2139 - Hraðbraut

Menntaskólinn Hraðbraut fer sennilega af stað aftur næsta haust. Í byrjun verður ekki um það að ræða skilst mér, að ríkið greiði öll laun, en það á eflaust eftir að breytast. Gæti skrifað langt mál um einkarekna skóla (sem eru sérgrein framsóknar sbr. Samvinnuskólann) en sleppi því núna. Sú ákvörðun að viðurkenna hraðbrautarnám (tala nú ekki um þegar farið verður að greiða launin) á eflaust eftir að verða umdeild. Skólamenn verða áreiðanlega ekki hrifnir.

Uppsagnir enn á RUV. Það á ekki af aumingja rúvinu að ganga. Nú þarf að losna við fréttastjórann (því hann er ekki nógu leiðitamur) og þá er helsta ráðið að segja nógu mörgum upp og skora á þá að sækja aftur um. Skyldu þeir gera það? Ekki dytti mér það í hug.

Annars var það alls ekki ætlum mín að spekúlera í pólitík. Það er bara svo gaman að bollaleggja um þessa hluti. Eiginlega er þetta alveg nóg og nú ætti ég að geta snúið mér að öðru.

Flugvélarhvarfið er mál málanna núna. Hvernig getur stór farþegaþota með hundruð manna bara horfið sísvona? Allmörg dæmi eru um að flugvélar með nokkra tugi manna hafi týnst og aldrei neitt til þeirra spurst. Hinsvegar hefur það, eftir því sem ég best veit, aldrei skeð áður að þota með mörg hundruð farþega hafi horfið alveg sporlaust. Mig minnir að ég hafi bloggað um það áður að vandræðalaust ætti að vera að senda, flestar eða allar þær upplýsingar sem fara í svörtu kassana svonefndu, þráðlaust beina leið til stöðva í landi. Þetta ætti vitanlega að gera, því algjör óþarfi er að láta svöru kassana (sem reyndar eru appelsínugulir) týnast með þeim flugvélum sem þá bera.

Ekki líst mér nógu vel að þetta ferðamannastúss landans. Innheimtuskúrar um allt og náttúrupassi að auki hlýtur að verða til þess að færri koma hingað í framtíðinni en annars yrði. Held að vitleysan sé aðallega sú að láta túrhestagreyin verða vara við þetta. Þegar sjónvarpsmenn tala við þá bera þeir sig náttúrlega vel og finnst sex hundruð kall ekki mikið. Gæti samt fælt frá.

Var eitthvað að lesa „Druslubækur og doðranta“ um daginn og þar var minnst á bókina (eða bækurnar) Í verum eftir Theodór Friðriksson. Höfundurinn skrifaði um þær bækur eins og eldfornar og ómerkilegar væru. Þar er samt um að ræða langbestu sjálfsævisögu sem skrifuð hefur verið á íslensku. Á því er enginn vafi. Á sínum tíma langaði mig mikið að setja þá bók á Netútgáfuna en gat það ekki vegna höfundarréttar. Held að höfundurinn hafi dáið um 1950. Kannski skrifa ég meira um þetta verk seinna. (Tvö bindi minnir mig endilega að um hafi verið að ræða og að ég hafi fengið þau lánuð á Borgarbókasafninu, sem þá var í Þingholtsstræti.)

Auk þess legg ég til að... bla bla bla.

IMG 0115Áningarstaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algjörlega sammála þér varðandi "Í verum". Ég held að engin ævisaga hafi opnað jafn vel augu mín fyrir lífsbaráttu kynslóðanna, sem komu og fóru á undan okkar. Væri hægt að skrifa um það langt mál á öðrum vettvangi. 

Einhvernveginn held ég að fari nýr útvarpsstjóri þá leið, að láta Óðinn gossa, verði það til þess að setja punkt aftan við hans starfsferil hjá RÚV. Annars held ég "dagskrárútvarp/sjónvarp" sé þegar orðið fortíð. Ég þekki afskaplega fátt fólk undir sextugu, sem hlustar á útvarp eða horfir á sjónvarpsdagskrár. Nema þá að fólk láti glamra einhverjar tón"listar" stöðvar, sem gera í raun engar kröfur um hlustun. Fréttir les fólk á Netinu, þ.e.a.s. ef það les einhverjar fréttir yfirleitt. Það eru varla fleiri en ca. 10 - 15.000 manns á landinu öllu sem lesa Moggann og fer fækkandi, enda fer best á því. 

Ellismellur 23.3.2014 kl. 07:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband