Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013
4.3.2013 | 09:54
1897 - Vorið kemur (áreiðanlega)
Kannski hafa einhverjir sem lesið hafa stjórnmálaskrif mín undanfarið lesið einhvern stuðning við Framsóknarflokkinn út úr þeim. Ég er samt ekkert búinn að gleyma þeim peningum sem ég átti að fá frá VÍS (og var stolið frá mér af framsóknarmönnum) eða gleyma spillingarsögu flokksins bæði gamalli og nýrri.
Þeir höfðu SÍS í vasanum og öfugt. Ekki dugði það því útgerðarauðvaldið og verðandi útrásarvíkingar voru sniðugri og sennilega ríkari líka. Ég er í þeirri skemmtilegu stöðu núna að ég þarf ekkert á stuðningi flokksins (eða annarra flokka) við eitt eða neitt að halda lengur.
Svo virðist vera að fjórflokknum verði breytt smástund í fimmflokk. Allavega er ljóst að gamlir og úr sér gengnir stjórnmálamenn munu halda áfram að ráða því sem þeir vilja eins og verið hefur undanfarin kjörtímabil.
Nýir og framsæknir stjórnmálaflokkar ná ekki að fóta sig. Illfyglin standa í vegi fyrir þeim, hvort sem um er að ræða fjórflokk eða fimmflokk. Sennilega eru það örlög okkar Íslendinga að sitja uppi með fjórflokkinn. (Undir ýmsum nöfnum) Ætli við eigum nokkuð betra skilið? Jón Gnarr er bara til skrauts hjá Bjartri Framtíð og nú er farið að falla á það skraut.
Póltitísk kaldhæðni hefur engin áhrif. Ekki frekar en það hefur áhrif hjá RUV að kalla á stjórnmálafræðing til að útskýra skoðanakannanir. Þvílíkt bull. Og að kalla þetta opinbera umræðu. Ja, svei.
Hallgrímur Helgason segist styðja Samfylkinguna. A.m.k. eins og er. Það gæti vel verið að hann gangi samt í björg fljótlega. Það er eðli rithöfunda að hugsa á sig gat.
En sleppum pólitíkinni. Ég er hundleiður á henni. Kosningarnar fara einhvern veginn. Ekki get ég kennt mér um úrslit þeirra. Nær væri að taka almennilega á móti vorinu. Þrátt fyrir tímabunda kuldatíð er það áreiðanlega á leiðinni og gott ef hann skellur ekki á með sólskin hér á Reykjavíkursvæðinju seinni partinn. Og þá verður gaman að lifa. Gróður er farinn að taka við sér, en það er bara plat. Raunverulegt vor kemur ekki fyrr en eftir páska.
Já, já. Auðvitað skrifa ég mest um sjálfsagða hluti. Kannski lýkst það upp fyrir einhverjum sem þessar línur les að gamalt fólk hugsar líka. Bara ekki alveg eins hratt. Veröldin hægir talsvert á sér þegar maður eldist. Líklega er það eðlilegt. Unga fólkið kemur ýmsu í verk einmitt með hraða sínum og ákefð. Óneitanlega finnst manni samt margt vera gert ákaflega vitlaust.
Þeir sem yngri eru vilja fremur krónuna en eitthvað annað. Svo er a.m.k. sagt. Hvernig skyldi standa á því? Trúa þeir ekki okkur sem eldri erum þegar við segjum krónuna vera undirrót alls ills? Gengisfellingar á gengisfellingar ofan eru dálítið þreytandi þó hægt sé að læra að lifa við þær. Gengisfellingar- og happdrættishugsunarháttur okkar Íslendinga er alveg að fara með okkur. Við ráðum ekkert við það að vera með sérmynt. Íslenska krónan er allsstaðar aðhlátursefni. Hefði það ekki verið vegna krónunnar þá hefði ekkert (eða a.m.k. lítið) Hrun orðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2013 | 00:01
1896 - Sprengisandur
Hlustaði áðan á Árna Pál og Sigmund Davíð rífast á Bylgjunni. Fannst Árni Páll komast sæmilega frá því öllusaman og með góðum vilja mátti skilja formann Framsóknarflokksins þannig að honum fyndist heppilegast að segjast styðja krónuna en gera það samt ekki.
Svo horfði ég á byrjunina á silfri Egils og Eygló Harðardóttir olli mér vonbrigðum með að vilja ekkert ræða um þá fáránlegu samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins að loka bæri Evrópustofu svokallaðri og var þannig í raun samþykk henni. Baldur Þórhallsson stóð sig eiginlega best þeirra sem fram komu fyrst í þeim þætti.
Það er tiltölulega auðvelt að vera vitur eftirá, jafnvel stórgáfaður. Gallinn við stjórnmál dagsins í dag er einkum sá að menn eru fastir í fortíðinni. Eiginlega er það ekkert interessant varðandi stjórnmálin í dag af hverju Hrunið varð. Hvernig farið verður með það fé sem falið er núna fyrir íslenskum yfirvöldum er eina málið frá Hruninu sem skiptir nokkru máli varðandi stjórnmálin í dag og svo auðvitað skjaldborgin um heimilin.
Augljóst er að það var algjört dómgreindarleysi hjá Guðbjarti Hannessyni að gera samninginn um kauphækkunina við forstjóra landsspítalans. Ef það er eitt atriði sem hefur sett þá verðbólguskriðu, sem yfirvofandi er, af stað þá er það sú ákvörðun. Svona er nú baksýnisspegillinn góður. Ekki ímynda ég mér að Guðbjartur hafi séð þetta fyrir og þannig gert þetta viljandi.
Annars hef ég skrifað svo mikið um pólitík undanfarið að ég er að hugsa um að taka mér frí. Auðvitað hef ég samt jafnmikinn áhuga á því og flestir aðrir að bæta stjórnarfarið hér á landi. Alltaf verður samt ágreiningur um leiðir að markmiðunum og þessvegna eru stjórnmálin þannig vaxin að ekki er gott að gefa þeim of mikinn tíma af sínu lífi.
Það er kostur að blogga oft og mikið. Ég reyni að blogga ekki mjög mikið í einu en þess oftar. Held að mér hafi farið fram með árunum. Annars er það annarra að dæma um það. Afleiðingin af þessu bloggstandi er sú að ég skrifa fátt annað á meðan. Jú, jú ég skrifa kannski ýmislegt annað en mesta hugsun mín fer í bloggið. Margir sem blogga gera það bara öðru hvoru og helst um eitthvað ákveðið efni. En það geri ég ekki. Læt allt flakka og hef þessvegna fáar sögur að segja. Ég er búinn með þær flestar. Samt leggst mér alltaf eitthvað til. Ef ekki vill betur skrifa ég bara um pólitík. Á henni hef ég skoðanir eins og margir aðrir. Er heppinn að því leyti að á pólitíska sviðinu hefur margt og mikið gerst á undanförnum árum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2013 | 12:31
1895 - Kosningar
Heldur virðast leikar æsast hvað stjórnmálin snertir. Mér er eiginlega alveg sama hvort þing verður rofið núna eða eftir einhverjar vikur og hvort núverandi ríkisstjórn situr fram að kosningum í apríl eða hrökklast frá völdum nú fljótlega.
Mér finnst að það hafi engin áhrif á það hvernig ég muni kjósa. Mestu áhrifin á það eru hvernig farið verður með svonefnd frumvörp um kvóta og stjórnarskrá, sem sögð eru liggja fyrir alþingi.
Það kemur ekki til greina af minni hálfu að veita neinum af fjórflokkunum brautargengi. Það þýðir einfaldlega að ég mun hvorki kjósa Samfylkinguna, Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn eða Vinstri græna. Björt framtíð er svo alveg að renna saman við þá flokka sem á alþingi sitja svo hún er mjög vafasöm orðin.
Það sem ég vil ná fram með atkvæði mínu, ef ég get, er stuðningur við inngöngu í ESB og að stjórnarfar opnist og batni, spilling minnki og þjóðaratkvæðagreiðslur verði mun auðveldari samkvæmt stjórnarskrá en verið hefur.
Önnur atriði (og þessi reyndar líka) eru mér ekkert heilög og það fólk sem á þingi situr verður að fá að trúa því að það hafi áhrif. Samspil forseta, alþingis og ríkisstjórnar verður að vera sæmilega gott, annars getur illa farið. Dómstólarnir eiga ekki að dæma eins og einhverjir hópar óska sér, en þeim þarf almennt að vera treyst. Fjölmiðlunum einnig. Um öll þessi atriði má auðvitað skrifa langt mál og eflaust verður það gert í aðdraganda næstu kosninga.
Að mínu mati er engin ástæða til að samþykkja stjórnarskrármál eða kvótafrumvarp í einhverju logandi hasti. Slík hegðun kemur oftast í bakið á þeim sem hana stunda. (svo var þó ekki um neyðarlögin svokölluðu) Um flest mál má semja. Jafnvel um ESB-aðild. T.d. um viðræðurnar og hvort þeim verður hætt fljótt, núna eða strax, en þjóðin á að sjálfsögðu að ráða endanlega hvort af inngöngu verður.
Margir þeirra sem þetta lesa munu eflaust geta verið sammála flestu sem þar stendur (enda er það ekki mikið.) Þó mun ESB-aðildin kannski vefjast fyrir sumum. Það sem ég vil segja um hana á þessari stundu er það að ég mun að sjálfsögðu sætta mig við dóm þjóðarinnar í því máli. Vitað er samt hvernig hann verður. Ég held að flestallir stuðningsmenn aðildar muni gera það einnig. Hef heyrt suma andstæðinga aðildar halda því fram að þeir muni aldrei sætta sig við minnipokastroðslur í því efni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2013 | 17:19
1894 - Pólitík
Lára Hanna skrifar um Framsóknarflokkinn og finnur honum flest til foráttu. Mér finnst mest áberandi hve ólíkir einstaklingar eru þar innanborðs. Skil t.d. ekki hvað Eygló Harðardóttir er að gera þar. Á viðkvæmum mótunarárum var ég í Samvinnuskólanum að Bifröst og lærði að meta sjálfmenntaða bændahöfðingja (ehemm) sem urðu uppistaða Samvinnuhreyfingarinnar. Samvinnusagan var samt hundleiðinleg sem námsgrein og SÍS er farið á hausinn.
Það er að verða spurning hvort Samfylkingin er ekki komin hægra megin við Framsóknarflokkinn og þá er illt í efni fyrir þá sem vilja halda sig við fjórflokkinn. Margt bendir til að mikill meirihluti kjósenda geri það einmitt. Sjálfstæðisflokkurinn kann að einangrast langt til hægri eins og víðast er með íhaldsflokka annarsstaðar á Norðurlöndum. Ég veit að hægri og vinstri eru hugtök sem eru á undanhaldi og mjög mismunandi skilningur sem er lagður í þau.
Þó margt af því sem samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar gerði á sinni tíð (munum að Halldór Ásgrímsson losaði sig við Steingrím, breytti Framsóknarflokknum talsvert og færði hann til hægri) hafi reynst afar misheppnað (vægast sagt) er ekki þar með sagt að allt sem þessir flokkar gera í framtíðinni sé misheppnað líka. Framsókn hefur endurnýjað sig talsvert eftir Hrun en Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Það er rétt hjá Baldri Hermannssyni að hugsanlegt er að kjósendur meti það einhvers.
Annars leiðist mér pólitík og reyni eins og ég get að vera hlutlaus í þeim efnum. Margir sem skrifa um þau mál eru samt orðljótari en eðlilegt er. Ekki er alltaf sagður allur sannleikurinn í fjölmiðlafréttum og ruglandinn í peninga- og lánamálum er skelfilegur. Sumir sem virkir eru í athugasemdum virðast vera að reyna að æsa fólk til óhæfuverka.
Spái því að þau mál sem eftir eiga að komast í gegnum þingið verði fá og á flestan hátt misheppnuð. Fiskveiðikerfið batni ekki að neinu ráði og einhverjar stlitrur úr stjórarskrármálinu verði samþykktar. Spyrjum að leikslokum og sjáum til hvernig þinginu lýkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2013 | 08:19
1893 - Eplaskrælingur
Mig langar dálítið mikið til að vera gáfaður. Sennilega er ég það samt ekki. A.m.k. ekki gáfaðri en aðrir. Þetta er niðurstaða sem ég hef komist að eftir langa og ítarlega umhugsun. Samt sem áður er minn hugur það eina sem ég get miðað við. Sumir eru greinilega gáfaðri en ég og geta jafnvel komið betur fyrir sig orði (og er þá mikið sagt). Mér dettur samt ekki í hug að fara með sjálfan mig neðar en á miðjuna eða svo. Samkvæmt því er ég semsagt í meðallagi gáfaður. Auðvitað standa allir sem lesa þetta mér framar að þessu leyti (annars mundu þeir ekki vera að lesa). Nú er ég líklega kominn á hála braut og sennilega er best að taka upp léttara hjal.
Ég er sérfræðingur í að skrifa um ekkert. Já, sennilega er ég bara nokkuð góður í því. Það get ég gert í löngu máli eða stuttu, alveg eftir því sem óskað er. Ég passa mig líka nokkuð vel á því að taka helst ekki afstöðu. Með því móti má komast hjá því að móðga fólk. Kannski geri ég það samt. En það er þá alveg óvart. Helst vil ég enga afstöðu taka og mæti flestöllu með neikvæðri kaldhæðni.
Kaldhæðnin er ágætisvopn. Það er líka ágætt að tala þannig að fólk haldi alltaf að manni sé alltaf fúlasta alvara. Það geri ég og kannski er það þessvegna sem Baggalútsbrandararnir virka svona vel á mig. Mér finnst sú tegund kímnigáfu sem kemur fram í fréttunum þar oft alveg óborganleg.
Ef við tökum þetta blogg sem dæmi (ekki samt um brandara heldur um það að skrifa um ekki neitt) þá er ég ekki viss um að neitt merkilegt verði í því. Samt eru furðumargir sem lesa þetta. Auðvitað þykist ég vera sérfræðingur í öllu sem ég skrifa um. Gúgli frændi stendur mér þó framar. Því hann getur flett uppí ótrúlega stóru safni af allskyns upplýsingum og er öskufljótur að því.
Þó ég hafi skondrað á bókasafnið í gær þá finnst mér orðið best að lesa á kyndlinum mínum. (Kindle fire) Bækurnar þar eru líka orðnar ansi margar. Áreiðanlega þónokkur þúsund. Samt þykir mér mest gaman að liggja uppí rúmi og skoða bókarkápur, lesa umsagnir um bækur og dánlóda kannski sýnishorni ef mér líst vel á umsögnina.
Ekki kostar þetta nokkurn skapaðan hlut og hægt er á velja sér ókeypis bækur af öllu mögulegu tagi ef áhugi er fyrir hendi. Þær eru bæði gamlar og nýjar en auðvitað engar metsölubækur. Slíkar eru þó oft boðnar á 1 til 2 dollara í kynningarskyni og oft standa þau tilboð ekki lengi. Já þetta er alltsaman á Amazon ég veit það. Get líka keypt (með stóru kái eða bara hælætað) bækur en tími því sjaldan. Ef myndir eru í bókunum er líka hægt að stækka þær að vild o.s.frv. Svo er kyndillinn líka spjaldtölva þó mér finnist nú fremur óhönduglegt að flakka þar um internetið til lesa blogg o.þ.h. Nú er ég til dæmis að lesa alveg nýja bók þar (á kyndlinum altsvo - útgefna í janúar 2013) um skammtafræði. Hún er eftir Greg Kuhn og heitir Why Quantum Physicists Do Not Fail. Þessi bók lítur ljómandi vel út og er vel skrifuð. Segi betur frá henni seinna ef ég man.
Svo sá ég áðan mynd af Vilborgu Davíðsdóttur sem stóð sig alveg eins hetja við fráfall mannskins síns um daginn og var að lesa viðtal við Ingó ljósmyndara eftir Þórarinn Þórarinsson á Fréttatímanum. Já, ég hugsa talsvert um dauðann en er ekkert upptekinn af honum.
Mér finnst fyndið að hafa fyrirsögnina á þessu bloggi alveg útúr kú. Þetta með eplaskrælinginn er hugsað sem einskonar Baggalútsbrandari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)