2302 - Blessuð pólitíkin

Get ekki vorkennt núverandi stjórnarflokkum þó þeir lendi um þessar mundir í talsverðum vandræðum vegna Evrópustefnunnar eða stefnuleysisins. Stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar keppast um það hver um annan þveran að lýsa yfir andstöðu sinni við inngöngu Íslands í sambandið.

Af hverju í ósköpunum notuðu þeir þá ekki tækifærið strax eða fljótlega eftir kosningar 2013 til að ganga milli bols og höfuðs á ESB-nautinu? Þá voru stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar jafnvel þónokkuð margir.

Eina afsökunin sem utanríkisráðherrann hefur fyrir hegðun sinni nú er óttinn við að stjórnarandstaðan taki málið „í gíslingu“ eins og hann orðar það. Auðvelt er að losna úr þeirri „gíslingu“ eins og ráðherrann veit mætavel. Samt þorir hann ekki að fara með málið þangað sem það á augljóslega heima. Eina haldbæra skýringin á þessu öllu er sú að stjórnin sé logandi hrædd við embættismannaveldið í Brussel, eða eigin þingmenn.

Líklegast er að ekkert stórvægilegt gerist í sambandi við þetta mál. Kannski verður svolítið málþóf, en trúlega verða allir búnir að gleyma þessu í næstu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn kann að klofna útaf þessu og kannski verða það stærstu tíðindin.Auðvitað hefur hann klofnað áður en þetta gæti orðið alvarlegri og langvinnari klofningur.

Fór ekki á Austurvöll í gær. Fannst stjórnarandstaðan ekki þurf a á mér að halda. Endurskoða kannski þessa skoðun ef fundurinn verður endurtekinn. Líklega verða smálæti á alþingi í dag. Held að það eigi að vera þingfundur klukkan þrjú. Hægt er að vona að þá verði þingmenn glaðvaknaðir.

Æ, þetta er nú nóg um pólitíkina. Hún er vitlausari nú um stundir en venjulega. Samt virðast pólitíkusarnir halda að einhver taki mark á þeim. Svo getur þó varla verið.

Í asahlákunni sem núna er tekur snjóinn óðfluga upp. Kannski óða flugan taki líka upp framsóknarfylgið. Sigmundur ætti að fara að drífa sig í að finna upp nýja Barbabrellu til að skella fram fyrir næstu kosningar. Sem hugsanlega eru á næsta leiti. Ég get eiginlega ekki varist þeirri hugsun að mögulega hefði Vigdís verið betri utanríkisráðherrakostur en Gunnar Bragi. A.m.k. lifa sum gullkornin hennar sínu eigin lífi. Er á margan hátt Barbabrellan sjálf.

Ósköp er þetta pólitískt blogg. Ég get bara ekki að mér gert. Kannski er pólitíkin líka tíðindasamari en venjulega. Mér finnst að frá aldamótum höfum við lifað merkilega tíma pólitískt séð. Ég hef að vísu ekki langan samanburð en finnst þó að minna hafi gengið á seinni hluta tuttugustu aldarinnar.

WP 20150208 10 37 16 ProHentugt fyrir hundaskít.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nú varla hægt að sleppa pólitíkinni eins og hún er galin núna, a.m.k. af hálfu stjórnarflokkanna. En ég held að þegar stjórnin fær svo allsherjar verkfall launþega í hausinn - sem hlýtur að verða ef fólk er ekki alveg huglaust - þá er von til að henni verði komið frá. Það er sannarlega tími til kominn og full þörf á að koma henni fyrir kattarnef áður en hún fremur meiri hryðjuverk.

Ellismellt 17.3.2015 kl. 09:41

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér að flestu leyti eins og vanalega, Ellismellur og takk fyrir þetta.

Sæmundur Bjarnason, 19.3.2015 kl. 08:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband