Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015

2344 - Sigmundur Davíð (nei, þetta er bara plat)

Hef komist að því eftir langa og stranga umhugsun að ég eigi bara að skrifa um það sem mig langar til. Ekki það sem ég held að lesendur vilji lesa. Þessvegna byrja ég á hugleiðingum um gönguferðir og megrun.

Í morgun (þriðjudag) fór ég í morgungöngu einsog flesta morgna. Fór vel af stað og var búinn að fara 433 metra eftir 5 mínútur. Hélt hraðanum nokkuð vel en undir lokin fór að draga af mér. Á endanun losaði klukkutíminn þó 5 kílómetrana. Fór 5,01 km á klst. Minnir að ég hafi farið 5,05 á klukkustund um daginn. Er þó ekki alveg viss. Nú er ég 104,5 kg en fór að mig minnir einu sinni eða tvisvar yfir 105 kg undanfarna daga. Á að setja punkt á eftir g-inu í kg?

Það er undarlegt með mig. Þegar einhverjum verður verulega á í íslenskunni hvað snertir  orðatiltæki eða þess háttar, þá er ég vís til að muna það endalaust. Man t.d. eins og það hefði gerst í gær þegar Vigdís sagði í sjónvarpsviðtali að hún hefði orðið „flemtri slegin“ yfir snjóflóðafréttum sem sjónvarpsfréttamaðurinn tíundaði. Einnig er mér í fersku minni sjónvarpsauglýsing þar sem greinilega kom fram að auglýsingasemjarinn hafði enga hugmynd um af hverju talað er um að láta „brýnnar síga“. Hélt greinilega að þar væri verið að tala um brýr. Svo er alveg klassískt þetta með kryddsíldina. Verð líka að gæta mín á að nota ekki málshætti þar sem skemmtilegur misskilningur kemur í ljós. Til dæmis á ég það til að segja að ekki sé „hundur í hættunni“ og ýmislegt þess háttar. Mínum eigin yfirsjónum gleymi ég þó yfirleitt samstundis.

Lafði Díana eða hékk hún?
Bölva formælendur mikið?
Er nunnunum í Hafnarfjarðarklaustri ábótavant?
Er það rétt að bókhaldarar fari gjarnan niður að tjörn til að láta endurskoða reikninga?
Eiga steggirnir á tjörninni erfitt um andardráttinn?

Já, það er margt sem ég velti fyrir mér og ekki allt gáfulegt. En nú er orðið svo langt síðan ég bloggaði að ég verð víst að láta þetta frá mér þó það sé í styttra lagi.

WP 20150620 14 47 03 ProSetið úti í blíðunni.


2343 - 5 kílómetra hringur fundinn

Nú er mánuður síðan við fluttum á Akranes og mér líkar alltaf jafnvel að vera hér. Skil ekki hvað við sáum við að búa í Kópavoginum. Ekki var það svo gott. Sérstaklega eftir að Gunnar fór. Segi bara svona. Stressið er einhvern veginn miklu minna og á allan hátt þægilegra að vera hér.

Einhver tók uppá því að senda vírus í mínu nafni á fésbókina um daginn. Ekki var það sent frá minni tölvu og ég fékk bréf frá Fésbókarguðunum um að ég ætti að gera þetta og hitt. Þó ég sé ekki mikið fyrir að gera eins og mér er sagt, lét ég það eftir þeim því það var hampaminna en að gera það ekki. Vonandi er ég laus við þennan ófögnuð en guðirnir verða að hafa eitthvað að gera.

Líklega blogga ég miklu minna en áður. Jafnvel konan mín er farin að sakna bloggskrifanna og er þá mikið sagt. Samt á ég erfitt með að gera bloggskrifin áhugaverðari. Rembist samt við það eins og rjúpan við staurinn. (Er rjúpan virkilega að reyna við staurinn?)

Í gær fann ég út 5 kílómetra hring hér á Akranesi og svei mér ef ég fór hann ekki á undir klukkutíma. 5,05 km sagði síma-appið mér að ég hefði farið á einum klukkutíma. Tvímælalaust það skemmtilegasta sem það hefur sagt við mig lengi. Því miður tókst mér ekki eins vel upp í morgun og satt að segja er ég búinn að hálftapa orrustunni við vigtina. Ætla samt ekki alveg að gefast upp. Í gær var ég 105,2 kg en í morgun 105,5 kg, sem er afleitt. Hef alllengi haldið mér undir 105 kílóum og ætlaði mér alltaf (og ætla enn) að kíkja niður fyrir hundrað og halda mér svo á milli 100 og 105.

En hvað um það. Tökum nú upp léttara hjal. Eða a.m.k. ábyrgðarlausara. Held að ESB munu gera næstum hvað sem er til að halda Grikkjum inni. Jafnvel að gefa þeim snuð, sem síðan yrði að gefa fleiri þjóðum sem líkt er ástatt um. Held samt að Íslendingar séu ekkert á leiðinni þangað (í ESB) á næstunni. Gott ef gríska þjóðaratkvæðagreiðslan er ekki í dag.

Á morgun (mánudag) þarf ég endilega að hafa samband við Agnar fasteignasala og það er nauðsynlegt að fara að ganga endanlega frá þessum málum öllum. Svo þarf ég að fara að undirbúa Ölfusborgardvölina og sennilega endar þetta með því að ég hringi bara í Unni.

WP 20150620 08 48 28 ProSíló.


2342 - Skylduræknisblogg

Tek eftir því að eftir að ég kom hingað á Akranes blogga ég miklu sjaldnar en áður. Mér finnst ég líka vera búinn að blogga um svo margt að það sé ekki mikið meira að segja. Mér líður eiginlega eins og ég sé í sumarfríi á lúxushóteli. Merkilegast er að starfsfólkið í búðunum og allsstaðar skuli tala íslensku.

„Undarleg ósköp að deyja.“ sagði skáldið. Samt mun það eiga fyrir öllum að liggja. Undarlegt væri ef svo væri ekki. Að hverju ætti þá að keppa? Flestir keppast við að lifa sem lengst. Líka ég. Furðumargir vilja þó ekki viðurkenna það. Þykjast vera að keppa að einhverju öðru og segja að sér sé alveg sama þó þeir drepist. Lífsviljinn er eitthvert sterkasta aflið í manninum. Það álít ég a.m.k. Annars eru þetta lítilsverðar speglasjónir. Það að segja speglasjónir í stað spekúlasjónir er dæmi um sæmilega vel heppnaðan útúrsnúning eða hljóðlíkingarþýðingu.

Ég hef svosem ekki frá neinu markverðu að segja, heldur blogga fyrst og fremst af gömlum vana. Hef tekið eftir þvi að einhverjir hafa það greinilega fyrir sið að lesa bloggið mitt. Þ.e.a.s. ef þar er eitthvað að finna. Sama hversu ómerkilegt það er. Svo trúföstum lesendum finnst mér ég verða að verðlauna með vikulegu bloggi eða svo. Hversdagurinn hefur nú tekið völdin í nýju og fínu íbúðinni okkar hér á Akranesi. Hann er nú ekkert lamb að leika sér við. Hann getur verið erfiður að komast í gegnum. Best er samt að hafa eitthvað fyrir stafni. Láta sig hlakka til einhvers. Ég hlakka t.d. til að sjá sýninguna hjá Bjössa í bílskúrnum að Hveramörk 6, þegar ég verð þar á ferðinni í ágúst. Já, og svo hlakka ég auðvitað til að búa í viku í Ölfusborgum.

Hver maður er efni í a.m.k. eina bók eða svo. Þannig að ævisögur gætu hæglega verið jafnmargar fólkinu á jörðinni. Þá væru allar hinar eftir. Og þær gætu a.m.k. verið jafnmargar. Þá erum við komin með vænan bókastabba. Ætli það borgaði sig ekki bara að hafa það rafbækur. Þær mundu a.m.k. taka minna pláss. Bráðum verða þær jafnmargar og hinar – ef ekki fleiri. Jafnvel þó íslenskir bókaútgefendur berjist gegn þeim af öllum mætti. – Eins og þeir sannanlega gera. Amazon og aðrir risar eiga eftir að taka bókaúgáfuna með trompi, eins og allt annað.

Ef það að borga reikninga er það langmikilvægasta sem þú gerir með símanum þínum getur vel verið að þær sekúndur sem þú getur sparað með banka-appi skipti sköpum fyrir þig og þá er sjálfsagt að nálgast slíkt. Ekki er þó sjálfgefið að það svari kostnaði.

WP 20150617 08 38 23 ProBíóhöllin.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband