2304 - Skák og mát

Hundómerkileg eru norðurljósin. Ómerkilegri eru þó sólmyrvarnir, nema um almyrkva sé að ræða. Ómerkilegast alls eru samt tunglmyrkvarnir því þeir sjást varla. Man samt vel eftir sólmyrkvanum 1954, því þá var maður svo undirlagður af fjölmiðlaáróðrinum að maður þorði ekki að horfa í áttina að sólinni. Horfði samt á þann myrkva i gegnum sótað gler, en fannst hann allsekkert merkilegur. Man líka hve undrandi og heillaður ég var þegar ég sá fyrst tunglin í kringum Júpíter í venjulegum sjónauka. Sem betur fer er fólk ólíkt, bæði hvað þetta snertir og annað.

Sjái maður eitthvað á fésbókinni sem væri e.t.v. þess virði að læka er réttast að gera það strax því annars er hætt við að maður missi af því í öllu fésbókarkraðakinu. Held að það sé sífellt að aukast. Verstir eru þeir sem eru sífellt með heimskulegar hugleiðingar og eiga mjög marga fésbókarvini. Veit ekki betur en það fari til þeirra allra. Annars er ég enginn séfræðingur í fésbókarfræðum og vil ekki vera það.

Er verðbólgugrýlan í þágu ríka fólksins? Undarlegt með þessa verðbólgu. Ekki er talað um hana þegar hækka þarf sum laun, en svo verður hún stórhættuleg og yfirvofandi ef hækka á önnur. Það er ekki einu sinni eins og fylgni sé með verðbólguhættunni og fjölda þeirra starfa sem um er rætt. Þó hefði vel verið hægt að gera ráð fyrir því. Annars eru þessar svokölluðu samningaviðræður um kaup og kjör hinn mesti þykjustuleikur. Úrslit mála eru ráðin á fámennum fundum og svo setjast menn ofaná samninganefndarmenn og fá þá til að samþykkja allan fjandann.

Bloggumræður um veðrið skila litlu. Ef mér dettur slíkt í hug þá er það venjulega alltof seint í rassinn gripið. Því ég safna oftast eftir því sem ég get í sarpinn og hefst gjarnan handa fljótlega eftir að ég hef sett eitt blogg upp. Annars er þetta bloggstand á mér ekki að valda mér neinu hugarangri því ég set slíkt bara frá mér þegar mér dettur í hug. Til dæmis sé ég núna (á mánudagsmorgni) út um glugganna að það hefur snjóað dálítið í nótt. Dagurinn er samt orðinn svo langur að vel getur munað um sólbráðina ef hún verður einhver. Annars er ég að hugsa um að fara út í góða veðrið núna fljótlega.

Um helgina var seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga og þar tefldi ég svolítið í b-liði UMSB og endaði á fyrsta borði þar. A-sveitn komst uppí aðra deild og var það nokkuð vel af sér vikið af henni. Fjölyrða vil ég ekki mikið um þá keppni hér. Skemmtileg var hún samt.

WP 20150219 10 01 59 ProKlakar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband