1971 - Afsökunarbeiði og ýmislegt annað

Síðasta blogg mitt var talsvert mikið lesið. Ætli gestir hafi ekki samtals verið á annað þúsund. Þessu á ég ekki að venjast og ég veit að það stafar einkum af tvennu. Í fyrsta lagi var nafn Vigdísar Hauksdóttur fyrirsögn pistilsins þó hann fjallaði ekki mikið um hana. Í öðru lagi linkaði ég bloggið við frétt um hana og þar sem minnst var á hana í flestum fréttamiðlum þennan dag varð afleiðingin sú að margir héldu áreiðanlega að mikilvægar fréttir um hana væri að finna á blogginu mínu. Svo var alls ekki. Mér fannst þetta blogg mitt vera fremur venjulegt og ég setti klausuna um Vigdísi síðast í bloggið og linkaði síðan í fréttina um hana. Þetta gerði ég að sjálfsögðu til að sem flestir læsu. Og það tókst.

Þá sem fóru inn á bloggið mitt án þess að hafa í raun og veru ætlað sér það bið ég að sjálfsögðu afsökunar á blekkingunni. Hún var til þess eins gerð að auka lestur bloggsins og hvað aðalefni deilunnar um Vigdísi Hauksdóttur snertir þá vil ég bara segja það að ég hef aldrei, svo ég viti, tekið þátt í skipulegri aðför að henni. Varla þarf ég að taka fram að ég hef aldrei fengið greitt fyrir þá þátttöku sem engin hefur verið. Álit mitt á henni finnst mér ekki skipta máli og ætla ekkert að fjölyrða um.

Að vera pínulítið frumlegur í blogginu mínu án þess að vera orðljótur, það eru mínar ær og kýr. Samt meina ég alveg það sem ég skrifa. Það er bara hægt að segja meiningu sína á svo margvíslegan hátt. Ef ég mundi vanda mig meira mundi þetta verða allt öðruvísi. Þegar ég er búinn að setja blogg upp breyti ég því sjaldnast. Það kemur samt fyrir. Aldrei efnislega þó. Samt er það svo að ég sé stundum talsvert eftir því sem ég hef sagt/skrifað á blogginu. Ef mér finnst það nógu mikilvægt leiðrétti ég það í næsta bloggi. Þannig finnst mér að það eigi að vera. Stafsetningarvillur, greinarmerkjasetningu og augljósar staðreyndavillur finnst mér megi leiðrétta en efnislega finnst mér að engu eigi að breyta.

Kattamorðingi gengur laus (fyrirsögn úr Vísi). Að vísu er hann í Noregi svo kettir sem stunda það að lesa visi.is á netinu hér uppi á Íslandi þurfa víst ekkert að óttast. Þó hér sé rætt um visi.is eru dv.is og aðrir netmiðlar alls ekki lausir við þetta. Gamanlaust þá finnst mér ekki að fólk eigi að láta bjóða sér svona vitleysu. Allt er reynt til að glepja fyrir fólki. Langvinsælast er að þýða einhverjar fréttir úr útlendum blöðum og reyna að láta þær líta út fyrir að vera sem mest krassandi og að þær hafi sennilega gerst í næsta húsi. Nenni ekki að fjölyrða um þetta. Langflestar fjölmiðlafréttir eru tómt píp og vitleysa. Kannski er mbl.is skást að þessu leyti, en afleitt þó með réttritum og kunnáttu í landafræði.

Einu sinni var það hald manna að þau væru öll systkini, Bjarni Harðar, Eygló Harðar og Sigrún Harðar. Svo er alls ekki, þó þau hafi í eina tíð öll verið í Framsóknarflokknum. Nú er ég að hugsa um að halda því fram að Vigdís Hauksdóttir og Eva Hauksdóttir séu systur. Ólíklegt er það reyndar, en reyna má það samt.

Invisible gorilla. Prófið að fara inn á Youtube og leita að þessu. Athylisprófanir eru þar og kannski er rétt að setja körfubolta inn í leitina líka (e. basketball). Athyglisvert er það sem þarna er fjallað um. Sennilega byggjast mörg töfrabrögð einmitt á þessu. Þetta er ótrúlegt, en sjón er sögu ríkari.

Bara til þess að koma með nýtt blogg sem allra fyrst eftir blekkinguna með Vigdísi Hauksdóttur þá er ég að hugsa um að setja þetta blogg sem fyrst á Moggabloggið og tengja það ekki við neitt.

IMG 3188Svona enda (eða byrja) sumar gangstéttar í Kópavogi. (Í Reykjavík reyndar líka)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið leggur Mundi á

að magna sæ og sjá;

endaleysu eflir sá

til eilífðar snerpu frá.

Pétur Örn Björnsson 29.5.2013 kl. 16:08

2 identicon

Tekið skal fram að litla vísan mín hefur einungis með lokaorð Sæmundar að gera:-)

"Svona enda (eða byrja) sumar gangstéttar í Kópavogi. (Í Reykjavík reyndar líka)"

Í upphafi skyldi maður endinn skoða ... en hann er, gáið að því, endalaus :-)

Pétur Örn Björnsson 29.5.2013 kl. 16:12

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Við bankann brúin fína
bílum greiðir veg.
En gangstig svipleg sýna
að sú er endanleg.

Sæmundur Bjarnason, 29.5.2013 kl. 22:19

4 identicon

Í Kópavogi klambra menn

kumbalda og fleira;

gott þykir að gleyma senn

að gangi þar nokkur meira.

Pétur Örn Björnsson 30.5.2013 kl. 02:56

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta er góð vísa hjá þér, Pétur

Sæmundur Bjarnason, 30.5.2013 kl. 10:54

6 identicon

Takk fyrir, Sæmundur.  Þetta er víst ættgengt :-)

Pétur Örn Björnsson 31.5.2013 kl. 02:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband