2305 - Kosningar og þ.h.

Hvað var það merkilegasta sem gerðist í kosningunum vorið 2013? Jú, auðvitað var það merkilegt hve framsóknarmönnum tókst vel að ljúga að fólki. Annað sem gerðist þar og ef til vill sætir enn meiri tíðindum í framtíðinni er að Sjálfstæðisflokkurinn festist í svona fjórðungsfylgi. Ekki er víst að hann nái sér nokkurntíma uppúr því aftur. Kannski er fjórflokkurinn að líða undir lok. En hvernig er hugsanlegt að það verði, flokkakerfið sem líklega er að verða til núna.

Ég er sammála Eiríki Bergmann um það að vel má kalla Pírata utangarðsflokk. Hið mikla fylgi hans í skoðanakönnunum er eflaust tilkomið vegna andstöðu hans við hefðbundna stjórnmálastarfsemi og getur áreiðanlega ekki haldist. Aftur á móti er ég ekki sammála Vilhjálmi Bjarnasyni um að þeir kenni sig við skipulagða glæpastarfsemi. Hélt satt að segja að Villi væri ekki svona þunnur.

Sennilega eru Píratar komnir til að vera. Nafnbreyting gæti þó orðið þar. Enn ein sameining gæti orðið vinstra megin. Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn líða sennilega undir lok. Nýr fjórflokkur gæti tekið við þar sem hver flokkur væri með u.þ.b. fjórðungsfylgi. Sjálfstæðisflokkur, Píratar, Græningjar og ESB-flokkur. Einhver af þessum flokkum mundi fá þjóðrembu og innflytjendahatursfylgið. Veit ekki hver þeirra.

Eitt er víst og það er að mikil losarabragur er á íslenska flokkakerfinu um þessar mundir. Ómögulegt er að spá um hver niðurstaðan verður. Líklegt er þó að ró komist á eftir næstu kosningar og tuttugasta og fyrsta öldin verði lík þeirri tuttugustu  hvað kerfisflokka áhrærir. Stjórnmálin gætu þó orðið verulega ólík.

Einhver mesta breytingin sem orðið hefur á þessum vetri er sú að núorðið treystir fólk sennilega mun betur Veðurstofunni en áður. Snjóléttur hefur veturinn verið en fremur umhleypingasamur. Veðurfarið hefur allsekki verið slæmt og ef vorið verður sæmilegt þurfa sennilega fáir að kvarta. Gatnakerfið hér á höfuðborgarsvæðinu er þó afleitt enda hefur viðhald verið trassað allt frá hruni.

Einu sinni sá ég stórt skilti sem á stóð „Dekkverk“. Man að ég hugsaði með mér að þetta væri eiginlega ágætis rímorð og fór í huganum yfir hvernig ætti að ríma þetta. Áður en varði var ég búinn að gera limru sem var svona:

Það var hann Dóri í Dekkverk,
sem dýrindis smíðaði rekkverk.
Svo fór hann á túr
og fékk sér einn lúr
og eftir það hann ekki fékk verk.

Að ríma saman Dekkverk, rekkverk og fékk verk finnst mér nokkuð gott. Eiginlega er þessi limra nokkurnvegin einsog ég vil hafa þær. Mannsnafn eða staðarnafn í byrjun og rímorðin fremur óvænt. Sennilega hefur einhver löngu dauður limrusérfræðingur ort þetta í gegnum mig. Ekki er limran neitt lakari fyrir það. Kannski má segja að í stuttu línunum séu stuðlarnir ekki vel greinilegir. Finnst samt að ekki þurfi að fara eftir ströngustu bragfræðireglum úr rímnaháttum þar.

WP 20150228 09 50 44 ProFossvogur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband