2136 - Kerið og Geysir

Nú bíður maður bara eftir því með öndina í hálsinum (hvaða fjandans önd) að farið verði að slást við Geysi. Kannski einhverjum verði hent í hver. Hver veit. Nú, veit hann það? Ja, maður tekur nú bara svona til orða.

Annars er þetta náttúrupassamál náttúrlega mjög skrítið. Ekki langar mig nærri eins mikið til að sjá Kerið eftir að skúrinn kom þar. Íslendingar eru skrýtnir. Ekki er nóg að þeir bjóði grunlausum útlendingum uppá náttúrpassa heldur fara þrjár fegurðardísir í sömu peysuna eins og frægt varð um árið. Hvort þær voru í einhverju öðru en peysunni fer hinsvegar engum sögum af. Einhver skrifaði um það á fésbókina að margir framfleyttu sér og gerðu út á það að sturta farþegum á suma af fegurstu stöðum landsins, en væru ófáanlegir til að borga nokkurn hlut fyrir það.

Einelti er skrýtin skepna. Mér finnst ég ekki hafa orðið fyrir einelti. Öðrum finnst það þó kannski. Ekki finnst mér ég heldur hafa tekið þátt í að einelta aðra. Er það ekki upplifun einstaklingsins sem öllu máli skiptir?  Eiginlega má að mörgu leyti kalla það klassískt einelti hjá ESB, Norðmönnum og Færeyingum að koma fram við Íslendinga á þann hátt sem þeir virðast hafa gert og vilja ekki vera memm.

Makríldeilan og þessi samningur er reyndar mörgum hugleikinn:

„Síðast þegar svona illa skipulagt samsæri var framkvæmt í Evrópu var haustið 1956, þegar Bretar og Frakkar sömdu við Ísrael um innrás í Egyptaland og sóru allt af sér en voru afhjúoaðir af Bandaríkjamönnum.

Þetta lætur Styrmir Gunnarsson sér um ritvél (eða tölvu) fara í leiðara Evrópuvaktarinnar. Ansi finnst mér Morgunblaðsritstjórinn fyrrverandi seilast langt þarna. Að líkja innrásinni í Egyptaland við makríldeiluna held ég að engum nema honum hefði dottið í hug. Jafnvel Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er ekki svona þjóðrembdur í villtustu draumum sínum. Náttfatabróðir hans sem nú er ritstjóri Morgunblaðsins hefði jafnvel ekki heldur látið sér detta þetta í hug. Nei, Styrmir greyið er sennilega alveg orðinn elliær.

Af sérstökum ástæðum man ég ósköp vel eftir þessu innrásarmáli. Þannig var að ég var í Miðskóla Hveragerðis þegar þetta var. Mínútu þögn var fyrirskipuð kl. 12 af ríkisstjórninni til að votta Ungverjum samúð okkar í baráttu þeirra við ofureflið sovéska. Gunnar Benediktsson, sá alræmdi kommúnistaprestur, var einmitt að kenna okkur þegar þetta var. Hann lét mínútuna líða, en sagði okkur svo að minnast svika Frakka og Breta því þeir væru ekkert betri en Rússar.

Karl Garðarsson sem nú er orðinn þingmaður eins og flestir framsóknarmenn notaði eitt sinn algengt orðtæki hræðilega vitlaust þegar hann var fréttamaður á Stöð 2. Þá sagði hann í frétt um tófuyrðling sem drepinn var hér í bænum að menn hefðu „hlaupið upp á milli handa og fóta.“ Ekki hef ég hugmynd um af hverju mér er þetta mismæli svona minnisstætt. Annars hefur mér alltaf þótt Karl Garðarsson ótrúlega líkur pabba mínum í sjón og ég er alls ekki að segja frá þessu hérna til þess að gera lítið úr honum. Meira eiginlega til þess að furða mig á hvaða atvik úr lífinu verða manni sérstaklega minnisstæð. Ekki get ég heldur skilið hversvegna mér er atvikið með Gunnar Ben. svona eftirminnilegt.

IMG 0101Blokk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband