1963 - Rætt um ráðanaut

Frekjulegur kúlurass. Datt þetta bara svona í hug. Veit ekki af hverju. Jú, nú veit ég það. Var á leiðinni á netinu eitthvað annað en orðin ‚frekjulegur kassi‘ poppaði upp. Ég veit meira að segja hvar þessi frekjulegi kassi er því ég sá þessa fyrirsögn um frekjulega kassann hjá Agli Helgasyni.

En þetta var nú útúrdúr. Það sem ég ætlaði að skrifa um er að stjórnarmyndunin hjá þeim Simma og Bjarna er farin að taka fulllangan tíma. Þetta átti að vera sáraeinfalt. Skipta öllu til helminga. Loforðunum líka. Hálfloforð falla dauð og ómerk til jarðar en hátíðleg loforð eru efnd til hálfs einhverntíma. Hræra nógu mikið í öllu saman til að allir verði sæmilega ánægðir. Uppskriftin gæti varla verið einfaldari.

Kannski verður þetta bara einskonar sumarbústaðastjórn. Þ.e.a.s. að hún endist bara út sumarið og taki ekki á neinum erfiðum málum. Þannig er það stundum haft erlendis. Efast samt um að kosningar verði haldnar aftur. Þjóðaratkvæðagreiðslur sennilega ekki heldur. Sveitarstjórnarkosningar á þó að halda á næsta ári og framhjá þeim verður ekki komist.

Ekki veit ég af hverju
en mér finnst það betra
að vera á kafi í einhverju
frá innsta kílómetra.

Vísur af þessu tagi eiga það til að poppa fyrirvaralaust upp í hugann. Mér finnst þetta vera meiningarleysa hin mesta, Læt hana samt flakka því bloggið er ekki orðið vandræðalega langt ennþá.

Kláraði í gær að lesa bókina „Stiff“ eftir Mary Roach. Þetta er hin merkilegasta bók og undirtitillinn er: The Curious Lives of Human Cadavers. Já, í þessari bók er fjallað um lík og dauðann frá öllum mögulegum og ómögulegum hliðum. Það undarlegasta af öllu er samt að hún segir að maðurinn sinn sé óttalegur vælukjói og hræddur við dauðann og mannslík af öllu tagi. Merkileg bók og margir mundu segja að hún væri hálfógeðsleg á köflum.

Stjórnmálamenn (og seðlabankastjórar) lifa í viðtengingarhætti. Þetta vita allir, en elska að láta það koma sér á óvart. Þeir eru meistarar í bortforklaring einsog danskurinn mundi segja. Það er heiftarleg árás á Sigmund Davíð að segja að hann hafi lofað einhverju. Sumir segja að kjósendur eigi von á einhverjum glaðingi frá honum en það er alls ekki rétt. Nema náttúrlega ef viðkomandi er af Engeyjarætt eða úr Kögunarfjölskyldunni. Allir eru meistarar núna í árásum á Bjarna og Simma því þeir vona annaðhvort að þeim mistakist ætlunarverk sitt eða verði fljótir að þessu.

Netið er orðin aðaltenging hins venjulega manns við umheiminn. Flestir taka skemmtun þar framyfir það að læra forngrísku. Skoða gjarnan myndir og myndbönd af krúttlegum kettlingum en hirða minna um að fræðast um fágæta hluti. Svoleiðis er bara eðli hlutanna. Man ekki betur en sjónvarpið hafi átt að verða fræðslutæki sem tæki öllum öðrum fram. En er það það? Ég held ekki. Annars ætti ég ekki mikið að vera að úttala mig um sjónvarp. Þó ég hafi eitt sinn unnið á sjónvarpsstöð horfi ég núorðið afar lítið á svoleiðis borgaralega bláskjái. Stjórnmálaleg rétthugsun er það sem allt snýst um núorðið. Ef maður hefur ekki réttar skoðanir á feminisma og hvalaskoðun er maður réttdræpur. Tala nú ekki um hvítvín og humar.

IMG 3148Hér er plássið notað.


mbl.is Ræddu um ráðuneytin í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband