Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015

2297 - Er vorið að koma?

Sagt er að Grikkir hafi fundið ráð til að komast útúr erfiðleikunum sem hrjáð hafa þá að undanförnu. Þeir ku ætla að banna fótbolta. Annars er ég ekki viss um að þeir ætli að laga allt með þessu banni. Ég trúði þessum fréttum alls ekki fyrst þegar ég sá þær. Slagsmálin þar í kringum fótboltann eru víst meiri en annarsstaðar. Ekki held ég að þeir hafi bannað fótbolta með öllu (sem þó væri réttast), heldur nái þetta bann aðeins til efstu deildanna þar í landi og sé þar að auki tímabundið.

Danir eru klárir. Ekki aðeins losuðu þeir sig við Íslendinga þegar þeir fóru að verða óþægilegir heldur sáu þeir Hrunið fyrir. En ræðum ekki meira um það. Þeir kaupa rafurmagn frá Norðmönnum og selja Apple það aftur á uppsprengdu verði. Það þarf snilligáfu til að koma auga á svona tækifæri. Íslendingar voru bara ekki við. En eyðum ekki tímanum í að sjá eftir svonalöguðu. Bönnum frekar fótboltann eins og Grikkir.

Einhvertíma ætla ég að yrkja kvæði
fái ég bara bæði
brennivín og næði.

Það er varasamt að taka svona bull alvarlega. Kannski verður þetta kvæði tóm vitleysa. Og hver er þá bættari. Kannski ég taki upp þann stíl að skrifa bara hálfar setningar eins og Björn Birgisson. Það er reyndar nokkuð sniðugt hjá honum. Líka að búa í Grindavík.

Eiginlega er það nokkuð gott hjá Ólafi syni Ólafs kaupfélagsstjóra í Borgarnesi að fara bara sjálfviljugur í fangelsi. Hver veit nema hann fái nokkur prik fyrir það. Suma aðra þarf kannski á sækja. Hver á að gera það?

Svakalegur munur er að vakna í björtu. Manni finnst næstum eins og það sé komið vor. Ef ekki væri þessi árans snjór gæti maður alveg haldið það. Skítt með frostið. Það er auðvelt að klæða af sér. Trén eru að vísu ekki vöknuð ennþá, en fuglarnir vita alveg á hverju er von. Hrafnarnir eru að vísu mest áberandi ennþá, en það er að breytast. Nú er kominn mars og ekki eftir neinu að bíða. Það gæti alveg farið að vora úr þessu. Ekki sakar að vera svolítið bjartsýnn. Holuhraunsgosinu lokið og hvaðeina.

Sé á fjölda þeirra sem læka og kommenta á myndirnar mínar að þeim er að fjölga sem eru að reyna að losna undan ofurvaldi fésbókarinnar. Kannski er þetta bara óskhyggja hjá mér af því að mér er sjálfum hálfilla við fésbókarfjandann því hann rænir mann svo mörgum vökustundum. En þægilegt er þetta. Kannski er fólk bara að verða leitt að þessum sífelldu myndbirtingum mínum. 

WP 20150131 11 26 01 ProTrjágöng.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband