2138 - ESB-málið

Það fer varla framhjá neinum að ESB-umræðan er óvenju hatrömm um þessar mundir. Báðir aðilar þykjast greina örvæntingu hjá andstæðingunum. Öfgaöflin hafa náð yfirhöndinni í ríkisstjórninni og án þess að hún hafi sóst eftir því hefur þetta orðið eitt helsta bitbeinið á alþingi. Margir hafa þó veigrað sér við að taka þátt í umræðunni og er það skiljanlegt. Ekki er með nokkru móti hægt að sjá fyrir hvernig henni lyktar. Ríkisstjórnin gæti beðið mikinn hnekki.

Svo hatrömm er þessi umræða að Íslendingar hafa varla mátt vera að því að minnast á Ukrainu eða flugvélina sem hvarf. Þetta eru þó þau mál sem útlendingar ræða mest þessi dægrin.

Nei, ESB skal það vera. ESB-andstæðingar, sem fengu því til leiðar komið að ríkisstjórnin henti inná alþingi illa undirbúinni þingsályktunartillögu, í flýti miklum, eru nú önnum kafnir við að draga sem mest í land með það mál allt. Þeir geta samt ekki unnt þjóðinni þess að segja álit sitt á málum og öll viðleitni þeirra nú snýst um það að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Sennilega tekst þeim það.

Ég vil sem minnst ræða þetta mál og á ofanrituðu má skilja að ég á von á að þingsályktunartillagan verði dregin til baka eða útþynnt mjög. Þjóðaratkvæðagreiðslu tekst ríkisstjórninni sennilega að komast hjá. Afleiðingarnar í komandi sveitarstjórnarkosningum er ómögulegt að sjá fyrir. Einhvern hnekki mun ríkisstjórnin samt bíða. Túlkun úrslitanna verður þó samkvæmt venju með ýmsu móti.

Svo harkalega er tekist á um ESB-málið að lekamál Hönnu Birnu er alveg fallið í skuggann. Allar líkur eru á að lögreglan geri það sem fyrir hana er lagt og hvítþvoi hana. Jafnvel eru líkur á að henni verði sparkað uppá við og gerð að utanríkisráðherra. Til að reyna að endurvekja traust almennings á ríkisstjórninni er nefnilega líklegt að fljótlega verði stokkað upp í henni. Erfitt er að sjá fyrir til hvers það muni leiða.

Já, það er gaman að spá í pólitíkina og skoðanir mínar í þeim málum breytast afar hægt. Hvað ESB-málið varðar finnst mér þó að skilningur minn á andstöðinni við aðild sé að aukast. Óralangur stuðningur minn við aðild hefur þó ekkert bilað. Mér finnst ég ennþá vera í miklum minnihluta hvað það snertir.

Nú geld ég þess illilega að hafa ekkert (eða a.m.k. lítið) minnst á pólitík í síðasta bloggi mínu. Þetta blogg er alveg undirlagt sýnist mér. Get bara ekki að þessu gert. Eins og venjulega þegar ég blogga um pólitík finnst mér liggja á að koma ósköpunum frá mér. Það gerist svo margt á stjórnmálasviðinu og er þar að auki fljótt að gerast, að þetta innsæi sem mér finnst þessar hugleiðingar bera vott um, gæti horfið eins og dögg fyrir sólu

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálinu verði haldið lifandi. Ekkert frásagnarvert gerist í því þessa dagana og líklegast er að það haldi áfram að dragast á langinn. Kannski í mörg ár í viðbót.

IMG 0111Í háloftunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband