Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

1651 - Þóra Arnórsdóttir

siggiGamla myndin.
Sigurður Fjeldsted.

Það er enginn vafi á því að væntanlegar forsetakosningar eru að ná miklum tökum á fólki. Stuðningur við Þóru Arnórsdóttur er mikill og áreiðanlega bíða flestir í ofvæni eftir skoðanakönnunum sem hægt er að taka mark á. Reynt er að koma flokkapólitíkinni að í þessum kosningum en alls ekki er víst að það takist. Þar ríkir skotgrafahernaðurinn og kaldastríðshugsunarhátturinn. Margt á eftir að gerast í sambandi við þessar forsetakosningar og ÓRG er alls ekki eins viss um sigur og margir virtust álíta fyrir stuttu.

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar ágæta grein um forsetakosningarnar og misskilning varðandi þær á Vísi.is í dag. http://www.visir.is/misskilningur-um-forsetaframbod/article/2012704109959 og óvitlaust er að lesa hana.

Samskipti manna á milli eru mikið að breytast. Tími hins prentaða máls er að líða undir lok. Ljósmyndir og kvikmyndir (vídeó) eru að taka yfir. Fáir nenna að lesa langan texta og ennþá færri að skrifa hann. Allt á að vera stutt og fljótafgreitt, enda er ekki tími til annars.

Fésbókin er fyrirbrigði sem hefur sennilega mikil áhrif á skoðanir fólks. Þar er mjög auðvelt að hafa samband og þannig dreifast upplýsingar og hugmyndir meðal manna með miklum hraða. Vissulega eru ekki allir tengdir netinu og fésbókinni, en allir eru í sambandi við einhverja sem það eru.

Að hanga á netinu er á margan hátt sambærilegt við það að sökkva sér í lestur dagblaða og bóka sem áður var algengt. Vörpin (útvarp og sjónvarp) er líka fremur auðvelt að nálgast þar ef vilji er fyrir hendi. Þeim fækkar þó óðum sem vilja láta starfsfólkið á þeim sía allt sem sýnt er og mata sig á því. Ég er ekki að segja að allt sé merkilegt sem á fésbókinni og netinu almennt er að finna en samskiptin og frelsið eru þar í hávegum höfð og breyta lífi margra.

Þó útgerðarfélögin, sum hver a.m.k., hafi haft það skítt undanfarin ár vegna Hrunsins er ekkert minni ástæða til að þau borgi auðlindagjald af því sem þau moka uppúr sjónum núna. Þau sem eru svo skuldug vegna Hrunsáfalla að þau geta ekki borgað skuldir sínar eiga að sjálfsögðu einfaldlega að fara á hausinn. Ef tækifærið sem nú er fyrir hendi til að koma auðlindum sjávarins úr eigu félaganna og í þjóðareign verður ekki notað, gerist það líklega aldrei.

Hverjir hafa verið heimsmeistarar í skák síðustu hálfa öldina eða svo í hugum fólks? Flestir muna að Bobby Fischer hrifsaði tignina til sín af Boris Spassky í Reykjavík árið 1972. Mætti svo ekki þegar hann átti að tefla við Karpov árið 1975. Svo man fólk sjálfsagt eftir Kasparov og jafnvel Indverjanum Anand. Held að fáir aðrir en sérstakir skákáhugmenn kannist við fleiri. Norðurlandambúar kannski við Magnús Carlsen. Skákmenn komast sjaldan í heimsfréttirnar núorðið.

Er að lesa ævisögu Fischers eftir Frank Brady þessa dagana og þar er margt athyglisvert. Eina missögn fann ég þó varðandi Íslandsdvöl hans á þessari öld. Í bókinni er gefið í skyn að flugvélin sem kom með hann til landsins eftir fangelsisdvölina í Japan hafi lent á Keflavíkurflugvelli. Svo var þó alls ekki. Ræði kannski frekar um ævisögu þessa síðar ef tilefni verður til. Veit t.d. ekki betur en að enn séu óafgreidd mál varðandi arf eftir hann og skatta sem Bandaríkjastjórn telur að hann hafi svikist um að greiða..

IMG 8195Bekkur.


1650 - Kóngsbragði svarað með Be2

reykholtGamla myndin.
Reykholsskóli. (held ég)

Undarlegt dómgreindarleysi hjá Þorsteini Má Baldvinssyni að láta svona í viðtali við sjónvarpið. Vera bara öskureiður og hafa í hótunum. Andstæðingar hans herðast einungis við þetta og stuðningsmennirnir flýja sem fætur toga. Kannski er hann búinn að eyðileggja fyrirtækið.

Í athugasemd við grein eftir Eið Svanberg Guðnason - molaskrifarann sjálfan - er talað um meinsemi í merkingunni meinasemi. (finnst mér) Þarna ætti að gera greinarmun nokkurn því merkingin er ekki alveg sú sama. Að vera með meinasemi við einhvern er að koma í veg fyrir að hann geri eitthvað. Meina honum það semsagt. Meinsemi finnst mér vera beinlínis illgirni. Fáir mundu t.d. tala um ungbarn og ungabarn í nákvæmlega sömu merkingunni. Þó Eiður sé oft góður í íslenskuleiðbeiningum sínum má of mikið af öllu gera. Víst eru miðlarnir lélegir í þessum sökum en hræddastur er ég um að þeir lesi ekki leiðbeiningarnar sem mest þurfa á þeim að halda. Auk þess er málið sífellt að breytast. Gæti trúað að peningaleysi væri helsta afsökun þeirra sem ábyrgð bera á þessu.

grænlandHeld ég hafi nælt mér í þessa mynd einhverntíma fyrir löngu af Internetinu (organiserað hana semsagt) Finnst hún endilegalega vera frá Grænlandi. Kuldaleg er hún a.m.k. Man að ég hugsaði þegar ég sá hana fyrst. „Það var svosem auðvitað – íslenski fáninn stærstur.“

Það er minn bloggstíll að þykjast allt vita þó ég viti svosem ekki neitt. Sjálfsálit er kannski einn mikilvægasti eiginleiki hvers manns. Ef maður hefur það álit ekki í lagi, hver á þá að hafa álit á manni? Í samtölum við fólk er samt rétt að dylja þetta svolítið eða jafnvel talsvert. Kannski er einfaldara að hafa áhrif á aðra en maður heldur. Það að skrifa sæmilega góðan texta er þverrandi eiginleiki. Það er samt fyllsta ástæða til að reyna að halda honum við. Sérstaklega fyrir eldri borgara (ekki hamborgara) því þeir eiga oft erfitt með að fylgja yngri kynslóðinni í myndskilningi og instagrömmum.

vísaUm daginn setti ég vísu eftir sjálfan mig á fésbókina hjá Páli Bergþórssyni. Af því að lækin á henni eru svo mörg þá er ég farinn að halda að hún sé eitthvað góð (sem hún er ekki - bara lélegur útúrsnúningur) og að hætta væri á að Moggabloggsvinir mínir sæu ekki snilldina. Hér er semsagt klippa af herlegheitunum.

Að Be2 (sem svar við kóngsbragði) http://www.chessbase.com/newsdetail.asp?newsid=8047 skuli vera eitthvert best heppnaða aprílgabb sem um getur (á eftir Vanadísinni sálugu og hundgánni sem er mér enn í minni) sýnir bara að skákmenn hugsa svolítið öðruvísi en annað fólk. Mér fannst greinin um þetta á Chessbase ágæt. Sjálf grunnforsendan og byrjunin á greininni nægði samt til þess að grunur vaknaði um græsku (dagsetningin á greininni var dulbúin) Að öðru leyti var greinin alls ekki ótrúleg eða ekki fannst mér það.  

IMG 8174Gamla höfnin í Reykjavík.


1649 - Hungurleikarnir o.fl.

ólisigGamla myndin.
Veit ekki með vissu hver þetta eru nema Óli Sig. er lengst til vinstri.

Hvernig verður kosningabaráttan í forsetakosningunum? Það er ekki gott að segja. Ólafur er enginn aukvisi í þessu. Baráttan getur vissulega orðið hatrömm og skoðanakannanir verða áreiðanlega margar og mismunandi. Ótrúlegt er að kosið verði um stjórnarskrána samtímis forsetakosningunum. Ríkisstjórnin hefur áður lúffað og mun gera það í þessu máli. Nýtur lítils trausts en mun samt halda sínu striki, enn um sinn. Framboð Þóru Arnórsdóttur minnir um sumt á framboð Kristjáns Eldjárn á sínum tíma. Tímarnir eru þó breyttir og hann fór ekki fram gegn sitjandi forseta heldur tengdasyni hans. Úrslitin geta samt hæglega orðið svipuð. Ég kaus Kristján á sínum tíma og einnig Vigdísi og Ólaf þegar hann bauð sig fram fyrst. Fésbókin, Bloggið, Vefmiðlarnir og vörpin öll munu hafa mikil áhrif í þessu máli og alltof fljótt er að vera með einhverja spádóma.

Einhverjir bregðast enn við því sem ég skrifa hér á bloggið og á fésbókina. Það er mér nóg. Ef enginn léti svo lítið að lesa það sem ég sendi frá mér á netið mundi ég hætta þessu. Sumt af viðbrögðunum sést vel af þeim sem lesa innlegg mín, en alls ekki allt. Fólk er sífellt að verða opinskárra í sínu netlífi og það er auðvitað bara gott. Nauðsynlegt er þó að sýna svolitla aðgát. Stórir og öflugir aðilar reyna að safna sem mestum upplýsingum um sem flesta. Jafnvel þó staðið verði við öll gefin loforð um meðferð gagna geta tímarnir að sjálfsögðu breyst. Gögnin fara ekkert í burtu og geta hvenær sem er birst aftur.

Finnst óþarfi hjá Samherjamanninum öskuvonda að hafa í hótunum við allt og alla, þó hann telji sig hafa Dalvíkinga flestalla að vopni. Gæti komið illa í bakið á honum seinna. Man ekki betur en sami maður hafi verið hálfgrátandi yfir því hvað Davíð Oddsson væri vondur við hann í upphafi Hrunsins. Þá var hann að ég held stjórnarformaður (Íslandsbankans fyrrverandi) Glitnis.

Gott dæmi um lélega eftiráskýringu er fullyrðing „Evrópuvaktarinnar – Björns Bjarnasonar og Styrmis Gunnarssonar“ um að mestur hluti milljónastyrks frá Alþingi eða ESB til þeirra félaga hafi farið í að greiða þeim ritlaun. Enginn trúir þessari vitleysu, en ekki verður málið skoðað neitt frekar. Auðvitað hafa þeir Björn og Styrmir stungið þessum peningum í vasann og það vita allir, en andstæðingar þeirra hafa eflaust gert eitthvað svipað og segja ekki neitt til að róta ekki um of í skítnum. 

Hef nú lokið við að lesa bók tvö af „Hunger games“ sem kallast „Catching fire“ á frummálinu. Hún er spennandi (einkum undir lokin) eins og sú fyrsta en ekki eins vel skrifuð. Fyrir alllöngu las ég smásögu um samskonar hugmynd og notuð er í þessum þríleik. Semsagt um raunveruleikaþátt í sjónvarpi þar sem drepa skal þátttakendurna í raun og veru. Hugsanleg (eða líkleg) kvikmyndun sögunnar truflar höfundinn svolítið og eins greinilegir „kynbombustælar“, en samt er bókin ágætlega gerð og góð afþreying.

IMG 8191Hlaupið í Hörpunni.


1648 - Arnaldur gerði vitleysu

óliGamla myndin.
Ólafur Sigurðsson og Geir Magnússon.

Ein versta afleiðing Hrunsins er sú að samskipti fólks hafa versnað til muna. Pólitísk orðræða hefur harðnað, traust manna á stofnunum og hvert öðru hefur minnkað og sú sátt milli ólíkra hópa, sem óneitanlega örlaði á í aðdraganda Hrunsins, er horfin. Deilur sem á sínum tíma voru talsvert harðar t.d. um pólitísk ágreiningsmál, veru hersins, aðildina að NATO og margt fleira hafa versnað aftur.

Tek eftir því að (fésbókar)vinir mínir sumir hverjir hafa fengið fésbókarsóttina sem ég kalla svo. Þá er ekki annað að sjá en þeir klikki á næstum því hvað sem er og sitji dægrin löng við tölvuna. Nú eða skrifi endalausar hugleiðingar á „statusinn“ sinn. Óliver Twist (aka Steini Briem) er búinn að vera svona lengi, Eiður Svanberg í talsverðan tíma og nú virðist veikin vera að breiðast út. Nefni engin nöfn en óneitanlega er fólk (og fésbókin einnig) að sækja í sig veðrið. Auðvitað er þetta bara öfund í mér að vera að minnast á þetta. Nenni þessu nefnilega ekki sjálfur. (Þykist vera að spara mig) Blogga bara eins og ég eigi lífið að leysa.

Einn helsti vorboðinn á hverju ári er að óhemju margir frídagar eru um þetta leyti. Nú er sólin farin að skína, páskarnir að nálgast (Og páskahretið – næstum örugglega.) grasið að grænka og gróðurinn að taka við sér. – Kannski hnatthlýnunin margumtalaða komi fyrst til okkar Íslendinga. Nóg hefur verið á okkur lagt undanfarin misseri. Allt verður þolanlegra ef tíðarfarið er gott.

Maður drap fugl    0 komment.
Maður drap kött    1 komment.
Köttur drap fugl    10 komment.
Hundur drap kött  200 komment.

Er ekki eitthvað undarlegt við þetta?
Er þetta í samræmi við alvarleika verknaðanna?

Ég er víst einn af þeim fáu sem held því fram að það sé ekki endilega vatn á myllu ÓRG að sem flestir bjóði sig fram til forseta. Það má að vísu segja að hann sé næsta öruggur með að fá þriðjung atkvæða eða svo út á það eitt að vera „fyrrverandi“. Stemmning getur þó skapast í kosningabaráttunni sjálfri fyrir öðrum frambjóðanda. Mér finnst líka afar ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn fái meira en 30 – 40 % fylgi í næstu þingkosningum. Nýju framboðin eru að mestu óskrifað blað ennþá þó verið sé að ota þeim fram í einhverjum skoðanakönnunum. Ekki er þó líklegt að núverandi stjórnarflokkar ríði feitum hesti frá næstu kosningum.

Á bls. 280 í bók Arnaldar Indriðasonar sem nefnist „Einvígið“ er setningin „Spassky, sem var tveimur peðum undir þegar biðskáin hófst, hugsaði sig um í 25 mínútur áður en hann lék biðleikinn“. Þetta er rangt. Biðleikurinn var leikinn áður en skákin fór í bið. Dómarinn lék biðleikinn þegar skákin hófst á ný. Þetta vita allir skákmenn en líklega ekki Arnaldur Indriðason. Hafi skákmaður lesið bókina yfir (eins og hlýtur að vera) hefur honum yfirsést þetta.  Annars er þessi bók spennandi og ágætlega skrifuð eins og mig minnir að ég hafi sagt áður.

IMG 8161Aprah aprah.


1647 - Einvígið

kristinnGamla myndin.
Þetta sýnist mér að séu Kristinn Jón Kristjánsson og Ögmundur Jónsson.

Fjölmiðlungar virðast líta á 1. apríl sem einhverskonar frídag. Þá megi segja allt mögulegt sem þeim dettur í hug og ef einhver tekur það alvarlega, þá er afsökunin tilbúin. Að hlaupa apríl er raunar alveg búið að missa merkingu sína. Áður fyrr var ekkert aprílgabb gilt nema þeir sem plataðir voru færu eitthvert. Nú eru flestir búnir að gleyma því og virðast halda að öll lygi sé aprílgabb ef hún er sögð 1. apríl. Best er auðvitað að trúa engu þá.

Í meiðyrðamál fara einungis þeir sem vilja þagga niður í mönnum eða vekja séstaka athygli á ummælunum. Ummæli gleymast yfirleitt á nokkrum dögum, en það lengir líf þeirra nokkuð ef hótað er að fara í meiðyrðamál. Tala nú ekki um ef látið er verða af því, en sem betur fer er það alls ekki algengt.

Munurinn á mér og Sigurði Þór Guðjónssyni er einkum sá að hann er sífellt að hallmæla blogginu en hefja fésbókina til skýjanna. Þessu er alveg þveröfugt farið hjá mér: Ég er alltaf að agnúast út í fésbókina en finnst bloggið bera af. Hvort skyldi vera réttara? Mögulega er ég bara ennþá meira gamaldags en hann.

Held að Sigurður lesi jafnan bloggið mitt. Þessvegna er svona gaman að skrifa um hann. Ég les líka bloggið hans jafnvel þó það sé oftast óttaleg veðurvitleysa. (Einar Sveinbjörnsson les ég oftast líka – undarlega fasínerandi þessar veðurspekúlasjónir) Les líka flest af því sem hann (Sigurður Þór) skrifar á fésbókina en gefst gjarnan upp við athugasemdirnar enda eru þær oft margar. Jafnvel of margar.

Er að lesa bókina Einvígið eftir Arnald Indriðason um þessar mundir. Er alls ekki búinn með hana, en finnst höfundurinn einkum vera að segja þrjár sögur þar. Saga einvígisins er heldur ómerkileg hjá honum og virðist eingöngu samsett úr því sem höfundur hefur fundið í dagblöðum þess tíma.  Las nýlega kaflann um einvígið í ævisögu Fischers eftir Frank Brady. (Er ekki búinn að lesa þá ævisögu alla ennþá – athuga það.) Þar kom fram að mamma Fischers kom í heimsókn til hans í dulargervi meðan á einvíginu stóð – Það hafði ég ekki heyrt áður.

Morðið í Hafnarbíói er aðalsagan í bókinni, en ekkert sérlega merkileg sem slík.

Frásögnin um Marion, Aþanasíus, berklana og allt það finnst mér vera langmikilvægasta og best gerða sagan í bókinni.

Auk þessa eru allskyns smálegar sögur fléttaðar á listilegan hátt inn í frásögnina. Arnaldur kann þetta einfaldlega allt saman og ber langt af öðrum krimmahöfundum íslenskum.

Hann er þó mistækur og ég get ekki neitað því að sumar sögur hans finnst mér fremur lélegar. Þetta er samt með hans betri bókum.

IMG 8151Sólfar.


1646 - Vaðlaheiðarvitleysan

jóhannGamla myndin.
Jóhann Steinsson og Hildur Kristjánsdóttir.

Háskólasamfélagsumræðan í þjóðfélaginu er heldur hvimleið. Háskólaborgarar eiga að vita það jafnvel betur en aðrir að alla skiptingu fólks í flokka er auðvelt að gagnrýna. Kannski er þetta bara venjulegur menntahroki. Þetta er samt til þess fallið að gera fólk andsnúið skólagöngu. Hún er ekki hátt skrifuð meðal almennings. Oftast er hún samt skárri en brjóstvitið. Það er auðvitað afar stutt yfir í menntunarleysishroka hjá þeim sem láta eins og ég geri hér. Gullni meðalvegurinn sem ávallt er vandrataður er auðvitað alltaf bestur.

Sagt er að skógarkerfill og lúpína séu til mikilla vandræða í Hrísey. Ég minnist þess að þegar ég dvaldi um hríð í Hrísey fyrir nokkrum árum þá var skógarkerfillinn einkum nyrst á eyjunni og ekki að sjá að hann ógnaði neinum. Það var ekki fyrr en síðastliðið sumar sem ég sá að kerfillinn getur verið til mikillar óþurftar þar sem hann nær sér á strik. Rjúpan á sér griðastað í Hrísey og mér er ekki kunnugt um að henni hafi fækkað fyrir tilverknað kerfilsins, en svo kann þó að fara. Mér finnst margir fara með miklu offorsi gegn þessum plöntum (lúpínunni og skógarkerflinum) og oft án þess að hafa hugsað málin verulega. Tilraunir hafa mér vitanlega verið fáar varðandi þetta mál hingað til. Mér finnst að slíkar tilraunir mætti vel gera einmitt í Hrísey.

Að svokölluð eignarhaldsfélög geti átt tugþúsundfaldar eignir ef miðað er við hlutafé þeirra er auðvitað fáránlegt. Ef hagfræðingastóðið, sem alla er að drepa, getur ekki fundið lausn á þeim vanda sem kynni að skapast við lagfærinu á þessu og ef ekki er heldur hægt að koma hlutum þannig fyrir að arður sé skattlagður þar sem hann verður til er líklega best að afnema allt sem heitir peningar og verðbréf og taka upp vöruskipti eingöngu. Auðvitað væri það dálítið umhendis en er kannski nauðsynlegt. Hagfræði og Viðskiptafræðimenntun mætti þá leggja niður (að ógleymdum fjármálaráðherrum og viðskiptaráðherrum) og spara með því verulega fjármuni.

Því skyldi ég vera að rembast við að blogga á hverjum degi? Örlítið ofar kemst ég kannski á vinsældalista Moggabloggsins með því. En er það eftirsóknarvert? Eiginlega ekki. Með því daglega bloggi sem ég var nánast búinn að venja mig á neyddist ég oft til að blogga um tíðindi dagsins. Þau er nú samt oftast svo leiðinleg að það tekur því alls ekki að blogga um þau. Er ekki öllum í rauninni sama t.d. hvort ÓRG og ÁSTÞÓR verða einir í framboði til forsetaembættisins í sumar eða ekki. Auðvitað hlustar maður á bollaleggingar um þetta mál í sjónvarpinu og jafnvel fleiri vörpum, en er það eitthvað til að hafa áhyggjur af? Ekki finnst mér það. Og pólitíkin. Er ekki fjandans sama hvort stjórnarandstöðunni tekst einu sinni enn að snúa á Jóhönnu og Steingrím eða ekki. 

Málið um Vaðlaheiðargöngin er samt furðulegt mál. Álit mitt á þingkonunum Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Ólínu Þorvarðardóttur hefur aukist stórlega við að horfa á fréttirnar áðan. Þær ætla ekki að styðja laumuspilið með ríkisábyrgðina á þessum göngum. Enginn vafi er á að kostnaðurinn við göngin mun að verulegu leyti lenda á ríkinu á endanum. Einkaframkvæmdarbullið er bara til þess gert að koma göngunum framar í framkvæmdaröð. Losið ríkið undan ábyrgðinni á þessu öllu saman og auðvitað eru allir sammála um að mikil samgöngubót verður að göngunum.

IMG 8149Snert hörpu mína himinborna dís.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband