikkland. Við Íslendingar látum ekki svona venjulega þó ríki lendi í fjárhagslegum hremmingum. Auðvitað tengist þetta í og með ESB-umræðunni en ég veit ekki til þess að við séum að ganga í þann klúbb á næstunni.

WP 20150623 08 20 04 ProSafnasvæðið á Akranesi.


2346 - Bjarni Valtýr Guðjónsson

Í dag (laugardag) fórum við til Borgarness. Þar var í Borgarneskirkju jarðsunginn Bjarni Valtýr Guðjónsson. Margir þóttust hafa komist mun lengra en hann í lífinu. Hann giftist aldrei og átti enga afkomendur. Var af mörgum talinn skrýtinn og sérkennilegur, en stóð áreiðanlega flestum framar um gáfur og atgerfi allt. Forn í skapi og þjóðlegur mjög. Organisti af lífi og sál. Kirkjurækinn mjög. Skáld gott.

Frægt fólk var þarna eins og mý á mykjuskán og útförin fjölmenn mjög. Ekki komust nærri allir fyrir í kirkjunni. Meðal frægðarmann sá ég þarna forseta Íslands Ólaf Ragnar Grímsson. Ekki vissi ég að þeir hefðu þekkst.

Ekki er þetta á neinn hátt hugsað sem minningargrein og eftir athöfnina þegar við fórum í menntaskóla þeirra Borgnesinga til erfidrykkju hittum við fyrrverandi heimilislækni okkar Guðmund Guðmundsson og á eftir fórum við í veitingastaðinn Baulu við Varmalandsvegamótin en þar er konan mín með málverkasölusýningu. Þar fengum við okkur fisk og franskar og þó fiskurinn hafi verið umlukinn óhollustu og löðrandi í feiti þá var hann ágætlega bragðgóður.

Nú er ég andvaka. Klukkan er um 6 á mánudagsmorgni og ég hef sofið illa í nótt og svitnað mikið. Held samt ekki að þetta sé neitt alvarlegt. Er í ágætis-skrifstuði og fer sennilega út að ganga á eftir. Það er fullsnemmt að fara núna. Náði ekki 5 kílómetrunum í gær en næstum því. Veðrið er alltaf bjart og fallegt núna um þessar mundir. Þá er það eins og við manninn mælt það er farið að hamast við að spá rigningu.

Veit lítið um þetta blessaða Grikklandsmál sem orðið er alltumlykjandi í fréttum dagsins. Mín skoðun er aðallega sú að úr því að bæði Grikkir og ESB vilja endilega að Grikkland verði áfram innanborðs í ESB þá verði endirinn sá. Gallinn miðað við okkur Íslendinga er sá að gríska ríkið skuldar þessa peninga sem um er rætt. Held að þeir hafi verið færðir til ríkisins, frá einkaaðilum, með talsverðum afslætti. Nú er hætt við að hægi mjög á öllum vexti ef of harkalega er farið í endurheimtu skuldanna.  Grikkland er alvöruþjóð, en Ísland ekki. Þar var ágætt að gera allskyns tilraunir en upphæðirnar þar voru ekki óviðráðanlegar.

Horfði að miklu leyti á þátt Ómars Ragnarssonar um Kverkfjöll og nágrenni í sjónvarpinu í gær. Mærðin og þjóðremban er að vísu yfirþyrmandi í þessum þáttum, en samt minnti hann á margt athyglisvert. Get ekki verið að rekja það nákvæmlega hér og nú, en þrátt fyrir alla mærðina þá er ég að mestu sammála honum. Kannski ég fari bara að hætta þessu skrifelsisfikti. Þeir sem á annað borð lesa krumsprangið eftir mig hafa þá kannski eitthvað að lesa með morgunkaffinu.

WP 20150621 09 35 30 ProFrá Akraneshöfn.


2345 - Grikkland o.fl.

Í morgun (föstudag) fór ég 4,96 kílómetra á einni klukkustund. Ætlaði að ná 5 kílómetrum en það tókst semsagt ekki. Um daginn fór ég 4,7 kílómetra ef ég man rétt. Ekki var það nú alveg nógu gott en ég hafði eitthvað held ég mér til afsökunar. Fór í bað áðan og vigtaði mig að því loknu og reyndist vera 104,5 kíló. Annars treysti ég hvorki baðvoginni né caledosinum fullkomlega, enda er það óþarfi.

Reikna með að fara til Borgarness á morgun til að vera við jarðarför Bjarna Valtýs og snyrti með aðstoð Áslaugar skeggið mitt hvíta og fína af því tilefni. Hef hingað til heldur forðast jarðarfarir en hver veit nema ég fari að safna þeim úr þessu. Enda kominn á þann aldur.

Tinna kom í heimsókn í gær og var í svolítilli fýlu til að byrja með, en það rjátlaðist smám saman af henni.

Fór allsnemma í gönguferðina í morgun (laugardag) og hélt að ég væri á nokkurnvegin réttum hraða því ég fór 396 metra á fyrstu 5 mínútunum. Ekki var það nú alveg, því þegar klukkutíminn var liðinn sagði Caledosinn að ég væri búinn að fara 4,9 kílómetra. Tók eina mynd á leiðinni og kenni því að sjálfsögðu um að 5 kílómetrarnir náðust ekki að þessu sinni. Þegar ég settist út á svalir með kaffið og Fréttablaðið fannst mér hálfkalt þar og tolldi ekki lengi.

Benni ætlar víst að losa sig við grjóthrúguna í dag og við getum víst lítíð hjálpað honum við það. Hafdís og Bjarni fara þó þangað held ég og svo náttúrulega Tinna. Ég á nú alveg von á að hún hjálpi heilmikið til.

Já, svona er það ef ég á bara að skrifa um persónuleg málefni. Samt er það sennilega best því stjórnmálin eru satt að segja hundleiðinleg um þessar mundir. Helst að það sé eitthvað fjör í Jóni Þór enda ætlar hann að hætta á þinginu. Annars ruglaði ég þeim alltaf saman Jóni Þór og Helga Hrafni, samt eru þeir ekkert líkir. Báðir bara píratar og það nægði mér til ruglings.

Grikklandsmálið er mest í fréttum þessa dagana og sífellt verið að tala um aukna og framlengda fresti í því máli. Auðvitað vill ESB ekkert missa þá og gerir áreiðanlega ekki. Kannski líður þeim bara best þar. Vill ekki klárinn vera þar sem  hann er kvaldastur?

Fór í bað áðan og vigtaði mig á eftir. Reyndist vera 104,5 kg. Svo sagði vigtin a.m.k.. Kannski ég haldi sæmilega í horfinu hvað þyngdina snertir með gönguferðunum. Bara hugmynd.

Ákvað að gera eina vísu í Grikklandsmálið. Hún er svona:

Grikkir eru góðir menn
gaman þangað fara.
Fái þeir einn frestinn enn
fara þeir að spara.

Eiginlega meina ég ekkert sérstakt með þessu. Þetta rímar bara.

WP 20150621 09 33 42 ProAkraneshöfn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband