1832 - Jól

Það er svo mikið skrifað á fésbókina, bloggið, tístið og hvað þetta allt saman heitir að það er mesta furða að nokkuð annað skuli gert. Jólin eru samt á leiðinni og þó margir vilji eiga þau eiga þau sig eiginlega bara sjálf.

Þó desember sé dimmur
þá dýrðleg á hann jól.
Með honum endar árið
og aftur hækkar sól.

Var kveðið í gamla daga. Merkilegt að sumir þeirra sem reyna að hnoða saman vísum virðast engan skilning hafa né þekkingu á neinu nema rími í sambandi við vísnagerð. Lærði bragfræði í miðskóla og fannst hún einföld og auðskilin. Annars er neikvæðnin og besservisserahátturinn að ganga af blogginu dauðu. Gott ef fésbókin er ekki í hættu líka.

Í sambandi við pólitíkina og frammistöðu alþingismanna er reyndar erfitt að vera jákvæður. Það eru fáir sem kunna tollskrána utanbókar og óþarfi að eyða dýrmætum tíma í ræðustól alþingis til að ræða um slíkt. Man bara að ég vann einu sinni við útfyllingu tollskjala og þótti alltaf skrýtið að 80% tollur skyldi vera á postulínsklósettum. Þau voru ekki slíkur lúxus þá, þó þau hafi verið það fyrir rúmum 100 árum þegar Thor Jensen var uppá sitt besta.

Vísan hér á undan er gamall húsgangur. Ég dundaði mér þó einu sinni (og kannski oftar) við að gera jólavísu. Hún er svona og ég get ekkert gert að því þó hún sé sex ljóðlínur:

Nú er jólin að ganga í garð
gaman er núna að lifa.
Af einhverjum lítt kunnum ástæðum varð
enginn mér fyrri að skrifa
þetta sem kalla má svolítinn sálm
sumum þó finnist það vera tómt fálm.

Með útúrdúrum og allskyns fettum og brettum er mér nú búið að takast að mestu leyti að halda mig við eitt efni í heilt blogg svo það er kannski best að hætta bara hér.

IMG 2246Birta og trjágreinar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband