1903 - Fita

Æsingur fólks útaf því sem er að gerast á alþingi núna, er með mesta móti. Hvernig þessu lýkur öllu saman skiptir samt alls ekki miklu máli. Það sem skiptir mestu máli er hvernig úrslit kosninganna í apríl verða og hvernig spilast úr stjórnarmyndunarviðræðum eftir þær. Varðstaða XD við LÍÚ er að bila, á því er enginn vafi. Hvort stjórnarskráin verður samþykkt í heilu lagi eða í mörgum hlutum skiptir ekki neinu meginmáli. Að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé að minnka eru mestu pólitísku tíðindi aldarinnar. Kannski dreymir Davíð Oddsson enn um að verða bjargvætturinn mikli.

Einföld loforð um þá hluti sem mest eru í umræðunni virðast hafa mikil áhrif. Með því að lofa að taka verðtrygginguna og vanda heimilanna og henda á bak við sig hefur Framsókn tekist að auka fylgi sitt töluvert. Kannski er það bara skoðanakönnunarfylgi en sannleikurinn er sá að stundum skilar það sér á kjördag. Annars er langt ennþá til kosninga og fyrirkvíðanlegt að þurfa að búa við þessa vanstillingu þangað til.

Nú eru kaffibrúsakarlarnir víst komnir á kreik aftur. Í mínum huga gerðu þeir setninguna „hentu í mig hamrinum“, nánast ódauðlega. Það er samt ótrúlega misjafnt hvað fólki er minnisstætt, það hef ég oft rekið mig á. Alls ekki er víst að margir setji þessa setningu sérstaklega í samband við þá.

Yfirburðir Bandaríkjanna felast einkum í því hvað aðrir heimshlutar leyfa þeim. Sú skuldasöfnun sem þar fer fram getur ekki staðist endalaust, en er á meðan er. Evrópa reynir á margan hátt að koma vitinu fyrir þá, en ræður ekki við það einsömul og óstudd. Við Íslendingar erum lítið peð á alþjóðasviðinu en tilheyrum Evrópu og Norðurlöndunum miklu fremur en Bandaríkjunum og erum sem betur fer á áhrifasvæði hins Vestræna heims.

„Líkaminn byrjar ekki að brenna fyrr en fyrsta máltíðin er komin í magann og er það beinlínis fitandi að sleppa því að borða morgunmat.“

Ég veit að ég er tregur, en ég skil ekki svona röksemdafærslu. Þetta sá ég nýlega á netinu og á einhverjum stað sem ég treysti sæmilega. (einkunn 6-8) Ég er yfirleitt lystarlítill á morgnana og hef alltaf verið. Af hverju er það beinlínis fitandi að sleppa morgunmatnum? Þessa fullyrðingu hef ég aldrei skilið. Af hverju er það betra að líkaminn brenni einhverju nýétnu, en nýti ekki afganga? Eru kannski engir afgangar? Ég er ekkert að tala um að það sé kannski betra og fullkomnara að brenna einhverju sem nýlega er komið í magann. En af hverju er fitandi að gera það ekki? Kannski er ekki mikil eftirspurn eftir orku í líkamanum á kvöldin svo búast megi við að hún sé aðallega sett í fitusöfnun. Það er helsta skýringin sem mér dettur í hug. En hvaðan kemur þá morgunorkan?

Eitt af því sem fésbókin hefur framyfir sum svipuð fyrirbrigði er að kramar-auminginn nýtur þar sama réttar og forseti Íslands og allir geta farið í fýlu þar og verið í henni eins lengi og þeir vilja eða nenna. Þetta er á margan hátt helsti kostur netsins. Með því að heimta að allir geri grein fyrir sér og segi hverjir þeir eru, er þetta atriði gert alveg máttlaust. Gallar fylgja því að sjálfsögðu að viðhalda þessu, en mér finnst menn eiga að geta forðast gallana án þess að henda öllu kerfinu.

IMG 2719Miðbær Kópavogs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband