1831 - Nýja stjórnarskráin og inngangan í ESB

Sennilega er það til marks um hve gífurlega íhaldssamur ég er að ég skuli ennþá blogga á Moggablogginu. Mér finnst ég samt ekkert vera hallur undir Sjáfstæðisflokkinn og hef t.d. aldrei kosið hann. Finnst ég raunar ekki vera hallur undir neitt nema þá helst mínar eigin ómældu gáfur.

Málþófinu er lokið, samt á ekki að greiða atkvæði um það sem rifist var um fyrr en einhverntíma í janúar. Hvern er verið að reyna að plata? Stjórn og stjórnarandstaða virðist vera sammála um það eitt að kjósendur séu bölvaðir asnar. Stjórnin vill ekki umræður um viðkvæm mál. Hefur ekki öruggan þingmeirihluta fyrir neinu. Þrjóskast samt við að sitja. Lúffar fyrir útgerðarauðvaldinu og svíkur öll sín loforð varðandi kvótann. Stjórnarflokkarnir eru að verða jafnókjósanlegir og stjórnarandstaðan.

Sennilega eiga útgerðarmennirnir fiskinn í sjónum. Bæði veiddan og óveiddan, fæddan og ófæddan, ímyndaðan og raunverulegan. Þeir segja það a.m.k. sjálfir og líklega styður fjórflokkurinn það sjónarmið. Örugglega eru dómstólarnir og ríkisstjórnin þeirrar skoðunar. Sennilega dugar það sýnishorn af málþófsmætti stjórnarandstöðunnar sem sýnt var á alþingi til að slökkva þann kvótaeld sem kviknaði í brjóstum fáeinna þingmanna. Kannski eru kjósendur ekki allir sama sinnis, en hverju skiptir það? Enginn nennir að gera neitt í málinu. 

Nú eru hæstmóðins deilur um nýju stjórnarskrána. Allir hafa sinn uppáhaldspunkt sem þeir leggja ríka áherslu á og er það vel skiljanlegt. Sjálfur vil ég einkum að ef nýrri stjórnarskrá verður komið á, þá verði það gert í samræmi við ákvæði þeirrar gömlu. Það er að segja að hún taki ekki gildi nema vera samþykkt óbreytt á tveimur þingum með kosningum á milli. Þjóðaratkvæðagreiðsla skiptir minna máli því gamla stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir henni.

Sumir segja að inngangan í ESB skipti máli þarna, en mér finnst svo ekki vera. Að ganga í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu kemur alls ekki til greina. Á heldur ekki von á að ríkisstjórn af neinu tagi muni láta sér detta það í hug. Í mínum huga eru þetta algjörlega aðskilin mál. Þó útilokað sé, að bestu manna áliti, að ganga í ESB án breytinga á stjórnarskránni, má segja að líka sé útilokað að ganga í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu einfaldlega vegna ákvæðisins um neitunarvald forsetans.

IMG 2243Vetrarmynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband