1834 - Talmál, ritmál og myndmál

Það er ekkert skrýtið að það séu bara stærstu fyrirtækin sem borgi taxtalaun en minni fyrirtækin yfirborgi. Þannig vinnur markaðurinn og hefur alltaf gert. Getur tæplega öðruvísi verið. Það sem öllu máli skiptir er hve yfirborgunin er mikil. Auðvitað er hún misjöfn. Bæði milli fyrirtækja og tímabila. Mín tilfinning er að hún sé ekki mikil núna, en hafi verið mjög mikil þegar Hrunið varð. Það kom síðan einhverjum launþegum á óvart að yfirborgunin hyrfi að mestu leyti þá og verkalýðsfélögunum var kennt um. Það er hinsvegar ósanngjarnt því auðvitað semja þau ekki um yfirborganir. Ýmis réttindi sem samið hafði verið um og þóttu litlu máli skipta í hámarki þenslunnar fóru allt í einu að skipta máli.

Ég er líka stuðningsmaður lífeyrissjóðanna, þó afskipti ríkisvaldsins hafi alltaf verið mikil af þeim og stjórnun þeirra á margan hátt misheppnuð. Verðtryggingin er líka tilkomin til þess að tryggja hag húsbyggjenda og minnka völd stjórnmálamanna. Vanrækt hefur þó verið að lagfæra hana og færa að breyttum aðstæðum. Vixlverkun kaupgjalds og verðlags sem var mikið vandamál einu sinni er það ekki lengur. Gjaldeyrishöftin og fleira bjóða þó heim hættunni á óðaverðbólgu eins og hér var einu sinni.

Mér er minnisstætt að ég hjálpaði einu sinni Vilborgu Davíðsdóttur við að prenta út söguna um Korku. Þá var hún að vinna á Stöð 2 og sú saga hélt ekki Korkunafninu við útgáfuna en kallaðist þá „Við Urðarbrunn“, minnir mig. Síðan hef ég fylgst nokkur með ferli Vilborgar og hún er greinilega mikill sérfræðingur um tímabilið við landnám og frameftir öldum. Man að ég var dálítið ósáttur fyrir hennar hönd þegar Korkusagan var kölluð unglingasaga. Mér fannst það eina sem var pínulítið frumstætt við söguna vera tímaásinn. Hann var þráðbeinn og það líkar gagnrýnendum ekki. Þeir vilja hafa hann sem mest hlykkjóttan.

Það er nokkuð sameiginlegt vandamál hjá rithöfundum að vilja endilega gera „trílógíu“ úr bókum sem heppnast sæmilega vel. Um þetta eru til mörg dæmi. Bók númer tvö heppnast oft nokkuð sæmilega en í þriðju bókinni rennur oftast allt út í sandinn. Sú trílógía sem mér er minniststæðast að hafi heppnast vel hefur reyndar inni að halda fjórar bækur. Þær eru eftir Douglas Adams sem er nýdáinn og fyrsta bókin hét „Hitchhikers guide to the galaxy“ eða eitthvað þess háttar. ( Þetta er reyndar allt eftir minni og ég nenni ekki að gúgla þetta.) En það er allt önnur saga og ég ætla ekki að fara að rekja hana hér.

Mér sýnist að verið sé að eyðileggja fésbókina, sem eðlilegt er. Bara þeir sem nenna að uplóda stanslaust myndum frá (og af) sjálfum sér og miðla myndum frá öðrum (stanslaust og án afláts - án þess að gera nokkuð annað  - nema skrifa örstuttar setningar – helst um myndirnar) verða bráðum einir eftir þar. Auðvitað eru svo einhverjir sem vilja horfa á ósköpin og hugsanlegt er að þeim fari fjölgandi í bili.

Bloggið er hinsvegar upplagt fyrir þá sem sífellt vilja predika yfir öðrum og þykjast þeim betri a.m.k. til þess. Ekki held ég samt að myndmálið sé að taka bókstafina yfir alveg á næstunni. Þróunin er samt þannig. Skilin á milli talmáls, ritmáls og myndmáls eru einmitt alltaf að verða skýrari. Talmálið og myndmálið klemma ritmálið sífellt á milli sín og að lokum verður það óþarft með öllu. Fáir munu nenna að sinna því (tala bara við tölvuna ef ekki vill betur) og það verður einhverntíma aðeins fjarlæg minning fyrir fjöldann. Einhverjir sérvitringar munu auðvitað sinna því áfram og finnast fátt merkilegra.

Þetta segi ég aðallega vegna þess að ég er orðinn gamall og get fátt annað en skrifað. Lítil framtíð er í því enda verð ég og mínir líkar ekki að þvælast fyrir neinum þegar fram líða stundir.

Hver eru eðlustu skrifin um þessar mundir? Nú er hægt að fá ókeypis með öllu stanslausan straum bóka. A.m.k. svona 10 til 20 titla á dag. Hvernig eiga þeir sem skrifa fyrir þannig markað að komast af? Íslendingar geta það ekki. Ameríkanar, Rússar og Kínverjar kannski. Hætt er samt við að eitt tungumál verði ofaná. Vonandi verður það enskan. Það er eina tunguálið sem ég skil til einhverrar hlýtar að íslensku undanskilinni. Jú, mér finnst eðlustu skrifin vera bloggið um þessar mundir. Það er ekki bara vegna þess að ég kann næstum ekkert annað en að blogga. Grunur minn er sá að orðið láti undan síga hvað líður. Fyrst breytist fésbókin í næstum eintómar myndir. Svo Internetið allt. Prentuðum bókum á eftir að fækka mjög og blaðaútgáfa að leggjast alveg af.  

Mér finnst jólasagan um Matthías Mána aðallega hafa snúist um það að lögreglan og Magga hafi verið að réttlæta sig.

Hversvegna að vera að svona svartagallsrausi á Jóladag? Kannski lesa það fleiri það þá og svo er ég laus við það úr systeminu. 

Er verið að reyna að útrýma framsóknarflokknum, eða hvað? Datt það bara svona í hug.

IMG 2256Sólskin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband