1513 - Vondir menn með vélaþras

Scan211Gamla myndin.
Á götumarkaði.

Stundum ligg ég á því lúalagi að fimbulfamba fjandann ráðalausan í byrjun bloggs. Á þessu sem hér fer á eftir er hvorki upphaf né endir.

Kannski væri best að byrja samt á byrjuninni. Þetta með tána er engin vitleysa. Ég get svo guðsvarið það að þessi eina tá var á við margar venjulegar.

Svo kom í ljós að geirfuglinn hafði jafn mikið vænghaf og Geir sjálfur. Það var svosem engin furða, því veðrið fór ört kólnandi. Enginn nennti lengur að spila matador enda voru  peningarnir greinilega falsaðir.

Þetta með geirfuglinn er heldur ekki nein lygi. Þó geirfuglar geti ekki flogið þá geta þeir haft heilmikið vænghaf. Þeir eru heldur ekki útdauðir ef mann dreymir þá.

Svo komu bankaræningjarnir þjótandi með byssurnar spenntar og hrópuðu: „Við tökum enga fanga. Athugið það. Alls enga fanga.“ En það var of seint þvi Jórsalafarinn var kominn í keng. Honum var svo mikið mál að pissa.

Þegar kemur að bankaræningjunum versnar málið. Ég veit eiginlega ekkert hvað er á seyði. Þekki líka fáa Jórsalafara. Þarna er víst um að ræða Jerúsalem og kannski er hægt að kalla alla sem þangað hafa komið Jórsalafara.

Almennt eru hugsanir mínar mjög óreiðukenndar. Bloggskrif og næstum öll skrif og flest hugarvinna útheimtir að reynt sé að koma reiðu á hugsanir sínar, ímynda ég mér. Kannski er þetta einmitt það erfiðasta. Það er stundum erfitt að byrja að skrifa eitthvað einmitt vegna þess að það er svo margt sem leitar á hugann. Maður er ekki fyrr búinn að setja einn staf á blaðið (í tölvunni) en maður er búinn að gleyma hvað maður ætlaði eiginlega að skrifa. Stundum finnst mér eins og þetta sé vegna þess að mér detti ekkert í hug. Sannleikurinn er samt sá að mér dettur einmitt alltof margt í hug. Þannig ímynda ég mér að það sé með flesta aðra einnig. Það sem þeim virðist vera hugmyndaleysi er í rauninni ofgnótt hugmynda.

Vondir menn með vélaþras
að vinum Drottins gera brigsl.
Kristur stóð fyrir Kaifas
klögumálin gengu á víxl.

Sagt er að Bjarni Thorarensen hafi eitt sinn skellt fyrriparti þessarar vísu á Bólu-Hjálmar sem hafi samstundis botnað hana. Þetta er augljóslega hin mesta firra. Engum hefði dottið í hug að gera fyrripart sem þennan. Sá sem gerði botninn hefur áreiðanlega gert fyrripartinn einnig. (Minnir að ég hafi heyrt einhverjum öðrum en Hjálmari eignuð vísan.) Það sést vel á endaríminu þó ekki sé litið á neitt annað að sami höfundur er að báðum hlutum vísunnar. Til að gera söguna sennilegri er sagt að Bjarni hafi með þessu viljað reyna sem mest á Hjálmar með erfiðum fyrriparti. Ég trúi samt ekki að þetta sé rétt.

Mjög oft er það þannig að tilefnin eru uppdiktuð löngu á eftir vísunni. Finnst málið vera alveg augljóst í þessu tilfelli. Veit samt ekki hversvegna ég tiltók einmitt þessa vísu til að sýna fram á þetta.

Sá í dag sviðalappir til sölu í Bónus. Hélt að það væri alveg hætt að hirða lappirnar af dilkum sem slátrað er. En svona er kreppan víst djúp.

Í gamla daga máttu allir fá eins mikið af löppum og þeir vildu án þess að greiða nokkuð fyrir það. Pabbi fór stundum á Selfoss og fékk lappir í poka og svo sátum við við að svíða og ná klaufunum af. Síðan var þetta notað í sviðasultu. Sviðahausar voru étnir eins og þeir komu fyrir (með augum og eyrum og öllu) og ekki notaðir í annars flokks vöru eins og sviðasultu.

IMG 6946Harpa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Bloggin þín eru nú betri þegar þú lítur út fyrir að hafa verið edrú þegar þú skrifaðir þau.

Sigurður Hreiðar, 27.10.2011 kl. 10:32

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

haha Sigurður. Ekki veit ég það nú. Miðnæturbloggin voru nú stundum eins og skrifuð í öðru tímabelti..

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 27.10.2011 kl. 10:55

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nú skil ég ekki. Þú ættir að nota annað orðalag, Sigurður. Byrjunin á þessu bloggi er að vísu óttalegt bull. Ég viðurkenni það. Þó ég sé enginn sérstakur bindindismaður er ég oftast edrú þegar ég blogga.

Já, Jóhannes mér finnst enginn akkur í því að skrifa eins og allir aðrir. Jafnvel þó Sigurður Hreiðar kunni ekki að meta það. Kannski gera einhverjir aðrir það.

Sæmundur Bjarnason, 27.10.2011 kl. 11:33

4 identicon

Og ég sem hef lifað í þeirri lukkulegu trú að sala á sviðalöppum hefði verið bönnuð fyrir mörgum árum! Fannst þetta alltaf sérlega ógeðslegur matur (meira að segja miðað við allt það þjóðlega gums sem var á borðum þegar ég var að alast upp).

Fatta ekki athugasemd Sigurðar Hreiðars og finnst hún út í hött.

Harpa Hreinsdóttir 27.10.2011 kl. 11:59

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Fyrirgefið, Harpa og Sæmundur, ef ég hef strokið ykkur öfugt. Það tíðkast ekki í ykkar samskiptum innbyrðis að minnsta kosti og ljóst að þið líðið það heldur ekki öðrum. Vorkenni þér annars fattleysið, Harpa.

Sigurður Hreiðar, 27.10.2011 kl. 12:59

6 identicon

Ekki veit ég hvort allir sem kommenta hér vita hvað þið SHH eruð búnir að þekkjast lengi. - Nóg um það, en varðandi lappirnar af vegalömbunum, þá er ég sammála Hörpu Hreinsdóttur að þessi svokallaði "íslenski matur" sem er yfirleitt leifar af fornum ósiðum örsnauðrar þjóðar, sem bjó ekki yfir neinum aðferðum til að geyma mat á viðunandi hátt, bölvaður óþverri, og vonast eftir því að þegar við erum komin inn í ESB verði þessi fjandi bannaður, hvort sem er um að ræða svið í öllum myndum, slátur, kæsta skötu, siginn fisk og hvað þessi viðbjóður allur er kallaður.

Ellismellur 27.10.2011 kl. 13:42

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála ykkur Ellismelli og Hörpu að mestu leyti um matinn. Sumt má þó éta stöku sinnum. Blóðmör er t.d. ágætur ofan á brauð. Var eiginlega hneykslaður á að sjá sviðalappirnar í Bónus. Ef ekki var ástæða til að selja svona lagað um miðja síðustu öld, af hverju þá núna? Þetta er andskotans afturför og ekkert annað.

Sæmundur Bjarnason, 27.10.2011 kl. 15:33

8 identicon

Mikið andskoti er ég orðin leið á körlum á ýmsum aldri sem eru að vorkenna mér í kommentadræsum við blogg og fréttasnepla! (Hæðnisglósur af þessum toga eru aðallega til að upphefja mælandann, á sárgrætilega ómerkilegan hátt.) Mér er engin sérstök vorkunn! Ég sé heldur enga ástæðu til að vorkenna þessum Sigurði Hreiðari fyrir ósmekklegt komment og hafði orð á því.

Harpa Hreinsdóttir 29.10.2011 kl. 12:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband