Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
18.10.2011 | 23:45
1506 - Bloggleiðbeiningar
Gamla myndin
er frá Vegamótum og gæti verið nefnd kveikt í rusli.
Skyldi ég hafa einhver áhrif með þessum bloggskrifum mínum? Stundum ímynda ég mér það og skrifa um málefni dagsins og þykist voða gáfaður. Auðvitað er ég það ekki og er sífellt að gera óttalegar vitleysur. Óþarfi er þó að segja frá þeim og ég get þóst vita allt mögulegt með hjálp Gúgla. Vandinn er að setja það í þannig samhengi að einhver nenni að lesa það. Það þykist ég kunna en því er ekki að leyna að stundum mistekst mér það herfilega.
Satt og logið sitt er hvað.
Sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar flestir ljúga.
Þetta er gamall húsgangur sem ég hef ekki hugmynd um eftir hvern er. Mér finnst hann þó sannur að mörgu leyti. Algengara er þó að nota hálfsannleik og segja ekki frá því sem maður veit sannast og réttast. Mér finnst með ólíkindum hvað er hægt að bjóða fólki í því efni. Bloggið er slæmt að þessu leyti. Jafnvel verra en fjölmiðlarnir. Vitleysur, ambögur og allskyns villur eru þó alltof algengar hjá þeim. Ef þeir vönduðu sig meira (netmiðlarnir sérstaklega), læsu betur yfir og minnkuðu þýðingaráráttuna væru þeir mun betri.
Auðvitað fer því fjarri að ég viti nógu mikið um þá hluti sem ég er að burðast við að blogga um. En hvenær veit maður nógu mikið? Það veit ég nefnilega ekki heldur og þessvegna blogga ég eins og rófulaus hundur. Nú, blogga þeir mikið? Veit það ekki.
Kannski er það eitt af því fáa sem ég veit eitthvað um hvernig blogg eru skrifuð. Leiðbeiningar um það gæti ég reynt að skrifa fyrir þá sem endilega vilja skrifa blogg eins og ég geri, en það má auðvitað gera á margan hátt. Grundvallaratriðið hjá mér er að skrifa það sem á endanum verður að bloggi í Word skjal sem auðvelt er að líma síðan í formið sem maður fær á blogginu sjálfu. Ég veit lítið um hvernig farið er að því að blogga á öðrum setrum, en því sem hýsir Moggabloggið.
Þegar ég er búinn að skrifa það sem gæti orðið blogg er næst að ljóma (með shift og ör) það sem ég vil kópíera. Næst er að ýta samtímis á ctrl og c takkana og síðan er farið á bloggið eins og maður ætli að skrifa eitthvað þar. Jú, rétt er að leggja fyrirsögnina á minnið og skrifa hana síðan handvirkt í viðeigandi reit. Það geri ég a.m.k. Síðan er bendillinn settur efst og fremst í dálkinn þar sem bloggið á að koma og ýtt samtímis á ctrl og v takkana og presto bloggið er komið á sinn stað.
Ef til vill þarf aðeins að fara yfir línuskiptinguna fremst í blogginu og svo er komið að því að setja myndir inn, ef vill. Þá er auðvitað best að fara eftir leiðbeiningunum um það en auðvitað verður að gæta þess að vera búinn að uplóda myndina. Fjölyrði svo ekki meira um þetta nema ég verði beðinn um það eða þurfi að teygja lopann í einhverju blogginu.
Mér finnst ekkert ákaflega langt síðan ný Alistair MacLean-bók kom út fagurlega innbundin fyrir hver jól. Byssurnar í Navarone, Ég sprengi klukkan tíu o.s.frv. o.s.frv. Þetta var áður en íslenskar spennusögur eða krimmar urðu eins margir og nú er. Man að ég las einhvern tíma bók eftir MacLean þar sem lýst var á mörgum blaðsíðum miklu óveðri á sjó. Notuð voru hástigs lýsingarorð og skipið var orðið mjög laskað. Mennirnir börðust hetjulega við stórsjóina og allt var að farast. Þessi frásögn var afar dramatísk og nákvæm. Veðurofsanum var lýst af mikilli hind. Meðal annars kom fram að vindhraðinn var heil 7 vindstig. Siðan hef ég með sjálfum mér kallað bækur af þessu tagi 7 vindstiga bækur.
Þetta held ég að sé rithönd HKL. Var á sýningu í Listasafni Árnessýslu í Hveragerði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.10.2011 | 23:35
1505 - Er vit í Vaðlaheiðargöngum?
Gamla myndin
er af Kristni Jóni Kristjánssyni og Gunnari Hallgrímssyni
Nú er ég að hugsa um að taka þann sið upp aftur a.m.k. um tíma að birta bæði gamlar myndir og nýjar á hverjum degi. Ég er nefnilega búinn að undirbúa nokkrar gamlar myndir fyrir birtingu. Ekki er víst að mikið framhald verði á þessari stefnu en þá verður bara að taka því. Varla býst ég við að lesendum mínum fækki þó ég birti nokkrar gamlar myndir.
Er vit í Vaðlaheiðargöngum? Ég held ekki. Það er kannski ekki að marka. Ég var á móti brúnni á Óseyrarnesi á sínum tíma og andvígur Héðinsfjarðargöngum. Var samt hrifinn af Siglufirði þegar ég kom þangað síðastliðið sumar, en þangað hefði ég líklega ekki farið ef Héðinsfjarðargöngin hefðu ekki verið til staðar.
Það eru samt Vaðlaheiðargöngin sem eru mál málanna í dag. Hringvegurinn styttist um heila 16 kílómetra við gerð þeirra. Sumum finnst það alls ekki mikið, miðað við kostnaðinn. Aðalspurningin er hve mikið þau verða notuð. Það kann að ráðast að nokkru af því hve dýrt verður að fara um þau. Sagt er að Víkurskarðsvegur sé ágætisvegur mestan hluta ársins. Fari vetur harðnandi getur verið að Vaðlaheiðargöng borgi sig upp á tiltölulega stuttum tíma. Annars er ég hræddur um að þau verði minnisvarði um átakanlega bjartsýni Íslendinga í vegagerð. Mörg önnur verkefni eru brýnni.
Eru bloggin mín að styttast? Ekki er ég frá því. Mér finnst það bara góðs viti. Það er ekki hægt að blogga endalaust um allt og ekkert. Erfitt á ég samt með að hætta að blogga. Hvíldin eða bloggleysið, sem ég boðaði fyrir nokkru, kemur einkum fram í því, að ég tek mér bloggfrí öðru hvoru. Mér finnst ég ekki lengur vera skuldbundinn sjálfum mér og öðrum til að blogga á hverjum degi. Samt finnst mér ég þurfa að blogga. Þetta er ávani. Mér finnst ég losna betur við allskyns hugsanir með því að blogga um þær. Þegar ég er búinn að senda þær upp á bloggið get ég farið að hugsa um eitthvað annað. Svo lauma ég líka myndum með.
Litlum sögum fer af tímamótamótmælum þeim sem fram fóru í Reykjavík síðastliðinn laugardag. Það er skaði. Ekki trúi ég því að Íslendingar séu almennt búnir að gleyma góðærinu sem logið var að okkur að yrði endalaust. Margir trúðu því og töpuðu aleigunni. Sumir voru efins og gátu kannski bjargað einhverju. Fáeinir komust vel frá þessu og lifa nú í vellystingum.
Líklega verður reynt aftur um næstu helgi að mótmæla sem ákafast. Kannski tekst betur til þegar fólk fer að venjast þessu. Spyrjið bara Hörð Torfason. Það verður að kenna fólki átið og það getur tekið svolítinn tíma.
Frá Hveragerði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.10.2011 | 23:24
1504 - Tónlistarhúsið á hafnarbakkanum
Það kemur mér ekki vitund á óvart að margir reyni að reikna út gróða af tónlistarhöllinni miklu á hafnarbakkanum í Reykjavík. Eflaust er hann mikill á mörgum sviðum. Tvær spurningar varðandi húsið eru þó mikilvægastar. Sú fyrri er hvernig gengur að reka það? Það skiptir engu hve mikið er hægt að reikna út að gróðinn af tilveru hússins sé ef ekki gengur sæmilega að fá útlendinga til að koma hingað til ráðstefnuhalds og annars í Hörpu. Fyrrnefndir útreikningar sýna einungis hvernig einhverjir reikna með hinu og þessu. Hin spurningin er sú hvernig byggingin reynist og hugsanlegt viðhald á henni. Því hefur verið haldið fram að byggingin sé illa gerð og kalli á mikið viðhald. Það kemur bara í ljós.
Las nýlega bókina Hr. Alheimur eftir Hallgrím Helgason. Það er fremur sjaldgæft að ég lesi skáldsögur í heilu lagi en þessa las ég þó. Eiginlega þótti mér hún hvorki góð né vond. Bókin fjallar um Guð Almáttugan, sem situr í miðju alheimsins og stjórnar þeim 714 mannkynum sem hann hefur dundað við að skapa og margt sem þeim óskapnaði fylgir. Það er allt í lagi að kynnast barnalegum hugmyndum Hallgríms um guðdóminn sem hann er e.t.v. að skrifa sig frá. Satt að segja risti bókin þó fremur grunnt. Hún er skrifuð eins og dæmigert kvikmyndahandrit og átti að vera það. Að mestu leyti er sagan samt eins og hefðbundinn krimmi. Allt verður skelfing ótrúlegt undir lokin og maður situr uppi með tilfinninguna um að tímanum í þennan lestur hafi verið óttalega illa varið.
Kvöld í Kópavogi. Útsýni frá tölvunni minni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2011 | 09:33
1503 - ESB og fleira (jafnvel Austurvöllur og Lækjartorg)
Ég er ekkert að gefa mig með það að baráttan hvað mótmæli snertir virðist standa á milli Austurvallar og Lækjartorgs. Svo þeir sem þetta lesa viti hvernig þetta horfir við mér, þá eru þeir sem reyna að láta þetta líta út sem alheimsmótmæli (Occupy Wall Street) kannski fleiri á blogginu og vilja umfram allt að þetta verði á Lækjartorgi. Hörður Torfa (og Eiríkur Bergmann) vilja aftur á móti halda sig við Austurvöllinn sýnist mér og jafnvel líka kenna mótmælin við Occupy Wall Street. Veðrið virðist ætla að verða sæmilegt, en ætli þetta ósamkomulag um staðinn (nema mannfjöldinn nái saman) verði ekki til þess að fáir mæti.
Ef við gefum okkur að Hæstiréttur dæmi eftir lögum þá er meiðyrðalöggjöfin hér á landi meingölluð og notuð af mörgum (einkum auðmönnum) til þöggunar. Auðvitað verða mestu orðhákarnir fyrst fyrir barðinu á þeirri þöggun, en öðrum er líka hætt. Hæstaréttardómur yfir Jóni Bjarka Magnússyni er mörgum hugstæður núna. Hann gleymist skjótt en virkar samt til frekari þöggunar.
Sighvatur Björgvinsson sagði í Kastljósi sögu af manni sem sat í 27 ár í einangrun í Bretlandi. Ekki datt þáttarstjórnanda í hug augljósasta spurningin í því sambandi. Hún er: Hvar er hann núna?
Ég er að mestu hættur að tala og skrifa um ESB enda hef ég lítið í þann stóryrta hóp að gera sem mér virðist einoka allt blogg um málið. Mér finnst að vísu leiðinlegt hve margir það eru sem vilja koma í veg fyrir að hægt verði að greiða þjóðaratkvæði um málið en hef ekki breytt um afstöðu til bandalagsins. Þessir andstæðingar ESB eru held ég ekki andstæðingar þjóðaratkvæðagreiðslna yfirleitt, heldur finnst þeim réttast að gera þessa undantekningu og losna við málið sem fyrst, þó á grundvelli skoðanakannana einna sé.
Auðvitað má segja að þjóðaratkvæðagreiðsla sé bara skoðanakönnum í stærri kantinum. Hræddur er ég samt um að slíku verði að hlíta, þó einhverjir verði eflaust tapsárir og telji hana hafa farið fram á röngum tíma og e.t.v. verið vitlaust orðaða.
Þær 4 þjóðaratkvæðagreiðslur sem hugsanlega fara fram á næstu misserum vekja mikinn áhuga minn og einnig er mér mikil forvitni á að komast að því í hvaða röð þær verða. Ég er að hugsa um að lista þær hér upp en það er hugsanlega einhverjum til hægðarauka.
1. Þjóðaratkvæðagreiðsla um inngöngu í ESB.
2. Næstu alþingiskosningar.
3. Einhverskonar þjóðaratkvæðagreiðsla/greiðslur um nýja stjórnarskrá.
4. Forsetakosningar næsta vor.
Það eru reyndar allmargir sem vilja koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna um stjórnarskrána og vel getur hugsast að þeir hafi sitt fram. Hjá alþingiskosningum verður alls ekki komist, sem betur fer. Spurning er samt um hvað þær muni einkum snúast og hvenær þær verði. Kannski verða þær einkum um hinar atkvæðagreiðslurnar sem hugsanlega verða ekki. Í mínum augum er ESB atkvæðagreiðslan mikilvægust. Í samstarfi og samvinnu við þær þjóðir sem þar eru finnst mér við eiga að vera. Skipulagið þar er afar lítið öðruvísi en það sem við eigum að venjast. Norðurlandaþjóðirnar sem þar eru inni (Noregur kemur seinna.) eiga að vinna náið saman og breyta Evrópubandalaginu. Svipað er að segja um forsetakosningarnar og alþingiskosningarnar. Þær verða örugglega, en ekki er vitað hverjir verða í framboði og það skýrist kannski ekki fyrr en vitað er hvað ÓRG ætlar sér.
Stærðin á ESB er að verða of mikil og það veldur ýmsum vandræðum. Bæði almennt séð og fyrir ESB-ríkin sérstaklega. Vandræði ESB-ríkjanna verða þó sennilega ekki mikil miðað við það sem við Íslendingar eigum að venjast. Öll þau vandræði verður þó skárra fyrir okkur að glíma við í samstarfi við ESB-ríkin en í andstöðu við þau.
Björgvin Sigurðsson sem eitt sinn var ráðherra hefur hingað til verið í dálitlu áliti hjá mér, en nú er það horfið. Að heimta að réttargeðdeildin verði áfram á Sogni er svo heimskulegt að engu tali tekur. Hann talar eins og sjúklingarnir skipti engu máli, séu bara eins og hverjir aðrir kartöflupokar til þess eins að skapa atvinnu í Ölfusinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2011 | 09:15
1502 - Lækjartorg eða Austurvöllur
Það stefnir í alvöru átök um það hvort skuli mæta á Austurvöll eða Lækjartorg á laugardaginn kemur. Held að ég fari á hvorugan staðinn. Ýmislegt bendir til að Lækjatorg sé til hægri en Austurvöllur til vinstri. Þó er það ekki óyggjandi. Andstaða við ríkisstjórnina virðist vera á báðum stöðunum. Stuðningur við Hrunið einnig. Verst með veðrið. Verði það ekki gott, má búast við að fámennt verði á báðum stöðunum.
Man eftir upphafi búsáhaldabyltingarinnar. Þá fór maður oft fyrir fundina hjá Herði (eða eftir) í Kolaportið til að hlýja sér. Svo var gjarnan löng röð hjá Bæjarins bestu.
Bandaríkjamenn undirbúa nú af kappi stríð við Íran. Líbýustríðinu er að ljúka, allir orðnir leiðir á Afghanistan og svo þarf að lappa upp á efnahaginn. Ekkert gagnast eins vel í því og þægilegt smástríð, sem hægt er að bakka útúr ef allt fer í vaskinn. Segi bara svona. Það eru margir sem hugsa eftir þessum brautum. Það hljómar kannski ekki mjög sannfærandi að Íransstjórn hafi ætlað sér að drepa einhvern kall í New York, en gæti alveg verið satt. Bandaríkamenn þekkja sitt áhrifasvæði. Er bara alltaf svolítið hugsi yfir þessu bévítans alþjóðasamfélagi. Af hverju fá ríkisstjórnirnar í Kína og Rússlandi ekki að vera með í því? Og af hverju má ekki taka mark á Sameinuðu Þjóðunum?
Að mörgu leyti er kalda stríðið aftur farið að gera vart við sig. Nú er vondi kallinn bara ekki Rússi heldur Múhameðstrúarmaður. Í gamla daga var ekkert Íslam til bara Múhameðstrú. Nýja orðið er samt styttra og þægilegra. Vinstri menn fylkja sér auðvitað um vondu Íslamskallana, en góðu sjálfstæðismennirnir og kapítalistarnir eru að sjálfsögðu miklu sterkari. Þar munar mest um yfirburðatæknina hjá USA. Í Flóabardaganum (ekki á Húnaflóa) drápust aðeins sárafáir Bandaríkjamenn en urmull af stuðningsmönnum hins illa Saddams.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.10.2011 | 01:47
1501 - Eitt stykki vísa
Snemma árs árið 2008 skrifaði séra Baldur Kristjánsson hugleiðingu á bloggið sitt um hve hættulegir farsímar væru og vitnaði í einhverja erlenda blaðagrein og rannsókn af því tilefni.
Efirfarandi vísa kom mér þá í hug alveg óforvarendis.
Séra Baldur segir að
síminn hættulegi
alla drepi og eftir það
enginn fari um vegi.
Það er afar sjaldan að ég yrki svona fyrirhafnarlaust. Venjulega þegar ég geri ferskeytlur er ég talsvert lengi að möndla með orðin. Stundum/oft gefst ég upp og hætti. Vísu þessa setti ég í athugasemdadálk hjá Baldri sem þá bloggaði á Moggablogginu. Af einhverjum ástæðum tók fyrsta ljóðlínan sér bólfestu í huga mér. Það sem henni fylgdi og um hvað vísan fjallaði mundi ég að sjálfsögðu ekki. Núna áðan kom mér í hug að spyrja Gúgla frænda úti þetta og ekki stóð á svarinu. Ég tók copy-paste afrit að grein Baldurs og setti aftast í bloggskjalið mitt. Nú get ég semsagt eytt því aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2011 | 04:13
1500 - Blogg númer fimmtánhundruð
Já, þetta er víst blogg númer 1500. Veit ekki af hverju ég byrjaði á þessum númeringum en nú get ég ekki hætt. Fyrst minnir mig að ég hafi bara númerað bloggin og sleppt fyrirsögnum, en gert seinna samning við sjálfan mig um að taka þær upp og halda líka númerunum.
Ég er alltaf að spekúlera í þeim búnaði sem gerir mönnum kleyft að fylgjast með öðrum á netinu. Ég hef t.d. lítinn áhuga á að lesa allt það sem skrifað er á dv.is, en mikinn áhuga á að lesa flest það sem Páll Ásgeir Ásgeirsson skifar. Ef ég reyni að setja Pál í favorites er ekki hægt að hafa þar nema einn bloggara frá DV. (Teitur er líka góður.)
Með kleyft þarna er ég í vafa um stafsetninguna því bæði getur þetta verið komið af að klífa og kljúfa. Sumir hafa það fyrir reglu í sambandi við stafsetningu að spyrja gúgla hvort sé algengara. Það líkar mér ekki. Ég tek meira mark á orðabók Menningarsjóðs, en stundum (eins og núna) þá nenni ég ekki einu sinni að fletta upp í henni.
Mál Önnu Björnsdóttur er merkilegt. Hún veitti FBI þær upplýsingar sem leiddu til þess að eftirlýstur fyrrverandi mafíuforingi var handtekinn. Sagt er að FBI hafi lýst því yfir að nafni hennar yrði ekki lekið til fjölmiða. Samt er það komið í hámæli. Afsökunin er sú að glæpamaðurinn sem handtekinn var hjóti að hafa vitað það vegna þess að fram var komið að Íslendingur hefði fengið verðlaunin sem í boði voru. Jú, Anna er íslensk og bjó í sömu blokk og glæpamaðurinn svo hann hefði vel getað lagt saman tvo og tvo og fengið út nafn Önnu.
Í mínu ungdæmi var oft sagt að fólk væri typpilsinna og það var ekkert dónalegt við það. Bæði karlar og konum gátu að sjálfsögðu verið typpilsinna. Orðabók Menningarsjóðs gefur þýðingarnar; hvefsinn, snakillur, mislyndur. Mér finnst þýðingin ekki alveg rétt. Mér finnst að typpilsinna fólk sé uppstökkt, bráðlynt, uppátektarsamt og óútreiknanlegt, en auðvitað getur þetta verið einhver misskilningum hjá mér
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.10.2011 | 00:08
1499 - Eimreiðin og fleira
Teitur Atlason bloggar á DV undir nafninu Eimreiðin. DV (eða hann sjálfur) segir hann vera gegnheilan krata. Og hann er það. Ég hef fjallað um mál hans og Gunnlaugs Sigmundssonar og mun halda því áfram ef mér sýnist svo. Hann gerir það reyndar ágætlega sjálfur. Urlið er: http://www.dv.is/blogg/eimreidin/ Í gær fjallar hann í bloggi sínu um ráðningu Páls Magnússonar sem forstjóra bankasýslu ríkisins og segir í lok færslunnar: Á morgun klukkan 06 birti ég upplýsingar sem gætu haft afgerandi áhrif á þróun þessa máls.
Ég trúi honum alveg og er farinn að lesa bloggið hans reglulega. Með þessu er hann greinilega að fá sem flesta lesendur til að koma aftur. Það munu margir gera því ráðning Páls er mjög vafasöm, án þess að segja nokkuð um hann sjálfan. Stjórnarformaður bankasýslunnar stóð sig mjög illa í Kastljósinu um daginn.
Ég hef reynt að taka mér Jónas Kristjánsson til fyrirmyndar og senda link á bloggið mitt á fésbókina. Ég man nú reyndar ekki eftir því nema öðru hvoru. Eitthvað hefur það mistekist hjá mér nýlega, því ég sé ekki betur en ég hafi sent link þangað á eldgamalt blogg. Það hef ég áreiðanlega gert óvart. Sem betur fer skrunar svona lagað fljólega burt hjá flestum á fésbókinni.
Gunnar Hersveinn heldur úti heimasíðu og bloggar öðru hvoru. Urlið er: http://www.lifsgildin.is/ Nýjasta greinin hans þar er um friðarverðlaun Nóbels og ábyrgð fjölmiðla á stríði og friði. Lesið endilega.
Samkvæmt skoðanakönnunum vill þjóðin óbreytt flokkakerfi. Greinilegt er að hrunflokkarnir svonefndu eru að ná völdum aftur. Ég ber samt þá von í brjósti að þeir séu eftir hrunið breyttir flokkar. Vonandi verður í næstu kosningum alveg hægt að hreinsa til í þingliðinu. Þónokkuð mikil breyting er sagt að hafi orðið í síðustu kosningum en fleiri þarf að losna við.
Varaformaður sjálfstæðisflokksins Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði eftirminnilega skömmu eftir hrunið að áhugverðir tímar væru runnir upp fyrir sjálfstæðisflokkinn. Ekki held ég að hún hafi gert neina tilraun til að útskýra nánar hvað hún átti við. Þessi ósköp má skýra á ýmsan hátt. Einfaldast er tala um algjört skilingsleysi á kjörum venjulegs fólks, en ekki er víst að svo sé.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.10.2011 | 09:15
1498 - Vorið í Prag
Snemma árs 1968 voraði nokkuð skyndilega í Tékkóslóvakíu og Dubchek komst til valda. Ekki stóð það þó mjög lengi því í ágúst réðust Sovétmenn þar inn og komu sínum mönnum til valda aftur. Mörgum fannst Sovétstjórnin sýna þar hörku mikla og ég man eftir mótmælum við Sovéska sendiráðið nálægt gatnamótum Túngötu og Garðastrætis. Mannfjöldi var þar talsverður og lokaði alveg fyrir umferð um göturnar báðar. Þori ekki að nefna tölur en fólkið skipti áreiðanlega hundruðum, en varla þúsundum.
Einhverju smávegis af tómötum og eggjum var kastað í húsið en ekki var það mikið og engar rúður voru brotnar. Lögreglan var þarna til að gæta þess að ekki syði uppúr. Mér er minnisstætt að skyndilega tók einn lögregluþjónninn sig útúr röð lögreglumannanna og réðist að mannfjöldanum og sveiflaði kylfunni æðisgenginn í kringum sig. Ekki veit ég af hverju þetta var og ekki heldur hvernig þetta endaði, en enginn held ég samt að hafi slasast.
Mér finnst þessar deilur um eineltið á Vigdísi Hauksdóttur vera hallærislegar. Hún er bara eins og hún er. Fremur misheppnuð sem alþingismaður, að mér finnst, en ágæt að ýmsu leyti. Sköruleg og frek. Eins og sagt er oftast um kvenfólk. Karlmaður mundi vera sagður ákveðinn en ekki frekur. Í opna bréfinu frá henni er lítið sem ekkert af algengum stafsetningarvillum en hugsanagrauturinn þeim mun meira áberandi.
Finnst það eiginlega vera sölutrikk hjá útgefanda bókarinnar um biskupsdótturina og ríkisútvarpinu að vera með langt viðtal við hana á í sjónvarpinu á sama tíma og bókin er að koma út. Málefnið er þó í alla staði gott og þarft og ég er viss um að viðtalið við hana hefur verið áhrifamikið. Hlustaði samt ekki á það, en heyrði ávæning af því.
Eftir á að koma í ljós hvernig Karl biskup bregst við þessu viðtali. Mín kenning er sú að hann hugsi sig vandlega um, gefi ekkert upp og ákveði svo að gera ekki neitt.
Ég er svolítið á móti þessu sífellda tali um forsendubrest. Kollsteypur í húsnæðismálum eru næstum regla hér á Íslandi. Fjármálin ganga í sífelldum rykkjum. Ýmist er hér góðæri eða móðuharðindi af mannavöldum. Það er varla hægt að lifa á Íslandi nema tileinka sér verðbólguhugsunarhátt og/eða kæruleysi fyrir sem flestu. Kæruleysið gengur stundum útí öfgar en hjálpar mönnum oft að halda sönsum.
Sú stjórn sem hér var á vegum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna (fékk völdin um 1995, að mig minnir) stuðlaði meðvitað að því allt fram að hruni, að færa þjóðlíf hér sem mest í áttina til þess bandaríska eða vesturheimska, en fjarlæga okkur norræna velferðarmódelinu. Auðvitað var þetta okkur til góðs á margan hátt meðan allt lék í lyndi og góðærið blómstraði.
Þegar bólan sprakk, féllum við aftur í norræna náðarfaðminn eða erum á leiðinni þangað. Flokkarnir ráða þessu ekki nema að litlu leyti, heldur sá stjórnmálakúltúr sem er að festa rætur hér. Vantraustið á Alþingi er ekki bara bóla og ekki að ástæðulausu. Það er margt sem bendir til að stjórnlagaráðið með sitt afmarkaða verkefni njóti meira trausts en það.
Auðvitað er ég alltof hátíðlegur í þessum skrifum mínum. Þykist flest vita og hef skoðanir á ýmsu. Leiðist samt þetta stöðuga fjas um málefni dagsins en get ekki stillt mig um það.
Ekki vissi ég að Náttúruverndarráð liti svona út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2011 | 00:18
1497 - Hagstofutrú
Ókey, ég er Hagstofutrúar. Finnst skráning í trúfélag engu máli skipta. Nenni ekki að hafa fyrir því að skrá mig í annað trúfélag og veit ekki einu sinni hvaða trúfélag það ætti að vera. Get auðvitað skráð mig utan trúfélaga, held ég, en finnst það líka of mikil fyrirhöfn. Best væri auðvitað að vera laus við þetta alltsaman en ég sé ekki að það skaði að vera bara Hagstofutrúar.
Þetta með Hagstofutrúna er ágætis uppfinning. Ef talað er um trúmál á annað borð vil ég gjarnan vera eins og kamelljónið og skipta bara um trú eftir því við hvern er talað. Á blogginu er mikið stundað að karpa um trúmál. Þar étur hver úr sínum poka og aldrei fæst niðurstaða í neitt. Þá er nú skárra að karpa um ESB.
Einhver var á fésbókinni í gær að hneykslast á opnu bréfi til framsóknarmanna sem Vigdís Hauksdóttir alþingismaður skrifaði. Urlið er svona: http://www.vigdish.is/2011/10/opi-bref.html . Kannski er búið að lagfæra það eitthvað núna, en mikið skelfilega var það illa skrifað. Ég tók afrit af því og get vitnað orðrétt í ósköpin ef einhver efast um að ég segi satt og rétt frá.
Eftir Pétri Gunnlaugssyni á Útvarpi Sögu að dæma þá er í undirbúningi hjá Pétri Blöndal aþingismanni að koma með tillögu í kvótamálinu sem ekki er víst að LÍÚ og forysta Sjálfstæðisflokksins samþykki. Ég hef enga trú á því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykki eitthvað sem LÍÚ er á móti.
Já, það var eitthvað opið fyrir Útvarp Sögu í morgun. Jón Valur Jensson reyndi eins og hann gat að auglýsa bloggið sitt þar. Þóttist jafnvel vera málefnalegur.
Nú á að stofna sérstakan starfshóp um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Sennilega til að svæfa það enn einu sinni. Ögmundur er að mörgu leyti í vondum málum. Ekki getur hann skipað dómstólunum fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)