2303 - Þjóðaratkvæðagreiðslur o.fl.

Sá árangur sem mældur er í peningum og völdum næst best með frekju, tillitsleysi og dugnaði, en andlegt heilbrigði er fólgið í því að blanda góðvild og víðsýni hæfilega með leti og kæruleysi.

Nú (á miðvikudegi) er aftur farið að snjóa. Ég sem hélt að það væri búið að samþykkja að nú loksins væri vorið á næsta leiti. Auðvitað má reikna með smápáskahreti, en það þarf ekki að vera alvarlegt. Vel er hægt að vona að sá snjór sem úr þessu fellur verði ekki lengi til staðar. Vorið hlýtur að koma einhverntíma.

Að skoðanakannanir sýni að meirihluti Íslendinga vilji þjóðaratkvæði um umsóknina um aðildina að ESB, þó meirhluti þeirra sé áreiðanlega andsnúinn aðild,  er engin mótsögn í sjálfu sér. Hvað þá pólitískur ómöguleiki eins og reynt er að telja fólki trú um. Óskin um þjóðaratkvæði um umsóknina er í rauninni ósk um að meira mark verði tekið á þjóðinni en hingað til og að ýmis atriði í nýju stjórnarskránni verði tekin upp. Þorri fólks veit vel að hefðbundnir stjórnmálamenn munu aldrei samþykkja verulegar breytingar á stjórnarskránni, einfaldlega vegna þess að með því mundu völd þeirra minnka. Þess vegna er upplagt að krefjast hennar núna því henni hefur verið lofað. Svik á kosningaloforðum þykja hinsvegar svo sjálfsögð að ekki er víst að af þessu verði.

Ekki hefur mikið af mínu skyldfólki flutt til Noregs í atvinnuskyni. Þá er um einhverja að ræða. Ekki yrði ég hissa þó ný bylgja af því tagi sé að ríða yfir núna. Ég held að Noregur sé á margan hátt líkur Íslandi auk nálægðarinnar og þessvegna sé það ekki mjög mikið átak að flytjast þangað. Sennilega er þó allt talsvert stærra í sniðum þar en hér og tungumálið ætti ekki að vera mikil hindrun. Man vel eftir því að Norðmenn dáðust mikið af öllu sem íslenskt var þegar ég kom í stutta heimsókn þangað. Vissulega þótti mér sumt af því dálítið gervilegt en svo hefur hugsanlega ekki verið.

Hef tekið eftir því að myndirnar sem ég set ævinlega með blogginu mínu batna verulega ef klikkað er á þær og stækkun fengin. Þær eru nefnilega alls ekki eins lélegar og þær sýnast vera. Sérstaklega á þetta við um myndirnar sem teknar eru á símann minn og umfram allt um þær myndir sem eru „portret-orienteraðar“, en ekki eftir „landscape-teoríunni“.

Lélegt er það hjá Sjónvarpi allra landsmanna að sýna ekki beint sólmyrkvann á morgun (föstudag). Þetta gæti einmitt orðið ágæt æfing fyrir myndatökumenn sjónvarpsins. Ekki er víst að allir nenni út og svo er víst hættulegra að horfa beint á myrkvann en varla á sjónvarpið. Ekki er von að bein útsending hafi verið árið 1954, enda sjónvarpsútseningar ekki hafnar þá. Kannski á bara að bíða til 2026 eða hvenær það var sem sá næsti á að vera hér á landi.

Sennilega flytjumst við til Akraness í vor eða sumar, enda erum við búin að vera alllengi hér í Auðbrekkunni. Auðvitað eigum við samt eftir að pakka og flytja og gera má ráð fyrir að það sé þeim mun meira verk sem aldurinn færist meira yfir okkur. Samt ætlum við að láta slag standa.

WP 20150208 11 05 20 ProDraumabíllinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband