Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

1972 - ESB

Það er komin ný skilgreining á stjórnarandstöðu. Þeir sem eru kátir og hressir (eins og Simmi og Bjarni eftir að þeir fengu völdin) eru stuðningsmenn stjórnarinnar. En allir sem eru fúlir á móti eru andstæðingar hennar. Víxla má þessu að vild, þannig að allir sem láta í ljós neikvæðni eða gagnrýni séu andstæðingar nýju stjórnarinnar eða þannig. Kannski er þetta ekki alveg svona einfalt og verið getur að þeir verði ekki sjálfkrafa stuðningsmenn stjórnarinnar sem verður það á að brosa eða vera í góðu skapi.

Það er enginn friður fyrir þessari árans fésbók. Nú er hún komin vel á veg með að fylla pósthólfið mitt. Reyndar fer ég mun oftar á fésbókina en ég skoða póstinn. Þetta Internet-rugl allt saman er alveg að gera mig gráhærðan. Nú, er ég gráhærður fyrir? Jæja, það verður að hafa það.

Fáein orð um Evrópusambandsaðild. Agli Helgasyni varð það á að segja í bloggi sínu að það væri rugl að tala um að aðlögunarviðræður við Evrópusambandið stæðu yfir. Afleiðingin var mikið og langt athugasemdaskott. Ekki á ég von á neinu slíku hér enda er ég enginn Egill Helgason.

Mín skoðun er samt þessi: Allir dómstólar væru óþarfir ef lög væru jafn ótvíræð og nei-sinnar vilja halda fram að einhver klausa á ensku um aðildarviðræður sé. Þessa klásúlu er vissulega hægt að skilja á þann veg að um ekkert sé að semja. Þessvegna hafa nei-sinnar fundið upp orðið sem Egill Helgason minntist á og nota það óspart í áróðri sínum.

Það er að vísu alveg rétt hjá Atla Harðarsyni skólameistara á Akranesi í grein eftir hann sem birtist í Morgunblaðinu að ef aðildarviðræðum yrði haldið áfram nógu lengi þá gæti sú staða einhverntíma komið upp að meirihluti þjóðarinnar yrði hlynntur aðild.

Þessvegna væri ekkert óeðlilegt við það að aukin pressa yrði sett á að hraða viðræðunum svo hægt væri að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Auðvitað eru mestar líkur á að aðild yrði felld, bæði þar og á alþingi. Það mundi samt hreinsa talsvert andrúmsloftið ef slíkt yrði gert.  

Athyglisvert er að ekki er á neinn hátt tekið af skarið um Evrópusambandsviðræðurnar í nýbirtum stjórnarsáttmála. Miklu máli skiptir hvort viðræðunum er slitið eða þeim frestað.

IMG 3193Hús í byggingu.


mbl.is Lítil verðbólga og áfram samdráttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1971 - Afsökunarbeiði og ýmislegt annað

Síðasta blogg mitt var talsvert mikið lesið. Ætli gestir hafi ekki samtals verið á annað þúsund. Þessu á ég ekki að venjast og ég veit að það stafar einkum af tvennu. Í fyrsta lagi var nafn Vigdísar Hauksdóttur fyrirsögn pistilsins þó hann fjallaði ekki mikið um hana. Í öðru lagi linkaði ég bloggið við frétt um hana og þar sem minnst var á hana í flestum fréttamiðlum þennan dag varð afleiðingin sú að margir héldu áreiðanlega að mikilvægar fréttir um hana væri að finna á blogginu mínu. Svo var alls ekki. Mér fannst þetta blogg mitt vera fremur venjulegt og ég setti klausuna um Vigdísi síðast í bloggið og linkaði síðan í fréttina um hana. Þetta gerði ég að sjálfsögðu til að sem flestir læsu. Og það tókst.

Þá sem fóru inn á bloggið mitt án þess að hafa í raun og veru ætlað sér það bið ég að sjálfsögðu afsökunar á blekkingunni. Hún var til þess eins gerð að auka lestur bloggsins og hvað aðalefni deilunnar um Vigdísi Hauksdóttur snertir þá vil ég bara segja það að ég hef aldrei, svo ég viti, tekið þátt í skipulegri aðför að henni. Varla þarf ég að taka fram að ég hef aldrei fengið greitt fyrir þá þátttöku sem engin hefur verið. Álit mitt á henni finnst mér ekki skipta máli og ætla ekkert að fjölyrða um.

Að vera pínulítið frumlegur í blogginu mínu án þess að vera orðljótur, það eru mínar ær og kýr. Samt meina ég alveg það sem ég skrifa. Það er bara hægt að segja meiningu sína á svo margvíslegan hátt. Ef ég mundi vanda mig meira mundi þetta verða allt öðruvísi. Þegar ég er búinn að setja blogg upp breyti ég því sjaldnast. Það kemur samt fyrir. Aldrei efnislega þó. Samt er það svo að ég sé stundum talsvert eftir því sem ég hef sagt/skrifað á blogginu. Ef mér finnst það nógu mikilvægt leiðrétti ég það í næsta bloggi. Þannig finnst mér að það eigi að vera. Stafsetningarvillur, greinarmerkjasetningu og augljósar staðreyndavillur finnst mér megi leiðrétta en efnislega finnst mér að engu eigi að breyta.

Kattamorðingi gengur laus (fyrirsögn úr Vísi). Að vísu er hann í Noregi svo kettir sem stunda það að lesa visi.is á netinu hér uppi á Íslandi þurfa víst ekkert að óttast. Þó hér sé rætt um visi.is eru dv.is og aðrir netmiðlar alls ekki lausir við þetta. Gamanlaust þá finnst mér ekki að fólk eigi að láta bjóða sér svona vitleysu. Allt er reynt til að glepja fyrir fólki. Langvinsælast er að þýða einhverjar fréttir úr útlendum blöðum og reyna að láta þær líta út fyrir að vera sem mest krassandi og að þær hafi sennilega gerst í næsta húsi. Nenni ekki að fjölyrða um þetta. Langflestar fjölmiðlafréttir eru tómt píp og vitleysa. Kannski er mbl.is skást að þessu leyti, en afleitt þó með réttritum og kunnáttu í landafræði.

Einu sinni var það hald manna að þau væru öll systkini, Bjarni Harðar, Eygló Harðar og Sigrún Harðar. Svo er alls ekki, þó þau hafi í eina tíð öll verið í Framsóknarflokknum. Nú er ég að hugsa um að halda því fram að Vigdís Hauksdóttir og Eva Hauksdóttir séu systur. Ólíklegt er það reyndar, en reyna má það samt.

Invisible gorilla. Prófið að fara inn á Youtube og leita að þessu. Athylisprófanir eru þar og kannski er rétt að setja körfubolta inn í leitina líka (e. basketball). Athyglisvert er það sem þarna er fjallað um. Sennilega byggjast mörg töfrabrögð einmitt á þessu. Þetta er ótrúlegt, en sjón er sögu ríkari.

Bara til þess að koma með nýtt blogg sem allra fyrst eftir blekkinguna með Vigdísi Hauksdóttur þá er ég að hugsa um að setja þetta blogg sem fyrst á Moggabloggið og tengja það ekki við neitt.

IMG 3188Svona enda (eða byrja) sumar gangstéttar í Kópavogi. (Í Reykjavík reyndar líka)


1970 - Vigdís Hauksdóttir

Ég sé að mitt síðasta blogginnlegg hefur valdið nokkrum deilum milli Sigurðar Þórs Guðjónssonar og Jóhannesar Laxdal Baldvinssonar. Það er vel. Mér finnst þeir báðir hafa rétt fyrir sér. Hvor á sinn hátt. Svona getur nú verið erfitt að taka ákvarðanir. Jafnvel (og alls ekki síst) er hægt að túlka fangelsismál með tilliti til pólitíkur. Samkvæmt minni skilgreiningu er Sigurður talsvert vinstrisinnaður en Jóhannes til hægri. Stjórnmálaskoðanir geta vel haft áhrif á það hvernig á þessi mál er horft. Svo er vel hægt að blanda afskiptasemi ESB inn í þetta o.s.frv. o.s.frv.

Hef verið að lesa að undanförnu Spánarpósta eða bréf Þorsteins Antonssonar. Merkileg bók og persónuleg. Þar er hann meðal annars með ýmsar hugleiðingar um uppeldi sitt. Margt er þar vel athugað og kannski skilur hann sjálfan sig betur en flesta aðra. Tillit til annarra og að geta sett sig inn í hugsanagang þeirra er líklega einhver mikilvægasti og misskildasti allra mannlegra eiginleika. Grunnurinn að einhverfu og öllum afbrigðum hennar liggur sennilega þar. Einhverfa og Alzheimer eru tískusjúkdómarnir um þessar mundir. Spurningin varðandi alla sjúkdóma finnst mér vera að hve miklu leyti þeir eru líkamlegir og að hve miklu leyti andlegir.

Það er eiginlega alltof seint að koma sér upp persónuleika á þessum aldri. En svei mér ef ég hef ekki með Þorsteini komist í kynni við annan eins sérvitring og sjálfan mig. Sigurður Þór Veðurviti er einn til.  

Þó það sé vafasamt þá finnst mér alltaf að ég sé hálfvegis að svíkja mögulega lesendur mína (sumir mundu segja hlífa í stað svíkja) ef ég sleppi því að blogga svotil daglega. Þó hef ég oft ekkert að segja og sumum finnst áreiðanlega að þetta sé bölvað bull hjá mér. Mér finnst ég þó ekki eins skuldbundinn til að blogga á hverjum degi einsog einu sinni var. Kannski eru þessi blogg hjá mér bara aðferð til að koma myndunum mínum á framfæri. Ha ha, þessi var góður. Þær eru reyndar alls ekkert góðar hjá mér og ég er bara búinn að venja mig á að láta mynd fylgja hverju bloggi. 

Nú er talað um að afnema gjaldeyrishöftin í síðasta lagi í september næstkomandi. Af því það er svo margt annað sem á að gera í sumar er ég svolítið hræddur um að þetta viðvik gleymist. Kannski verða þó einhverjir til að minna á það. En gamanlaust þá held ég að sú tíð kunni að koma, jafnvel eftir nokkur ár, að nauðsynlegt verði að afnema gjaldeyrishöftin. Kannski þýðir það svona 50 til 100 prósent gengislækkun en þá verður bara að hafa það. Innflutt drasl hækkar þá eflaust í verði en LÍÚ kætist áreiðanlega.

Eiginlega ætti ég að setja hér eitthvað um Vigdísi Hauksdóttur. Ég hef bara engan áhuga á henni, þó fjölmiðlungar virðist hafa það. Sá ekki frétt um hana sem á víst að hafa birst á Stöð 2. í kvöld. Kannski set ég nafnið hennar samt í fyrirsögnina. Fyrst þegar ég heyrði að Eygló væri eina framsóknarkonan sem ætti að verða ráðherra og að Framsóknarflokkurinn ætti að hafa einum ráðherra færri en Sjálfstæðisflokkurinn hugsaði ég á þá leið að mikið legði Sigmundur á sig til að losna við að þurfa að gera Vigdísi að ráðherra. En það var bara ég.

IMG 3183Hús í Kópavogi.


mbl.is „Komið yfir vitleysingastigið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1969 - Sumarþing

Óvíst hvenær sumarþingið hefst, segir í fyrirsögn á mbl.is. Mitt hald er það að ekkert sumarþing verði haldið. Nennti ekki að lesa mbl fréttina. Veit að alþingismenn eru upp til hópa í hjarta sínu andvígir þjóðaratkvæðagreiðslum og að verið sé að trufla þá of mikið næstu fjögur árin. Verði sumarþing er óvíst að það komist að nokkurri niðurstöðu.

Einhver var að velta því fyrir sér á fésbókinni hve lengi Sérstakur fengi að starfa. Ég held að þegar sé búið að gera hann að mestu óskaðlegan. Öll fjársvikamál fara nú til hans. Starfsfólki þar mun fækka mjög á næstu árum. Glæpir tengdir hinu „svokallaða hruni“ munu smám saman fyrnast og gleymast. Ekki verður hætt við þau mál sem í gangi eru. Refsingar verða þó aðeins til málamynda. Þannig mun auðstéttin aftur ná völdum hér, þrátt fyrir smáhiksta.

Sumum finnst ég ansi kaldhæðinn þegar ég skrifa um hruntengd mál. Sjálfum finnst mér það bara vera af raunsæi. Bankahrunið sem hér varð var svo mörgum að kenna að vonlaust og vitlaust er að hegna fáeinum fyrir það. Nær er að sætta sig bara við orðinn hlut og að lífskjör hér á landi hafi verið færð aftur svo nokkrum árum nemur og reyna bara að halda áfram. Landflóttinn er versta bölið sem við höfum orðið fyrir.

Ætti ég nokkuð að legga honum lið
eða láta hann einan mala.
Hann ætlaði að hugsa en hætti við
og hélt bara áfram að tala.

Gamlar vísur taka sér oft bólfestu í hausnum á mér. Ég bjó þessa allsekki til. Eitthvert hefur tilefnið kannski verið (og kannski ekki) og vísan er nokkuð vel gerð. Alþingismenn haga sér oft með þessum hætti, en helst er að skilja á Bjarna og Sigmundi að þeir séu á móti málþófi og biðji núverandi stjórnarandstöðu blessaða að haga sér ekki eins og þeir gerðu. Efast samt um að mál æxlist með þeim hætti.

DV segir að Stefán Pálsson hafi talað viðstöðulaust í 13 tíma. Mér finnst það ekki hundaskít merkilegt. Einu sinni sagðist Stefán vera besti bloggarinn á Íslandi. Kannski var það rétt því þeir voru ósköp fáir þá. Hann langar mikið á þing, en þorir ekki í framboð. Bauð sig ekki einu sinni fram til stjórnlagaráðsins. Er með fjölmiðlasýki og athyglis á háu stigi.

Menn hafa verið að óskapast yfir stjórnarsáttmálanum. Mér finnst hann nú ekkert mikið verri en slíkir eru vanir að vera. Er ekki vanur að hafa mikinn áhuga á slíkum bókmenntum, en þó finnst mér taka út yfir allan þjófabálk að lesa kaflann um íslenska þjóðmenningu, þvílíkt bull og þvílík froða.

Mér sýnist margt benda til að átök verði hörð milli stjórnar og stjórnarandstöðu, einkum í umhverfismálum. Sú skoðun að virkja beri allt sem virkjanlegt er eins fljótt og auðið er á marga fylgjendur. Þeir eru líka margir sem vilja fara sem varlegast í sakirnar. Þarna getur verið himinn og haf á milli og erfitt að sætta sjónarmiðin. Samt verður að reyna það. Þó ekki hafi verið kosið um virkjanamálin beint

Af hverju er ekkert að marka orðin sem ég set á blað? Þau er samt ekkert verri en önnur. Er hægt að koma orðum að öllu? Margir halda það, en svo er allsekki. Því síður er hægt að koma í myndrænt horf því sem maður vildi helst að aðrir sæu. Er ekki lífið sjálft tilraun til að koma einhverju systemi í galskapinn. Á einhvern óútskýranlegan hátt finnst mér ég vera hluti af alheimssálinni. Auðvitað lítur þetta út eins og óraskrif dauðvona manns. Á endanum mun dauðinn hremma okkur öll.

Til hvers er að vera að berjast gegn honum? Jú, sú tilfinning að allt fari skánandi að lokum er það sem heldur lífinu í mér. En ferðalaginu frá vöggu til grafar lýkur að sjálfsögðu einhverntíma. Áhrif einstaklninganna eru því miður ekki mikil. (Kannski ætti betur við að segja hér „sem betur fer“ – umhugsunarefni) Sú hugsun að allt fari óðum versnandi hefur náð tökum á mörgum. Umhverfis, mengunar og hlýnunarmálin eru mér hugleiknust einmitt í dag, en á morgun gæti það eins orðið einhver utanaðkomandi ógn. Tortímast munum við á endanum, en minnkar sú vissa eða eykst – það er spurningin.

IMG 3179Kópavogur.


mbl.is Óvíst hvenær sumarþingið hefst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1968 - Pynta Íslendingar?

Fyrstu skref hins nýja forsætisráðherra eru alls ekki eins slæm og andstæðingar hans munu eflaust vilja vera láta. Samskipti hans við alþingi eru næsti prófsteinninn. Þar verður væntanlega hart sótt að honum. Svo hart að Bjarni greyið mun gleymast. Að halda spilunum fast upp við sig í öllum aðdraganda ríkisstjórnarmyndunarinnar var nokkuð sem Bjarni þurfi sárlega á að halda. Honum hefur nú tekist að herða tök sín á formannsembættinu og sókn Hönnu Birnu í þann stól hefur beðið nokkurn hnekki. Hugsanlegt er jafnvel að hún hafi misst af tækifærinu með öllu.

Að gefið skuli í skyn að Íslendingar stundi pyntingar er mikil skömm. Vonandi byggist það á einhverjum misskilningi, en ef ekki þarf að lagfæra það strax. Þar duga engin undanbrögð. Margrét Frímannsdóttir getur ekki skotið sér undan ábyrgð í því máli. Fangelsismálastjóri þarf líka að gera hreint fyrir sínum dyrum. Það er með öllu óþolandi að sitja undir þessu. Óheppilegt að þetta mál skuli koma upp einmitt núna en það er þó engin afsökun að einmitt sé verið að skipta um ríkisstjórn og vafalaust þarf atbeina ráðherra í þessu máli.

Ríkisstjónvarpið hagar sér oft eins og það sé ríki í ríkinu og er það óheppilegt. Kastljósið og fréttirnar er líklega það eina sem allir fylgjast með af athygli. Dómar fólks eru oftast samhljóða dómi fréttamanna þar. Stundum eru dómarnir þó kveðnir upp án mikillar umhugsunar. Jafnvel rangir. Sjónvarpið ber þó af öðrum fréttamiðlum. Ef bryddað er á nýju máli í kastljósi og fréttum er eins víst að ríkistjónin taki það þannig að verið sé pota í sig og reynir að gera eitthvað. Ég mun reyna að láta ríkisstjórnina njóta sannmælis og ekki gagnrýna hana að óþörfu.

Auðvitað snýst blogg auðvitað fyrst og fremst um það að finna að sem flestu. Það er líka hundleiðinlegt að þurfa alltaf að gera það. Ef bara væri skrifað hér um eitthvað gott og fallegt en ekki minnst á það ljóta og misheppnaða mundi varla nokkur maður nenna að lesa þetta.

„Antabus fæst í heildsölu hjá Gísla.“ Þetta er setning sem ég man af einhverjum ástæðum eftir að hafa séð á prenti fyrir langa löngu. Kannski hefur þetta verið í Speglinum sáluga og hugsanlega í vísu eða kvæði þar. Ég var slæmur með að læra allskyns vitleysu sem ég rakst á þar. Þetta leiðir hugann að því hvað það getur verið vafasamt að setja mannsnöfn á prent eða fyrir allra augu. Hvaða Gísli var þetta t.d.? Ég man að ég reiknaði með að þetta væri Gísli Sigurbjörnsson á Grund m.a. vegna þess að hann var orðlagður bindindismaður. Það er samt ekkert víst að það hafi verið átt við hann. Antabus er líka úrelt þing að ég held. Minnir að ég hafi heyrt að miklu betra lyf væri komið núna til sögunnar. Allskonar svona brot sem sum hver hafa kannski einhverja sagnfræðilega þýðingu brjótast stundum um í höfðinu á mér og blogg er alveg tilvalinn vettvangur til að láta þetta frá sér á.

Fordómar eru mjög algengir. Engir eru með öllu lausir við þá. Oft eru þeir nauðsynlegir og alveg skaðlausir. Stundum eru þeir nálægt því rétta. Oft líka hræðilega vitlausir. Hjálpa manni stundum til að komast að niðurstöðu. Hjá flestum hafa fordómar neikvæða merkingu. Svo ætti ekki að vera ef farið væri eftir orðanna hljóðan. Nauðsynlegt er að geta dæmt um eitthvað (hvað sem er) án mikillar athugunar. Er það ekki einmitt fordómar að dæma um eitthvað án þess að þekkja það?

IMG 3175Steinn (Bollason?)


1967 - Fjallið tók jóðsótt

Alltaf er verið að tala um að skapa störf og láta hjól atvinnulífsins snúast sem hraðast. Helst vildi ég að engin störf væru sköpuð og hjól atvinnulífsins hættu með öllu að snúast. Sé hægt að græða meira á því að selja raforkuna um streng til Evrópu en að burðast við að skapa störf í stóriðjunni eins og Ketill Sigurjónsson heldur fram, þá á hiklaust að gera það. Best væri auðvitað ef hægt væri að leggja öll störf niður. A.m.k. þau sem tengd eru álframleiðslu. Auðvitað er það samt ógerlegt. Hugsunin um að „skapa störf“ má ekki verða öllu æðri. Gróðinn er mikilvægari og þó mér þyki ekkert séstaklega gaman að grilla á kvöldin mundi ég frekar vilja gera það en búa til álklumpa.

Lífið hefur mér löngum kennt
að líða þrá og missa.
Koppurinn minn er kominn í tvennt.
Hvar á ég nú að pissa?

Vísur eiga það til að taka sér bólfestu í huga mér og engin leið er að losna við þær. Oftast fara þær samt á endanum. Sem betur fer. Oft eru þetta vísur sem ég hef lært einhverntíma í fyrndinni og stundum góðar. Þannig er það t.d. með þessa vísu. Hún er ekki eftir mig. Reyndar allsekkert sérstaklega góð heldur. Sá sem hefur gert hana hefur sennilega byrjað á botninum og smíðað fyrripartinn á eftir. Vísur verða oft til þannig. Jafnvel má búast við að hann hafi einmitt byrjað á síðasta orðinu og fundist það mjög dónalegt. Sannleiksgildi vísunnar skiptir litlu máli. Hún gæti alveg verið sannleikanum samkvæmt, þó ég skilji ekki vel hvernig koppur á brotna í tvennt. Áður fyrr (t.d. þegar kamrar voru miklu algengari og vatnssalerni varla til) hafa koppar eflaust verið algengir. Nú er þeir sárasjaldgæfir. Nema þá sem einhverskonar forngripir.

Þá er allt útlit fyrir að stjórnmálakverúlantarnir geti farið að láta til sín taka að nýju, því líklega er að koma ný stjórn. Varla verða allir hrifnir af henni. Félagslegu miðlarnir munu áreiðanlega láta til sín taka. Landslagið í allri fjölmiðlun er óðum að breytast. Allir geta látið ljós sitt skína núorðið. Spurningin er bara hvort einhver nennir að hlutsta. Eiginlega er það að verða alveg úrelt að ríkið sé að vasast í fjölmiðlarekstri. Auðvitað þarf það samt að stjórna og setja reglur. Man vel eftir að um það leyti sem Ríkisútvarpið var að flytja í Efstaleitiskastalann var verið að búa til eina útvarpsstöð uppi á Krókhálsi og eitt miðlungsherbergi var kappnóg fyrir hana.

Líklega mætti ég reyna betur við að rifja upp gömlu tímana í Hveragerði. Verst hvað búast má við að vitleysurnar verði margar. Ingibjörg systir, sem ég hitti um síðstu helgi, segist furða sig á hve minningar okkar um sömu hlutina eru oft ólíkar. Auðvitað er alveg mögulegt að mínar séu réttari. A.m.k. stundum. Mannlegt minni getur verið brigðult, þó eru einsögurannsóknir þær sem stundaðar eru og jafnvel gefnar út allsekki marklausar. Mat slíkra rannsókna verður samt alltaf erfitt.

Einn var sá maður sem setti nokkurn svip á gamla Hveragerði. Það var Hallgrímur heldrimaður. Kannski hefur hann bara hugsað aðeins meira um útlitið en tíðkaðist hjá garðyrkjumönnum um þetta leyti. Ekki minnist ég þess vel hvaða ræktun hann lagði einkum áherslu á, en tré ræktaði hann. Skák stundaði hann einnig í skákfélaginu eftir að það komst á koppinn og best man ég eftir honum þaðan. Hann hafði gaman af vísum. Einhverntíma var skorða á hann að gera botn við vísuna kunnu sem var svona:
Það er margt í mörgu
í maga á Ingibjörgu.

Hann hugsað sig svolítið um en hélt samt áfram að tefla og tuldraði fyrripartinn fyrir sér. Ekki gat hann botnað vísuna af neinu viti en sagði að mig minnir: „Þar hef ég verið löngum.“

Mér finnst að þeir Sigmundur og Bjarni hefðu átt að geta komið með eitthvað bitastæðara eftir þriggja vikna törn. Það er eins og þeir hafi ekkert gert allan tímann. Stjórnarsáttmálinn er eiginlega samkomulag um að athuga allan fjárann einhverntíma seinna. Ef guð lofar. Fjallið tók jóðsótt, en því miður kom ekkert útúr því.

IMG 3174Hús að koma uppúr jörðinni.


mbl.is Jákvæð og bjartsýn ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1966 - Enski boltinn

Hluti af mínu síðasta bloggi var rauður. Ekki veit ég af hverju það stafar. Það var þó skásti liturinn fyrir utan þann svarta.

Skelfing þurfa aðdáendur enska fótboltans að gráta mikið núna. Ekki er nóg með að traktorinn sé hættur að þjálfa, heldur er sjálfur Beckham (með stórum stöfum væntanlega) líka hættur að leika knattspyrnu. Er ekki bara best að leggja England niður?

Neikvæðar athugasemdir eru ekki vitund verri en jákvæðar. Mikilvægt er þó að skilja þær. Fékk tvær heldur neikvæðar athugasemdir við mitt síðasta blogg, en skildi þær ekki alveg nógu vel. Mér er alveg sama hvort bloggin mín eru lesin með neikvæðu eða jákvæðu hugarfari, bara ef þau eru lesin. Mjög hressandi að fá gagnrýni.

Það er alltaf hægt að velja sér atriði til að vera á móti og týna sér í smáa letrinu.

Einn af þeim kostum sem bloggið hefur (og fésbókin reyndar líka) er að maður getur þóst misskilja hlutina eða ekki sjá þá. Svo getur maður líka verið upptekinn við annað. Það ræður því enginn annar en þú hvað þér finnst merkilegast.

Kosningar eru alltaf á vitlausum tíma. Best væri að hafa þær aldrei. Fólk vill trúa því að hlutunum megi bjarga. En á margan hátt erum við að fara vitlaust að. Við erum happdrættisþjóðfélag. Viljum trúa Sigmundi Davíð. Hann hafði rétt fyrir sér um daginn og hlýtur að kaupa réttan  miða núna.

Undarlegt þetta líf. Er það eitthvað annað en sameigileg ákvörðun einhverra tiltekinna frumuhópa um að starfa saman að einhverju markmiði. Hvaða markmiði? Og hver kom þessu öllu af stað? Ekki frumurnar. Kannski það sem stjórnar frumunum. Genin eða hvað? Löngun þeirra til að lifa áfram og stjórna einhverjum frumumassa. Þessi gen eða hvað það er sem stjórnar frumunum hefur komist uppá lag með að skipta sér. Frumunum líka, en það er nú minna mál. Hvernig í ósköpunum datt þeim í hug að skipta sér? Vera ekki lengur háð þessu forgengilega drasli sem fruman er gerð úr. En er ekki nýja fruman gerð úr samskonar drasli? Nei, þetta er alltof flókið til að leysa í einni stuttri málsgrein. Best að hugsa um eitthvað annað. Eða hugsa bara allsekki neitt.

Ekki fékk ég neitt formlegt uppsagnarbréf þegar ég hætti að fá verkefni við þýðingar á Stöð 2. Að þessu kemur alltaf. Óöryggi fylgir verktakavinnunni. Þannig er það bara. Þessvegna er hún svona vinsæl hjá þeim sem vinnuna búa til. Eru það kannski hjól atvinnulífsins sem gera það? Annars eru fjölmiðlar síst merkilegri fyrirtæki en önnur. Samt er alltaf verið að kenna þeim um allt mögulegt. Hildur Kolbeins segir að þeir séu ekkert fjórða vald. Sennilega eru þeir alveg valdalausir. Lúta engum lögmálum nema þeim sem þeir setja sér sjálfir.

IMG 3157Háskólinn í Reykjavík.


1965 Hvítasunnustjórnin

Þið alloft sáuð hann (Sigmund Davíð).

Föstudag til frægðar sér hann vann
fyrir annan mann.

Segi ekki meira. Þetta gæti jafnvel verið vísukorn. Þó ekki.

Svona er þetta bara. Allar ár komast til sjávar að lokum. Eftir krókaleiðum sumar að vísu.

„Enginn staðið frammi fyrir erfiðari verkefnum en Bjarni.“ Blaðamannsaumingi einn á visi.is notar þessi orð í fyrirsögn og á við Bjarna Benediktsson og væntanlegan fjármálaráðherradóm hans. Slæmt að hafa svona vitleysinga fyrir blaðamenn. Mjög misheppnað orðalag.

Er ekki frá því að áhuginn fyrir stjórnarmynduninni fari minnkandi. Hversvegna skyldu menn líka vera málþola yfir því hverjir verða ráðherrar. Það skiptir varla miklu máli nema fyrir þá sjálfa og þeirra nánasta skyldulið. Eftir fréttum að dæma bendir þó allt til þess að saman sé að ganga milli þeirra fóstbræðra. Er ekki hægt að láta þar við sitja? Loka þá bara inni þangað til þeir eru búnir að þessu lítilræði. Held að það geti orðið vafsamt hjá þeim þetta með fjölgun ráðherranna og afnám veiðleyfagjaldsins.

Ættarmót verður haldið í félagsheimilinu Fannahlíð í byrjun næsta mánaðar. Veit svosem ekki hve margir koma þangað en það gætu vel orðið um 100 manns. Varla miklu fleiri en það. Ættarmót, fermingar og jarðarfarir eru helstu mannfagnaðirnir sem maður fer orðið á. Rétt að láta sig hlakka til þess. Og svo verður einhverskonar sammenkomst um Hvítasunnuna í Hveragerði. Ætli Helena og Tinna verði ekki aðalstjörnurnar á ættarmótinu.

Erum við á leiðinni inn í forngrískt lýðræði? Erum við á leiðinni til að taka upp raunverulegt beint lýðræði, þar sem þeir stjórna sem nenna því? Verður hægt að nota sumarið sem framundan er í nýja búsáhaldabyltingu? Sumir halda það. Lýðræðið er bara orðið svo flókið að þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki svarið. Kannski eru búsáhaldabyltingar það. Eða kannski ekki. Það er verkurinn. Að setja X-ið sitt einhvers staðar á kjörseðilinn á fjögurra ára fresti útbíar hann bara. Það verða aldrei allir sammála um nokkurn skapaðan hlut. Er fulltrúalýðræðið fullkomasta stjórnarfarið sem völ er á? Er ekki nýja menntaða einveldið með tölvurnar og excelskjölin í hásætinu besta lausnin?

Það er ekki hægt að ætlast til þess að óbreyttur pöpullinn taki alltaf réttu ákvarðanirnar, sennilega eru tölvustýrðu excelskjölin það besta sem hægt er bjóða uppá akkúrat núna. Best að vera dauður áður en hin raunverulega orrusta milli excelskjalanna og þjóðaratkvæðagreiðslanna fer fram. Hún verður blóðug og engu eirt. Vorkenni þeim sem þurfa að standa í þessu.

Vigdís Finnbogadóttir er aumur forréttindaþræll. Lætur sér sæma að eignast ólöglegan sumarbústað á versta stað á Þingvöllum. Hef aldrei fyrirgefið henni það né Ingibjörgu Sólrúnu fyrir að láta plata sig til að veiða fyrsta laxinn í Elliðaánum. Þetta eru þær tvær konur (auk Jóhönnu Sigurðardóttur) sem ég hef verið hvað tilbúnastur til að bera virðingu fyrir.

IMG 3153Á þetta kannski að minna á járnbrautarlest?


mbl.is Ný stjórn tekur á sig mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1964 - Kemst kannski á koppinn um Hvítasunnuna

Hver veit nema takist að koma nýrri stjórn á laggirnar um þessa ferðahelgi. Aðrir en Bjarni og Simmi hafa átt erfitt með sumarbústaðaferðir að unanförnu. Búast nefnilega við að verða ráðherrar. Kannski fer þessum galdradansi að ljúkja.

Rabb um hitt og þetta. Það er það sem bloggið mitt er. Nokkuð margir virðast samt kunna vel að meta það. Eiginlega eru það bara magnaðir besservisserar sem enn halda áfram að blogga.  Þeir hafa semsagt þörf fyrir að láta ljós sitt skína. Mín ljós eru reyndar nokkuð mörg. Hálfgerð jólasería. Sum ljósin sem á blogginu birtast eru óttaleg stjörnuljós. Þ.e. þau blossa upp og dofna síðan og deyja út mjög fljótlega. Þannig er því oftast varið með stjórnmálaskrif og ég reyni eftir mætti að forðast þau. Oft eru þau samt svo skemmtileg að ég get ekki stillt mig.

Margir setja allar sínar myndir (gamlar líka) á fésbókina. Kannski ekki alveg allar en oft án mikillar umhugsunar eða íhugunar. Þar með lenda þessar myndir í einhverskonar sameiginlegum potti sem allir geta ausið úr að vild og á þann hátt sem þeim sýnist. Ekki er víst að um hagsmuni fyrirmyndanna eða ljósmyndarans sé neitt hugsað. Auðvitað má það sama segja um ritað mál. Það er þó ekki alveg sambærilegt því fyrirmyndirnar má oft þekkja á myndunum og þeir sem þær sjá mynda sér kannski vafasamar hugmyndir útfrá þeim. Kannski er myndin frá upphafi birt (og jafnvel tekin) í algjörri óþökk viðkomandi.

Ég segi þetta ekki útfrá neinu ákveðnu dæmi, en dæmin eru samt mörg. Sumir forðast líka eftir mætti að setja myndir á fésbók. Svo eru aðrir eins og t.d. ég sem setja alltaf myndir á bloggið sitt. Myndmálið er sífellt að verða ágengara. Bráðum verður farið að ætlast til þess að lokaritgerðir við Háskóla landsins verði myndskreyttar ef kostur er. Og áður en varir verða kvikmyndir og vídeótökur allskonar sú almenningseign sem blessaðar ljósmyndirnar hafa lengi verið. Áður fyrr var það talsverður viðburður að láta taka af sér mynd. Nú eru svo margar myndir teknar á hverjum degi af hverjum sem er, að óðs manns æði væri að ætla sér að telja þær.

Finnst betra að blogga of lítið en of mikið. Margir skrifa alltof mikið. Eitthvað hlýtur að mega missa sig. Svo hengja margir sig í óttaleg aukaatriði eins og t.d. Söngvakeppnina. Samt er ég nú að hugsa um að fylgjast a.m.k. með spennunni í lokin. Finnst þetta þó með öllu laust við að vera athyglisvert. Kannski er þetta samt hámark lýðræðisins. Að fá leyfi til að hringja 20 sinnum á stuttum tíma og losa sig við slatta af peningum. Óviðjafnanlegt.

IMG 3149Einhverntíma hefur þetta verið reisulegt hús.


mbl.is „Áhyggjur verði Vigdís ráðherra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1963 - Rætt um ráðanaut

Frekjulegur kúlurass. Datt þetta bara svona í hug. Veit ekki af hverju. Jú, nú veit ég það. Var á leiðinni á netinu eitthvað annað en orðin ‚frekjulegur kassi‘ poppaði upp. Ég veit meira að segja hvar þessi frekjulegi kassi er því ég sá þessa fyrirsögn um frekjulega kassann hjá Agli Helgasyni.

En þetta var nú útúrdúr. Það sem ég ætlaði að skrifa um er að stjórnarmyndunin hjá þeim Simma og Bjarna er farin að taka fulllangan tíma. Þetta átti að vera sáraeinfalt. Skipta öllu til helminga. Loforðunum líka. Hálfloforð falla dauð og ómerk til jarðar en hátíðleg loforð eru efnd til hálfs einhverntíma. Hræra nógu mikið í öllu saman til að allir verði sæmilega ánægðir. Uppskriftin gæti varla verið einfaldari.

Kannski verður þetta bara einskonar sumarbústaðastjórn. Þ.e.a.s. að hún endist bara út sumarið og taki ekki á neinum erfiðum málum. Þannig er það stundum haft erlendis. Efast samt um að kosningar verði haldnar aftur. Þjóðaratkvæðagreiðslur sennilega ekki heldur. Sveitarstjórnarkosningar á þó að halda á næsta ári og framhjá þeim verður ekki komist.

Ekki veit ég af hverju
en mér finnst það betra
að vera á kafi í einhverju
frá innsta kílómetra.

Vísur af þessu tagi eiga það til að poppa fyrirvaralaust upp í hugann. Mér finnst þetta vera meiningarleysa hin mesta, Læt hana samt flakka því bloggið er ekki orðið vandræðalega langt ennþá.

Kláraði í gær að lesa bókina „Stiff“ eftir Mary Roach. Þetta er hin merkilegasta bók og undirtitillinn er: The Curious Lives of Human Cadavers. Já, í þessari bók er fjallað um lík og dauðann frá öllum mögulegum og ómögulegum hliðum. Það undarlegasta af öllu er samt að hún segir að maðurinn sinn sé óttalegur vælukjói og hræddur við dauðann og mannslík af öllu tagi. Merkileg bók og margir mundu segja að hún væri hálfógeðsleg á köflum.

Stjórnmálamenn (og seðlabankastjórar) lifa í viðtengingarhætti. Þetta vita allir, en elska að láta það koma sér á óvart. Þeir eru meistarar í bortforklaring einsog danskurinn mundi segja. Það er heiftarleg árás á Sigmund Davíð að segja að hann hafi lofað einhverju. Sumir segja að kjósendur eigi von á einhverjum glaðingi frá honum en það er alls ekki rétt. Nema náttúrlega ef viðkomandi er af Engeyjarætt eða úr Kögunarfjölskyldunni. Allir eru meistarar núna í árásum á Bjarna og Simma því þeir vona annaðhvort að þeim mistakist ætlunarverk sitt eða verði fljótir að þessu.

Netið er orðin aðaltenging hins venjulega manns við umheiminn. Flestir taka skemmtun þar framyfir það að læra forngrísku. Skoða gjarnan myndir og myndbönd af krúttlegum kettlingum en hirða minna um að fræðast um fágæta hluti. Svoleiðis er bara eðli hlutanna. Man ekki betur en sjónvarpið hafi átt að verða fræðslutæki sem tæki öllum öðrum fram. En er það það? Ég held ekki. Annars ætti ég ekki mikið að vera að úttala mig um sjónvarp. Þó ég hafi eitt sinn unnið á sjónvarpsstöð horfi ég núorðið afar lítið á svoleiðis borgaralega bláskjái. Stjórnmálaleg rétthugsun er það sem allt snýst um núorðið. Ef maður hefur ekki réttar skoðanir á feminisma og hvalaskoðun er maður réttdræpur. Tala nú ekki um hvítvín og humar.

IMG 3148Hér er plássið notað.


mbl.is Ræddu um ráðuneytin í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband