Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

1516 - Gengi

Scan228Gamla myndin.
Hér er spáð í landsins gagn og nauðsynjar.

Nú er kominn mánudagur og ég hef ekki bloggað síðan á laugardaginn. Veit ekki hvar þetta endar. Það er samt ágætt að hvíla sig á þessum ósköpum.

Ef menn segja að þeir vilji endilega hafa krónuna áfram eru þeir að segja að áfram eigi að vera auðvelt fyrir sægreifana að sækja fé í vasa almennings. Það er ekkert annað sem gert er með gengisfellingum. Ríkisstjórnir á hverjum tíma ráða engu. Auðvitað finnst fjármagnseigendum þægilegra að geta sótt sér fé á þennan hátt en annan. Ef Brusselvaldið ákveður gengisskráninguna er ekki víst að útgerðarauðvaldið fái sitt fram að þessu leyti. En málpípur þeirra eru margar, t.d. geta sjómenn og allir sem við fiskveiðar fást tekið undir um mikilfengleika krónunnar. Efast samt ekki um að margir vilja draga úr valdi útgerðarinnar. Spurningin er bara hve mikið er nóg og hve mikið er of mikið.  

Um þessar mundir les ég mest frásagnir sem eru nokkuð gamlar. Helst þurfa þær að vera meira en 100 ára. Í þeim allsnægtum sem við lifum við núna eigum við erfitt með að gera okkur ljósar aðstæður fólks frá þeim tíma. Varðandi mat þurfum við helst að gæta þess nú að borða ekki of mikið af honum og gæta þess hvernig hann er samsettur. Á þeim tíma voru menn mjög ánægðir ef þeir fengu nógan mat. Menn dóu jafnvel úr ófeiti, eins og sagt var. Internetið færir okkur allan þann fróðleik sem við getum mögulega tileinkað okkur og gott betur. Vandinn er einkum sá að greina á milli hvaða fróðleikur er mikilsverður og hver lítils- eða einskisverður.

Það lausavísnasafn sem ég hef notað hvað mest er safn það sem Héraðsskjalasafn Skagafjarðar starfrækir. Nú hefur það safn legið niðri um hríð en væntanlega verður það endurvakið fljótlega. Á síðu safnsins stendur að það verði vonandi í haust eða vetur.

IMG 6963Hlaupið til góðs.


1515 - Um vitskerta afbrotamenn og þá með fullu viti

Scan226Gamla myndin.
Svona leit Hreðavatnsskáli einu sinni út.

Sem dæmi um þau kvikindi sem fjallað er um hér á heimilinu má nefna tvö sem til umræðu komu í morgun. Þau eru þjónustuhundur og flugkónguló. Það er eiginlega ekkert meira að segja um þessi fyrirbrigði, þau eru ímynduð eða raunveruleg alveg eftir atvikum. Hver má hafa það eins og hann vill.

Bældar minningar eru mjög til umræðu núna. Er það að vonum. Guðrún Ebba biskupsdóttir kemur þar mjög við sögu. Sagt er að þeir sem dragi í efa tilvist bældra minninga séu að saka hana um upplognar sakir á föður sinn. Svo þarf ekki að vera. Hún getur í einhverjum skilningi hafa munað eftir þessu en ekki viljað viðurkenna hið kynferðislega í minningunum fyrir sjálfri sér eða öðrum. Annars finnst mér þetta smjattmál vera farið að flækast fyrir mönnum í umræðunni um trúmál. Sú umræða skiptir verulegu máli og getur sem hægast skipt sköpum um örlög þjóðarinnar.

Í sjónvarpinu í kvöld var sagt frá geðsjúkum afbrotamanni sem ekki fékk þá meðferð sem hann var dæmdur til að fá. Að stjórnendur Kleppsspítala skuli hafa komist upp með að neita manninum um vist þar er óviðunandi og í sjálfu sér jafnmikið afbrot og margt annað.

Sigurður Þór Guðjónsson fordæmir í bloggi sínu Tómas Helgason fyrrum yfirlækni á Kleppi og Ólaf Ólafsson fyrrverandi landlækni reyndar líka fyrir þetta. Er öll sú pomp og pragt sem viðhöfð verður væntanlega við jarðarfarir þessara heiðursmann meira virði en fordæming Sigurðar Þ. Guðjónssonar í lifenda lífi? Ég held ekki. Sigurður Þór orðar grein sína samt þannig að hægt er að álíta svo.

Er virðuleg og fögur jarðarför einhvers virði fyrir hinn látna? Auðveldar hún honum inngönguna í himnaríki? Er hann að eyða þeim peningum sem þar er kastað á glæ? Eru orð prestsins sem jarðsyngur svo máttug að jafnvel Lykla-Pétur og hugsanlega Guð sjálfur glúpni fyrir þeim? Nei, það er lífið hérna megin sem mestu máli skiptir, en ekki hvernig óspjölluðu meyjarnar átján haga sér.

Eva Hauksdóttirn, norn heldur áfram að fjölyrða um vændi. Virðist jafnvel telja mögulegt að hamingjusama hóran sé til.

Held að feministum og öðrum þeim sem hátt hafa um falleraðar konur sé illa við Evu og finnist hún svíkja málsstaðinn. Og svo eru margir karlmenn til sem hrósa svona skrifum. Sjálfum hefur mér alltaf þótt samanburðurinn við knattspyrnumennina sláandi. Svo er jafnvel núna að koma smápeningur inn í kvennaknattspyrnuna svo á endanum geta þær kannski farið að velja. Væri ég yngri mundi ég að sjálfsögðu vona að þær fallegu velji vændið. Hugsun af þessu tagi settu feimnir strákar áður oft áður fyrr í minningabækur hjá stelpum sem þeim leist vel á. Þær kusu oftast að misskilja það.

Hér á Íslandi er karlaveldið að hrynja og mér finnst það ganga nokkuð hratt. Kvenfólki finnst það vitanlega ganga löturhægt og reyna að herða á breytingunum með sem mestum krafti. Feministakonur eru eflaust að gera marga mjög góða hluti þar en annars staðar er ekki annað að sjá en þeim sé að mistakast herfilega,

Litlu vísitölufjölskyldurnar eru bara skipulag sem yfirstéttin og kirkjuvaldið hefur komið á. Skýrslugerð öll er með hagsmuni kirkjunnar að leiðarljósi umfram aðra.

Sennilega eru andkristileg viðhorf allskonar hvergi útbreyttari en í Bandaríkunum. Þar eru einnig dogmatískari og þröngsýnni kirkjudeildir en víðast hvar annars staðar.

Það getur verið gaman að kíkja á gömul eigin blogg. Hér er t.d. ímyndað viðtal sem ég birti á blogginu mínu þann 17. ágúst 2008:

Blaðamaður Moggabloggstíðinda tók nýlega viðtal við bloggarann Sæmund Bjarnason og fer það hér á eftir:

BMB: Nú ert þú búinn að blogga manna lengst hér á moggablogginu. Hvenær byrjaðirðu á þessu og hvernig stóð á því?

SB: Það er tæpast rétt hjá þér að ég hafi bloggað manna lengst hér. Mig minnir að ég hafi byrjað í árslok 2006. Ástæðan var aðallega sú að ég hafði gengið lengi með þetta í maganum og ákvað að prófa þegar ég sá hve einfalt og auðvelt þetta er. Nú er þetta orðið að einskonar ávana.

BMB: Urlið hjá þér er: saemi7.blog.is. Hvaða sjö eru þetta?

SB: Sjö er bara mín uppáhaldstala. Mig minnir líka að tölustafslaus saemi hafi verið frátekinn þegar ég byrjaði.

BMB: Hvaða fólk er þetta á hausmyndinni hjá þér?

SB: Já það. Þetta er gömul mynd tekin í Hveragerði. Gunnar Helgi gerði þessa mynd fyrir mig og þarna er til dæmis pabbi hans. Einnig Bergþóra Árnadóttir og fleiri. Viltu vita nöfnin á öllum?

BMB: Já, því ekki það.

SB: Talið frá vinstri: Björgvin Bjarnason, Margrét Árnadóttir, Eysteinn Gunnarsson, Bergþóra Árnadóttir, Vignir Bjarnason og Jón Sverrir Árnason. Annars getur vel verið að ég setji nýja hausmynd einhvern tíma. Myndin af mér sjálfum er heldur ekki góð. En ég myndast nú alltaf svo illa.

BMB: Takk fyrir þetta. Ég hef tekið eftir því að þú bloggar langmest um blogg. Er hægt að blogga endalaust um blogg?

SB: Já, líklega er það hægt. Þetta er hvorki meira né minna en nýr samskiptamáti og engin hætta á að hann hverfi fljótlega.

BMB: En lestu mikið af bloggum annarra?

SB: Talsvert. Ég er aftur á móti næstum hættur að lesa dagblöð. Les bækur, horfi svolítið á sjónvarp og vafra um á Netinu. Fjölmiðla- og Netneysla fólks hér á landi er með ólíkindum mikil. Þetta með Netið er svolítið eins og að ganga í björg. Hjá flestum hljóta samskiptin í kjötheimum að minnka eftir því sem Netsamskiptin aukast. Það er ekki bara moggabloggið eða blogg yfirleitt sem vex sífellt. Önnur samskipti á Netinu fara líka sívaxandi. Leikjafíkn þar getur orðið verulegt vandamál. Einhverja frétt sá ég um daginn þar sem sagt var frá því að fólk skíti jafnvel í pizzukassa til að þurfa ekki að yfirgefa tölvuna augnablik. Vonandi verða bloggarar aldrei svona.

BMB: En er ekki hægt að ganga of langt í þessu eins og flestu öðru?

SB: Jú, eflaust. Þegar fólk situr kannski við tölvu í vinnunni og fer svo beint í heimatölvuna og eyðir þar mestöllum vökutímanum sem eftir er, þá er hætta á ferðum.

BMB: Hvað ertu lengi að skrifa hvert blogg?

SB: Það er ákaflega misjafnt. Stundum er ég skotfljótur en stundum óralengi. Ég er þó svo heppinn að ég get oft eytt tímanum í vinnunni í þessi ósköp. Ég er nefnilega næturvörður. Ég ímynda mér oft að ég geti minnkað þann tíma sem ég eyði í annað net-tengt ef ég er lengi að blogga en auðvitað er það misskilningur. Ég þarf að lesa önnur blogg og ýmsar síður, leika í bréfskákum, lesa netmiðla, kommenta hjá öðrum og svo framvegis og framvegis og tíminn flýgur. Annars er þetta komið hátt á aðra síðu hjá okkur og bloggin mín mega helst ekki vera lengri en þetta. Sjáumst seinna.

Þar með var ofurbloggarinn rokinn til að setja þetta viðtal á bloggið sitt.

IMG 6953Í myndastyttuleik á Austurvelli.


1514 - Ómarktækir ellibelgir

Scan224Gamla myndin.
Alþýðubandalagsfélag Borgarness á ferð. Hér má þekkja marga.

Áður en ég varð eins gamall og ég er núna kom það stundum fyrir að ég lenti í einhverskonar úrtaki hjá skoðanakönnunarfyrirtækjum og hringt var í mig og ég spurður ólíklegustu spurninga. Nú er þetta alveg fyrir bí og ég er víst ekki marktækur lengur. Aldrei er hringt í mig og skoðanir mínar eru einskis virði. Venjulega fylgir það með ef gluggað er í smáa letrið sem kannski er hægt að grafa upp um skoðanakannanir sem fjölmiðlarnir velta sér uppúr að einstaklingar á aldrinum 18 til 67 ára hafi verið spurðir samkvæmt einhverju úrtaki sem flottara þykir að tekið sé úr þjóðskrá en símaskrá. Held samt að ég sé á kjörskrá ennþá og ef efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu fæ ég vonandi að kjósa.

Ekki er víst að svör þeirra sem eldri eru en 67 ára skiptist eins og hjá þeim sem yngri eru. Eflaust fer það samt eftir spurningunum sem leitað er svara við.

Það má segja að skiljanlegt sé að skoðanakönnunarfyrirtæki útiloki þá sem yngri eru en 18 ára frá þátttöku í könnunum. Veit ekki til að þeir hafi kosningarétt þannig að vafasamt er að þátttaka þeirra skipti sköpum. Illskiljanlegt er hinsvegar hvers vegna þeir sem eldri eru en 67 ára eru útilokaðir.

Einu sinni var það þannig að maður var hálf handalaus ef rafmagnið fór. Nú orðið eru þeir sem best fylgjast með svotil ósjálfbjarga ef farsíminn þeirra bilar. Er þetta framför? Ég veit það ekki. Einu sinni reyndi maður að hafa kertisstúf og eldspýtur við höndina ef rafmagnið færi. Seinna þróaðist þetta uppí það að hafa vasaljós á vísum stað. Hvað gera Danir nútildags?

Óskar Helgi Helgason bloggari er nú orðinn reiður og hótar að koma með bensínsprengjur með sér næst þegar hann mætir til mótmæla og vill fá Pakistanskar leyniskyttur sér til aðstoðar. Því er ekki að leyna að hiti er meiri í fólki nú um stundir en oftast hefur verið hingað til. Mótmælastöðurnar eru þó margar orðnar og ekki er að sjá að þær hafi þau áhrif sem þeim er ætlað. Mér virðast flestir sem tjáð hafa sig um fundinn í Hörpunni í gær bera honum furðu vel söguna.

IMG 6947Stjórnarráðshúsið.


1513 - Vondir menn með vélaþras

Scan211Gamla myndin.
Á götumarkaði.

Stundum ligg ég á því lúalagi að fimbulfamba fjandann ráðalausan í byrjun bloggs. Á þessu sem hér fer á eftir er hvorki upphaf né endir.

Kannski væri best að byrja samt á byrjuninni. Þetta með tána er engin vitleysa. Ég get svo guðsvarið það að þessi eina tá var á við margar venjulegar.

Svo kom í ljós að geirfuglinn hafði jafn mikið vænghaf og Geir sjálfur. Það var svosem engin furða, því veðrið fór ört kólnandi. Enginn nennti lengur að spila matador enda voru  peningarnir greinilega falsaðir.

Þetta með geirfuglinn er heldur ekki nein lygi. Þó geirfuglar geti ekki flogið þá geta þeir haft heilmikið vænghaf. Þeir eru heldur ekki útdauðir ef mann dreymir þá.

Svo komu bankaræningjarnir þjótandi með byssurnar spenntar og hrópuðu: „Við tökum enga fanga. Athugið það. Alls enga fanga.“ En það var of seint þvi Jórsalafarinn var kominn í keng. Honum var svo mikið mál að pissa.

Þegar kemur að bankaræningjunum versnar málið. Ég veit eiginlega ekkert hvað er á seyði. Þekki líka fáa Jórsalafara. Þarna er víst um að ræða Jerúsalem og kannski er hægt að kalla alla sem þangað hafa komið Jórsalafara.

Almennt eru hugsanir mínar mjög óreiðukenndar. Bloggskrif og næstum öll skrif og flest hugarvinna útheimtir að reynt sé að koma reiðu á hugsanir sínar, ímynda ég mér. Kannski er þetta einmitt það erfiðasta. Það er stundum erfitt að byrja að skrifa eitthvað einmitt vegna þess að það er svo margt sem leitar á hugann. Maður er ekki fyrr búinn að setja einn staf á blaðið (í tölvunni) en maður er búinn að gleyma hvað maður ætlaði eiginlega að skrifa. Stundum finnst mér eins og þetta sé vegna þess að mér detti ekkert í hug. Sannleikurinn er samt sá að mér dettur einmitt alltof margt í hug. Þannig ímynda ég mér að það sé með flesta aðra einnig. Það sem þeim virðist vera hugmyndaleysi er í rauninni ofgnótt hugmynda.

Vondir menn með vélaþras
að vinum Drottins gera brigsl.
Kristur stóð fyrir Kaifas
klögumálin gengu á víxl.

Sagt er að Bjarni Thorarensen hafi eitt sinn skellt fyrriparti þessarar vísu á Bólu-Hjálmar sem hafi samstundis botnað hana. Þetta er augljóslega hin mesta firra. Engum hefði dottið í hug að gera fyrripart sem þennan. Sá sem gerði botninn hefur áreiðanlega gert fyrripartinn einnig. (Minnir að ég hafi heyrt einhverjum öðrum en Hjálmari eignuð vísan.) Það sést vel á endaríminu þó ekki sé litið á neitt annað að sami höfundur er að báðum hlutum vísunnar. Til að gera söguna sennilegri er sagt að Bjarni hafi með þessu viljað reyna sem mest á Hjálmar með erfiðum fyrriparti. Ég trúi samt ekki að þetta sé rétt.

Mjög oft er það þannig að tilefnin eru uppdiktuð löngu á eftir vísunni. Finnst málið vera alveg augljóst í þessu tilfelli. Veit samt ekki hversvegna ég tiltók einmitt þessa vísu til að sýna fram á þetta.

Sá í dag sviðalappir til sölu í Bónus. Hélt að það væri alveg hætt að hirða lappirnar af dilkum sem slátrað er. En svona er kreppan víst djúp.

Í gamla daga máttu allir fá eins mikið af löppum og þeir vildu án þess að greiða nokkuð fyrir það. Pabbi fór stundum á Selfoss og fékk lappir í poka og svo sátum við við að svíða og ná klaufunum af. Síðan var þetta notað í sviðasultu. Sviðahausar voru étnir eins og þeir komu fyrir (með augum og eyrum og öllu) og ekki notaðir í annars flokks vöru eins og sviðasultu.

IMG 6946Harpa.


1512 - Vændi

Scan2Gamla myndin.
Bræðurnir Bjarni og Atli Harðarsynir. Svakalega eru þeir fyndnir.

Nú er ég aftur kominn með þessa vondu tilfinningu um að ég sé að bregðast einhverjum með því að blogga ekki daglega. Sennilega er það samt tómur misskilningur hjá mér og ég ætti að reyna að losna við þessa tilfinningu öðru vísi en með því að blogga sem mest.

Ekki kemur veturinn enn. A.m.k. snjóar ekki nema í Esjuna. Guðsblessun að vera laus við þessi dekkjaskipti tvisvar á ári. Kannski er samt engin vörn í þessum heilsársdekkjum, en lögreglan tekur mann þó ekki meðan maður er á þeim.

Mín sýn á lífið er ekkert endilega verri en annarra. Mér finnst það á flestan hátt vel heppnað. Gleðin þar virðist mun meiri en sorgin. Það er samt engin ástæða til að vera alltaf skælbrosandi og gera að gamni sínu við alla. Ömurlegt ef allir létu þannig. Með því að einblína ekki og festa sig við það neikvæða í lífinu geta flestir komist óskaddaðir í gegnum það. Sumir eiga að vísu í erfiðleikum alla sína ævi og ekkert virðist geta lyft þeim upp, en við því er fátt að gera.

Í rauninni á ég marga uppáhaldsbloggara. Dr. Gunni kemur t.d. sterkur inn í dag af því að ég fór að lesa hann. Það eru reyndar ýmsir aðrir sem þar koma sterkir inn en eru þó kannski enn sterkari aðra daga. Stundum dett ég líka í það er skoða myndir villt og galið. Sumir safna slíku nefnilega og veita öðrum aðgang að dýrðinni. Nokkuð margir laga myndirnar talsvert til en aðrir ekki. Greinilegt er að menn hafa misjafnan smekk hvað það varðar.

Eva Hauksdóttir hefur að undanförnu bloggað talsvert um vændi. http://www.norn.is/sapuopera/ Ekki er annað hægt en vera Evu sammála að mestu leyti. Það sem hún skrifar er samt í andstöðu við ýmislegt sem haldið hefur verið fram um þessi mál. Eva er þó jafnan rökföst og stendur fast á sínu. Umræða um vændi hefur verið talsverð að undanförnu og ég veit ekki gjörla af hverju það er. Mér finnst fólk yfirleitt endurtaka sömu rökin aftur og aftur. Það er búið að rökræða þetta svo lengi opinberlega að mér finnst rétt að leggja lögin um þetta mál, þar sem viðskiptavinir vændiskvenna eru gerðir afbrotamenn, undir þjóðaratkvæði. Slík þjóðaratkvæðagreiðsla er reyndar marklaus ef ekki er ákveðið fyrirfram að fara algjörlega eftir henni.

IMG 6933Auglýsing.


1511 - Dæmigert mánudagsblogg

Scan158Gamla myndin.
Hver skyldi þetta vera? Ósköp er hann kuldalegur.

Nú er ég kominn með þessa dæmigerðu ritstíflu. Mér dettur ekkert í hug. Sennilega er best að skrifa bara ekki neitt. Einu sinni var ég fyndinn. Fann eftirfarandi í gömlu bloggi:

„Skelfingu lostnir bloggararnir tvístruðust í allar áttir þegar ógnvaldurinn mikli, Davíð í Hádegismóum, birtist í kofadyrunum. Sína gerði svipu upp vega séra Sverrir Stormskers-lega og hrukku þá allir í kút. Jafnvel Eiði litla Guðnasyni sem sat úti í horni og rýndi í gamlar útprentanir af mbl.is brá svo mikið að hann missti blöðin sín og gat ekki molast neitt í þrjá daga. Gömul blogghænsni eins og Lára Hanna og Sæmi Sæmundarháttur voru of sein að forða sér en Svani Gísla og ýmsum öðrum bloggurum tókst að komast undan og taka til flugfjaðranna og stefndu rakleiðis til Bloggheima. Þar fengu þau skjól um sinn.

Svona gæti ævintýrið um Mogglingana hafist. En það er ekki búið að skrifa það ennþá.“

Þetta er skrifað 17. nóvember 2009. Líklega hefur Davíð Oddsson þá verið nýtekinn við sem ritstjóri Morgunblaðsins. 

Flest önnur skáksetur  eru mun betri en Gameknot. Ég hef talsverða reynslu í þessu og fullyrði að engin önnur setur njósna eins mikið um notendur sína eða ganga eins langt í því að reyna að græða peninga. Hef hvergi nema þar verið útilokaður frá því að tefla ókeypis. Þeir svara líka alls ekki bréfum sem til þeirra eru send. Þrátt fyrir þetta held ég að Gameknot sé með vinsælustu skáksetrum hér á landi og víðar. Ef menn borga það árgjald sem upp er sett, þó nokkuð hátt sé, held ég að þetta skáksetur sé samt ágætt. Þar er mikið úrval af sterkum skákmönnum. Best er að leita að nýjum skáksetrum í gegnum Google, að ég held.

Einkennilegt er að ég skuli yfirleitt alltaf vera sammála Pétri Gunnlaugssyni á Sögu þegar hann talar um stjórnlagaþingið eða –ráðið en sjaldnast annars. Kannski er það þó ekkert merkilegt. Hann er ákaflega hægrisinnaður og reynir með allskyns undirferli, lygum og hagræðingu að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og fá viðmælendur sína til að fallast á þau. Þetta er á margan hátt skiljanlegt og eflaust mundu aðrir haga sér líkt og hann að breyttu breytanda.

Nú geta allir glaðst því Páll Magnússon (ekki útvarpsstjóri) er hættur við að verða forstjóri bankasýslunnar. Stjórn stofnunarinnar var samt búin að ráða hann áður en hún hætti. Hvar ætli þetta endi ef allir fara að hætta áður en þeir byrja. Ég verð að segja það að mér líst ekki á þetta.

IMG 6932Reiðhjól.


1510 - Jón Þorláksson

Scan109Gamla myndin.
Í gamla daga áttu skór einmitt að vera svona.

Yfirlýsingin frá KSÍ um að það sé sóðaskapur að hrækja er tímamótayfirlýsing. Mér er til efs að jafnákveðin og harðorð yfirlýsing hafi nokkurntíma verið gefin út af jafn fjölmennum samtökum. Hingað til hefur mér sýnst það aðalmunurinn á körfuboltamönnum og handknattleiksmönnum annars vegar og knattspyrnumönnum hinsvegar að þeir síðastnefndu eru sískyrpandi. Að hrækingar séu sóðaskapur kemur ef til vill knattspyrnumönnum mjög á óvart en öðrum síður.

Held að „Occupy Wall Street“-hreyfingin muni auka fylgi sitt á næstunni. Veit ekki af hverju. Held samt að fólk sé e.t.v. búið að fá nóg af ráðsmennsku og mannfyrirlitlningu ópersónulegu stórfyrirtækjanna og sé tilbúið til að reyna eitthvað nýtt. Hvort það verður betra er ómögulegt að segja. Kannski verður það bara verra, en áhættan er lítil. Þessi hreyfing er áframhald af stúdentauppreisninni um 1968 og hefur alla burði til að sigra heiminn. Þeir sem stjórnað hafa honum undanfarið hefur mistekist illa.

Var að reyna að lesa ógnarlangan svarhala við bloggi Illuga Jökulssonar um bréf til forsetans, en gafst upp að lokum. Langathyglisverðasta uppástungan fannst mér vera að vandræði Íslendinga stöfuðu líklega af D-vítamínskorti. Held samt að þetta sér rangt hjá bréfritara og vandræðin stafi frekar af C-vítamínskorti. Annars má lengi deila um bókstafina og svo eru þeir kannski til sem álíta umræðuna komna út fyrir upphaflega efnið.

Eru íslenskir dómstólar að ætlast til þess að öll skrif í fjölmiðlum séu jákvæð og uppbyggileg? Ekki megi vitna í skjöl sem koma málinu við ef of langt er um liðið frá gerð skjalsins. Mér finnst sumt benda til að dómarar líti á sig sem einskonar yfirritstjóra yfir marktækum fjölmiðlum og bloggurum reyndar líka. Eiga þeir að ráða því um hvað er fjallað og hvernig? Mér finnst að svo eigi alls ekki að vera. Meiðyrðalöggjöfin er komin útfyrir öll skynsamleg mörk, ef ekki má vitna í gömul skjöl í umfjöllun um mál.

Jón Þorláksson á Bægisá (1744 – 1819) þýddi Paradísarmissi Miltons og var afburðaskáld sjálfur. Margar vísur hans urðu landsfleygar. T.d. þessi:

Fátæktin var mín fylgikona
frá því ég kom í þennan heim,
við höfum lafað saman svona
sjötigi vetur, fátt í tveim, -
hvort við skiljum nú héðan af,
hann veit, er okkur saman gaf.

John Milton er sagður hafa fengið fimm pund í höfundarlaun fyrir Paradísarmissi sinn og þó verðbólga hafi leikið pundið grátt í aldanna rás er það einhver grútarlegasta greiðsla sem sögur fara af.

Yfirleitt var Jón óáreitinn en kunni vel að beita snilli sinni sem níði. Sagt er að hann hafi gert þessa vísu um Baagöe á Akureyri þegar hann frétti að kaupmaðurinn tæki veð í hrossum manna sem til hans kæmu:

Varla má þér, vesælt hross,
veitast heiður meiri
en að þiggja kaupmanns koss
og kærleiksatlot fleiri,
orðin húsfrú hans;
þegar þú leggur harðan hóf
háls um ektamanns,
kreistu fast og kyrktu þjóf,
kúgun Norðurlands.

Einnig sinnaðist Jóni við Magnús Stephensen þegar hann gaf út sálmabók sína sem nefnd hefur verið Leirgerður. Orti hann þá m.a. þessa alkunnu vísu:

Skáldskapur þinn er skothent klúður,
skakksettum höfuðstöfum með,
víðast hvar stendur vættar-hnúður,
valinn í fleyg, sem rífur tréð,
eitt rekur sig á annars horn
eins og graðpening hendir vorn.

IMG 6926Skrautlegur banki.


1509 - Bloggbyrjun

Scan101Bræður.

Hvernig byrja ég á bloggi? Jú, ég set inn í blogg-skjalið mitt í Word það sem ég ætla að segja um næstu myndir. (Gömlu og nýju). Svo reyni ég að skrifa eitthvað þar á milli. Gæti þess nefnilega að eiga alltaf einhvern varasjóð af myndum. Þær eldast yfirleitt ekki nærri eins illa og það sem skrifað er.

Svo má auðvitað alltaf láta sér detta einhvern skrambann í hug til að skrifa um. Mér leiðist að skrifa bara um eitthvað eitt efni. Þykir best að vaða úr einu í annað. Hef helst áhyggjur af því að ég sé oft of stuttorður um hlutina. Mér finnst samt að meiningin komist oftast til skila. Ef ekki, má alltaf skýra málin betur í athugasemdum. Ef fólk vill misskilja mig þá er það í lagi. Mér er sama. Nú nenni ég ekki að skrifa meira um þetta.

RUV er búið að breyta vefnum hjá sér (ruv.is) og hefur fengið ýmislegt lánað hjá öðrum. Veit ekki ennþá hvort þetta er til bóta, en það kann vel að vera. Mestu máli finnst mér skipta að þeir sem heimsótt hafa vefinn hingað til villist ekki á honum eftir breytingarnar. Á það er ekki komin næg reynsla ennþá.

Já, þetta er frekar stutt blogg enda er ég upptekinn við sláturgerð og þessháttar núna. Sviðasultan tókst bara vel. Þó á ég eftir að smakka hana. Ókey, nú er ég farinn að sauma vambir.

 IMG 6922Á Kársnesvegi.


1508 - Fallið og Saga Akraness

fa05Gamla myndin.
„Alltaf eru þeir til óþurftar þessir kettir“ gæti Pési verið að hugsa þarna.

Skárri eru það nú lætin þó einn maður detti í það. Hörpu Hreins fannst bókin hans Þráins um fallið í Færeyjum og flýtimeðferðina á Vogi ekki merkileg og bloggaði um það. Svo er að sjá að sumir séu svo heilagir að ekki megi anda á þá. Þráinn má vel vera alkóhólisti fyrir mér. Ef hann vill endilega skrifa bók um það þá má hann það líka. Það má alveg gagnrýna bókina einnig ef einhver kærir sig um það. Sé samt engan flöt á því að ég kaupi þessa bók. Kannski fæ ég hana lánaða á bókasafninu ef ég rekst á hana þar. Efnið finnst mér samt nauðaómerkilegt.

Úr því ég minnist á Hörpu þá er ekki úr vegi að minnast á Árna Múla Jónasson einnig. Ekki er að sjá að hann ætli að svara henni í neinu. Saga Akraness stendur þó fyrir sínu og ef menn vilja kynna sér málið er hægt að líta í þá bók og á bloggið hennar Hörpu.

Styrinn stendur um það að Páll Baldvin Baldvinsson og Harpa Hreinsdóttir (ásamt mörgum fleiri) telja þessa bók (einkum þó fyrsta bindið) afspyrnu lélega og að peningum þeim sem kastað hefur verið í þetta verkefni (á annað hundrað milljónum króna) hafi verið illa varið. Bæði Árni Múli og Páll Baldvin hafa hótað málaferlum en sennilega treysta þeir sér ekki í þau. Þöggunin er samt í fullum gangi og einkum virðist sumum illa við að Harpa tjái sig um þetta mál.

Ég geri mér engar vonir um að bæjarstjórinn láti svæla sig úr greninu enda hefur hann ekkert að vinna í þessu máli. Verður áreiðanlega hvort eð er ekki endurráðinn í þetta embætti. Bæjarstjórnin treystir vafalaust á að Akurnesingar verði búnir að gleyma þessu máli næst þegar kosið verður.

IMG 6903Blóm í Hveragerði.


1507 - Af hverju er ég að þessu bloggi?

d2Gamla myndin.
Ekki veit ég hvar þessi mynd er tekin, en þetta eru greinilega Bjarni og Benni á rugguhestum (kannski í Tivolíinu sem eitt sinn var í Hveragerði)

Mikið rosalega er ég duglegur við að blogga. Svona miðað við flesta aðra held ég. Hvað er það sem fær menn eins og mig til blogga svona upp um alla veggi? Von um frægð? Það að uppskera aðdáun nokkurra á hvað ég er flinkur að skrifa? Breyta heiminum? Taka þátt í vinsælasta samskiptaleik veraldarinnar sem kallaður er „Samskipti á netinu.“? Æfa mig að skrifa? En fyrir hvað? Vonast til að ættingarnir og kannski fleiri leiti til mín ef skrifa þarf eitthvað merkilegt? Já, allt þetta og fleira til sem ég á erfitt með að koma orðum að.

Ekki er langt síðan fjallgöngur og hverskyns gönguferðir voru líf mitt og yndi. Ekki er gott að maðurinn sé einn, svo á ferðum mínum hef ég oftast verið með allstórum hópum. Stundum líka bróður mínum, stundum krökkunum mínum. Það eru reyndar nokkur ár síðan ég reyndi svona nokkuð síðast, en kannski er tíminn að verða réttur aftur. Heyrði um einn í gær sem hljóp maraþonhlaup hundrað ára gamall. Auðvitað var hann ekkert fljótur að því. Ekki hefur mér farið fram með árunum og ekki er víst að fjallgöngur séu enn mitt meðfæri. Gönguferðir get ég þó stundað.

Það er undarleg rulla
þetta jarðlífi.
Annahvort drulla
eða harðlífi.

Segi bara svona. Ekki orti ég þetta. Nokkuð vel sagt samt. Þegar mannkynið kemst í samband við vitiborið líf annars staðar í alheiminum mun allt breytast. Ekki geri ég þó ráð fyrir að lifa það. Einhverntíma verður það samt. Enginn vafi er á því. Það er tímafaktorinn og fjarlægðirnar sem skapa mestu vandræðin. Samkvæmt nýjustu fréttum er ekki víst að ljóshraðinn sé mesti hraði sem efnislegar agnir geti hreyfst á. Þar með riðar afstæðiskenningin til falls, enda er hún orðin ansi gömul og götótt.

Ekki fellur mér vel við stefnu útvarps Sögu. Heldur ekki stefnu sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN. Eitthvað hlusta ég samt og horfi á báðar þessar stöðvar. Einkum er það vegna þess að það er ókeypis. Ef vinstri menn hafa ekki döngun í sér til að til að komast í loftið mun ég halda því eitthvað áfram. Þarna er framtíðin. Hún er ekki eingöngu á netinu og hún er ekki eingöngu í því fólgin að koma frá sér sæmilega vönduðum texta. Nei, það þarf að nota allt sem fáanlegt er. Auðvitað er erfitt að reka útvarps- og sjónvarpsstöðvar, en nauðsynlegt er það samt og sífellt að verða ódýrara og einfaldara, a.m.k tæknilega séð.

IMG 6895Leirfinnur á Þingvöllum. Var á sýningu í Listasafni Árnessýslu í Hveragerði.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband