Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

1661 - Fésbókin

012Gamla myndin.
Lilja Ólafsdóttir og Gunnar Sigurðsson.

Fésbókin er ávanabindandi og hugsanlega væri réttast að skilgreina hana sem eiturlyf. Bloggið er það kannski líka. Allavega gengur mér illa að venja mig af því. Þykist samt vera um sumt betri en þeir sem ánetjast fésbókinni. Einn helsti gallinn við fésbókina er hversu ágeng hún er. Greinilega vinna margir menn hörðum höndum við að breyta henni sífellt. Allt er gert til að gera hlutina sem einfaldasta og auðveldasta og halda fólki þannig við efnið (fésbókina) sem lengst. Það er fremur lítið hægt að gera nema samþykkja það sem að manni er rétt. Yfirleitt virðist það ekki kosta mikið. Oftast einungis grunnupplýsingar um sjálfan sig, sem flestum er alveg sama um.

Að læka og séra og vera lækaður og séraður af öðrum er fyrir suma lífið sjálft. (Fjöldi lesenda á blogginu skiptir líka máli) Samskiptin við kunningjana og ættingjana eru yfirleitt afskaplega yfirborðsleg og ekki verða þau til að auka raunveruleg kynni eða líkamlega þátttöku í hinu og þessu. Frekar að þau dragi úr henni. Endirinn er oft sá að maður hefur ekki hugmynd um hvort maður veit eitthvað úr raunheimum eða netheimum. Svo veit maður ekki heldur hvað aðrir vita og úr þessu verður flækja sem erfitt er að greiða úr.

Þetta er samt ekki aðalgallinn við hin yfirborðslegu kynni í netheimum. Það er eðlilegt að vera svolítið ruglaður. Fésbókin er nefnilega tímaþjófur hinn mesti. Þó maður geri sér ekki nærri alltaf grein fyrir því, fer heilmikill tími í þennan fjanda. Kannski telur fólk sér trú um að í staðinn dragi það úr annarri fjölmiðlaneyslu, (blaðalestri t.d.) en það er vitleysa. Aðallega bitnar þetta á raunverulegum samskiptum.

Eldra fólk vill oft koma í veg fyrir að lokast inni með því að taka þátt í einhverju af öllu því sem fram fer í netheimum. Það er á margan hátt góðra gjalda vert. Því er samt ekkert síður hætt við ánetjun en öðrum. Hættir kannski að gera margt annað til að geta hangið sem mest á netinu.

Þetta er næstum að ná eðlilegri blogglengd hjá mér þó ég hafi varla minnst á annað en fésbókina. Það er tungunni tamast (og fingrunum á lyklaborðinu) sem hjartanu er kærast segir í gömlu spakmæli. Ætli ég fari ekki að ljúka þessu þó eðlilegast væri fyrir mig að minnast á eitthvað annað líka.

Máttur myndanna sást vel þar sem sjónvarpið sýndi myndir sem teknar voru í húsi sem tekið hafði verið á leigu í Keflavík meðan eigendurnir voru í Noregi. Áður hafði ég a.m.k. séð skrifað um þetta á netinu. Skrif úr einni átt er oft hægt að „bortforklare“ en lifandi myndir úr sjónvarpinu eina og sanna ljúga ekki. Aðrar myndir ljúga stundum og það er efni í langa grein.

Siggi stormur segist hafa orðið sleginn yfir því að venjulegur maður væri farinn að reyna að sjá sér farborða með flöskusöfnun. Mér finnst þetta segja talsvert um Sigga sjálfan ekki síður en um flöskusafnarann.

Um daginn sá ég skrifað um einhverja skoðanakönnum og þar var fylgi fjórflokksins tíundað og einnig einhvers sem kallað var „Björt framtíð“. Hinsvegar sá ég hvergi minnst á Frjálslynda flokkinn, Hægri græna, Guðbjörn Guðbjörnsson, Hreyfinguna, Borgarahreyfinguna, Guðmund Steingrímsson eða Lilju Mósesdóttur (gleymi eflaust einhverjum). Þetta gerir það að verkum að ég tek lítið mark á þessari skoðanakönnum. Kannski er fleirum eins farið og mér að vita mest um fjórflokkinn og láta það stjórna hegðun sinni. Að koma tilvist sinni á framfæri við sem allra flesta skiptir að ég held höfuðmáli í hverskyns kosningum.  

IMG 8242Hringekja.


1660 - Facebook logout

006Gamla myndin.
Birgir Marínósson.

Um þessar mundir er ég að lesa í kyndlinum mínum bók sem heitir „Facebook logout -  experiences and reasons to leave it“ eftir Ivo Quartiroli. Þessi bók fjallar einkum um það neikvæða við fésbókina og margt er þar sem ég er mjög sammála. Amazon býður uppá þessa bók ókeypis svo ég gat ekki staðist mátið. Nálgaðist hana meira að segja í gegnum kyndilinn, en það er víst aðal gróðavegurinn hjá Amazon varðandi Kindle fire tölvuna að gera sem næst ómögulegt að dánlóda efni beint frá öðrum en sér með henni. Það er reyndar mjög einfalt að dánlóda fyrst á Windows tölvuna sína og svo á Kindle fire tölvuna. Auðvitað má breyta fælunum á alla vegu ef maður er nógu klár til þess. Hreinir textafælar og .pdf skrár eru einfaldastar. Benni kom hingað í gær og opnaði m.a. fyrir mig Dropbox uppá 2 GB en meira er víst ekki ókeypis.

Margir verða háðir fjárans fésbókinni og sitja langtímum saman við tölvuna skrifandi í hana og bíðandi eftir að aðrir svari. Fésbókin er góð til að halda sambandi við fólk. Yfirborðskennt er það að vísu, en ef ekki er setið of lengi við tölvuna í senn og hún ekki látin taka yfir allar frjálsar stundir, þarf hún ekki að vera svo hættuleg. En tímaþjófur er hún hrikalegur. Auðvitað er fínt að geta talað við helsu kunningjana strax og þeir eru vaknaðir en hættan er sú að margir fórni í þetta tíma sem betra væri að nota í annað.

Fór í gærmorgun (laugardag) út að labba. Það rigndi svolítið. Þegar ánamaðkarnir eru sem flestir á gangstígunum get ég ekki að því gert að verða meira afhuga framhaldslífi en ella. Því ætti það (eða sá eða sú) sem öllu ræður að gera greinarmun á ánamöðkum og mannverum? Er ekki kominn tími til að ...sparka í dekkin.

Fréttatíminn veldur mér vonbrigðum þessa helgina. Þó er þetta eina prentaða blaðið sem kemur reglulega á mitt heimili. Mér finnst hann vera að draga taum hjátrúar og hindurvitna í þjóðfélaginu með forsíðugrein sinni. Ég hef ekki lesið nema fyrirsögn greinarinnar og er þessvegna tæpast marktækur um innihald hennar. Hef þó séð á hana minnst annars staðar (þ.e.a.s. á netinu) Mér finnst fjölmiðlar oft fara ansi frjálslega með það sem skrifað er um og láta eins og þeir viti ekkert um áhrifamátt sinn. Þetta á auðvitað ekkert síður við um netmiðla og sumir bloggarar eru svo mikið lesnir að þeim má jafna við fjölmiðla. Mál þetta er allt mjög vandmeðfarið.

Runki fór í réttirnar
ríðandi á honum Sokka.
Yfir holt og hæðirnar
hann lét klárinn brokka.

Af einhverjum ástæðum minnir þessi vísa mig á Afa minn (ekki minn eigin þó) sem fór á honum Rauð eitthvað suður á bæi. Hef velt fyrir mér hvað þetta „sitt af hvoru tagi“ getur hafa verið. Kannski kaffi og rjólbiti (óskorið tóbak). Sykurinn var búið að nefna. Ekki eru umveltingsefnin alltaf merkileg.

IMG 8241Ógnvænleg gylta.


1659 - Das Mittagessen des Engländers

5aGamla myndin.
Þetta sýnist mér vera Birgir Marínósson með einhverskonar Konna. Trúlega á skemmtun í setustofunni að Bifröst.

Man enn eftir fyrsta kaflanum í þýskubókinni sem við lærðum á Bifröst. Held hún hafi verið eftir Jón Ófeigsson. Man að kaflinn var um Englending í París „der keine wort französish sprechen konnte,“ og var á veitingahúsi. Þegar þjónninn kom til hans benti hann bara á fyrsta atriðið á matseðlinum og fékk „eine dunne gemüsesuppe“. Benti síðan á annað og jafnvel þriðja atriðið líka og fékk alltaf „eine dunne gemüsesuppe“. Ekki kunni hann vel við þetta og benti á það síðasta. Þá fékk hann tannstöngla.

Að Bragi bóksali skuli njóta verndar einhvers mafíuvísis sem hér starfar (kannski í samkeppni við aðrar mafíur) finnst mér auðvitað merkilegt. Að upplýsingar um slíkt skuli vera kallaðar minningarorð finnst mér ennþá merkilegra. Aftur á móti er ekkert merkilegt við að slík minningarorð skuli birtast í Mogganum. 

Það getur vel verið að sumsstaðar í USA tíðkist að hafa bílastæði sérmerkt konum. Óþarfi ætti samt að vera að apa slíkt eftir. Hér þarf ekki endilega að hafa hlutina eins og í Amríkunni þó sumum finnist allt mest, best og sjálfsagðast sem þar tíðkast.

Margir lélegir skribentar eru á víð og dreif í bloggheimum. Sumir halda að því lengri sem greinarnar eru því betri hljóti þær að vera. Það er mikill misskilningur. Ef ekki er hægt að segja hlutina í fáum orðum eru þeir oftast betur ósagðir. Fésbókin ýtir undir að menn séu gagnorðir. Það er einn helsti kosturinn við hana.

Baldur Hermannsson segir Hannes Pétursson vera lélegan pistlahöfund. Hinsvegar sé hann ágætt skáld og frábær skrásetjari gamalla sagna. Mér er minnisstætt að ég las fyrir margt löngu bókina „Rauðamyrkur“ eftir Hannes og get a.m.k. tekið undir það síðasta með Baldri. Þessi orð sín held ég að hann (Baldur) hafi látið falla í athugasemd hjá Eiði Guðnasyni og taldi hann að Eiður væri betri pistlahöfundur en Hannes.

IMG 8233Steikinni klappað.


1658 - Stjórnmálapælingar o.fl.

005Gamla myndin.
Við aðaldyrnar á Bifröst.

Nei, ég er ekki hættur að blogga. Bara farinn að minnka það mikið. Þó ég nenni þessu varla eru samt alltaf einhverjir sem lesa þetta. Segir Moggateljarinn a.m.k. og ég trúi honum alveg. Annars er farið að vora svo mikið að það er fremur klént að sitja tímunum saman ótilneyddur við tölvuræksnið. Ég er nefnilega oft talsvert lengi að semja það sem ég skrifa, þó ég vilji ekki viðurkenna það.

Á margan hátt eru stjórnmálaátök harðari núna en verið hefur. Athyglisverðast við viðbrögð Geirs Haarde við dómnum yfir sér eru orð hans um að hér áður fyrr hafi allt verið svo gott. Þá voru allir vinir og þá var hægt að möndla hlutina og gera það sem manni sýndist. Þá voru semsagt allir spillingarvinir. Erum við ekki að reyna að búa til nýtt Ísland? Þurfum við á mönnum af sauðahúsi Geirs að halda? Er ekki ráð að skipta valdastéttinni út eins og hún leggur sig? Dómurinn er áfellisdómur yfir stjórnsýslunni allri en ekki Geir einum. Allir létu á sínum tíma eins og skýrsla rannsóknarnefndarinnar væri voða fínt plagg, en svo var ekkert gert með hana. Er ekki best að hætta þessu bölvuðu pexi?

Margt bendir til þess að kjósendur muni kjósa til hægri í næstu alþingiskosningum. Eflaust stafar það mest af vonbrigðum með þá ríkisstjórn sem nú situr. Atburðir síðustu daga benda þó til þess að óhreinsaður Sjálfstæðisflokkur sé ekki góður kostur. Af skiljanlegum ástæðum eru kjósendur ekki spenntir fyrir Framsóknarflokknum. Hvað eiga kjósendur þá að gera ef þeir eru óánægðir með sitjandi ríkisstjórn. Kannski er öruggast að sitja bara heima. Kjörsókn er hvort eð er síminnkandi. Nýju framboðin er talsvert vogunarspil að kjósa. Enginn veit með vissu hvernig þróunin verður þar. Fjórflokkurinn er á flestan hátt öruggari. Hvernig stjórnarslitin ber að getur skipt gríðarlegu máli. Núverandi stjórnarflokkar gætu sem hægast rétt nokkuð úr kútnum.

Úrslit forsetakosninganna í júnílok geta einnig ráðið talsverðu. Keppnin þar virðist einkum ætla að verða milli Þóru Arnórsdóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar. Stjórnmál geta vel skipt máli þar. Þóra og Ólafur og reyndar Ari Trausti Guðmundsson einnig virðast (eða hafa einhverntíma verið) öll vera talsvert vinstrisinnuð. Kannski Herdís sé fulltrúi hægri aflanna. Nú, eða Ástþór. Ekki veit ég það. Þetta á allt eftir að koma betur í ljós. Alls ekki er öruggt að ÓRG með alla sína reynslu og nýuppgötvaða hægri hlið verði forseti áfram. Margt bendir til að forsetakosningarnar í sumar verði skemmtilegar og spennandi. Gera má ráð fyrir að sveiflan þar verði ekki með sama hætti og í næstu alþingiskosningum.

Já, það getur verið gaman að spá í stjórnmálin en það skilur samt ansi lítið eftir. Nú er ég semsagt að hugsa um að senda þetta út í eterinn og losna á þann hátt við það.

IMG 8225Nú er ég svo aldeilis hissa.


1657 - Kerið o.fl.

004Gamla myndin.
Við kirkjutröppurnar á Akureyri. Líklega er þessi mynd tekin seinni veturinn minn á Bifröst.
Þarna má þekkja einhverja ef vel er að gáð.

Ég er að miklu leyti búinn að missa áhugann á Hruninu. Það er bara staðreynd sem lifa verður með. Auðvitað tek ég afstöðu gagnvart einstökum atburðum þess með sjálfum mér en hef sífellt minni áhuga á að deila þeirri afstöðu með öðrum. Það er svo margt sem er meira virði að lifa fyrir. Óttast að HalksdjfasldfkHrunið eitri líf of margra. Þá er ég ekki að tala bara um útrásarvíkinga heldur líka helstu andstæðinga þeirra. Auðvitað vilja banksterar og aðrir að þessum látum linni sem fyrst og farið sé að gera eitthvað annað. Stjórnmálin eru breytt, hugsunarháttur fólks er breyttur, allt er öfugsnúið, upplýsingaskógurinn verður sífellt þéttari. Limgerðið vex og vex í 100 ár.

90 til 99 % allra frétta á fésbókinni og í öðrum fjölmilum er óttalegt píp sem langhagstæðast er að leiða hjá sér. Hvernig á þá að finna alvörufréttirnar? Það er auðvelt. Þær finna þig, en þú ekki þær. Þær fréttir og upplýsingar sem ekki koma fyrir þín augu eiga ekkert erindi við þig. Samt reyna margir að fylla öll göt sem myndast í daglegu amstri með sem mestum fréttum og upplýsingum. Er það þá tóm vitleysa að vera að því? Já, eiginlega. Ef þú ert ekki nógu skipulagður til að skammta þér upplýsingarnar sjálfur ertu í vondum málum. Eiginlega þræll þeirra sem semja fréttirnar og deila þeim.

Sagt er að gamalt fólk sé hamingjusamara en það sem yngra er og hugsanir þess yfirleitt jákvæðari. Hvernig skyldi standa á því? Er yngra fólkið svona yfirkomið af heimshryggð? Eru það ekki unglingar sem helst taka eigið líf? Fjörgamalt fólk kannski einnig sem ekki vill lengur vera byrði á afkomendunum. Hvers virði er fjölskyldulífið? Eru einstæðingar ekki óhamingjusamastir allra?

Greinilegt er að Óskar Magnússon hefur ekki aukið vinsældir sínar með því að auglýsa eignarhald sitt á Kerinu í Grímsnesi með þeim neikvæða hætti að neita Kínverjunum og fylgdarliði þeirra um að skoða það. Sumir vilja heimfæra þá vinsældaneikvæðni á Sjálfstæðisflokkinn allan og ritstjóra Morgunblaðsins sérstaklega. Það held ég að sé um of. Óskar er að ég held framkvæmdastjóri þess félags sem á Morgunblaðið og hann ásamt ritstjóra þess og fleirum er ugglaust bæði á móti Kínversku ríkisstjórninni og þeirri Íslensku. Samt sem áður er engin ástæða til að leggja sérstaka merkingu í þetta atvik. Bara óheppilegt. Þó íhaldsmenn allra flokka hafi reynt með miklum látum lengi vel að koma þeirri ríkisstjórn frá sem nú situr er ekkert sem bendir til að þeim takist það. Þeim dettur varla í hug sjálfum að þeir hafi einhver áhrif á kínversku ríkisstjórnina. Í stjórnmálalegu tilliti er þessi gjörð frámunanlega asnaleg.

IMG 8223Glímufélagið Ármann.


1656 - Breivik o.fl.

003Gamla myndin.
Sveinn Víkingur slúttar balli í hátíðasalnum að Bifröst. Guðvarður Kjartansson og Jón Illugason í baksýn.

Já, þetta var einskonar helgi í miðri viku. Nú er kominn föstudagur aftur og hægt að slappa af. Vonandi er sumarið komið fyrir alvöru og hægt að gera ráð fyrir að snjór og frost láti okkur að mestu í friði, það sem eftir er til sumars, hér á höfuðborgarsvæðinu.

Hef verið að lesa athugasemdir frá Baldri Hermannssyni. Hann var einhversstaðar að afsaka norska fjöldamorðingjann og líkja honum við takkamanninn í flugvélinni sem drepur þúsundfalt fleiri en hann án þess að þurfa að sjá fórnarlömbin. Fjarlægðin og sjónleysið er ekki eini munurinn á þeim tveimur. Hermaðurinn hefur afsakendur í lögum bunun fyrir aftan sig. Allt upp í generála og forseta. (Kónga og drottningar stundum). Í tilfelli Breiviks er geðveikin notuð af réttinum sem vopn en þarsem það vopn er greinilega til verndar almenningi er óþarfi af Baldri að láta svona. Þessi notkun á opinbera geðveikivopninu kemur að vísu niður á þeim sem geðveikir eru á annan og raunverulegri hátt. Fólk er bara orðið svo vant því geðveikistigma sem sífellt er notað í fréttum og annarsstaðar. Um það mætti auðvitað fjalla miklu nánar, en Harpa Hreinsdóttir http://harpa.blogg.is gerir það betur en flestir aðrir.

Er að talsverðu leyti sammála Hörpu, en upplifun mín af læknum er samt sú að þeir séu til nokkurs (eða mikils) gagns þó maður lækni sig oftast sjálfur að mestu leyti. Kannski eru skottulæknar betri en alvöru læknar. Segi bara svona. Þetta með þægindi skoðanaleysisins eru engar ýkjur hjá henni. Auðvitað þekki ég ekki geðræn vandamál af eigin raun, en hef á langri æfi kynnst margskyns læknum. Sé maður ekki tilbúinn til að taka sjálfur þátt í sinni eigin meðferð er maður illa settur. Eiginlega bara kjötskrokkur sem er fyrir öllum og með allskonar væntingar og langanir. Vesöld heimsins er slík að ágæt lausn virðist oft að skríða inn í þunglyndisholuna hvað sem Harpa segir við því.

Lífið er ein samfelld röð af ákvörðunum. Sumar eru að sjálfsögðu arfavitlausar og þá er bara að reyna að afsaka þær fyrir sjálfum sér og öðrum. Aðrar eru skárri og sumar jafnvel þannig að þær reynast mun betri en þær virtust í fyrstu. Öfunda þá sem aldrei efast um réttmæti ákvarðana sinna. Þeir held ég nefnilega að séu til. Held samt að sú manneskja sé ekki til sem ævinlega tekur réttar ákvarðanir. Það er líka alveg nóg að hlutfallið milli réttra og rangra ákvarðana sé sæmilega hagstætt.

IMG 8220Til minningar um...


1655 - Guðmundur G. Hagalín

001Gamla myndin.
Sigurjón Guðbjörnsson. Kallaður Grjóni. Veit ekki af hverju.

Kvótafrumvarpið er að mínum dómi stórgallað. Með því er komið endanlega í ljós að LÍÚ er miklu snjallara í allri kynningarstarfsemi en ríkisstjórnarræfillinn. Gott ef Steingrímur er ekki á mála hjá þeim. Hann virðist ekki hótinu betri en Jón að öðru leyti en því að hann kemur e.t.v. einhverju í verk. ESB-umsóknin er dauð, kvótafrumvarpið er að drepast og ríkisstjórnin kemur ekki til með að endast út kjörtímabilið. Eina huggunin er að stjórnarandstaðan er ekkert skárri.

Þó pólitíkin sé afleit þá er mannlífið að öðru leyti alls ekki sem verst. Íslendingar eru ekki að flýja land í stórum stíl, glæpastarfsemi og slys eru ekki að aukast, rusl er ekki meira þetta vor en vant er, veðrið er gott og verðbólgan ekki alla að drepa. Þeir sem illa fóru útúr hruninu væla þó ennþá og það gæti gengið betur að aðstoða þá. Útrásarvíkingarnir eru samt óðum að ná sáttum við sína lánardrottna og bankarnir aftur að ná þeim tökum á þjóðlífinu sem þeir höfðu. Það er skárra að láta þá ráða í fjármálaheiminum en pólitíkusana. Gætum þess bara að láta þá ekki fara eins illa með okkur og síðast.

Orðræðuheiftin er mikil T.d. eru fésbókin og DV varla lesandi lengur. Tala nú ekki um hve þreytandi er að horfa á útsendinguna frá Alþingi. Er alveg hættur að hlusta á útvarp Sögu og sakna ekki söngsins þar. Best að hugsa bara um vorið og gróandann. Nú er skemmtilegasti hluti ársins að hefjast. Látum ekki eymdina og volæðið ná tökum á okkur. Forsetakosningarnar gætu orðið stórskemmtilegar. Engin hætta er á að úrslitin þar skemmi fyrir endurreisn hugarfarsins. Næstu þingkosningar munu næstum eingöngu snúast um ESB. Nú er ég semsagt kominn út í pólitíkina án þess að hafa ætlað mér það.

Horfði á Kiljuna hjá Agli áðan. Hann minntist á Hagalín. Man að ég las mikið eftir Guðmund Gíslason Hagalín fyrir löngu síðan. Meðal annars man ég vel eftir að í einu bindi ævisögu sinnar tilfærði hann vísuna:

Þú er Manga þægileg
þar af ganga sögur.
Æ, mig langar uppá þig
eikin spanga fögur.

Einnig rámar mig í vísu um hann sem er svona:

Ég hef farið yfir Rín.
Ég hef drukkið brennivín.
Ég er hundur, ég er svín,
ég er Gvendur Hagalín.

Þegar ég var útibússtjóri hjá Silla og Valda á Hringbraut 49 skömmu fyrir 1970 verslaði konan hans þar og ég man vel eftir því að eitt sinn ræddi hún ýtarlega við mig um kosti og galla þess klósettpappírs sem til sölu var þar í búðinni. Helst þyrfti hún mýkri pappír fyrir Guðmund því hann væri með gyllinæð. Hafði ekki mikinn áhuga á því umræðuefni en það er mér samt minnisstætt.

IMG 8219Fangelsi, eða hvað?


1654 - Um skoðanakannanir o.fl.

Nú er kominn 17. apríl og tími til að blogga. Gallinn er bara sá að ég er orðinn uppiskroppa með gamlar myndir. Einhversstaðar á ég samt meira af þeim og þarf bara að koma mér til að skanna þær og laga hugsanlega svolítið til. Reyni að gera það fljótlega.

Skoðanakönnun sem gerð er eftir að flest kurl eru til grafar komin er sæmilega marktæk ef hún er rétt gerð. Skoðanakannanir þær sem hamast er við að gera þessa dagana útaf væntanlegum fosetakosningum eru ekki mjög marktækar. Líklegt er samt að Þóra og ÓRG muni koma til með að berjast um forystuna í þeim og jafnvel líka í kosningunum sjálfum, ef engir fleiri koma fram og ekkert sérstakt gerist. Hef samt á tilfinningunni að Þóra muni vinna sigur, þó Ólafur hafi embættið með sér og sé þaulreyndur í átökum af öllu tagi.

Það sem e.t.v. er alvarlegast við hnatthlýnunina og mengunarmálin er það að vestræn iðnríki eru í raun að segja við þróunarríkin að vegna þess hve vesturrænu ríkin hafi mengað mikið allt frá iðnbyltingunni verði þróunarríkin að gæta þess að gera ekki eins. Aðallega vegna þess að þau voru svolítið seinni til og eigi því að bíða enn um sinn.  Þetta veldur tortryggni og að ekki er hægt að gera nærri eins vel og gera þyrfti. Það er þó greinilegt að vitundarvakning fólks um mengunarmál er ekkert síðri hjá okkur Íslendingum en öðrum. Við erum að vísu gjarnari á að henda allskyns rusli frá okkur á víðavangi en aðrir. Það er samt ekki vegna þess að okkur þyki gaman að horfa á bréfarusl. Það gera þetta bara næstum allir aðrir og svo hylur snjórinn þessi ósköp á veturna.

Las nýlega (og séraði á fésbók ef ég man rétt) grein um verðlag á rafbókum. Sú sem greinina skrifaði talaði um að hún læsi bækur í kyndlinum sínum, í spjaldtölvunni og símanum. (Semsagt tæknifrík) Það er einmitt það sem er hægt og rólega að gerast að margt af efnislegri dægrastyttingu (bækur, kvikmyndir, sjónvarp, ljósmyndir o.s.frv) er á fallandi fæti en hið stafræna sem tölvur eða ígildi þeirra, geta numið og breytt í eitthvað sem við skiljum, er að taka við. Margir reyna að halda í það gamla og þvælast fyrir nýjungunum en það er þýðingarlaust. Þetta mun allt saman koma til með að breyta lífinu stórkostlega og er þegar búið að því.

IMG 8216World Class.


1653 - ÓRG og Þóra jöfn (Þóra þó aðeins jafnari)

veitekkiGamla myndin.
Hef ekki hugmynd um hverjir þetta eru en myndin er örugglega frá Bifröst.

Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu eru ÓRG og Þóra Arnórsdóttir með nokkurnvegin jafnmikið fylgi í skoðanakönnun vegna forsetakosninganna. Það stefnir samkvæmt því í einvígi milli þeirra. Þar mun pólitík og ýmislegt annað skipta máli og örugglega verður hart tekist á. Sömleiðis getur málareksturinn fyrir EFTA dómstólnum um Icesave skipt verulegu máli fyrir ríkisstjórnina. Ólíklegt er að hún lifi til loka kjörtímabilsins en henni ætti ekki að vera mjög hætt fyrr en næsta haust eða svo. Aðildarviðræðurnar við ESB munu eflaust verða í einhverju limbói þangað til og næstu þingkosningar munu einkum snúast um þau mál. Hef enga hugmynd um hvernig stjórnarskrármálinu muni reiða af.

Oft er gaman að lesa athugasemdir við vinsæl skrif á netinu þó ég geri það ekki oft. Í lokin kemur svo Þórgnýr Þórgnýsson og tilkynnir að hann sé sammála. Kannski er ekki gott fyrir óinnvígða að sjá hverju hann er sammála en þeim þúsundum aðdáenda hans sem beðið hafa eftir þessu er áreiðanlega létt.

Raunir Egils bónda á Bjánastöðum. Hlýt að hafa séð þennan texta á mjólkurfernu eða eitthvað. Hef kannski bætt Bjánastöðunum við. Oft er það sem þar er skrifað alveg út í loftið eins og bloggið mitt er oftast nær. En mér er alveg sama. Það eru þónokkrir sem virðast lesa þetta ef marka má þær tölur sem Mogginn sjálfur gefur upp. Athugasemdir eru að vísu fáar, enda er ekki margt að segja um það sem ég blogga um.

Andri (ekki á flandri) Fannar Ottósson og Steinar Örn Atlason skrifuðu víst fyrir allnokkru grein um framhaldsmyndina „Næturvaktina“ og reyndu að sálgreina eftir aðferðum Freuds persónurnar þar. (Georg Bjarnfreðarson, Ólaf Ragnar og Daníel) Þessu mótmælir Guðmundur D. Haraldsson í grein sem hann skrifar í nóvemberhefti Tímarits Máls og Menningar og segir engan fót fyrir slíku. Mælir fremur með HAM (Hugrænni athyglismeðferð – cognitive behavioral therapy – sem mér finnst nú svona innan sviga minna svolítið á hunda Pavlovs) en sálgreiningu sem lækningu við sálrænum kvillum. Grein þessi er um margt athyglisverð eins og „Næturvaktin“ var á sínum tíma.

TMM síðan í nóvember er ein af þeim bókum sem ég fékk að láni á bókasafninu (Kópavogs) í gær. Af einhverjum ástæðum byrjaði ég á þessari grein. Svo er ég líka byrjaður á þriðju Hunger games bókinni. Hún er á ensku og í spjaldtölvunni minni. Sennilega er hún þjófstolin einhversstaðar af netinu. Man bara ekkert hvar ég fékk hana. Mér finnst að þeir sem setja svona lagað á netið og ota því að mönnum eins og mér, bara af því að ég kann svolítið á tölvur, eigi að bera einhverja ábyrgð líka. Höfundar efnis þurfa að sjálfsögðu að lifa. Sé að ég hefði líklega getað keypt þessa bók á Amazon á svona rúmlega 7 dollara. Hefði kannski átt að gera það. Virðist vera spennandi.

Við eldri mennirnr erum einmitt svona. Þykjumst allt vita, en vitum samt næstum ekki neitt. Kunnum bara sæmilega að gúgla og höfum lent í ýmsu. Finnst að allt eigi að snúast um okkur því við séum merkilegastir allra. Svona er bara lífið. Eitthvað verður maður að gera, þegar það virðist vera að hlaupa frá manni.  

IMG 8205Mannvirki II.


1652 - ESB og forsetakosningarnar

sjúkrabörurGamla myndin.
Ekki veit ég hvað gengur á þarna en þykist geta þekkt Pétur Esrason, Hörð Haraldsson og
Guðmund Vésteinsson. Kannski er þetta einhvers konar æfing.

Samkvæmt fréttum í kvöld er ekki einu sinni víst að ESB kæri sig neitt um að við Íslendingar göngum í sambandið. Það hefur samt engin áhrif á stuðning minn við umsóknina um inngöngu. Kannski er þetta bara brella til þess að gera okkur (eða ríkisstjórnina a.m.k.) enn ákafari í að komast inn og lemja á ESB-andstæðingum. Satt að segja finnst mér að við höfum bara um tvær leiðir að velja. Annars vegar að halla okkur einkum að Ameríku (Bandaríkjunum þó sérstaklega) eða Evrópu (ESB) og að þriðja leiðin sé í raun og veru ekki til. Ég er þó ekki að tala um að glata sjálfstæðinu eða afhenda það einhverjum öðrum. Við Íslendingar kunnum bara ekki fótum okkar forráð nema með einhverjum stuðningi. Verst að áhrif Evrópu og Norður-Ameríku í heiminum fara þverrandi.

Fyrir mér eru alvöru frambjóðendur ekki mjög margir í komandi forsetakosningum. Mér finnst það vera Ólafur Ragnar Grímsson að sjálfsögðu og auk þess konurnar Þóra Arnórsdóttir og Herdís Þorvaldsdóttir. Ástþór er bara Ástþór og kannski fær hann fleiri atkvæði en síðast. Get samt ómögulega séð hann fyrir mér sem forseta. Hugsanlegt er að Ari Trausti Guðmundsson og Kristín Ingólfsdóttir bætist við áður en yfir lýkur en líklega verða það ekki fleiri. Tel Hannes og Jón einfaldlega ekki með. Endanlega verður þó að sjálfsögðu ekki ljóst um hverja verður kosið fyrr en framboðsfrestur rennur út. Það skilst mér að verði í maílok.

Arion banki lánar þýsku fyrirtæki peninga. Fyrirtæki þetta er í meirihlutaeigu Japana. Ekkert er uppgefið um lánsfjárhæðina né af hverju Japanir eða Þjóðverjar lána ekki. Mér líst ekki nema í meðallagi vel á þetta en vel getur verið að þetta blessist. Er Samherji hugsanlega einhversstaðar þarna á sveimi. Þetta eru bara getsakir og tilbúningur hjá mér en gæti svosem alveg verið.

Ævisagan sem ég var að enda við að lesa um Bobby Fischer eða Robert James Fischer eins og hann hét fullu nafni var um margt áhugaverð. Ég hef teflt nokkuð um dagana og fylgst talsvert með skák allar götur frá því að Friðrik Ólafsson sigraði svo efirminnilega í Hastings um áramótin 1955-56. Helgi Ólafsson ku vera að senda frá sér bók á ensku á næstunni um síðustu ár Bobby Fischers hér á Íslandi. Hún á að heita „Bobby Fischer Comes Home.“ Skrifa eflaust eitthvað um hana seinna. Viðfangsefnið er fasínerandi. Það finnst mér a.m.k. Hef skrifað nokkuð um hann undanfarið. (Fischer altsvo.) Er ekki viss um að öll kurl séu komin til grafar útaf arfamálum hans og fleiru. Þegar hann dó átti hann talsvert fé. Hvert fór afgangurinn? Eru lögfræðingar og ríkisstjórnir búin að éta það alltsaman? Jinky Young og Targ-bræður hafa áreiðanlega ekki fengið neitt. Hefur þá Miyoko Watai fengið allt?

Jónas Kristjánsson fer jafnan snemma á fætur. Skrifar a.m.k. oftast snemma dags sína fyrstu pólitísku færslu. Gallinn er hvað hann er jafnan hvass og óvæginn. Er samt oft nokkuð sammála honum. Jónas Kristjánsson og Egill Helgason eru að mörgu leyti mínir mentorar. Get ekki að því gert að mér finnst þeir taka t.d. Páli Vilhjálmssyni langt fram í stíl. Páll virðist þó halda sig með beittustu hægrisinnum hérlendis. Davíð setur ekki snilld sína á netið. Er bara fyrir þá sem álpast hafa til að viðhalda áskriftinni að Mogganum. Kannski er hann ágætur stílisti líka. Hólmsteinninn virðist að mestu þagnaður. Það er reyndar líf utan pólitíkurinnar.

IMG 8197Mannvirki I.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband