Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

2135 - Æ, þessi pólitík

Einn helsti gallinn við Sigmund Davíð er að hann getur varla hreyft sig, eða a.m.k. gert neitt að gagni, án þess að setja heimsmet. Kannski er það skiljanlegt að hann langi mikið til þess. Ekki er þetta samt traustvekjandi og ekki er að sjá að neinn annar sé sömu skoðunar og hann. En svona er þetta. Bráðum dettur hann sennilega um öll metin.

Ekki ber það utanríkisþjónustunni fagurt vitni að Íslendingar skuli hafa látið Norðmenn og Færeyinga plata sig í makríldeilunni. Kannski eru þó ekki öll kurl komin til grafar í því máli og vel getur verið að Íslengingum standi til boða að gerast aðilar að samkomulaginu og hugsanlega ekki á neinum afarkjörum. Bíðum og sjáum hvað setur.

Brak úr þotunni sem týnd var hefur nú fundist og menn geta hætt að bollaleggja um yfirnáttúrlega hluti eins og mér fannst vera farið að bera á. Bilun hennar er þó enn mikið og óleyst vandamál. Vonum bara að svörtu kassarnir finnist. Nútildags ætti ekki að vera mikill vandi að láta þotur af þessu tagi senda allar þær upplýsingar sem settar eru í svörtu kassana þráðlaust til stöðva í landi. Peninga mundi það samt hugsanlega kosta.

Ef ríkisstjórnin ætlar sér að koma þingsályktunartillögunni um viðræðuslit í gegnum þingið og hunsa með öllu kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu, en það getur hún nær örugglega, þá kann að vera að hún hafi grafið sjálfri sér þá gröf sem hún kemst ekki uppúr. Annaðhvort fellur hún þá með miklum hávaða eða hún verður sterkari en nokkru sinni. Ég held semsagt að því fari fjarri að þessu máli sé lokið.

Segjum að Bjarni bogni alveg, hvað sem Simmi segir og það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn. Samþykkt verði að halda samningsumleitunum áfram. Eigum við þá í ljósi ómöguleikans hans Bjarna að ganga útfrá því að ríkisstjórnin reyni að ná samningum sem væru sem óhagstæðastir fyrir okkur Íslendinga. Ég held að enginn geri ráð fyrir því. Nema hugsanlega Simmi sjálfur. Honum væri trúandi til að gera hvað sem er til að tryggja höfnun samningsins.

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálið verði áfram á dagskrá. Vel mætti hugsa sér að öll þau skjöl og bréf sem um málið fjalla væru gerð opinber. Þá mætti sjá hvernig opinberir aðilar haga sér í málum sem þessu. Þeir sem vilja fræðast nánar um þetta mál geta gert það með því að hafa samband við sýslumannsembættið á Selfossi, bæjarstjórn Árborgar eða lögmann þann sem fer með málið fyrir stærstan hluta löglegra erfingja jarðarinnar. Um þetta mál skrifaði ég fyrst 10. desember 2013 og hef haldið því áfram að einhverju leyti síðan.

IMG 0095Kannski fer ég aldrei þangað án þess að ætlast til að fá 80% afslátt.


2134 - Engimýri

Einhversstaðar (væntanlega á netinu) rakst ég á eftirfarandi auglýsingu:

Á Engimýri eru 8 tveggja manna herbergi. 
6 herbergi eru með uppábúnum rúmum, vask, sjónvarpi, fataskáp og skrifborði. 
2 herbergi eru að auki með sturtu og salerni.

Eru rúmin á Engimýri virkilega uppábúin? Í mínu ungdæmi þýddi það að vera í sparifötunum sínum og eins fínn/fín og nokkur tök voru á. Var eingöngu notað um fólk. Kannski breytist bara íslenskan. Hvað veit ég? Miðlínuna í auglýsingunni hefði ég samt haft einhvernvegin svona: 6 herbergi eru með rúmum og öllum sængurfötum, vaski, sjónvarpi, fataskápi og skrifborði. Semsagt 3 villur í örstuttum og einföldum texta. Hefði kannski gengið í ómerkilegu bloggi, en í vandaðri auglýsingu finnst mér þetta heldur mikið. Í gamla daga klæddi fólk sig meira að segja uppá þegar það fór að láta taka mynd af sér. Engum held ég að dytti það í hug núna. Sumir eru líka alltaf í sparifötunum sínum.

Íslenskt mál er mér alltaf hugleikið. Þó augljóslega sé ekki til siðs lengur að nota orð eins og að „mævængja“, að „stígstappa“ og að „akneytast“ er merking þeirra mér afar ljós því mamma notaði þau talsvert. Einnig notaði hún oft orð eins og „blómsturpottur“ og „kvittering“ þó til séu á íslensku styttri og þægilegri orð sem þýða nákvæmlega það sama.

Athugasemdirnar við síðasta blogg mitt eru lengri en bloggið sjálft. Það finnst mér ókostur. Eiginlega ætti að reyna að hafa athugasemdir sem stystar og alls ekki að nota „copy+paste“. Eða allavega sem minnst. (Ég geri það víst sjálfur.) Gaman er samt út af fyrir sig að fá athugasemdir og ef þær eru kurteislega orðaðar ætti að vera sjálfsagt að svara þeim.

Minnir endilega að ég hafi séð á fésbókinni um daginn einhvern vera að hafa orð á því hve íslenska krónan væri lítil orðin miðað við þá dönsku. Svar við þessu var að viðkomandi hafi verið í Færeyjum nýlega og notað jöfnum höndum færeyska og danska seðla, svo færeyska krónan væri ekki svo lítil og hvernig þeir hefðu farið að þessu. Danir vildu ekki að sögn sjá færeysku krónurnar.

Datt undireins í hug skýring á þessu. Danski Seðlabankinn hefur ugglaust gefið þessa seðla út og látið sér í léttu rúmi liggja hvaða áletrun væri á þeim. Auðvitað vita ekki allir Danir af þessu og búast jafnvel við að um falsaða peninga sé að ræða. Man eftir að þegar ég var að byrja að safna frímerkjum hélt ég að stimpilmerki væru frímerki. Stimpilmerki voru gjarnan á víxlum sem var algengasta lánsformið þátildags. Samanber útvarpsleikritið fræga sem hét „Víxlar með afföllum“.

Sko mig. Mér hefur tekist að skrifa heilt blogg (Hmmmm) án þess að minnast á stjórnmál. Enda eru þau orðið svo vitlaus að ekki er orðum á þau eyðandi. Samt gengur ríkisstjórnin með viðræðuslitum við ESB freklega á bak orða sinna.

Auk þess ætlaði ég að minnast á Ásgautsstaði, en man bara ekkert hvað ég hafði í huga.

IMG 0060Háskólinn í Reykjavík.


2133 - Þjóðaratkvæðagreiðsla skiptir máli

Ríkisstjórnin rær nú að því öllum árum að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Af hverju skyldi það vera? Egill Helgason hefur skýringuna. http://eyjan.pressan.is/silfuregils/ og vitnar í Andra Geir Arinbjarnarson. http://blog.pressan.is/andrigeir/  Það er á sinn hátt trúverðugt að eignarhald á bönkunum skipti máli. Það er engin tilviljun að hér þrífist engir erlendir bankar. Á sama hátt (kannski sjáanlegra samt) er útlendum olíufyrirtækjum gert ómögulegt að koma sér fyrir hérna. Ísland er of lítið til að standa gegn einokunartilburðum innlendra stórra og valdamikilla fyrirtækja. Eiginlega er það alveg nægileg ástæða fyrir því að vilja ganga í ESB.

Spurningin um það hvort slíta skuli viðræðum við ESB sem allra fyrst snýst  ekki að neinu leyti um það á hve skiljanlegu máli samningurinn sjálfur verður fyrir allan almenning. Það er samt ein af röksemdunum fyrir frumvarpinu um viðræðuslit. Auðvitað verður hann túlkaður út og suður af fylgjendum og andstæðingum. Allt bendir samt til að meirihluti Íslendinga sé andvígur honum. Ætíð ber að varast óþarfa flýti. Ef ekki er hægt að rökstyðja flýtinn málefnalega, er best að taka enga ákvörðun.

Með þjóðaratkvæðagreiðslunni vill fólk kannski umfram allt láta í ljós óánægju sína með ríkisstjórnina, án þess að eiga neitt á hættu varðandi ESB. Eru þetta þá einskonar aukakosningar, sem verið er að tala um? Já, mér finnst það, og á vissan hátt frelsar það frambjóðendur í sveitarstjórnarkosningunum frá því að taka afstöðu til málsins. Það er hlé á viðræðunum núna og ekki er hægt að sjá að Íslendingar græði neitt á því almennt séð að slíta viðræðunum án nokkurrar niðurstöðu. Líklegast finnst mér að sá tími sem farið hefur í samningaumleitanir sé svo langur sem raun ber vitni vegna þess að ekki sé neitt útlit fyrir að samkomulag náist.

Með viðræðuslitunum getur ríkisstjórn íhalds og framsóknar tekið til óspilltra málanna við að endurskapa 2007 ástandið. Það er draumurinn. Kannski ætla þeir að vara sig á hruninu og vafalaust verður það ekki nærri eins og síðast.

Æ, pólitíkin er ósköp leiðinleg. Það er samt ekki hægt að láta hana alveg eiga sig og við lifum vissulega á viðsjárverðum tímum.

Auk þess er ég vanur að minnast á Ásgautsstaði í blogginu mínu. Eiginlega er það nokkuð gott dæmi um sífelldan yfirgang þeirra aðila sem þykjast eiga eitthvað undir sér. Með samtakamætti gætum við auðveldlega tekið af þeim völdin.

IMG 0054Í Hörpunni II.


2132 - Einhver tík, sennilega pólitík

Verði samþykkt stjórnarskrá sem leyfir þjóðinni að heimta bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu hvenær sem er og um næstum hvað sem er þýðir það breytta stjórnskipun. Ekki verður lengur um þingbundnið lýðræði að ræða heldur verður það a.m.k. að stórum hluta beint. Kannski er það samt sem áður einmitt það sem koma skal. Tæknin leyfir það eiginlega alveg. Auðvitað verða að vera strangar reglur um hvernig slíkt skuli fara fram, en það er alls ekki of snemmt að fara að athuga það og jafnvel að gera tilraunir. Kosningar með blaði og blýanti sem mest hafa tíðkast undanfarið eru alls ekki gallalausar. Menn eru bara orðnir sæmilega vanir þeim.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í Kastljósi að ESB hefði heimtað að annaðhvort segðu menn af eða á varðandi umsóknina um aðild. Það væri semsagt drullusokkunum þar að kenna að þingsályktunartillagan var flutt. Allt sem er öndvert hans skoðunum er öðrum að kenna. Það ættu menn að vera farnir að þekkja. Hann sagðist líka vera algjörlega andvígur því sem stæði í undirrituðu ávarpi hans í einhverjum kosningabæklingi og sá texti væri alls ekki eftir hann. Það fannst mér merkilegt. Er hann að grafa sér sína eigin gröf eða er hann að reyna að bjarga Vigdísi Hauksdóttur með því að beina athyglinni að sér?

Ég er að hugsa um að hætta (alveg óumbeðinn) að styðja Bjarna Benediktsson og þá súkkulaðistrákana hann og Sigmund Davíð. Þó ég hefði ekki kosið þá í síðustu kosningum fannst mér alveg óþarfi að vera fyrirfram á móti ríkisstjórninni þeirra. Það væru jafnvel líkur á að þeir væru skárri en Jóhanna og Steingrímur. Alveg frá ráðherravalinu finnst mér samt að þeir hafi tekið aðallega rangar ákvarðanir. Sumt sem þeir hafa talað um að gera lítur samt sem áður ágætlega út, þó ekki sé hægt að kalla það hægrisinnað. Ef hjól atvinnulífsins væru farin að snúast á miklum hraða væri hægt að fyrirgefa þeim margt. En svo er bara ekki.

Björt Framtíð virðist vilja koma inn í það pláss sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur búið til fyrir hægfara, hægrisinnaðan ESB-flokk. Það kemur samt ekki almennilega í ljós fyrr en í næstu kosningum. Samfylkingin er sennilega alveg búin að vera.

Hugsum okkur að hægt verði að hrekja bæði Ómöguleikann og Óframfylgjanleikann úti það að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald samninga í sumar. Síðan drægjust samningaviðræður alveg framað næstu stjórnarskiptum. Hvenær sem þau nú verða. Laust eftir þau yrði síðan þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild. Það væri jafnvel verra en höfnun samningsins ef hann yrði samþykktur með mjög naumum meirihluta. En hvað er (naumur!!) meirihluti?

Ég er að komast á þá skoðun að alltof mikið sé gert úr Úkraínumálinu. Rússar séu einlægir í því að vilja komast hjá harkalegum átökum, enda hefðu þeir ekkert að græða á þeim. Hins vegar er líklegt að þeir vilji hafa áhrif á þróun mála á Krímskaga.

Hér með er pólitíkin útlæg gerð úr þessu bloggi a.m.k. í dag. Veðrið er miklu merkilegra umræðuefni. Nú þegar daginn er áberandi farið að lengja og sjálfur sílamávurinn mættur á svæðið þá þarf endilega að fara að snjóa!! Alveg eins og það sé vetur ennþá. Ég sem hélt að vorið ætlaði bara að koma svona hægt og hljótt, en svo verður víst ekki. Einmitt þegar svellin hér í kring höfðu að mestu leyti horfið þurfti endilega að fara að snjóa aftur af krafti. Ég kann bara alls ekki við þetta. Hverjum er þetta að kenna?

Auk þess legg ég til, að það vopn sem Ásgautsstaðamálið getur orðið í komandi kosningum,  (eins og Sögu-málið á Akranesi, sem enginn þorir að minnast á.) verði brýnt eftir hentugleikum þeirra sem það vilja nota. Nóg er til af allskyns skjölum sem sanna glæpinn á bæjarstjórn Árborgar. Sjá bloggið mitt frá 10. desember s.l.

IMG 0052Í Hörpunni.


2131 - ESB og ríkisstjórnin

ESB-málið er að verða stærra en nokkur reiknaði með. Sé ekki betur en ríkisstjórnin verði að bakka með flest sem hún hefur haldið fram. Stjórnarandstaðan styrkist mjög. Sennilega er flest sem stjórnin hefur gert hingað til tóm mistök. Það er alls ekki eðlilegt að bæði fyrrverandi formaður og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins ráðist svona að flokksforystunni eins og staðreyndin er. Er Bjarni að kljúfa flokkinn?

Undanfarnir dagar hafa verið mjög slæmir hjá ríkisstjórninni. Tölum bara um það sem gert hefur verið. Ekki það sem stjórnarandstaðan býst við að standi til. Sigmundur Davíð stóð sig mjög illa í sjónvarpsviðtali og öfgaöflin í Framsóknarflokknum voru látin komast upp með að henda inná þing illa undirbúnu þingsályktunarfrumvarpi um viðræðuslit við ESB á kolröngum tíma þó búið hafi verið að lofa að láta fara fram þjóðaratkvæðagreislu áður en það yrði gert. Afleiðingarnar af þessu eru mun harkalegri mótmæli en búist var við. Ríkisstjórnin leitar nú í ofboði að bakkgírnum.

Ég er ansi hræddur um að sú lausn sem stjórnin finnur nú í vikunni verði einhvern veginn þannig að kannski verði fallið frá þingsályktunartillögunni en líka reynt að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Má ekki líkja því við að þjóðin segi af sér? Mér sýnist að margir þingmenn vilji það. Er það einhver lausn? Ekki finnst mér það?

Ríkisstjórnarflokkarnir vilja líklega ekki þjóðaratkvæðagreiðslu. Sennilega halda þeir að nóg sé að falla frá þingsályktunartillögunni um viðræðuslit. Svo er ekki. Krafan er um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingsályktunartillagan skiptir orðið sáralitlu máli. Er hvort eð er steindauð. Ef fóstbræðurnir Simmi og Bjarni sjá það ekki þá er líklegast að í næstu viku hefjist samskonar vitleysa á alþingi og í síðustu viku. Einfaldlega vegna þess að búast má við að fótgönguliðarnir fylgi forystumönnum sínum í blindni.

Ja, hver rækallinn. Sé ekki betur en að allt þetta blogg sé um pólitík. Þó hef ég ekki minnst á Ukrainu eða Pútín, sem eru þó greinilega mál málanna þessa dagana. Af því ég er Íslendingur finnst mér merkilegast það sem gerist hér á landi.

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálið verði tekið á dagskrá. Búast má við einhverjum breytingum á því máli næstu daga. Ef ekki tekst að vekja neinn fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar má samt búast við að það sofni aftur og bæjarstjórnin og Sigurður lögfræðingur haldi áfram sínum hráskinnaleik.

IMG 0042Ferming eða afferming.


2130 - Sumir eru með böggum hildar

Ef menn gefa sér tíma til að líta uppúr Ukraínu- Hildar Lilliendahl- og útifundar-málum þá vona ég bara að Vigdís Hauksdóttir taki ekki við. Eiginlega er ég búinn á fá leið á öllum þessum málum í bili.

Ég er svosem alveg sammála því sem Eva Hauksdóttir segir í Kvennablaðinu. Áður fyrr (kannski alveg framundir 2010) tíðkaðist mjög grófur og groddalegur húmor á netinu, sem menn eru orðnir afar viðkvæmir fyrir núna. Sjálfur hef ég aldrei orðið fyrir barðinu á honum enda er ég með ferkantaðri mönnum. Í athugasemdum (kommentum) við fjölmiðlana fannst mönnum oft að þeir þyrftu að trompa í orðavali alla sem á undan hefðu komið. Internetið gleymir engu og það sem einu sinni hefur farið þangað er ekki hægt að stroka út. Fleiri en Hildur Lilliendahl sjá eflaust eftir ýmsu sem skrifað hefur verið þar.

Leiðinn (hjá mér) snýst þó ekki um ESB-málið og mögulegar þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég held t.d. að hugsanlegt sé að Simmi&Bjarni og Company þurfi á endanum að bakka með viðræðuslitin. (Hefðu kannski átt að reyna við þau fyrr.) Sú magalending er líklegust að þingsályktunin verði dregin til baka og sömuleiðis allar tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur og reynt að koma mótmælendum af Austurvelli.

Ef skrifa ætti hér í blogginu um öll þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni er af mörgu að taka. Auðvitað hef ég skoðanir á flestu, en nenni bara ekki að útlista þær hér. Bloggin eiga helst að vera stutt og hnitmiðuð.

Þó þjóðaratkvæðagreiðslur séu við núverandi aðstæður auðvitað bara ráðgefandi ef um þingsályktanir er að ræða, þá er líklegt að alþingismenn hiki meira við að ganga móti skýrum þjóðarvilja en ímynduðum. Vitanlega ráða þeir því samt.

Þessar hugleiðingar mínar eru líka oft svo seint fram komnar að þær eru nánast úreltar þegar þær koma fyrir sjónir þeirra sem þó lesa bloggið mitt. Sumar þeirra gætu samt haft eitthvað gildi, en það er ómögulegt að sjá fyrir.

Var að enda við að lesa á kyndlinum mínum um bók sem heitir „Youtube Strategies“ Í kynningu á henni er fullyrt að á hverri mínútu sé (eða hafi einhverntíma verið – sennilega eykst það nú frekar en hitt) öpplódað þangað um það bil eitt hundrað klukktímum af efni. (Athugið að ég skrifaði á hverri mínútu og það var ekki prentvilla) Vissulega er það blöskranlega mikið, en auðvitað skoðar enginn öll þessi ósköp. Þessi bók kostar rúma 5 dollara. Þetta leiðir hugann að stórfyrirtækjum á upplýsingasviðinu einsog Facebook og Google. Enginn talar lengur um smáfyrirtæki eins Microsoft.

Auk þess legg ég til að Úkraína verði lögð í eyði. Nei, nú er ég víst farinn að ruglast eitthvað í ríminu. Ég ætlaði að skrifa um Ásgautsstaði þarna, þó það þýði víst lítið. Elítan á Suðurlandi vill fyrir hvern mun halda því máli sofandi sem lengst. Ræs þá.

IMG 0038Skilti.


mbl.is Orðræðan einkennist af persónuníði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband