1660 - Facebook logout

006Gamla myndin.
Birgir Marínósson.

Um þessar mundir er ég að lesa í kyndlinum mínum bók sem heitir „Facebook logout -  experiences and reasons to leave it“ eftir Ivo Quartiroli. Þessi bók fjallar einkum um það neikvæða við fésbókina og margt er þar sem ég er mjög sammála. Amazon býður uppá þessa bók ókeypis svo ég gat ekki staðist mátið. Nálgaðist hana meira að segja í gegnum kyndilinn, en það er víst aðal gróðavegurinn hjá Amazon varðandi Kindle fire tölvuna að gera sem næst ómögulegt að dánlóda efni beint frá öðrum en sér með henni. Það er reyndar mjög einfalt að dánlóda fyrst á Windows tölvuna sína og svo á Kindle fire tölvuna. Auðvitað má breyta fælunum á alla vegu ef maður er nógu klár til þess. Hreinir textafælar og .pdf skrár eru einfaldastar. Benni kom hingað í gær og opnaði m.a. fyrir mig Dropbox uppá 2 GB en meira er víst ekki ókeypis.

Margir verða háðir fjárans fésbókinni og sitja langtímum saman við tölvuna skrifandi í hana og bíðandi eftir að aðrir svari. Fésbókin er góð til að halda sambandi við fólk. Yfirborðskennt er það að vísu, en ef ekki er setið of lengi við tölvuna í senn og hún ekki látin taka yfir allar frjálsar stundir, þarf hún ekki að vera svo hættuleg. En tímaþjófur er hún hrikalegur. Auðvitað er fínt að geta talað við helsu kunningjana strax og þeir eru vaknaðir en hættan er sú að margir fórni í þetta tíma sem betra væri að nota í annað.

Fór í gærmorgun (laugardag) út að labba. Það rigndi svolítið. Þegar ánamaðkarnir eru sem flestir á gangstígunum get ég ekki að því gert að verða meira afhuga framhaldslífi en ella. Því ætti það (eða sá eða sú) sem öllu ræður að gera greinarmun á ánamöðkum og mannverum? Er ekki kominn tími til að ...sparka í dekkin.

Fréttatíminn veldur mér vonbrigðum þessa helgina. Þó er þetta eina prentaða blaðið sem kemur reglulega á mitt heimili. Mér finnst hann vera að draga taum hjátrúar og hindurvitna í þjóðfélaginu með forsíðugrein sinni. Ég hef ekki lesið nema fyrirsögn greinarinnar og er þessvegna tæpast marktækur um innihald hennar. Hef þó séð á hana minnst annars staðar (þ.e.a.s. á netinu) Mér finnst fjölmiðlar oft fara ansi frjálslega með það sem skrifað er um og láta eins og þeir viti ekkert um áhrifamátt sinn. Þetta á auðvitað ekkert síður við um netmiðla og sumir bloggarar eru svo mikið lesnir að þeim má jafna við fjölmiðla. Mál þetta er allt mjög vandmeðfarið.

Runki fór í réttirnar
ríðandi á honum Sokka.
Yfir holt og hæðirnar
hann lét klárinn brokka.

Af einhverjum ástæðum minnir þessi vísa mig á Afa minn (ekki minn eigin þó) sem fór á honum Rauð eitthvað suður á bæi. Hef velt fyrir mér hvað þetta „sitt af hvoru tagi“ getur hafa verið. Kannski kaffi og rjólbiti (óskorið tóbak). Sykurinn var búið að nefna. Ekki eru umveltingsefnin alltaf merkileg.

IMG 8241Ógnvænleg gylta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sá mér til skelfingar að ég hafði látið ranga mynd neðst í þessa færslu. En nú er sú rétta komin. Myndin af Tinnu að klappa grísnum átti semsagt alls ekki að fara á bloggið aftur.

Sæmundur Bjarnason, 29.4.2012 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband