Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013
14.5.2013 | 11:13
1962 - Og stjórnin heitir....
Það að búið er gera ráð fyrir þingflokksfundum bendir til þess að helmingaskiptastjórnin sé að skríða saman. Ekki veit ég hvað hún verður kölluð í framtíðinni, en svo virðist sem búið sé að finna nafn eða nöfn á stjórnina sem er að fara frá. Hún virðist ætla að verða ýmist kölluð norræna velferðarstjórnin (með örlitlum háðshreim) eða Jóhönnustjórnin. Þingvallastjórnin var þar á undan og olli Hruninu. Þar áður voru Viðeyjarstjórnin og Helmingaskiptastjórnin sem undirbjuggu Hrunið af mikilli samviskusemi.
Það að manni finnst sífellt færri bækur vera skrifaðar um það sem maður hefur mikinn áhuga fyrir, kann að vera vegna þess að áhugasviðið þrengist jafnt og þétt. Eiginlega þarf maður einnig að vanda sig sífellt meira við val á þeim bókum sem maður þó les. Í dag fór ég á bókasafnið og fékk lánaðar einar 10 bækur og 6 hljóðbækur. Ólíklegt er samt að ég geri meira en að glugga í þessar 10 bækur því mér þykir mun þægilegra að nota kyndilinn minn við bóklestur og ég á mjög margar bækur þar ólesnar.
Það hlakkar mjög í andstæðingum íhalds og framsóknar þessa dagana. Hræddur er ég um að sú ríkisstjórn sem Simmi og Bjarni eru að reyna að koma á koppinn verði fljótt óvinsæl. Jafnvel svo fljótt að ekki verði hjá því komist að mynda nýja.
Falin er í illspá hverri
ósk um hrakför sýnu verri
sagði Stephan G. um árið. Helmingaskiptastjórn a la Davíð og Halldór ætti samt alveg að geta plumað sig. Tímarnir eru bara svo breyttir að hæpið er að gera ráð fyrir því. Þannig að vafasamt er fyrir báða flokkana að mynda slíka ríkisstjórn án þess að hafa plan B í bakhöfðinu. Læt ég svo útrætt um stjórnmálin, enda hef ég ekkert vit á þeim.
Ég get ekki að því gert að þegar ég sé menn með alvöru mottu á efri vörinni eins og þessi erkitípa sem er landsliðsþjálfari Þjóðverja eða eitthvað slíkt, þá verður mér alltaf hugsað til þess hvernig þessum vesalings mönnum gangi að borða. Sjálfur er ég með alskegg en ekki svona vöxtulegt yfirskegg og þegar það (yfirskeggið altsvo) er orðið of mikið þá fer ekki hjá því að það getur valdið truflun við át.
Vitsmunum stolið. Bíræfnir þjófar geta stolið hverju sem er. A.m.k. hverskonar munum. Jafnvel vitsmunum. Veit ekki af hverju mér datt þetta í hug en þetta er kannski ekki vitlausara en hvað annað. Ég hugsa t.d. oft um margfalda merkingu orða. Yfirleitt finnst mér íslenskan einstök að því leyti en líklega er hún það ekki. Hún er samt það mál sem ég get yfirleitt hnoðað til á þann hátt sem mér líkar best. Við önnur mál get ég það ekki. Flest þeirra skil ég raunar alls ekki.
Þingflokkarnir boðaðir á fundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.5.2013 | 01:52
1962 - París
Einu sinni í fyrndinni var fataverslum í Reykjavík sem hét París. Þá var ort:
Hún lá þarna allsber og útglennt
í afspyrnuroki á skarís
og starði á brjálaðan stúdent
í stífuðum buxum frá París.
Þetta er svosem ágætisvísa en ekkert framyfir það. Sennilega er hún mér svona minnisstæð vegna þess að ég hef gert mér einhverja hugmynd um konuna á skarísnum þegar ég heyrði vísuna fyrst.
Eru þeir kallaðir stúdentar af því þeir eru alltaf að stúta rúðum? spurði Benni eitt sinn þegar stúdentaóeirðirnar í París voru alltaf í fréttum.
Sko ókei. Ég veit að ég er ekkert séní varðandi æðri fjármál. En svona horfir þetta með skuldir heimilanna í stuttu máli við mér. Mér skilst að við íslendingar skuldum einhverjum hrægömmum úti í heimi heilmiklar fúlgur af peningum. Kannski eru það samtals um 400 milljarðar. Simmi vill ekki borga þessum árans hrægömmum meira en í mesta lagi 100 milljarða. Þá eru 300 milljarðar eftir, en hvernig sú skuld eða þeir milljarðar breytast í peninga sem hægt er mjatla út í þá sem frekastir eru, hef ég bara aldrei skilið. Er svona erfitt að mynda ríkisstjórn vegna þess að þetta vefst eitthvað fyrir mönnum?
Mæðradagur hinn mikli er sagður hafa verið í gær, sunnudag. Einneigin er mér fortalið (af fésbók) að eldri dóttir Charmine konunnar hans Bjarna eigi afmæli í dag (sunnudag). Já, ég er alveg ruglaður í þessu dagsetningafári. En hvað um það. Ekki á ég móður á lífi svo mæðradagsblogg geri ég ekki, en minnist samt á þetta. Eiginlega finnst mér að þessir sérstöku kvennadagar séu orðnir fleiri en karlrembudagarnir. Það stafar sennilega af vöntun hjá mér á feminískri hugsun.
Ég er eiginlega að renna á rassgatið með að koma þessu bloggi nægilega snemma frá mér. Samt má það ekki seinna vera því pólitískar hugleiðingar sem vel gætu komið á eftir þessu úreldast yfirleitt mjög fljótt.
Eitthvað var Bjarni Benediktsson að úttala sig um stjórnarmyndunarviðræðurnar á fundi um daginn. Það finnst mér benda til að annaðhvort sé búið að semja í aðalatriðum milli þeirra fóstbræðra eða endanlega sé slitnað upp úr tilhugalífi þeirra. Kemur væntanlega í ljós á morgun (mánudag).
Mér finnst það ekki merkilegasta frétt dagsins að Noam Chomsky, hafi í mótmælaskyni við meðferð Ísraelskra yfirvalda á Palestínumönnum, tekið þátt í því að telja Stephen Hawking á að mæta ekki á ráðstefnu sem halda átti í Ísrael og þar sem hann átti að flytja erindi. Sumum finnst það samt og vel getur hugsast að þetta hafi einhver áhrif. Áróðursstríð Ísraela gegn Palestínumönnum hefur verið illa rekið að undanförnu.
Fundað fram eftir degi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2013 | 15:36
1961 - Skuldir heimilanna
Satt að segja bendir það til lítils árangurs að þeir skuli funda tveir einir dag eftir dag, Sigmundur og Bjarni. Sá tími nálgast óðfluga (ha, óð fluga?) að Sigmundur þarf að ganga á fund Ólafs forseta öðru sinni og ómögulegt er að spá um uppá hverju hann (forsetinn) tekur. Annars hefur ekkert verið reynt að fá mig til að hjálpa þeim svo ég er að hugsa um að reyna að tala um eitthvað annað.
Var að enda við að horfa á athyglisverða kvikmynd. Man ekki alveg hvað hún heitir en hún fjallar um það sem á ensku er nefnt Planned obsolecense og nafnið fjallar eitthvað um ljósaperur. Upphaflega entust þær í svona 1000 klukkutíma. Lítill vandi er að framleiða ljósaperur sem endast í u.þ.b. 100.000 klukkutíma en það var bannað.
Myndin byrjar á því að maður einn ætlar að fara að prenta eitthvað út. Prentarinn sendir skilaboð til tölvinnar um hann sé bilaður. Maðurinn fer auðvitað strax með prentarann á verkstæði en þar er honum sagt að ódýrast og best sé að kaupa bara nýjan. Maðurinn er óánægður með það og eftir mikla leit finnur hann rússneskt forrit sem kostar ekki neitt og sagt er að geti lagað prentarann. Maðurinn ákveður að prófa þetta og það er eins og við manninn mælt. Prentarinn verður undireins sem nýr.
Með því að framleiða nógu andskoti mikið tókst Bandaríkjamönnum að komast útúr kreppunni miklu. Um þetta má margt segja, en eitrun andrúmsloftsins er lítill hluti af öllu saman.
Sigurður Eggertsson og Magnús Helgi Björgvinsson eru báðir skemmtilegir bloggarar. Einhverjir mundu kannski telja það galla hvað þeir trúa innilega á sína flokka en mér finnst það kostur. Báðir blogga og athugasemdast á Moggablogginu og víðar held ég, en satt að segja er það pólitískt einkenni á þeim báðum hve trúaðir þeir eru á málstað sinna flokka, sem þó eru ekki alveg eins. Já, blogg um blogg (mitt eigið og annarra) er mitt forte. Þar þykist ég vera öðrum betri.
Ekkert er stórt og ekkert er smátt án samanburðar við annað. Man ekki betur en þetta sé tileinkum bókarinnar um ferðir Gullivers eftir Jónatan Swift sem ég las í æsku. Eðlisfræðingar og alheimsfræðingar eru þó önnum kafnir við að reyna að finna eitthvað sem er nógu lítið eða nógu stórt til að vera það án alls samanburðar. Þetta er ég ekki viss um að takist.
Ræða skuldir heimilanna í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2013 | 01:14
1960 - Farmall, nei ég meina Ferguson
Ég er alveg sammála Brjáni um það að óþarfi er fyrir RUV að missa sig svona þó einhver kall á Bretlandi missi vinnuna sína.
Ísland er eiturlyfjaneytandi. Með EES erum við orðin háð fjármálakerfi Vesturlanda og getum ekkert snúið af þeirri braut. Með fjórfrelsinu, Schengen og öllu því erum við fasttengd öðrum Evrópuþjóðum og getum ekki slitið okkur frá þeim án verulegra timburmanna. Það er líka vandséð að það sé okkur hagstæðara að forðast þau, því þrátt fyrir allt njóta Evrópusambandsríkin nokkurs sjáfstæðis og geta gert það sem þeim sýnist á margan hátt. Efnahagslíf allt er þó svo samkrullað að engin leið er þar úr að greiða. Ekki hafa aðrir getað það og ekki munum við heldur gera það.
Lítil hætta er á að Evrópusambandið þróist í sömu átt og Bandaríki Norður-Ameríku einfaldlega vegna þess að allir þeir sem ekki vildu fara í Nýja Heiminn og ákváðu að sitja heima eru enn í Evrópu. Hinir fóru til Ameríku. (þ.e.a.s genin) Það er betra að fara sjálfviljug í ESB en að verða neydd þangað fljótlega. Hinsvegar á þjóðin að sjálfsögðu að ráða því og ef inngöngu verður enn frestað er ekkert við því að segja. Ekkert er að því að ákveða núna að viðræðum verði lokið fyrir mitt þetta kjörtímabil og þá fari þjóðaratkvæðagreiðsla fram í kjölfarið. Ómögulegt er að bíða endalaust eftir viðræðulokum.
Það er búið að þyrla upp svo miklu moldroki varðandi tölur og bankahrun að ekkert er að marka þær lengur. Þær eru einkum settar fram til að rugla fólk í ríminu. Aðild eða ekki aðild að ESB snýst næstum ekkert um stöðuna eins og hún er í dag, heldur næstum eingöngu um þá trú sem við höfum varðandi framtíðarþróun sambandsins. Þeir sem trúa að allt fari alltaf á versta veg trúa auðvitað öllu misjöfnu um ESB. Aðrir trúa bara sumu.
Sú skoðun að neysla rjómaíss væri ein helsta ástæðan fyrir lömunarveiki fór aldrei mjög hátt hér á Íslandi. Erlendis var sú skoðun samt víða ríkjandi. Ástæðan var einkum sú að hvorttveggja var gjarnan í hámarki um hásumarið og veikin lagðist þungt á börn sem aftur borðuðu mikinn rjómaís. Ástæður fyrir ríkjandi skoðunum eru stundum ekkert merkilegri en þetta. Samt er það svo að óþarfi er að efast um það lengur að maðurinn á sinn þátt í hnatthlýnun þeirri og mengun andrúmsloftsins sem sögð er ógna mannkyninu í framtíðinni.
Skoðun mín á Palestínuvandamálinu er í sem allra stystu máli sú að vissulega hafi Ísraelar stolið landinu af Palestínumönnum, en með blessun Vesturveldanna, sem sjá mikið eftir því núna. Bandaríkjamenn eru samt enn harðir stuðningsmenn Ísrela, en það er einkum vegna þess að Gyðingar eru sterkur og samheldinn hópur þar og mjög fjölmennur. Þrátt fyrir allt verður það heldur ekki af Bandaríkjamönnum skafið að þeir eru frelsisvinir miklir og trúaðir eftir því.
Ekkert ákveðið með Moyes | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2013 | 22:17
1959 - Að máta menn
Já, þetta er blogg númer 1959. Þá um haustið fór ég víst í Samvinnuskólann. Man að inntökuprófið var haldið í Menntaskólanum við Lækjagötu og það er sennilega í eina skiptið sem ég hef komið í þann ágæta skóla. Ekki man ég hvaða einkunn ég fékk á inntökuprófinu en minnir að það hafi verið minna en helmingur sem komst inn.
Nú hamast menn við að mynda ríkisstjórn og kannski er búið að því. Á samt von á því að eitthvað þurfi að reikna. Dettur alltaf í hug Sölvi Helgason þegar rætt er um flókna útreikninga. Hann reiknaði nefnilega barn úr svertingjakonu suður í Afríku eftir að einhver annar reiknimeistari hafði reiknað barnið í hana.
Það er greinilegt að Sigmundur er með eitthvert kverkatak á Bjarna Benediktssyni. Sennilega missir hann starfið (sem formaður flokksins) ef honum tekst ekki að komast i ríkisstjórn með sæmilegum hætti. Annars er ekki vert að trufla þessar viðræður, þær leiða næstum örugglega til stjórnarmyndunar. Mesta yndi manna núna er áreiðalega að máta menn í ráðherrastóla.
Melahverfi og Grundarhverfi eru þeir tveir staðir á Suð-Vesturlandinu þar sem þéttbýli er að myndast. Aðrir þéttbýlisstaðir á svæðinu eru flestir eða allir gamalgrónir. Kannski verða þessir staðir orðnir hluti af einhverju stærra eftir nokkra áratugi. Man vel eftir þorpinu Silfurtúni sem var rétt við vegamótin uppað Vífilsstöðum. Nú er þetta víst hluti af Garðabæ. Í eina tíð var líka ekki malbikaðar götur að finna utan kvosarinnar (og auðvitað Laugaveginn) nema gríðarlega ósléttan vegarspotta, sem sagt er að hafi verið gerður í tilraunaskyni á stríðsárunum og er nokkurnvegin þar sem Bæjarhálsinn í Árbænum er núna. Höfðabakkabrúin var líka einu sinni brú yfir Elliðaárnar.
Skammt fyrir ofan Lögberg (hjá Lækjabotnum en ekki á Þingvöllum) var einu sinni að finna steypt mannvirki eitt allmikið sem sagt var að hefði verið byggt á stríðsárunum sem varðturn. Margir muna eflaust eftir þessu því ekki eru mjög mörg ár síðan það var brotið niður. Hefur sennilega verið orðið hættulegt. Sagt var ennfremur að hershöfðingi einn sem nýkominn var frá Indlandi hefði látið byggja turn þennan til að verja varðmenn fyrir árásum tígrisdýra. Já, það þýðir ekkert að þræta um þetta við mig, ég þekki landslagið, á hann að hafa sagt.
Randaflugutíminn er hafinn. Hélt að hann byrjaði ekki fyrr en seinna. Færi eftir hlýindum. Finnst hafa verið kalt undanfarið. Ekki í dag þó. Já, ein af þessu stóru feitu randaflugum sem eiga ekki að geta flogið en gera það samt, var eitthvað að flækjast hérna inni áðan en hún endaði líf sitt í klósettinu.
Ráðuneytaskipting ekki verið rædd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2013 | 09:37
1958 - Vöfflur
Leikritið hjá Sigmundi Davíð er að verða svolítið skrýtið. Allir vilja nota hugsanlega peninga í eitthvað annað en Simmi vill. Hvað gerðirðu við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér í gær? Þannig gengur Sigmundur á milli manna og leggur fyrir þá spurningar milli þess sem hann reiknar sem óður maður. Þessar stjórnarmyndunarviðræður fara sennilega fljótlega út um þúfur og þá verður ekki um annað að ræða en að gera Ólaf Ragnar að einræðisherra. Allavega vill hann það helst. Kannski Sigmundi takist samt fyrir rest að virkja óánægjuna með Ólaf Ragnar. Hann er ekkert hættulegur þó hann tali stundum við útlenskar sjónvarpsstöðvar. Bjarni og Sigmundur eiga eiginlega báðir að vera á móti honum. Davíð segir það.
Mikið frelsi er það að vera búinn að yfir sig nóg af þessari vellu sem ríkissjónvarpið býður uppá. Fréttirnar þar horfi ég oftast á en helst ekki annað. Sá ekki betur en einhverjir hafi verið að þenja sig á fésbókinni yfir jesúþætti um Jakob Frímann eða eitthvað þessháttar. Einhvers staðar sá ég minnst á þennan þátt en sem betur fer truflaði hann mig ekkert. JOM er eflaust ágætis mannkerti en þau eru nú bara svo mörg. Ekki gerir Rúvið þætti um alla.
Kexkökur skiptast í tvennt. Í rauninni skiptast þær auðvitað í miklu fleiri flokka er fer eftir áleggi, bragði, efni og ýmsu öðru. Það breytir samt ekki því að kexkökur skiptast í grunninn bara í tvo flokkar. Kexkökur sem komast uppí mann í einum munnbita og kexkökur sem gera það ekki. Kexkökur sem gera það ekki eru yfirleitt betri og þessvegna er þetta raunverulegt vandamál í þverfaglegum heimi, (Ha! Hver var að tala um þvaglegg hér?) Við önsumussum bar ekki svoleiðis stuffi.
Það er ekki seinna vænna að taka á húsavanda heimilanna. (Eða var það kannski einhver annar vandi) Það er engin hemja að bara allra ríkasta fólkið skuli eiga sumarbústað við Þingvallavatn þegar það liggur fyrir að þvínær alla landsmenn vantar slíkan búastað. Það er ekkert öruggt að þjóðgarðurinn verði fallegri á eftir, en gerir það eitthvað til. Þessi sem notaði þingmannslaunin sín í að fá far á Suðurskautið með einhverjum Argengtískum stuðhópi sýndist mér vera að bölsótast þarna. Hann vill víst banna alla ferðamenn líka.
Kannski er íslenskan best í svefnrofunum hjá mörgum. En réttritunin er ekki góð, það er ég búinn að sjá hjá sjálfum mér. Það er semsagt spurning hvort borgar sig betur að líta á fésbókina snemma á morgnana eða seint á kvöldin. Best væri sennilega að láta það alveg vera, en það er bara ekki í boði. Ég er eins og aðrir sem vanist hafa á þessi ösköp að ég get ekki látið það vera.
Ótrúlega margir hafa ágætan skilning á því hvað eru góðar myndir. Setja ekki nema a.m.k. sæmilegar myndir á fésbókina. Þó eru alltaf einhverjir sem setja á bókina allar myndir sem þeir taka. Mér leiðist að skoða svoleiðis myndir.
Vandaður inngangur en hvert?
Sitja á fundi og borða vöfflur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2013 | 21:33
1957 - Bláu appelsínurnar
Friðjón með bláu appelsínurnar (ég er reyndar ekkert hissa á því að appelsínurnar séu bláar. Frekar er ég hissa á þessu með eplin frá Kína) heldur því fram að Framsókn sé varla stjórntæk og styður mál sitt ýmsum útreikningum. Sennilega finnst BjarnaBen það ekki heldur. Þá er bara fyrir Bjarna að bíða eftir Ólafi Ragnari og vona að hann láti sig fá umboðið næst. Þá fer Sigmundur væntanlega í fýlu og enginn veit hver endirinn verður.
Við mennirnir erum eins og hverjir aðrir ánamaðkar á andliti jarðarinnar. Með tilstyrk svonefndrar þróunar hefur okkur tekist að komast að mestu hjá eðlilegri fækkun af völdum náttúrunnar og álítum sjálfa okkur mun merkilegri en þau litlu skorkvikindi sem við kremjum umhugsunarlaust undir skóhæl okkar. En erum við það? Hugsanlega ekki í augum þeirra sem vel gætu kramið okkur umhugsunarlaust undir skóhæl sínum. Auðvitað er þessi hugsun ekkert frumleg en hún hefur e.t.v. ekki verið orðuð nákvæmlega svona áður. Og ég er hvorki betri né verri maður fyrir vikið.
Í bók sinni My great predecessors, (fjórða bindi) segir Garry Kasparov eftirfarandi: Edward Lasker recalls: Janowski took dinner with me, obviously quite perturbed about the course the game had taken. He realized that he had overlooked the winning move, and he said: You know, Lasker, you were right. The boy is a wonder. I have the feeling that I will lose that game.
Og hann tapaði. Þarna er verið að vísa í fræga skák milli Janowski og Reshevsky. Reshevsky varð að vísu neðstur í þessu litla skákmóti sem haldið var í NewYork árið 1922 en þessi sigurskák 10 ára drengs gegn heimsfrægum stórmeistara er með frægustu skákum veraldarsögunnar. Er einmitt að lesa ágrip af þessum frægu bókum Kasparovs sem ég fékk ókeypis á kyndilinn minn og bíð eftir að vita hvað hann segir um deep blue.
Kannski ætti ég að einbeita mér að því að skrifa um það sem ég hef pínulítið vit á. Það er einmitt skáksagan. Líklega hef ég lítið vit á öllu öðru, þó ég þykist auðvitað vita allt.
Afar undarlegt er að sumir virðast telja Fésbókina taka fram lífinu sjálfu. Stofna allskyns síður, út og suður, með hinum undarlegustu nöfnum og kenna hver öðrum um. Virðast halda að enginn geri annað en lesa fésbókarsíður. Blaða- og fréttamenn gera þessum vesalingum oftast alltof hátt undir höfði.
Eins og sjá má af myndum reynir Ólafur Ragnar forseti að lækka rostann í flestum sem að Bessastöðum koma með því að láta þá setjast við gamla hurð sem hann hefur látið setja (eða sett sjálfur) búkka undir svo hún líkist svolítið borði. Ekki veit ég hvort þetta ber alltaf árangur en hann vill greinilega þrautreyna þetta ráð áður en hann gefst upp. Grínistar á mbl.is hafa meira að segja smíðað nafn á hurðarskirflið og kalla það Jóhann landlausa og búið til langa sögu um það alltsaman.
Segir Framsókn tæpast stjórntæka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2013 | 03:33
1956 - Forsendubrestur
Myndina hérna fyrir ofan tók ég af netinu. Sjálfsagt er margfaldur höfundarréttur á þessari fínu mynd. Margt má segja um vísitölu neysluverðs. Jafnvel væri hægt að segja ýmislegt um forsendubrestinn sem þarna er minnst á. Líklega birtist þessi mynd upphaflega í Vef-Þjóðviljanum um daginn, en hún er nokkuð dæmigerð fyrir það sem ég hef oft kallað (a.m.k. með sjálfum mér) línuritslygi. Auðvitað er samt nákvæmara að kalla þetta súlurit og þau eru mjög vinsæl. Að sjálfsögðu er verið að leitast við að sýna vísitöluhækkunina sem varð 2008 í því ljósi að hún hafi ekki verið neitt sérstaklega mikil. Munurinn á þeirri vísitöluhækkun og mörgum öðrum er einkum sá að laun hækkuðu ekki þá. Eiginlega finnst mér að segja megi að sé vitnað í tölur í stjórnmálaumræðu þá sé yfirleitt verið að ljúga. Hressilegasta lygin er oft línuritslygin.
Alveg er það merkilegt hvað það er fátt og lítið sem maður kemur í verk á hverjum degi. Kannski er það aldurinn sem veldur þessu. Var að hugsa um að fara að spila VGA-planets á netinu en finnst það svo flókið og erfitt að ég er alveg að gefast upp á því. Get vel trúað að mörgum þyki skák flókin og erfið, en mér þykir það ekki. Finnst það ekkert sérstakt álag að tefla svona 40-60 bréfskákir samtímis, en þætti eflaust erfitt og vandasamt að spila 10 VGA-planets leiki samtímis. Þó er ekkert útilokað að sumt rifjist upp fyrir manni þegar maður kynnist leiknum betur. Margt mætti skrifa um VGA-skjái og EGA-skjái en ég nenni því ekki núna.
Kannski hefjast alvöru stjórnarmyndunarviðræður nú um helgina. Þó getur vel verið að stjórnarmyndun verði erfið að þessu sinni. Ekki held ég að Bessastaðabóndanum muni leiðast það. Getur verið oft í fréttunum og jafnvel heimsfréttunum og látið eins og hann stjórni öllu hér. Annars finnst mér menn hafa róast talsvert eftir að kosningarnar voru yfirstaðnar. Helst af öllu langar mig að hætta með öllu að skrifa um pólitísk málefni, en hvað á ég þá að skrifa um? Eitthvað hlýtur að falla til.
Það er heldur engin ástæða að vera að blogga næstum á hverjum degi eins og ég geri. Það er bara svo erfitt að hætta þessum fjára. Ég er að mestu hættur að láta fréttir hafa mikil áhrif á mig. (Reyni það a.m.k.) Enda er algjör óþarfi að fara uppá háa C-ið oft á dag. Og neikvæðu fréttirnar eru stundum svo yfirþyrmandi að best er að loka á umhugsun um þær. Æ, skelfing er þetta að verða lélegt blogg hjá mér. Myndin sem ég stal af Vefþjóðviljanum er eiginlega besti hluti þess. Talað mál og ritað er alveg að verða úrelt. Myndmálið er það sem blívur. Ég er bara svo gamall (bæði í hettunni og annars staðar) að ég get ekki stillt mig um skrifelsið.
The Linux desktop is already the new normal http://www.infoworld.com/d/open-source-software/the-linux-desktop-already-the-new-normal-217818
Þetta er ágæt fyrirsögn en er þetta virkilega svona? Kannski Windows tölvur séu raunverulega á undanhaldi. Allt er breytingum undirorpið. En er Linux virkilega að taka yfir eða er hann bara biðleikur og í rauninni bara verið að bíða eftir að Android-kerfið verði fullorðið?
Bandaríkjaher Android-væddur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.5.2013 | 10:30
1955 - Aumingja gamla fólkið
Einn af stóru kostunum við Fésbókina er að þar getur maður spjallað við einhverja sem maður hugsanlega þekkir afar lítið, en samtölin geta oft orðið endaslepp og þar er hægt að hætta samtali serimóníulaust hvenær sem er. Kannski þarf maður að fara á klósettið eða er að hugsa um eitthvað allt annað svo þetta er oft alveg ágætt. Ef talað er við marga í einu geta samtölin samt orðið ansi furðuleg. Um að gera að kippa sér ekki upp við það.
Í kosningaáróðrinum undnafarnar vikur var mikið klifað á því að við gamlingjarnir hefðum það svo skítt. Eflaust er það einhver klaufaskapur hjá mér en ég hef eiginlega ekkert orðið var við þetta. Hver og einn hefur það nákvæmlega eins skítt og honum sýnist. Alltaf er hægt að ímynda sér kjörin bæði verri og betri. Alltaf eru líka einhverjir sem hafa það verra en við og líka einhverjir sem hafa það mun betra.
Auðvitað er það samt svo að deila má þjóðarauðnum jafnar en gert er. Þeir sem áhuga hafa á slíkum málum sinna að sjálfsögðu pólitíkinni. Við sem minni áhuga höfum erum ekki með því að leggja blessun okkar yfir eitt né neitt. Það geta bara ekkert allir verið að fylgjast með hverju fótmáli þessara blessaðra pólitíkusa daginn út og daginn inn. Sigmundur þetta og Sigmundur hitt, mér bara leiðist þessi sífelldi söngur.
Ef allt sem ég gat gert eða hefði átt að geta gert árið 2007 er eitthvað sem ég hef verið rændur af misvitlausum stjórnvöldum með því að orsaka Hrunið þá held ég því bara fram að sú lifskjör sem sumir sáu í hillingum það ár hafi verið lygi. Mikil lygi og ekkert nema lygi. Með því að vera búsett hér á lítilli eða miðlungsstórri eyju lengst úti í Ballarhafi höfum við fallist á (þó við höfum svosem aldrei verið spurð) að lífskjör okkar séu um margt erfiðari en þeirra letingja sem bara þurfa að rétta út hendina til að ávextirnir komi skríðandi þangað. (Jæja, þetta er nú kannski svolítið orðum aukið.)
Það eru margir hlutir sem eru jákvæðir við að búa hér á Íslandi og ég ætla ekkert að fara að tíunda það. Þjóðrembukarlarnir geta gert það. Ég er bara að segja það að ég ætla ekkert að flytja til Noregs úr þessu. Hér hef ég lifað og hér ætla ég líka að drepast. (Verst að ég hefði viljað bíða aðeins með það þó það sé svosem ekkert yfirvofandi.)
Finnst Internetið alveg eiga rétt á sér. Sumir láta það samt alveg kæfa sig og þá er verr af stað farið en heima setið. Ef menn hafa enga stjórn á Internetnotkun sinni þá er auðvelt að verða of háður því og forðast allt sem í raunheimum er. Hafa samt ótakmarkaðan áhuga á öllu sem í sýndarheimum gerist. Stunda tölvuleiki eða góna á sjónvarpið í þau fá skipti sem hvíld er tekin frá Internetinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2013 | 11:06
1954 - Sigmundur
Skrapp aðeins út að ganga í gærmorgun. Tvær vísur urðu til þá:
Sjálfstæð hetjan Sigmundur
segir að hann telji,
Framsókn skapa fagundur
og flestir hana velji.
Lygastandard lækkaði
lyfti fargi þungu.
Heimilin svo hækkaði
Húrra allir sungu.
Segja má að kveikjurnar að þessum vísum hafi verið tvær. Fyrst var ég eitthvað að hugsa um að erfitt væri að finna rímorð á móti Sigmundur. Svo reyndist ekki vera. Svo var ég að hugsa um brandarann um strákinn sem var nýbúinn að fá að vita einkunn sína í einhverju prófi og sagði: Ha, varst þú lakkaður? Ég var hakkaður.
Þarna voru semsagt komin tvö þriggja atkvæða rímorð sem ég flýtti mér að smíða utanum.
Það var svo Fésbókin sjálf sem fann uppá því að tengja þetta við Sigmund Erni Rúnarsson, ekki ég.
Af hvaða hvötum er maður að þessu sífellda bloggi alla daga. Ekki fæ ég borgað fyrir það. Frekar að það kosti mig eitthvað. Allavega fyrirhöfnina. Ég reyni að ímynda mér að lesendur mínir mundu sakna þess ef ég bloggaði ekki. Stundum á ég samt erfitt með að sannfæra sjálfan mig um þetta.
Sumir blogga bara um sjálfa sig. Sumir blogga stanslaust um fréttir og pólitík. Flestir blogga samt ekki neitt. Láta sér nægja að lesa snilldina. Ég, auminginn, rembist eins og rjúpan við staurinn (hvað er hún að rembast við að gera? Og við hvaða staur?) við að blogga sem oftast og hafa bloggin mín sem fjölbreytilegust. Mest blogga ég samt um blogg. Sennilega minnst um sjálfan mig. Enda er frá litlu að segja um mitt daglega líf. Það líður bara. Auðvitað væri samt frá einhverju að segja. E.t.v. geri ég það líka án þess að vita af því.
Skil þetta ekki. Geri bara eins og mér finnst ég þurfa að gera. Þ.e. blogga sem allra mest. Skyldi þessi sótt einhverntíma enda? Nú, er á meðan er. Best að láta ekki þetta tækifæri sér úr greipum ganga.
Sigmundur fundar með Katrínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)