1904 - Fjórflokkurinn

Vísindaleg þekking er ofmetin. Visindaleg þekking í dag byggist á því að sitja við sína tölvu og láta sig dreyma. Spila í mesta lagi enn og einn tölvuleik. Slík tegund af vísinalegri þekkingu kemur aukinni framleiðslu lítið við. Nei, það er ógeðslegt að vera innan um síprumpandi og sóðalegar kýr eða löðrandi í óhollri olíu við að gera við einhverjar úr sér gengnar vélar og telja sjálfum sér trú um að það geri eitthvað gagn. Þeim sem vinna ræktunar- og framleiðslustörfin fækkar alltaf meir og meir. Beljunum fækkar líka og grænmetinu og tilbúna matnum sömuleiðis. Að lokum tekst með harðfylgi að rækta uppskerubrest. Hann breiðist út og enn fjölgar vísindastörfunum. Þeir sem ætluðu á bændaskóla til þess eins að verða svolítið betri bændur breytast í sérfræðinga og þegar þeir eru búnir að fá leið á öllum nýjustu tölvuleikjunum fara þeir að glíma við excelið og langskólanámið og gengur bara vel. Sérfræðingunum fjölgar þar ört en framleiðslan eykst ekkert. (Nema í Kína.)

Mér finnst ég ekki þurfa að rökstyðja þá ákvörðun mína að kjósa engan af fjórflokknum að þessu sinni. Samkvæmt skoðanakönnunum er það samt svo að mjög margir munu kjósa í komandi kosningum eins og þeir eru vanir. Mér dettur ekki í hug að halda að það sé vegna einhverrar heimsku. Það ber frekar vott um að fólki finnst þetta brölt stjórnmálamannanna við stjórnun landsins ekki koma sér mikið við og því sé í raun sama hvernig því sé háttað. Nýjung eins og að spyrja fólk ákveðinna spurninga í þjóðaratkvæðagreiðslum nýtur talsverðrar hylli í byrjun, en búast má við leiða á því líka með tímanum.

Hvað er þá til ráða? Er ekki nauðsynlegt að láta fólk hugsa um eigin hag? Það er nefnilega hægt að stjórna á marga vegu. Jafnvægi á milli þess að fólk hugsi fyrst og fremst um að bæta andlegt líf sitt og að bæta efnislegu velferðina er nefnilega grunnur flestra hagfræðikenninga. Hvort vill fólk í raun fremur andlega velferð eða líkamlega.

Á sama hátt og hægt er að segja að sjóða megi niður efni Íslendingasagnanna í eina setningu sem þá mundi hljóma einhvernveginn svona: „Bændur flugust á.“ Er auðvitað hægt að segja að grundvöllur allrar hagfræði og þar með stjórnmála hvíli á eftirfarandi setningu: „Hvort viltu heldur vera ánægt svín eða óánægður Sókrates?“

Auðvitað er þetta mikil einföldun. En eru ekki einfaldanir kjörorð dagsins? Er það ekki óhæfileg einföldun að halda því fram að „verðtryggingin“ sé undirrót alls ills og að nauðsynlegt sé til að ná óánægjufylgi til nýs flokks að setja áþreifanlega dúsu uppí svokölluð „hagsmunasamtök heimilanna“ til að komast á þing og hafa áhrif?

Nú er mánudagsmorgunn. Til tilbreytingar hefst sjónvarpið frá alþingi með umræðum um vantrauststillögu. Hún er flutt í bríaríi. Hefur ekki mikinn sjens á að verða samþykkt og er nánast flutt óvart. Samt verður víst að taka hana alvarlega. Jafnvel þó hún verði samþykkt eru það ekki mikil tíðindi. Ríkisstjórnin er hvort eð er að fara frá eftir smástund og það eina sem mundi gerast við þá samþykkt er að færa bóndanum á Bessastöðum tækifæri til að hræra í mönnum. Er þörf á því? Ég held varla.

Nú er að verða komið heilt „blaðsíðublogg“ þó ég hafi í rauninni ekki sagt neitt. Í því er ég algjör sérfræðingur svo nú er best að snúa sér að tölvuleik. (Ef ég finn einhvern).

IMG 2721Strompur við vöxt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þér eitthvað í nöp við FarmVille? :D

"Bændur flugust á." - Ég hefði náð prófinu í Íslandssögu, hefði ég ekki þurft að muna annað en þessa settningu. Algjör snilld! :)

Og enn fljúgast bændur á - kalla sig bara þingmenn í dag; fá frí til að sinna búverkum, þrátt fyrir að ekki séu nema þrír bændur á þingi... Eða voru þeir bara tveir?

Ólafur Skorrdal 11.3.2013 kl. 09:59

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ólafur. Ég bjó ekki til setninguna "Bændur flugust á", en hún er góð, satt er það.

Hef aldrei spilað "Farmville", en margoft verið beðinn um að hljálpa fólki þar. Er þessi leikur annars ekki úr fésbókinni? Já, eiginlega hata ég hana. Alveg rétt.

Sæmundur Bjarnason, 11.3.2013 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband