Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

2145 - Rafpeningar

Já, það er sannarlega vorveður hjá okkur hérna á höfuðborgarsvæðinu núna. Það er bæði hlýtt og bjart. Snjólaust með öllu og ástæðulaust fyrir okkur að kvarta. En fjarri fer því að allir geti sagt það sama. Sumsstaðar er mun meiri snjór og kaldara en vant er. Hæfileg svartsýni er bara holl og það er alls ekki víst að þetta haldist svona.

Foreldrar mínir og okkar systkinanna endurnýttu jólapappír, meðan við krakkarnir horfðum hugfangin á upptrekkta dótið í Kaupfélaginu og jólatrénu var komið fyrir á móts við verslunina Reykjafoss. Hinum megin við Breiðumörkina þó.

Af hverju í ósköpunum er ég alltaf með þessar fáránlegu jólaminningar? Sennilega er það útaf því að vorið virðist vera að koma. Skil þó ekki samhengið þar á milli.

Það sem nú heitir forsendubrestur var einu sinni kallað ýmislegt annað. Ég man vel eftir misgengishópnum sáluga og Sigtúnshópnum líka. Forsendubrestshópurinn er ekkert verri fyrir það. Það er bara siðferðið í því að taka einn hóp fram fyrir ýmsa aðra sem má setja spurningarmerki við. Prósentutölur og upphæðir skipta litlu máli hvað það snertir, en alla umræðu er hægt að jarða með tölum og endalausu kjaftæði. Í því kerfi sem við búum í er það hagvöxturinn sem öllu máli skiptir. Sumir er samt andvígir því að láta hann og nýfrjálshyggjuna ráða of miklu. Svo eru líka ýmsir sem hafa skömm á þessu öllu saman.

Rafpeningar eru merkileg tilraun. Peningar eru aðferð til að útdeila verðmætum í þjóðfélögum. Ekkert meira og ekkert minna. Það er í sjálfu sér ekkert merkilegri aðferð en hver önnur. Þeir sem við þetta fást hafa þó reynt að sveipa það sem mestri dulúð. Mikilvægast í þessari aðferð er magn peninganna. Ekki hvað þeir heita, hver útdeilir þeim eða hvernig það er gert. Ákvörðunarvaldið um magnið er yfirleitt hjá ríkisstjórnum og aðalhlutverk þeirra er að sjálfsögðu að takmarka það sem mest. Með rafpeningunum er reynt að hrifsa það ákvörðunarvald úr höndum þeirra. Reynt er að láta það stjórnast af einhverri guðlegri eða stærðfræðilegri (vísindalegri) forsjón og sveipa það hæfilegri dulúð. Þetta hefur tekist að miklu leyti t.d. með Bitcoin. Gæti hugsanlega tekist með Auroracoin líka. Veit það ekki.

Allir peningar eru í rauninni ímyndun. Verðmæti gulls var það auðvitað líka á sínum tíma. Magn þeirra fer að miklu leyti eftir því hvernig þeim er útdeilt. Á Íslandi gerðist það að magn peninga stórjókst. Að mestu leyti var það vegna korta- og rafvæðingar. Ríkisstjórnin (Seðlabankinn, sem einu sinni var bara skúffa í Landsbankanum.) skipti sér ekkert af þessu. Bæði var það vegna getuleysis, ímyndaðs „frelsis“ og rangrar gengisskráningar. Afleiðingar þessa urðu hrikalegar.

Þetta er í afar stuttu máli skilningur minn á peningamálum. Auðvitað er ekkert víst að hann sé réttur, en hann nægir mér. Auðvitað er ég hvorki ríkisstjórn eða vísindalegri í hugsun en aðrir. Innan þessa kerfis er vel hægt að láta sér líða vel, ef gunnþörfum um fæði og húsaskjól er fullnægt. Hvort og hvernig það er gert má auðvitað endalaust deila um.

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðir (eða bæjarstjórnin í Árborg) verði lagðir í eyði.

IMG 0138Þyrla.


mbl.is Mikilvægt að eyða lagalegu tómarúmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2144 - Sýslumaðurinn í Árnessýslu

Í gamla daga var hægt að kaupa tvennskonar kerti. Annars vegar svokölluð Antik-kerti, þau voru stór og hvít. Hinsvegar var um að ræða kerti sem kölluð voru jólakerti. Þau voru fremur lítil og mjó, snúin og allavega lit. Pakkarnir utan um þau voru bláir með jólamyndum á.

Þegar pabbi tók sig til og raðaði 20 til 30 jólakertum á eldhúskoll og kveikti á þeim öllum í einu þá fannst mér jólin vera komin. Þegar búið var að borða jólamatinn var gjöfunum raðað á stofuborðið og beðið eftir því að merki væri gefið eða okkur sagt að við mættum byrja að opna pakkana.

Af hverju er ég að minnast á jólin núna? Hef bara ekki hugmynd um það. Samt finnst mér þessar upplýsingar taka pólitíska söngnum fram.

Það er alltaf verið að biðja mig að dreifa áfram öllu mögulegu á fésbókinni. Yfirleitt geri ég það EKKI. Ég gái samt oftast hve oft er búið að dreifa því sem um ræðir, og ef mér finnst það nógu oft þá sleppi ég því alveg. Þannig er oft með týnda kettlinga, bíla sem sagt er að stolið hafi verið og þess háttar. Áðan fékk ég líka pólitíska áskorun frá Birgittu um að dreifa auglýsingu frá utanríkismálanefnd. Hugmyndin er að dreifa henni sem víðast og að sem flestir geri athugsemdir og drekki helst nefndinni í athugasemdum.

Þetta er baráttuaðferð sem mér hugnast ekki í þessu tilviki. Þessvegna dreifði ég henni ekki heldur. Ég veit líka að það mundi bara pirra suma fésbókarvini mína. Samt er ég alveg fylgjandi því að nota netið og allt sem hægt er að nota til þess að komast í samband við þá sem maður vill komast í samband við. Félagslegu miðlana er alveg sjálfsagt að nota á þann hátt, ef menn kæra sig um. Kæri menn sig ekki um það ætti þeim að vera (og er) alveg leyfilegt að gera það ekki.

Pawel Bartozsek gagnrýnir Pútín og líkir honum við Hitler án þess að nefna Hitler sjálfan með nafni. Verst er að hugsanlega hefur hann rétt fyrir sér. Vestrænir vinstrimenn sofa flestir og segja að þó Pútín sé kannski slæmur þá séu nú fleiri það. Það langathyglisverðasta sem Pawel segir er útskýring hans á því hvernig Pútín hugsar. Hann sé allsekkert að gera sig til fyrir hinn vestræna heim heldur bara að hugsa um Rússa. Vilji láta þá halda að Rússland sé nútímaríki og hernaðarstórveldi sem reiknað sé með. Svo er bara alls ekki. Miðað við okkar vestrænu lýræðishefð eru Rússar ákaflega vanþróaðir. Litlu skárri en Kínverjar. Asísk hugsun er bara fjarlæg okkar. Múslimsk líka. Samt er þessi hugsun kannski ekkert verri. Mannréttindi eru samt ekki virt þar á sama hátt. Þó Vesturlandabúar (og Bandaríkjamenn sérstaklega) eigi stundum erfitt með að skilja að hópurinn sé mikilvægari en einstaklingurinn er sú hugsun Asíubúum ekkert framandi.

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðir verði....... Sýslumaður þeirra Árnesinga virðist helst vilja vasast í pólitík og þykjast merkilegur. Sinnir þessu máli lítt þó reynt sé að fá hann til þess. Ég hef ekki yfir neinum Ögmundi að ráða og DV veit ég fremur lítið um. Ekki held ég að þar sé mikill áhugi fyrir að kafa í  mál þar sem ætlast er til að þeir geri eitthvað sjálfir. Svokölluð rannsóknarblaðamennska þeirra er ákaflega sjálfmiðuð og kannski taka þeir einhverja uppá sína arma ef þeir bera sig nógu aumlega að þeirra mati. Bæjarstjórn Árborgar ræði ég ekki um. Þar hefði ég þó helst búist við undirtektum því vel er hægt að gera þetta mál og önnur skyld að pólitísku bitbeini.

IMG 0132Já, þetta er ryksuga.


2143 - Þetta blogg er ekki um skuldaniðurfellinguna

Einu sinni ákvað ég að þegar ég kæmist á eftirlaun og hætti að vinna þá mundi ég spila VGA-planets alveg svikalaust. Ekki man ég hvaða útgáfa af leiknum var þá í gangi en þetta var áreiðanlega löngu fyrir daga vafranna. Ekki nenni ég því núna. Og ég nenni ekki heldur að lýsa leiknum fyrir lesendum þessa bloggs. Mér þótti hann skemmtilegur þó flókinn væri og sérhæfði mig í að spila með reisið Colonies of Man. M.a. vegna þess að þeir gátu búið til bensín „on the fly“.

Þetta var semsagt „turn-based“ stjörnustríðsleikur og reisin, sem voru ellefu talsins, höfðu mjög mismunandi eiginleika og mismunandi geimskip. Pláneturnar voru alls 500 minnir mig og á þeim gátu verið þjóðflokkar sem hægt var að skattleggja, assimilata eða gera eitthvað annað við. Einhver þurfti að hósta leikinn og senda svo leikina í tölvupósti. Svo voru þeir afkóðaðir og þegar búið var að ákveða hvað átti að gera var nýr leikur kóðaður og sendir til hóstsins. Þar var veröld leiksins staðsett. Venjulega voru leiknir svona 2 til 3 leikir á viku. Margir klukkutímar gátu farið í hvern leik. Einn skemmtilegasti leikurinn var við Pekka hinn finnska og fleiri af þeim slóðum og héðan af Íslandi.

Þessi leikur er enn til nema talsvert fullkomnari núna, en samt nenni ég ómögulega að sökkva mér niður í hann. Bréfskákin (sem er bráðskemmtileg) dugar mér alveg.  

Margir halda því fram að krónan sé bjargvættur okkar. Ég vil miklu heldur segja að hún sé bölvaldur okkar. Sveigjanleiki íslensku krónunnar hefur aldrei verið launþegum til góða. Oftast hefur sá sveigjanleiki gagnast útgerðaraðilum eða - aðlinum - fyrst og fremst og stundum hafa smámolar af þeim gróða hrokkið til óverðugra. Stöðugleiki í fjármálum er það sem landsmenn þyrstir í. Úrslit síðustu þingkosninga benda til þess að margir hafi haldið að sá stöðugleiki fyndist hjá núverandi stjórnarflokkum. Svo er greinilega ekki. Hvar ætli hann sé þá? Allmargir landsmenn virðast vera á því að hugsanlega sé hann hjá Evrópusambandinu. Og ef hann er ekki þar þá sé hann sennilega í sjónum. Hugsanlega í makrílnum. Eða á Grænlandi. Eigum við ekki bara að leggja það undir okkur. Nafni minn Dúason taldi okkur eiga augljóst tilkall til þess landsvæðis. A.m.k. jafnmikið tilkall og Rússar til Krímskaga. Hvað eru annars margir Íslendingar á Grænlandi? Ha, eru þeir aðallega í Kanada?

Einu sinni byrjaði ég að grafa holu til Kína. Hún varð aldrei nema svona rúmlega hálfs meters djúp. En stór var hún. Sennilega þrír eða fjórir fermetrar, enda fékk ég hjálp við þennan gröft. Eða hjálpaði bara öðrum. Man það ekki greinilega. Skóflurnar sem við notuðum voru líka stórar. Ég man vel hvar þessi hola var. Hún var við endann á skúrnum þar sem eitt sinn voru hafðar hænur. Man líka vel eftir hænunum. Þeim þótti gott að fá njólablöð eða gras í svanginn.

Þetta með Óðinn fréttastjóra var svosem alveg fyrirséð. Hefði hann ekki hætt við að sækja um hefði nýi útvarpsstjórinn bara orðið ómarktækur. Sjáum bara til með hver verður ráðinn og hvernig hann reynist. Hvernig honum eða henni semur við hina fréttamennina o.s.frv. Eiríkur segir að það verði kona og það sé fyrir löngu búið að ákveða það. Hver gerði það er eiginlega stóra spurningin. Verð að fara að muna hvað nýi útvarpsstjórinn heitir.

Lengi undanfarið hefur sú kynslóð sem verið hefur að hverfa á braut alltaf getað huggað sig við að allt benti til að sú kynslóð sem á eftir kæmi hefði það a.m.k. betra fjárhagslega séð. Nú er búið að kippa fótunum undan þeirri huggun. Kannski er það stærsta breytingin sem orðið hefur með Hruninu. Að svifta gamla fólkið þeirri trú er e.t.v. stærsti glæpurinn sem  gullgrafarakynslóðin sem landinu réði í upphafi þessarar aldar gat unnið.

Og svo er það Ásgautsstaðamálið sem ég var eiginlega búinn að lofa sjálfum mér að minnast á í hverju bloggi. Verst er að erfingjarnir virðast búnir að missa áhugann á því máli einnig. Enginn sýnir því hinn minnsta áhuga og þó mér sé það þvert um geð er ég að hugsa um að hætta að minnast á það. Ekki er annað að sjá en það sé vitatilgagnslaust. Áhugi annarra er enginn. Helstu atriði þessa máls rakti ég í bloggfærslu 10. desember s.l. og allar þær upplýsingar til viðbótar sem hugsanlega gæti þurft er auðvelt að fá hjá opinberum aðilum. Það er orðið mér augljóst að lögfræðingurinn sem fer með þetta mál gerir það sem hann getur til að draga það sem mest á langinn. Kannski er það hans hagur.

IMG 0131Hættulegt.


2142 - Árásin á Bitcoin

Þeir sem ekkert skilja í hvernig peningamál eru fara kannski með tímanum að trúa á Bitcoin. Að baki heimsins myntum er svosem ekkert nema trúin á þær og kannski á efnahagskerfi þjóðanna sem gefa þær út. En kerfi eru ekki eilíf. Þúsundáraríkið hefur ekki enn verið fundið upp. Það er fyrst og fremst þetta sem Bitcoin leggur áherslu á, finnst mér. Að hægt skuli vera að búa til ímyndaða mynt er ógnun við yfirvöld. Hvað er eiginlega á bak við hana? Hverjir búa hana til? Spurningarnar eru legíó. Yfirvöld segja að eingöngu eiturlyfjabarónar og braskarar noti hana. Það verða þau að segja því þau eru hrædd við hana.

Hvað er á bak við íslensku krónuna? Verðmæti sem varin eru með váfuglum gjaldeyrishaftanna? Trúin á Simma og hans björgunaraðgerðir? Útflutningur á hvalkjöti? Trú á Má og Seðlabankann? Vani? Ekkert?

Kannski er skiljanlegt að yfirvöld (fjölmiðlar) vilji t.d. með umræðum um Norðurljósapeninga gera árás á Bitcoin eða réttara sagt umræðuna um þá skrítnu mynt. Sú umræða gæti samt hæglega snúist í andstæðu sína og orðið Bitcoin til framdráttar. Annars skil ég svosem ekki þetta hagfræðingamál frekar en aðrir. Held samt að með tímanum geti þessi ímyndaða mynt vel orðið sambærileg við íslensku krónuna. Bara ef ímyndunin er nógu sterk og hvort sem hún heitir Bitcoin eða Auroracoin.

Þó Halim Al hafi verið málaður sem ljóti karlinn hér um árið, er ég ekki alveg tilbúinn til að gera það sama við hinn danska fyrrverandi eiginmann Hjördísar Svan. Forræðismál eru alltaf erfið og utanaðkomandi aðilar bæta ekki nærri alltaf úr. Ef gerður er samningur við erlent ríki þá finnst mér að þurfi að standa við hann. Neyðarréttur verður samt að vera fyrir hendi.

Miklu galli er ausið yfir blessaða ríkisstjórnina. Verst að hún skuli eiga mest af því skilið. Annars er ég farinn að halda að það sé þjóðin sem sé gölluð, en ekki ríkisstjórnin. Ef t.d. er hlustað á Sigmund Davíð án þess að vera á móti honum, (já, ég hef prófað) þá er ekki annað að heyra en hann vilji hvers manns vanda leysa, en liggi undir stöðugum loftárásum frá illa meinandi neikvæðingum og fái engan frið til þess. Þetta er sama fólkið og leggur Vigdísi litlu Hauks í einelti og getur með engu móti séð hana í friði. En sleppum pólitíkinni hún er mannskemmandi og ætti að vera bönnuð fyrir alla sem ekki eru nógu vinstrisinnaðir.

En ég man bara ekki eftir neinu öðru til að skrifa um. Það væri þá helst Ásgautsstaðamálið. En enginn vill sinna því. Löglegir erfingjar jarðarinnar eru víst ekki nógu fátækir tilað DV hafi áhuga á þeim og ekki nærri nógu ríkir til að Simmi og ríkisstjórnin hafi það. Í þessu þjóðfélagi okkar eru það bara aumingjar og stuðningsmenn LÍÚ sem blakta. Venjulegt fólk á engan séns. Í mesta lagi að það geti hallað sér að blogginu og fésbókinni.

IMG 0125Sjoppa.


2141 - Atakor, mundu það

Þeir sem hafa köllun til að skrifa og baráttumál í sínum fórum, gæta þess jafnan að hafa skrif sín ókeypis. Þessu hef ég reynt að lifa eftir. Ekki þannig meint að ég telji mig hafa einhverja skrifelsisköllun eða baráttumál til að berjast fyrir. Nei, heldur lifi ég eftir þeirri sannfæringu, þegar ég þarf að fá mér eitthvað að lesa, að allt eigi að vera ókeypis sem eitthvað er varið í.

Auðvitað þurfa menn sem hafa atvinnu af því að skrifa að fá eitthvað fyrir snúð sinn. Samanber þrillerana hans Arnaldar. En ég veit ekki betur en Egill Helgason bloggi þindarlaust og ókeypis alla daga. Vitanlega borgar einhver honum kaup, en ekki ég.

Samt er það svo að ef menn hafa alvöru og alvarlega köllun þá skrifa þeir fyrir ekki neitt. Það er ég sannfærður um. Allt það prent- og tal- og mynd-efni sem hægt er að fá nútildags fyrir sáralítið eða ekki neitt á netinu, bókasöfnum og víðar er svo mikið að vöxtum að engin leið er að komast yfir að lesa nema lítið brot af því.

Það þýðir að það þarf að velja. Og þá kemur valkvíðinn til sögunnar. Er alveg víst að maður sé að velja það rétta? Er ekki líklegt að hægt sé að fá miklu betri grein um þetta málefni fyrir ekkert annars staðar? Kannski væri réttast að hætta að lesa þessa grein eða hlaupa bara yfir restina á hundavaði. Erfitt er að komast hjá því að hugsa eitthvað á þessa leið, þegar maður hættir að skilja höfundinn fullkomlega eða er kannski ósammála honum.

Sú tíð að allt sé rétt sem á prent er sett (svart á hvítu) er löngu liðin og sennilega trúir enginn því lengur. Samt er það svo að auðvelt er að skrifa þannig að grunlausir geta vel álitið að maður sé að segja satt, þó maður sé að ljúga blygðunarlaust. Þessu eru stjórnmálamenn leiknir í. Aðrir fara oft í leikfimi af þessu tagi líka.

Alltaf er verið að reyna að rugla mann í sambandi við þessar árans pillur sem heimilislæknirinn vill að maður éti í dúsínvís á hinum ýmsustu tímum dagsins. Ef þú veist ekki að Atakor er alveg komið í staðinn fyrir Simvastatin eða að Metoprolol og Seloken er það sama, þá ertu bara rugludallur sem ekkert mark er takandi á. Þar að auki þarf maður helst að vita hve mörg milligrömm af virku efni eru í hvaða pillutegund sem er og hvernig þær eru á litinn og í laginu.

Simmi er búinn að henda þingsályktunarfrumvarpinu um viðræðuslitin í fangið á Birgi Ármannssyni. Hann er núna með Svarta-Pétur og ekki gott að sjá hvernig hann losar sig við hann. Kannski finnur hann samt uppá einhverju. Simma kemur þetta ekki nokkurn skapaðan hlut við. Kannski verður bara reynt að svæfa þessa heitu kartöflu. Annaðhvort kemur ríkisstjórnin með frumvarpið aftur fyrir alþingi og gerir allt vitlaust, eða hún fær að reka Óðinn fréttastjóra í friði. Það er löngu búið að ákveða að láta Má fjúka. Nauðsynlegt er að hafa mörg járn í eldinum á sama tíma. Einhver komast í gegn.

Sennilega hefur Óðinn fréttastjóri á RUV komið nýja útvarpsstjóranum í stórkostlegan vanda. Samkvæmt nýjustu fréttum hefur hann nefnilega ákveðið að sækja um sitt gamla starf aftur. Líklega verður útvarpsstjórinn nú að endurráða hann annars verður allt jafnvel snarvitlausara í pólitíkinni en það þegar er. Það er jafnvel að verða að smámáli sem engu skiptir hvort Hann Birna verður dæmd lek eða ekki.

Já, það er þetta með Ásgautsstaði. Sjaldan er góð vísa of oft kveðin.

IMG 0123Kringlumýrarbraut.


2140 - Æ, nei

Ég er alltaf að drepast úr neikvæðni. Hef yfirleitt allt á hornum mér. Sjálfum finnst mér svo ekki vera, en samt mun þetta vera staðreynd. Reyni þó yfirleitt að vera jákvæður en mér finnst það varla hægt varðandi stjórnmálin. Jákvæður held ég að ég hafi verið í mínu síðasta bloggi um verkið „Í verum“ eftir Theodór Friðriksson. Hann gerði að ég held margar tilraunir til að semja góð verk en var yfirleitt illa tekið af almenningi. Sjálfsævisaga hans ber þó af öðrum slíkum.

Af einhverjum ástæðum hefur mér orðið þetta verk minnisstæðara en flest önnur. Hugmyndir mínar um lífið á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar eru að miklu leyti úr þessari bók komnar hugsa ég. Man að ég las þessa bók af áfergu mikilli og er enn jafnundrandi á því hve fáir kannast við hana, og ég var þá.

Auðvitað er mitt álit alls ekki neinn hæstiréttur að þessu leyti og aðrir kunna að hafa lesið þessa bók og fengið á henni allt annað álit en ég. Það væri bara eðlilegt. Önnur verk höfundarins hafa fallið í gleymskunnar dá, en mér finnst ekki að þessi bók eigi að gera það.

Úr því að ég er byrjaður að láta ljós mitt skína varðandi bókmenntir get ég ekki látið hjá líða að minnast á eina konu sem alls ekki hefur notið þeirrar athygli sem hún á skilið. Hún hét Torfhildur Þ. Hólm og skrifaði margar bækur. Ritstýrði auk þess blaði einu og er fyrsti Íslendingurinn sem hafði lífsviðurværi sitt alfarið af ritstörfum. Kannski væri rétt að undanskilja hér Snorra Sturluson og bróðurson hans Sturlu Þórðarson. Halldór Laxness kom til sögunnar miklu seinna.

Það hefur komið í ljós með eftirminnilegum hætti að leit að týndum flugvélum er ákaflega frumstæð. Eiginlega hafa engar framfarir orðið þar síðastliðin 100 ár. Enn er rýnt á sjóinn í sjónaukum og menn ímynda sér að þeir séu að leita að einhverju. Búast má við að tæknin haldi einnreið sína á þetta svið í framhaldi af hvarfi malasísku vélarinnar. Á margan hátt er þetta flugslys til marks um óþægilega hluti. Gróði flugfélaga þarf ekki allur að lenda hjá þeim sem smíða slík apparöt. Jafnvel væri hægt að lækka fargjöldin eitthvað.

Auk þess legg ég til að hvert og eitt einasta blogg endi ávallt á einhverri ádrepu um Ásgautsstaði og yfirgang valdastéttarinnar.

IMG 0120Rammgert.


2139 - Hraðbraut

Menntaskólinn Hraðbraut fer sennilega af stað aftur næsta haust. Í byrjun verður ekki um það að ræða skilst mér, að ríkið greiði öll laun, en það á eflaust eftir að breytast. Gæti skrifað langt mál um einkarekna skóla (sem eru sérgrein framsóknar sbr. Samvinnuskólann) en sleppi því núna. Sú ákvörðun að viðurkenna hraðbrautarnám (tala nú ekki um þegar farið verður að greiða launin) á eflaust eftir að verða umdeild. Skólamenn verða áreiðanlega ekki hrifnir.

Uppsagnir enn á RUV. Það á ekki af aumingja rúvinu að ganga. Nú þarf að losna við fréttastjórann (því hann er ekki nógu leiðitamur) og þá er helsta ráðið að segja nógu mörgum upp og skora á þá að sækja aftur um. Skyldu þeir gera það? Ekki dytti mér það í hug.

Annars var það alls ekki ætlum mín að spekúlera í pólitík. Það er bara svo gaman að bollaleggja um þessa hluti. Eiginlega er þetta alveg nóg og nú ætti ég að geta snúið mér að öðru.

Flugvélarhvarfið er mál málanna núna. Hvernig getur stór farþegaþota með hundruð manna bara horfið sísvona? Allmörg dæmi eru um að flugvélar með nokkra tugi manna hafi týnst og aldrei neitt til þeirra spurst. Hinsvegar hefur það, eftir því sem ég best veit, aldrei skeð áður að þota með mörg hundruð farþega hafi horfið alveg sporlaust. Mig minnir að ég hafi bloggað um það áður að vandræðalaust ætti að vera að senda, flestar eða allar þær upplýsingar sem fara í svörtu kassana svonefndu, þráðlaust beina leið til stöðva í landi. Þetta ætti vitanlega að gera, því algjör óþarfi er að láta svöru kassana (sem reyndar eru appelsínugulir) týnast með þeim flugvélum sem þá bera.

Ekki líst mér nógu vel að þetta ferðamannastúss landans. Innheimtuskúrar um allt og náttúrupassi að auki hlýtur að verða til þess að færri koma hingað í framtíðinni en annars yrði. Held að vitleysan sé aðallega sú að láta túrhestagreyin verða vara við þetta. Þegar sjónvarpsmenn tala við þá bera þeir sig náttúrlega vel og finnst sex hundruð kall ekki mikið. Gæti samt fælt frá.

Var eitthvað að lesa „Druslubækur og doðranta“ um daginn og þar var minnst á bókina (eða bækurnar) Í verum eftir Theodór Friðriksson. Höfundurinn skrifaði um þær bækur eins og eldfornar og ómerkilegar væru. Þar er samt um að ræða langbestu sjálfsævisögu sem skrifuð hefur verið á íslensku. Á því er enginn vafi. Á sínum tíma langaði mig mikið að setja þá bók á Netútgáfuna en gat það ekki vegna höfundarréttar. Held að höfundurinn hafi dáið um 1950. Kannski skrifa ég meira um þetta verk seinna. (Tvö bindi minnir mig endilega að um hafi verið að ræða og að ég hafi fengið þau lánuð á Borgarbókasafninu, sem þá var í Þingholtsstræti.)

Auk þess legg ég til að... bla bla bla.

IMG 0115Áningarstaður.


2138 - ESB-málið

Það fer varla framhjá neinum að ESB-umræðan er óvenju hatrömm um þessar mundir. Báðir aðilar þykjast greina örvæntingu hjá andstæðingunum. Öfgaöflin hafa náð yfirhöndinni í ríkisstjórninni og án þess að hún hafi sóst eftir því hefur þetta orðið eitt helsta bitbeinið á alþingi. Margir hafa þó veigrað sér við að taka þátt í umræðunni og er það skiljanlegt. Ekki er með nokkru móti hægt að sjá fyrir hvernig henni lyktar. Ríkisstjórnin gæti beðið mikinn hnekki.

Svo hatrömm er þessi umræða að Íslendingar hafa varla mátt vera að því að minnast á Ukrainu eða flugvélina sem hvarf. Þetta eru þó þau mál sem útlendingar ræða mest þessi dægrin.

Nei, ESB skal það vera. ESB-andstæðingar, sem fengu því til leiðar komið að ríkisstjórnin henti inná alþingi illa undirbúinni þingsályktunartillögu, í flýti miklum, eru nú önnum kafnir við að draga sem mest í land með það mál allt. Þeir geta samt ekki unnt þjóðinni þess að segja álit sitt á málum og öll viðleitni þeirra nú snýst um það að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Sennilega tekst þeim það.

Ég vil sem minnst ræða þetta mál og á ofanrituðu má skilja að ég á von á að þingsályktunartillagan verði dregin til baka eða útþynnt mjög. Þjóðaratkvæðagreiðslu tekst ríkisstjórninni sennilega að komast hjá. Afleiðingarnar í komandi sveitarstjórnarkosningum er ómögulegt að sjá fyrir. Einhvern hnekki mun ríkisstjórnin samt bíða. Túlkun úrslitanna verður þó samkvæmt venju með ýmsu móti.

Svo harkalega er tekist á um ESB-málið að lekamál Hönnu Birnu er alveg fallið í skuggann. Allar líkur eru á að lögreglan geri það sem fyrir hana er lagt og hvítþvoi hana. Jafnvel eru líkur á að henni verði sparkað uppá við og gerð að utanríkisráðherra. Til að reyna að endurvekja traust almennings á ríkisstjórninni er nefnilega líklegt að fljótlega verði stokkað upp í henni. Erfitt er að sjá fyrir til hvers það muni leiða.

Já, það er gaman að spá í pólitíkina og skoðanir mínar í þeim málum breytast afar hægt. Hvað ESB-málið varðar finnst mér þó að skilningur minn á andstöðinni við aðild sé að aukast. Óralangur stuðningur minn við aðild hefur þó ekkert bilað. Mér finnst ég ennþá vera í miklum minnihluta hvað það snertir.

Nú geld ég þess illilega að hafa ekkert (eða a.m.k. lítið) minnst á pólitík í síðasta bloggi mínu. Þetta blogg er alveg undirlagt sýnist mér. Get bara ekki að þessu gert. Eins og venjulega þegar ég blogga um pólitík finnst mér liggja á að koma ósköpunum frá mér. Það gerist svo margt á stjórnmálasviðinu og er þar að auki fljótt að gerast, að þetta innsæi sem mér finnst þessar hugleiðingar bera vott um, gæti horfið eins og dögg fyrir sólu

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálinu verði haldið lifandi. Ekkert frásagnarvert gerist í því þessa dagana og líklegast er að það haldi áfram að dragast á langinn. Kannski í mörg ár í viðbót.

IMG 0111Í háloftunum.


2137 - Stuttur og hnitmiðaður leikþáttur: Fésbókarleikhúsið

-Liggur þér eitthvað á hjarta?

-Já, eiginlega.

-Og hver fjandinn þá?

-Vil ekki segja þér það. Þú er í svo vondu skapi.

-Hvern djöfulann gerir það til?

-Ég er bara ekki í stuði til að úthella hjarta mínu.

-Farðu þá í rass og rófu.

-Og ríddu grárri tófu.

-Eru að segja mér að ég eigi að ríða tófu. Bara af því að ég er í fýlu, eða hvað?

-Nei, það væri bara svo gaman að sjá það.

-Þú fengir sko ekki að sjá það. En þú mátt koma með helvítis tófuna.

Loksins er hægt að lesa bækur á Íslensku í kyndlinum og er það satt að segja vonum seinna. Bókaútgáfurnar Bókabeitan og Björt hafa riðið á vaðið og að líkindum gengið að öllum þeim skilmálum sem Amazon hefur sett og þar með látið þennan útgáfurisa ráða flestu um útgáfuna. Það skilst mér að hafi verið ásteitingarsteinninn hjá íslenskum bókaútgáfum til þessa. Annars er íslensk rafbókaútgáfa margflókin og gaman verður að vita hvernig íslenskar rafbókaútgáfur taka þessu framtaki.

Þarna er um 5 bækur í bókaflokknum „Rökkurhæðir“ að ræða og þær heita Rústirnar, Óttulundur, Kristófer, Ófriður og Gjöfin. Allar eru þær eftir Birgittu Elínu Hassell og Mörtu Hlín Magnadóttur og það er með öllu vandræðalaust að kynna sér þær betur. Það hef ég gert með því að hlaða niður sýnishornum af  þeim til lestrar. Það sýnishorn er að vísu mjög stutt og lítið á því að græða. Sögusviðið er það sama í öllum bókunum en söguhetjurnar  mismunandi. Svo er að sjá sem þetta séu unglingabækur eða það sem nefnt er „young adults“ á ensku. Enga bók af þessum hef ég ennþá keypt og get þessvegna lítið sagt um efni þeirra. Munur er samt að lesa Íslenskuna og á margan hátt skilur maður textann enn betur.

Stjórnmálaástandið er svo skrítið þessa dagana að ég ætla ekkert að minnast á það. Ýmislegt væri þó hægt að segja, en ég geri það bara ekki.

Æðsta stig mannkynssögunnar er neyslustigið. Einu sinni snerist lífið um að komast af. Svo fór það að snúast um að hafa næga vinnu. Enginn var samt feitur. Stigin eru  eflaust miklu fleiri, en æðst þeirra allra er neyslustigið. Bandaríkin komust á það fljótlega eftir seinni heimsstyrjöldina. Nú er það allsráðandi hjá okkur. Allt snýst um að eyða sem allra mestu og helst áður en þess er aflað. Veit ekki hvernig þetta endar.

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðir verði seldir.

IMG 0105Húsarusl. 


2136 - Kerið og Geysir

Nú bíður maður bara eftir því með öndina í hálsinum (hvaða fjandans önd) að farið verði að slást við Geysi. Kannski einhverjum verði hent í hver. Hver veit. Nú, veit hann það? Ja, maður tekur nú bara svona til orða.

Annars er þetta náttúrupassamál náttúrlega mjög skrítið. Ekki langar mig nærri eins mikið til að sjá Kerið eftir að skúrinn kom þar. Íslendingar eru skrýtnir. Ekki er nóg að þeir bjóði grunlausum útlendingum uppá náttúrpassa heldur fara þrjár fegurðardísir í sömu peysuna eins og frægt varð um árið. Hvort þær voru í einhverju öðru en peysunni fer hinsvegar engum sögum af. Einhver skrifaði um það á fésbókina að margir framfleyttu sér og gerðu út á það að sturta farþegum á suma af fegurstu stöðum landsins, en væru ófáanlegir til að borga nokkurn hlut fyrir það.

Einelti er skrýtin skepna. Mér finnst ég ekki hafa orðið fyrir einelti. Öðrum finnst það þó kannski. Ekki finnst mér ég heldur hafa tekið þátt í að einelta aðra. Er það ekki upplifun einstaklingsins sem öllu máli skiptir?  Eiginlega má að mörgu leyti kalla það klassískt einelti hjá ESB, Norðmönnum og Færeyingum að koma fram við Íslendinga á þann hátt sem þeir virðast hafa gert og vilja ekki vera memm.

Makríldeilan og þessi samningur er reyndar mörgum hugleikinn:

„Síðast þegar svona illa skipulagt samsæri var framkvæmt í Evrópu var haustið 1956, þegar Bretar og Frakkar sömdu við Ísrael um innrás í Egyptaland og sóru allt af sér en voru afhjúoaðir af Bandaríkjamönnum.

Þetta lætur Styrmir Gunnarsson sér um ritvél (eða tölvu) fara í leiðara Evrópuvaktarinnar. Ansi finnst mér Morgunblaðsritstjórinn fyrrverandi seilast langt þarna. Að líkja innrásinni í Egyptaland við makríldeiluna held ég að engum nema honum hefði dottið í hug. Jafnvel Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er ekki svona þjóðrembdur í villtustu draumum sínum. Náttfatabróðir hans sem nú er ritstjóri Morgunblaðsins hefði jafnvel ekki heldur látið sér detta þetta í hug. Nei, Styrmir greyið er sennilega alveg orðinn elliær.

Af sérstökum ástæðum man ég ósköp vel eftir þessu innrásarmáli. Þannig var að ég var í Miðskóla Hveragerðis þegar þetta var. Mínútu þögn var fyrirskipuð kl. 12 af ríkisstjórninni til að votta Ungverjum samúð okkar í baráttu þeirra við ofureflið sovéska. Gunnar Benediktsson, sá alræmdi kommúnistaprestur, var einmitt að kenna okkur þegar þetta var. Hann lét mínútuna líða, en sagði okkur svo að minnast svika Frakka og Breta því þeir væru ekkert betri en Rússar.

Karl Garðarsson sem nú er orðinn þingmaður eins og flestir framsóknarmenn notaði eitt sinn algengt orðtæki hræðilega vitlaust þegar hann var fréttamaður á Stöð 2. Þá sagði hann í frétt um tófuyrðling sem drepinn var hér í bænum að menn hefðu „hlaupið upp á milli handa og fóta.“ Ekki hef ég hugmynd um af hverju mér er þetta mismæli svona minnisstætt. Annars hefur mér alltaf þótt Karl Garðarsson ótrúlega líkur pabba mínum í sjón og ég er alls ekki að segja frá þessu hérna til þess að gera lítið úr honum. Meira eiginlega til þess að furða mig á hvaða atvik úr lífinu verða manni sérstaklega minnisstæð. Ekki get ég heldur skilið hversvegna mér er atvikið með Gunnar Ben. svona eftirminnilegt.

IMG 0101Blokk.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband